17.11.1947
Neðri deild: 19. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (2370)

59. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Katrín Thoroddsen:

Herra forseti. Frv. þetta hefur þegar sætt svo snarpri og rækilegri gagnrýni hér í hv. d., að óþarft er á að bæta, og hefði ég fyrir mitt leyti vel getað látið mér nægja að sýna viðhorf mitt til þess með atkvgr. einni saman. En þar eð vikið hefur verið að afstöðu lækna til ofdrykkju á þann veg, að telja mátti frv. til framdráttar, vil ég ekki láta hjá líða að segja frá minni skoðun a. m. k., og fara þá um leið nokkrum orðum um afstöðu læknisfræðinnar til áfengisneyzlu almennt.

Eins og hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt) tók oft og mörgum sinnum fram í ræðu sinni, mótast afstaða manna til áfengisneyzlu meira á tilfinningum en skynsemi, og var öll ræða hans mjög áberandi sönnun þess. Ég hef aldrei áður heyrt hann tala af jafnmiklum eldmóði og um þetta mál, jafnvel ekki um búnaðarmál, og var auðheyrt, að þar báru tilfinningarnar góða greind ofurliði. En svo er um fleiri en þennan hv. þm., er áfengi er annars vegar og svo er því miður líka farið um ýmsa stéttarbræður mína. Þó að þeir viti öðrum betur um hinar geigvænlegu afleiðingar ofdrykkjunnar á líf og heilsu sjúklings, aðstandenda hans og umhverfi allt, þá er því samt svo farið með allmarga þeirra, að þeir telja sitt aðalstarfssvið vera að lækna þá, sem þegar eru sjúkir orðnir, en gefa sig minna að heilsugæzlu, heilsuvernd. Þessi hugsunarháttur hefur þó aldrei verið almennur meðal lækna. og hann þverr stöðugt, en samt eimir þó nokkuð eftir af honum enn, og því er það að þótt allir læknar undantekningarlaust viðurkenni réttmæti hinnar sígildu setningar: „afleiðingin hverfur, þegar orsökin er afmáð,“ þegar til þeirra er leitað vegna áfengisástríðu eða ofdrykkju, þá eru þeir sumir hverjir samt svo skammsýnir, að þeir æskja ekki eftir að afmá með öllu orsök áfengisnautnarinnar, sem byrjar svo notalega og skemmtilega og margir, fjöldi fólks, geta notið án þess að bíða tjón á heilsu sinni, ef nautninni er stillt í hóf og eitrunin ekki of oft ítrekuð. En væru hinir sömu læknar að því spurðir sem sérfræðingar á sviði heilbrigðismála, hver trygging sé fyrir því, að með áfengið yrði farið af hófsemi, mundu þeir hiklaust játa, að um slíkt sé engin fyrirheit hægt að gefa, ef nægilegt áfengi og auðfengið er fyrir hendi, hvort svo sem það er sterkt eða veikt. Slyngir sálsýkisfræðingar og læknar geta að vísu farið nokkuð nærri um það, hvernig fara muni í stöku tilfellum, þegar þeir hafa átt kost á að athuga þann, sem í hlut á, um nokkurn tíma. En yfirleitt er mannþekkingin ekki svo langt komin enn þá, að það sé á nokkurs manns færi að segja fyrir um, hver muni geta stillt áfengisnautn sinni svo í hóf, að ekki komi að sök, og hverjir muni verða æ sólgnari í áhrifin og að lokum gerast ánauðugir áfengisþrælar. Og allra sízt eru einstaklingarnir sjálfir dómbærir um slíkt. Mönnunum hættir svo mjög til að líta á sjálfa sig sem undantekningu, er engin hætta sé búin af áfengisnautn eða öðru, og því sé skaðlaust að vera með og skvetta í sig eins og hinir. Hvort illa fer er auðvitað nokkuð háð líkamsástandi hlutaðeiganda og skaphöfn, en þó e. t. v. enn meira félagsskapnum, einkum ef unglingar eiga í hlut, og yfirleitt ytri aðstæðum öllum, en þó alltaf mest framboði áfengisins, hvort auðvelt er að ná í það. Og einmitt þess vegna má ekki gera frv. þetta að lögum. Það er að vísu satt, sem hv. 1. flm. tók fram og bar lækna fyrir, að því þynnri sem áfengisblandan er, því ósaknæmari er hún, en það er vegna þess, að alkóhólið kemst þá seinna út um líkamann, síast seinna