21.11.1947
Neðri deild: 22. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (2376)

59. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Hv. andstæðingar þessa frv. munu nú hafa haldið hér 7 tíma ræður samtals meðan við flm. höfum látið okkur nægja 2 tíma til að tala okkar máli. Ég verð að segja það að þessar löngu ræður hafa verið furðulega kraftlitlar, og má segja um þær eins og skáldið kvað:

„Alltaf í þynnra að þynna þynnkuna allra hinna.“

Það hafa alltaf verið tekin upp sömu orðin og sömu hugsanirnar af hverjum ræðumanninum eftir annan. Ég mun nú mjög stilla máli mínu í hóf, því að það er eðlilegt, að þessari umr. fari að ljúka og málið verði athugað í n. Þó neyðist ég til að svara þrem hv. þm. að nokkru. Hv. 2. þm. N-M. (HÁ) var alveg óþarfi að snúa út úr ummælum mínum um ferð Mývetninganna til Húsavíkur. Með prestlegum tón talaði hann um, að þeir hefðu brotið l. og aldrei beðið þess bætur. Ég hélt að hv. þm. hefði vitað, að þetta var 1912, en bannið komst ekki á fyrr en 1915, og var því ekki um það að ræða, að þessir menn brytu landslög. Hann undraðist, að ég skyldi nefna þetta dæmi en ég mun síðar koma að því hvers vegna ég nefndi það.

Þá var það annað atriði hjá hv. 2. þm. N-M. Hann talaði um unnendur áfengis og taldi að þeir ættu að vera ánægðir með sinn hlut, og væri bindindismönnum ekki of gott, þó að þeir fengju að halda eftir sínu eina vigt. Ég mótmæli því, er hann talar um unnendur áfengis. Ég er enginn unnandi áfengis og skyldi glaður sökkva öllu áfengi út í hafsauga, ef slíkt væri mögulegt. En það er bara ekki hægt og það verður að kenna fólkinu að fara með vín af skynsemi og ég kann ekki við þann hroka, sem lýsir sér í því, þegar hv. 2. þm. N-M. er að tala um unnendur áfengis. Það er sama hugsun og hjá tollheimtumanninum: „Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn.“ Þetta á við alla þá, sem mælt hafa gegn frv. í þessari hv. d. Það væri gott fyrir bindindismenn. sem ég met mikils, ef þeir gerðu sér það ljóst, að hægt er að meta menn. þótt þeir hafa einhverja ágalla.

Það var einkennandi, að langur kafli ræðu hans var um það, að ég hefði orðið tvísaga þar sem ég hafði sagt mig andstæðan banni, en jafnframt, að ég bæri virðingu fyrir bindindismönnum. Það er nú einu sinni svo, að þegar bindindismenn tala um áfengi, þá er eins og ullarflóki leggist yfir heilabúið og þeir tala lítið um það, sem málinu kemur við. Ef hér væri um það að ræða að brjóta niður þeirra síðasta vígi með því að leyfa áfengt öl, væri andstaða þeirra eðlileg. En hér er bara ekki um neitt vígi að ræða. Eitt sinn var hér algert aðflutningsbann. Bitur sannleikur reynslunnar kenndi okkur, að það var óframkvæmanlegt. Vegna þess og vegna viðskipta okkar við aðrar þjóðir var það afnumið. Þetta er alvarlegt mál, sem ekki er ástæða til að tala um af léttúð og ósanngirni. Málið verður ekki afgr. á svo einfaldan hátt að segja, að annars vegar séu unnendur áfengis, en hins vegar heilagir menn, sem alltaf hafi á réttu að standa. Ég mun reyna að stytta mjög mál mitt og læt því þetta nægja hvað við kemur ræðu hv. 2. þm. N-M.

