06.11.1947
Neðri deild: 14. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (2386)

65. mál, verbúðir

Flm. (Hermann Guðmundsson) :

Herra forseti. Um það hefur verið mikið rætt og ritað á undanförnum árum, að aðbúnaður þeirra manna, sem í verbúðum þurfa að dvelja í verstöðvum hér á landi, væri ekki viðunandi. Og það er ekki að undra, þó um það hafi mikið verið rætt, því að aðbúnaður þessara manna er slíkur, að furðu sætir að ekki skuli fyrir löngu vera búið að koma lagfæringu á í þessu efni. Menn sem eru í þessum verbúðum, eru í húsum sem eru þannig, að það er á takmörkunum, að bændur mundu vilja láta í þau fénað sinn og frá því sjónarmiði séð, hvað heilsusamlegt er, eru líkust hellum. Ég hef í grg. frv. tekið fram lýsingu á verbúðum í útgerðarstöðum, sem eru nokkrar af stærstu verstöðvum landsins, þar sem flestir menn dvelja í verbúðum að vetrinum, og svo mun ástandið vera á fleiri stöðum á landinu, þar sem menn dvelja í verbúðum. Og það er einmitt af þeim ástæðum. sem teknar eru fram í þessum lýsingum, sem sjómenn og félög þeirra og verkalýðssamtökin einnig sem slík yfirleitt hafa látið sig þetta mál mjög miklu skipta um langan tíma. Það hafa verið gerðar samþykktir, bæði á stéttaþingum og Alþýðusambandsþingi, þar sem krafizt hefur verið úrbóta í þessum efnum. Það, sem ríkisvaldið hefur gert til þess að bæta úr hinu slæma ástandi í þessum efnum, hefur hingað til ekki verið nema pappírsgagn tómt. Árið 1941 framkvæmdi þáv. ráðh., Ólafur Thors, mjög virðingarverða tilraun til þess að koma þessum málum í betra horf, með því að gefa út reglugerð um það, hvernig verbúðum skyldi hagað, um aðbúnað þeirra, sem þar dvelja, o. fl. Þessi reglugerð hefur ekki verið framkvæmd, því miður. En ef hún hefði verið framkvæmd, væri ástandið nú betra í þessum efnum en það er í dag.

Hér á Alþ. hefur þetta mál oft verið rætt. Árið 1945 var samþ. þáltill. um að skora á ríkisstj. að tryggja vermönnum viðunandi verbúðir. Og hér á fundi í þessari hv. þd. í gær var þetta mál rætt í tilefni af fyrirspurn út af þessari þáltill., og upplýstist þá, að ekkert hefur verið gert í því máli annað en það, að samþ. hefur verið að þeir, sem vilja byggja verbúðir, njóti sömu hlunninda og þeir sem vildu byggja hafnargerðir og lendingarbætur. Þetta er í l. frá 23. apríl 1946. En þrátt fyrir það, þótt þessi l. séu til, hefur ekki borið á því, að um endurbætur sé að ræða í þessum efnum hjá þeim, sem verbúðirnar hafa haft. Mér virðist því, að ríkið þurfi að hafa forgöngu um þessi mál og ef einstaklingar vildu laga verbúðir hjá sér, væru þeir styrktir til þess verulega. Og hér er farið fram á, að ríkisstj. hafi forgöngu í þessu efni og að þeir einstaklingar, sem vildu ráðast í það að bæta úr ástandi í þessum efnum hjá sér, verði styrktir allverulega með hagkvæmum lánum. Einnig er hér farið fram á, að ákveðnar reglur verði settar og framfylgt um það, hvernig þessar verbúðir verði gerðar að innréttingu og að álits samtaka útvegsmanna og sjómanna skuli jafnan leitað, áður en byggingarframkvæmdir eru hafnar á verbúðum.