út um húð, maga og smáþarma, og er því minni hætta á bráðum eiturverkunum, skyndilegu ölæði eða bana. Einnig skilst alkóhólið þá frekar gegnum nýrun og iltast (oxyderast) þar ofurlítið örar. Lítið alkóhól örvar efnaskiptin fyrst, meira magn tefur þau. Þess vegna var næsta lítil skynsemi í þeirri staðhæfingu hv. 1. þm. Skagf. að 2 pilsnerar með núgildandi áfengismagni hefðu sömu verkun og einn 4% bjór. Svo er ekki, jafnvel þó að þeir væru teygaðir út. En jafnfráleitt var það hjá hv. 1. flm. þm. N-Ísf., að draga þá ályktun af þessari staðreynd, að kunnáttumenn á sviði lífeðlisfræði séu af þeim sökum þeirrar skoðunar, að sá kostur sé líklegastur til að draga úr ofdrykkju, að áfengt öl sé alltaf á boðstólum. Þvert á móti. Það er viðurkennd hagfræðileg staðreynd, að þegar öldrykkja eykst, vex neyzla sterkari vína að sama skapi, og því má ekki samþykkja þetta frv. Þetta er ofur skiljanlegt þegar athuguð eru þau áhrif áfengisins. sem freista mannsins mest og gera það að verkum, að menn verða margir hverjir æ áfjáðari í áfengi og í ríkulegri mæli eftir því, sem þeir neyta þess oftar og þola það verr. En áhrifin eru sem kunnugt er fólgin í skynvillu, þ. e. a. s. deyfingu eða sljóvgun taugakerfisins, og tekur sú sljóvgun einkum til þess hluta heilans, sem skapazt hefur og þróazt með mannkyninu á seinustu 5–6 milljónum alda, að því er fróðir menn telja. En sá hluti heilans stýrir aðallega nákvæmu vöðvastarfi, athygli, dómgreind og ýmsum áunnum félagslegum háttum og dyggðum, og gerir því m. a. hvort tveggja í senn, að samræma stund og stað og stilla í hóf hinum frumstæðari athöfnum, svo sem áti, drykkju, áflogum og ástleitni o. s. frv. En þær athafnir lúta annars valdi þess hluta heilans, sem eldri er að uppruna. Fyrir áhrif áfengisins minnkar ábyrgðartilfinningin um leið og losnar um hömlur siðfágunarinnar og menningarinnar, en ýmsar duldar og niðurbældar tilfinningar fá yfirhöndina og brjótast út. Hinn félagslega fjötraði maður fær frí um stund, og eins og öllu fríi fylgir ölvuninni hressandi sjálfsánægja, líkamleg vellíðan, aukinn kjarkur og áræði, fjör og áhyggjuleysi. Og í þessu er hættan og freistingin fólgin. Og það er enginn vafi á því, að miklu fleiri mundu falla fyrir henni, bæði ungir og gamlir, en þó kannske helzt unglingar, ef hún hefði á sér ísmeygilegt yfirbragð svaladrykksins, sem aðeins er ofurlítið áfengur, ekki áfengari en tveir meinlausir tveggja procent pilsnerar, en verkar þó einhvern veginn svo, að hann hressir og yljar notalega, hugsunin verður skarpari, framkoman frjálsari, geðið glaðara. Og auk þess er þetta matur, næringarefni, eins og hv. 1. þm. Skagf. sagði. Að vísu dýr matur. Hann sagði, að ef hann gæti trúað því, að sala áfengs öls yrði til að auka drykkju meðal unglinga, þá mundi hann sjálfur greiða atkv. á móti frv. Ég tel ekki ástæðu til að sanna þetta, en leiða má það af líkum. En þó var svo á honum að skilja, sem hann tæki þá eina sönnun gilda, er byggðist á innlendri reynslu núverandi kynslóðar. En eins og kunnugt er, er slíkt ekki fyrir hendi, og við sem andstæð erum frv. þessu vonum, að til þess komi ekki, að hennar verði aflað. Við teljum það of áhættusama tilraun og álítum, að helzt sé að leiða af líkum, hvernig fara mundi. Og það veit ég, að hv. 1. þm. Skagf. mundi líka láta sér nægja, ef um búpening væri að ræða, en ekki börn, eða ef um eitthvert annað nautnalyf en öl væri að ræða. Þegar það ber á góma, vilja tilfinningarnar hlaupa með þennan hv. þm. í gönur, og því langar mig til að segja honum sögu, sanna sögu, sem e. t. v. getur gefið honum hugboð um, hvert muni stefna, ef ölfrv. hans yrði að l., sem við skulum vona, að aldrei verði.