Hv. þm. A-Sk. (PÞ) hélt hér fimm kortéra ræðu í þessu máli fyrir nokkrum dögum. Hann var með svo mikið af tölum, að það lá við að mann sundlaði, enda var hv. þm. orðinn áttavilltur sjálfur og næstum drukknaður í þessu öllu saman. Hann ætlaði að sanna það, að ástandið í áfengismálunum væri verra nú en á bannárunum 1916–1920 og byggði sönnun sína á því að þá hefði samkvæmt Hagtíðindum neyzla áfengis verið 0,4 l. á mann á ári, en nú væri neyzlan um 4 l. Ég verð að segja það, að það getur verið gott að styðjast við tölur, en ef ekkert er að því gáð, hvað bak við þær býr, eru þær einskis virði. Hv. þm. er yngri maður en ég, en ég og margir aðrir muna, hvernig ástandið var á þessum árum. Við munum vínsmyglið, tollsvikna áfengið og bruggstöðvarnar. Nú er hins vegar það áfengi smáræði, sem kemur aðrar leiðir en löglegt er. Svona á ekki að nota tölur. Þetta er ekkert annað en klór í bakkann, og hv. þm. hefur víst fundið það sjálfur, því að hann ætlaði að fullkomna þetta með tölum, er áttu að sýna að ölneyzlan hafði vaxið á síðustu árum og þar með neyzla sterkra drykkja. Hvað segja tölurnar um ölnotkunin árin 1941–1945? Þær bera það með sér, að neyzlan hefur verið hin sama öll árin. Hv. þm. fór rangt með eina tölu, en það hefur nú sennilega verið mislestur. Tölurnar líta þannig út: 1941 12,9 l., 1942 13,8 l., 1943 13,1 l., 1944 13,2 l. og 1945 13.5 l. Meðaltal tveggja fyrstu áranna er 13,35 l. og meðaltal tveggja þeirra síðustu 13,35 l., og hv. þm. ætlar að sanna með þessu, að ölneyzlan hafi vaxið! Mér ofbýður, að mönnum skuli boðið upp á annað eins og þetta, þótt því sé alveg sleppt, að neyzla á „Agli sterka“ sannar ekkert um neyzlu sterkra drykkja. Það er líka svo, að ölneyzlan er óbreytt, en neyzla sterkra drykkja hefur stórvaxið. Andstæðingar frv. fullyrða hins vegar, að öl auki neyzlu sterkra drykkja. Hve alvarlegt ástandið er í áfengismálunum, þurfti ég ekki að láta hv. þm. A-Sk. segja mér. En það er ekki vegna áfenga ölsins. því að það hefur ekki verið til. Hann segir, að ástandið sé nú verra en það hafi nokkru sinni verið áður, og það má vel vera. En einmitt áður en aðflutningsbannið var sett, var hægt að fá öl af þessum styrkleika, og það var eina tímabilið, sem áfengisnotkun minnkaði, og áhrifaalda var risin til þess að sporna við misnotkun með frjálsri bindindisstarfsemi.

Ég ætla svo ekki að fara frekar út í ræðu hv. þm. A-Sk. Ég vildi bara benda á, að það er varasamt að nota tölur án þess að lesa inn í þær, það sem á bak við býr, en það láðist hv. þm., eins og ég hef sannað.