1. gr. frv. skýrir sig sjálf. 2. gr. er um að ráðh. láti gera uppdrætti að fyrirmyndarverbúðum og kostnaðaráætlun um byggingu þeirra, og að uppdrættir þessir og kostnaðaráætlun skuli vera með tvennu móti, a. Sambygging fyrir vistarverur vermanna og alla aðra starfrækslu í verstöðinni. Og b. Sérbyggingar. Annars vegar vistarverur verkafólksins, en hins vegar sérbyggingar fyrir sjálfa útgerðarstarfsemina. Og svo er ákvæði í 2. gr. um, að áður en byggingarframkvæmdir eru hafnar, skuli jafnan leita álits samtaka útvegsmanna og sjómanna, þar sem fyrirhugað er að reisa verbúðir. Það segir sig sjálft, að það getur verið með tvennu móti, hvernig verbúðir eru byggðar. Í fyrsta lagt sambyggingar, þar sem séu íveru- og aðgerðarhús, og svo í öðru lagi, að íveruhús séu á einum stað og aðgerðarhús á öðrum. — Í 3. gr. er svo til tekið, að verbúðir þær, sem ríkið lætur reisa, megi leigja bátaútvegsmönnum og sé leigan miðuð við kostnaðarverð bygginganna. Það leiðir af sjálfu sér, að þessar verbúðir, sem ríkið lét reisa, mundu verða notaðar af einkaútvegsmönnum, og er því ekkert eðlilegra en að ríkið gæfi þeim kost á að fá þær leigðar fyrir hagkvæma leigu. Hér er einnig gert ráð fyrir, að ríkisstj. megi selja útvegsmönnum einstakar verbúðir, sem ríkisstj. lætur byggja, fyrir kostnaðarverð. Og hér er til tekið, að útborgun og aðra greiðsluskilmála ákveði ríkisstj. — Í 4. gr. er svo ákveðið, að hver sem keypt hafi verbúðir af ríkisstj. og hafi í hyggju að selja þær öðrum, þurfi að fá til þess leyfi ráðh. og samþykki hans fyrir söluverðinu. Enn fremur er í þessari gr. til tekið, að ekki megi nota verbúðir til annars en þess, sem þær upprunalega hafa verið gerðar fyrir. Ég get ekki séð, að þetta þurfi skýringar við, nema það ákvæði, að ekki megi nota verbúðir til annars en þess, sem þær upprunalega voru gerðar fyrir. Það getur orðið tilhneiging til þess, sérstaklega með hliðsjón af því, að hér væri um byggingar að ræða, sem ríkið byggði, að menn vildu nota þær til annarrar starfrækslu en þeirrar, sem þær væru byggðar fyrir. En slíkt næði ekki nokkurri átt, og þess vegna er þetta ákvæði um þetta atriði sett hér inn. — Í 5. gr. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. veiti fjárhagslega aðstoð þeim einstaklingum, sem byggja vilja verbúðir, með því að veita þeim kost á lánum, sem megi vera allt að 75% af kostnaðarverði verbúða, þannig að ríkisstj. ábyrgist fyrir hönd ríkissjóðs þessi lán til þeirra. Þar er og gert ráð fyrir því, að ríkisstj. sé heimilt að veita slíka aðstoð þeim mönnum, sem vilja endurbæta húsnæði, sem úrskurðast óhæft, ef eigandi þess treystist ekki til þess sjálfur vegna þröngs fjárhags. Þessi gr. skýrir sig sjálf. — Í 6. gr. er gert ráð fyrir, að sérhverjum sé skylt að láta af hendi land það, sem að áliti ráðh. þarf til byggingar verbúða, svo og önnur mannvirki, ef nauðsyn ber til. Þessi gr. er nauðsynleg til þess að tryggja það, að verbúðir verði byggðar á þeim stöðum, þar sem þær koma að mestu haldi. En vel má að sjálfsögðu vera, að í mörgum tilfellum mundi það verða þannig, að land, sem að áliti dómkvaddra manna væri bezt undir slíkar byggingar, mundi vera í eigu manna, sem ekki vildu láta það af hendi. Og þess vegna er hér gert ráð fyrir, að það megi taka það af mönnum með sérstökum heimildum, þannig að sjálfsögðu að þeir fái fullar bætur fyrir. — Í 7. gr. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. skuli koma á ströngu eftirliti með hvers konar húsnæði til íbúðar fyrir verkafólk og sjómenn og aðgerðar- og beitingarhúsnæði í verstöðvum landsins, svo og tækjum, sem notuð eru til bátaútgerðar. Þessi gr. er einnig mjög nauðsynleg, því að það er ekki nóg, að byggðar séu góðar og fyrirmyndar verbúðir, þó að það sé gott og mikils vert út af fyrir sig. Það verður líka að tryggja, að þessar byggingar séu með því sniði, að viðunandi sé. svo og að þær verbúðir, sem fyrir hendi eru nú, séu líka þann veg gerðar og um gengnar, að viðunandi sé. Hér er til tekið í 7. gr., að ríkisstj. skuli setja reglugerð í samráði við Alþýðusamband Íslands og Landssamband íslenzkra útvegsmanna, er ákveði lágmarksskilyrði um húsnæði, sem í verstöðvum þurfi að uppfylla, til þess að leyfilegt sé að nota það til íbúðar fyrir verkamenn og starf þeirra. Í 8. gr. er ákvæði um, að ráðh. geti með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga. — Í 9. gr. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. fái heimild til að taka lán fyrir hönd ríkissjóðs, allt að tveimur millj. króna. til framkvæmdar þessara laga. Það liggur í hlutarins eðli, að framkvæmd þessara laga, ef frv. verður samþ., mundi þýða það, að ríkið yrði að leggja nokkrar fjárhagsbyrðar á sig með því að reisa verbúðir þar, sem þeirra er þörf, og að ábyrgjast lán fyrir einstaklinga. Þess vegna er hér gert ráð fyrir, að ríkið megi taka lán fyrir hönd ríkissjóðs allt að tveimur millj. króna.

Ég sé ekki ástæðu til að skýra einstakar gr. frv. frekar. Ég held, að allir hv. þm. séu sammála um, að nauðsyn sé á að bæta aðbúnað þeirra manna, sem á vetrarvertíð eða mörgum vertíðum dvelja í verbúðum víða á þessu landi, af því að aðbúnaður þeirra sé ekki svo góður sem skyldi. Hitt má vera, að menn greini á um það, hvaða leið eigi að fara að því marki. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, túlkar mína skoðun á þessu máli. Vona ég, að fleiri hv. þm. hafi þessa skoðun, og vona að málið njóti skilnings hv. þm. og að því verði að umr. lokinni vísað til hv. sjútvn.