Fyrir nokkrum árum var farið að framleiða lyf, sem amphetamín nefndist og verkar örvandi eða stimulerandi á heilann og dregur m. a. úr þreytutilfinningu. Þetta lyf var álitið hættulaust með öllu, selt lyfseðlalaust og mikið auglýst. M. a. man ég fyrir nokkru eftir fastri auglýsingu í dönsku heimilisblaði, sem mikið er lesið hérlendis, þar sem fólk var hvatt til að hafa þetta lyf við höndina, ef einhvern vanda eða þreytu bæri að höndum, taka það með sér í sumarfrí, nota það fyrir próf o. s. frv. En er fram liðu stundir, kom í ljós, að amphetamín var síður en svo meinlaust, og það var bannað að afhenda það öðruvísi en eftir lyfseðli. Hér var nýtt nautnalyf á ferðinni, og margir urðu háðir því, sem hlaupið höfðu eftir auglýsingum. Það verkar hressandi, eins og bjór og áfengi, og það gat drepið menn. Menn urðu áfjáðir í það eins og áfengi, eftir því sem þeir tóku það lengur inn og friðlausir og órólegir, ef þeir höfðu það ekki, o. s. frv. Og þegar búið var að taka amphetamín lengi og mikið, fóru menn að sjá ofsjónir eins og við áfengis-delerium, alls konar dýr og kvikindi, ekki neinar smárottur eða mýs, heldur flugur á stærð við fíla og hross á stærð við samkomuhús í sveit. Það var mjög slæm líðan. Amphetamín náði aldrei eins mikilli útbreiðslu hér og annars staðar. Hér var það ekki látið úti nema samkvæmt læknisráði eða eftir lyfseðli, en mikið orð fór af því vegna auglýsinganna, og seinustu árin hafa læknar hér í Rvík orðið fyrir töluverðu ónæði af skólaunglingum, sem biðja um lyfseðil upp á amphetamín til að halda sér vakandi í próflestri, en þó einkum til að taka inn, þegar gengið er upp í prófum, til að verða frjálsari í framkomu og gáfaðri, eins og vesalings krakkarnir halda, að þau verði og eins virðist mönnum sjálfum, að þeir verði gáfaðri við vín. — Þetta er sönn saga um áleitni unglinga, og sannleiksgildi hennar er hægt að prófa, því að sú áleitni hefur verið svo almenn, að allir læknar bæjarins hafa orðið hennar varir. Heldur hv. 1. þm. Skagf., að það sé nú með öllu hættulaust (þegar hann athugar þá staðreynd, að 14–16 ára gamlir unglingar eru farnir að hugsa um það að hressa upp á slitinn líkama og þreytta sál með lyfjum) að gefa unglingum greiðan aðgang að áfengu öli? Ég tel það svo stórhættulegt, að ég vil eindregið mæla gegn því, að þetta frv. verði samþ. Ég tel það engum vafa undirorpið, að eitthvað af þessum börnum mundi reyna, hverju áfengi bjórinn fengi áorkað á þessu sviði. En þótt því væri ekki til að dreifa, má ganga að því vísu, að nokkuð mörg börn vildu prófa áhrif þessa mikið umtalaða öls, sem auðvelt yrði að veita sér og yrði ekki ýkja dýrt, og það er geðþekkara á bragðið en ýmis vín, hvað sem hv. 1. þm. Skagf. segir um það. Einn til tveir bjórar væru nóg til að gera þann, sem er ungur og óvanur, góðglaðan, og oft þarf ekki nema eina slíka tilraun, sem er gerð af rælni eða forvitni, til að illa fari. Hin glapvæna gervigleði, er áfengið veitir, verður minnisstæðari en ógeðið, þreytan og þunglyndið, sem í kjölfarið koma. Það er manneskjunni áskapað að muna betur og vera þrálátari og óþægilegri því oftar og lengur sem vanlíðan veldur og líkamlegri vanlíðan, jafnvel sárum kvölum, gleyma menn undarlega fljótt. Og því er það að eftirköstin, timburmennirnir, vega svo lítið á móti áfengisánægjunni, enda eru þeir vægir og næsta skammvinnir í fyrstu, en verða æ þrálátari og óþægilegri því oftar og lengur sem eitrið er tekið. En