Þá var það hv. 6. þm. Reykv. (SigfS). Ræða hans stóð álíka lengi og ræða hv. þm. A-Sk., eða í klukkutíma og fimmtán mínútur. Hv. þm. er prestlærður. Ekki veit ég, hvort hann hefur vígslu hlotið, en víst er það, að hann notaði þau prestlegheit, sem hann átti til. Hann tók mig á hné sér eins og drenghnokka, skjallaði mig og sagði, að ég væri góður maður, sem ekki ætti heima í sama söfnuði og hv. 1. flm. (SigfS: Þetta er dagsatt.), sem væri vondur maður. Eftir þessa föðurlegu viðvörun kom svo hirtingin, eins og nærri má geta. Hv. þm. sagði, að ég væri með gorgeir, ætlaði mér að einoka alla heilbrigða skynsemi og hefði farið rangt með atriði úr ræðu hans. Samtímis klappaði hann mér og varaði mig við vondum félagsskap. Ég vil bara segja hv. þm. það, að honum er bezt að hugsa um sinn félagsskap, sem hann hefur ofurselt sig, en ekki þann, sem ég vel mér. Það er gott að vera siðameistari og fara ævinlega rétt með, en það hendir, að þeir sem setja sig á háan hest, detta sjálfir í þann pytt, sem þeir eru að kúklast í kringum. Hann datt sjálfur í þann pytt hvað eftir annað. Hann byrjaði með því að halda því fram, að ég þættist einn hafa heilbrigða skynsemi í þessum málum, og sagði þetta víst átta eða tíu sinnum. Ég vil bara segja það, að þetta er tilbúningur hv. þm. Með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að lesa upp það, sem skrifarinn hefur tekið upp eftir mér í þessu sambandi, en við það hef ég ekkert að athuga: „Ég vil taka fram, að það, sem fyrst og fremst kemur mér til að vera með frv., er það, að ég vil líta á hlutina með heilbrigðri skynsemi, en ég álít, að það skorti nokkuð á heilbrigða skynsemi hjá þeim. sem líta á það sem einhvern óskaplegan hlut, ef við eigum nú að fá öl með 4% af áfengismagni, þegar við höfum fyrir allar víntegundir, allt frá sterkustu drykkjum og niður í léttustu borðvín.“ Ég bið hv. þm. að athuga, hvort af þessu leiðir, að ég þykist einn hafa heilbrigða skynsemi. Ef það er hins vegar glæpur að minnast á heilbrigða skynsemi í þessari hv. d., þá er vandfarið og erfitt að haga orðum sínum svo, að maður meiði ekki viðkvæmar tilfinningar. Annars verð ég að segja það, að ég kunni illa tali hv. þm. um það, að ég væri á einhverju öðru þroskastigi en hv. 1. flm. þessa frv. Mér datt í hug Gróa gamla á Leiti. Hún kvaddi jafnan með því að segja: „Verið þið nú blessuð og sæl og þakka ykkur góðar gjafir.“ En þegar til þess næsta kom, sagði hún: „Ekkert var mér gefið, sem að gagni kæmi.“ Mér datt í hug, að hv. þm. væri alveg ímynd Gróu.

Þá talaði hv. 6. þm. Reykv. um tvísöng minn gagnvart bindindismönnum landsins og vildi leggja málið þannig út, að ég væri óheill og í rauninni á móti frv., en fylgdi því þó vegna mikillar ástar á víni. Ég verð að segja, að ég skil ekki þetta. Þekkir hv. þm. ekki einhvern mann, sem hefur gert eitthvað af sér, en er að öðru leyti hinn prýðilegasti maður? Það er ekkert óvenjulegt, menn eru nú einu sinni þannig gerðir. Ég met starf bindindismanna, en ég tel, að þeir hafi misstigið sig algerlega er þeir reyndu að koma á aðflutningsbanni á áfengi og tókst það. Þetta getur vel farið saman. Ég er samþykkur bindindismönnum hvað frjálsa bindindisstarfsemi snertir. Þeir hafa bjargað mörgum manninum, sem var á hraðri leið til glötunar. Ég virði þá fyrir þetta, en ég er þeim jafnandvígur hvað viðkemur algeru aðflutningsbanni á áfengi. Ég tel, að bannið hafi verið glappaskot, sem þjóðin á enn eftir að hljóta stórtjón af. Ef aldrei hefði verið bann, væri aðstaðan nú öll önnur. Ég vona, að hv. þm. skilji það, að það má í senn þakka bindindismönnum fyrir það, sem þeir hafa vel gert, og víta þá fyrir það, sem miður hefur farið í starfi þeirra.

Þá hélt hv. 6. þm. Reykv. því fram, að ég hefði rangfært orð hans um stefnubreytingu í áfengismálunum árin eftir bannið. Fyrst talaði hann um árið 1918, en síðar 1922. Ég þakka honum fyrir það að viðurkenna, að aðflutningsbannið hafi strax þá sýnt, að það kom ekki að haldi. Það er bara fyrirsláttur að ætla að kenna læknabrennivíninu og konsúlabrennivíninu um þetta. Þjóðin sætti sig ekki við bannlögin og lögbrot, smygl og brugg voru daglegt brauð. Þetta er aðalatriðið. Ég skil hins vegar vel, að hv. þm., sem er mikill fylgjandi aðflutningsbanns, sjái eftir því að hafa viðurkennt að bannlögin brugðust strax, áður en Spánarundanþágan kom til.

Hv. þm. býsnaðist yfir því sem smámunum, að bindindismenn vildu ekki leyfa minna en þriggja pela flöskur. Þriggja pela flaskan er svo táknræn í þessu sambandi. Hún mætti verða eins konar minnisvarði um þann þátt áfengismálanna. sem snýr að banninu. Jónas Jónasson frá Hrafnagili samdi eitt sinn sögu um þessa heilflösku. Það var góður og gamall sveitakarl, sem var vanur að fá sér á pela, þegar hann fór í kaupstaðinn, og gæddi sér á þessu á heimleiðinni. Svo gat hann ekki lengur fengið á pelann, en varð að kaupa heila flösku. Hann keypti hana, lauk úr henni á heimleiðinni og kom heim blindfullur og barði konuna og dró hana á hárinu. Þessi saga Jónasar er engin tilviljun. Hún er sótt beint í mannlífið. Hún er dæmi þess, hve vitlaust má halda á málunum, þótt góður vilji sé fyrir hendi, ef heilbrigð skynsemi fær ekki að ráða.

Hv. 6. þm. Reykv. var með langar útleggingar í sambandi við það, að ég hefði sagt, að bannmenn legðu of mikla áherzlu á að segja: „Þú skalt ekki!“, en hugsuðu minna um, að menn þyrftu að læra að fara með vín. Hann spurði, hvernig fara mundi, ef aldrei væri sagt: „Þú skalt ekki!“ En svo segir hann, að bönnin megi ekki ganga út fyrir það, sem mikill meiri hluti fólksins vill. Það er mergurinn málsins. En hvenær sannfærast bannmenn sjálfir um það, að það er ekki hljómgrunnur fyrir banni? Ég álít líka, að það væri glópska að setja hér aðflutningsbann, þótt hægt væri meðan ekki er bann í helztu nágrannalöndum okkar. Allir verða að læra að venjast lífinu, freistingum þess, eins og prestarnir segja, sem ekki eru annað en lífið sjálft, eins og það er upp og ofan. Þeir, sem ekki læra það, eiga það á hættu að falla og falla djúpt. Ég á sjálfur unglinga, sem eru á þessu svo kallaða hættuskeiði, og ég tel, að ég eigi eins mikla ábyrgðartilfinningu og hver annar hvað snertir velferð barna minna. Ég segi það kaldur og ákveðinn, að ég er óhræddari að senda börn mín út í heim, þar sem vín er haft um hönd, ef þau vita, að áfengi er ekki eitur, heldur hlutur, sem menn verða að læra að umgangast og fara með eins og skynsemi gæddar verur, en ekki eins og heimskingjar. ,Þetta er meðal annars ástæðan til þess, að ég flyt ölfrv: Eins og áfengismálum okkar er háttað er engin ástæða til þess, að öl sé hér ekki á boðstólum. Og sé ölið sjálft eins hættulegt og andmælendur þessa máls vilja vera láta, — svo að mér virðist, að brennivínið sé bara barnaleikur hjá þessu öli, sem geti spillt og eyðilagt alla — þá vil ég heldur að börn mín alist upp við, að áfengt öl sé til hér í okkar þjóðfélagi og þau þar viti, hvernig það er. Ég vil heldur senda þau út í heiminn með þá reynslu að baki að hafa þekki slíkt öl hér á landi en með því að hafa ekkert vitað um þetta. Það er þarna, sem mig og andstæðinga þessa máls skilur mest, um þetta atriði. Þessa skoðun mína er ég tilbúinn að verja hvar sem er. Og ég dæmi hér út frá því, sem ég hef getað gert mér skiljanlegt, að rétt væri í þessu máli, og af fullri ábyrgðartilfinningu á allan hátt, vegna þess að ég á börn, sem mér er ekki óannara um en öðrum foreldrum um sín börn. Þess vegna getur ekkert haggað mínum skoðunum í þessu. Það hefur ekki verið reynt að hagga því, að ég hélt því fram, að börn, sem alast upp á heimilum, þar sem vel er farið með áfengi, virðast betur fallin til þess að standa á móti áfengisnautn en börn, sem alin eru upp við óskaplega ströng ákvæði í þessu efni, þar sem aldrei má nefna áfengi öðruvísi en í sömu merkingu og erkióvininn.

Ég mun ekki tala aftur í þessu máli. Ég er búinn að segja mína skoðun á málinu og hvers vegna ég hef gerzt meðflm. að ölfrv., og ég mun verja þá afstöðu á öðrum vettvangi málsins og við seinni umr. hér í hv. þd. (SigfS: Seinni umr. verður aldrei) (Forseti hringir.)