skuld timburmannanna er ein af þeim, sem verður að greiðast að fullu, svo framarlega sem til hennar er stofnað. Þó kemur oftast nær að því fyrr eða síðar, ef menn leggja í vana sinn að neyta áfengis oft, að þeir reyna að greiða hana með smáafborgunum, stramma sig af, eins og það er kallað, en auðvitað fer þá svo, ef að líkum lætur, að skuldin vex, en minnkar ekki. Nú hef ég orðið þess vör að frv. þetta á — utan þings a. m. k. — nær eingöngu fylgi að fagna meðal drykkjumanna, sem líta á áfenga ölið sem handhægt meðal til að losna við eftirköstin, drekka sig niður í bjór. Sú lækningaraðferð að hella meira áfengi ofan í líkama, sem þegar er gegnsósa af því, er auðvitað í beinni andstöðu við allar meginreglur læknisfræðinnar og hefur þá einu afleiðingu að framlengja fylliríið. En á slíkri framlengingu er miklu meiri hætta, ef áfengur bjór er á boðstólum, og þess vegna á ekki að samþykkja þetta frv. Því lengur sem menn drekka í senn, því áleitnari verður ástríðan, og óðar en varir er hinn heilbrigði maður orðinn áfenginu svo háður, að honum er ekki sjálfrátt lengur. Sé nokkur dugur í honum, byrjar baráttan við að losna undan farginu. Sú barátta er erfið, en vinnst ef ytri aðstæður eru hagkvæmar. þ. e. a. s. erfitt að afla áfengisins. Vegna þess má ekki samþykkja frv. þetta. Það mundi torvelda drykkjumönnum baráttuna og jafnvel gera mörgum þeim ókleift að hætta að drekka, sem annars eiga sér viðreisnar von, ef áfengt öl er á boðstólum. En jafnvel þótt hlutaðeigandi sjúklingur hafi náð bata, hætt að drekka, þá er því þannig farið með alkóhól eins og önnur deyfandi nautnalyf, að minningin um áhrifin geymist, en gleymist ekki, og því er alltaf hætt við að sjúkdómurinn taki sig upp aftur, ástríðan geri vart við sig. Á því er enginn vafi, að ef frv. þetta yrði að l., þá mundi fjöldi manna, sem áður hafa drukkið, en nú eru hættir, byrja að nýju. Ef til vill vegna rælni og vanmats á áfengisáhrifum ölsins, ef til vill vegna oftrausts á sjálfum sér og viljakrafti sínum, en þó kannske hvað oftast vegna kjarkleysis, þ. e. a. s. Þá mun bresta þrek til að þora að reynast ragir við áfengið, og hin sama mun áreiðanlega verða raunin á um allan þann mikla fjölda nýliða í ógæfuhópi þeim, sem hlýtur að fylgja í kjölfar þessa frv., ef svo hrapallega tekst til að það verði að l. Og það mun síður en svo vera aðstandendum þessara ólánsmanna nokkur raunabót, að amerísku setuliðsmennirnir á Keflavíkurflugvellinum drekki líka og drekki nú sinn áfenga bjór að íslenzkum l., en ekki lengur innsmyglað öl í skjóli hins herðabreiða dómsmrh. En öllum er ljóst, enda er það beinlínis gefið í skyn af flm., frv. þessa, að það er komið fram vegna hins ameríska liðs í Keflavík sbr. grg. þess. Auðvitað hvarflar það ekki að flm. frv., að hæstv. dómsmrh. hafi drengskap og dug til að framfylgja íslenzkum l., ef ameríska liðið á í hlut: Nei, það er að hans dómi meinfangalaus greiðasemi við vinveitta, volduga stórþjóð að ljá henni land og líða henni að ganga á gerða samninga og þverbrjóta íslenzk l. og fyrirmæli, ef henni býður svo við að horfa. Hitt er svo annað mál, að Bandaríkjamenn vilja líklega sjálfir heldur, að ekki verði opinberar ádeilur á sig gerðar né á samninginn meðan hann hefur ekki verið framlengdur, og það skal aldrei verða. Og því er frv. þetta fram komið, þetta frv., sem andstætt er meiri hluta íslenzku þjóðarinnar og enginn þjóðhollur maður má eða getur greitt atkvæði.