18.12.1947
Efri deild: 40. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Brynjólfur Bjarnason sagði hér áðan, að Sósfl. hefði aldrei haldið því fram, að ekkert þyrfti að gera fyrir útveginn. Sannleikurinn er sá, að bæði hér á Alþingi og í blaði sínu, Þjóðviljanum, hafa kommúnistar haldið því fram sí og æ, að hægt væri að selja fiskinn fyrir framleiðslukostnaði, og síðast hélt hv. þm., Brynjólfur Bjarnason, því fram hér nú, að fullt ábyrgðarverð mundi fást fyrir allan fisk. Hins vegar kom það eins og hjáróma rödd, sem sagt er í dýrtíðarfrv. þeirra, að vísitalan þyrfti að lækka niður í 300 stig — láta hana ekki fara, sem nokkru nemi, fram úr 300 stigum, eins og það er orðað í grg. frv., en þar hafa þeir ekki treyst sér að komast fram hjá sannleikanum.

Frv. það, sem hér liggur fyrir til umræðu, er borið fram að tveimur aðalástæðum: Í fyrsta lagi til að tryggja afkomu útvegsmanna og stuðla á þann hátt að því, að sjávarútvegur og öll sú starfsemi, sem við hann er tengd, verði rekin af fullum krafti. Í öðru lagi er frv. fram borið til að freista þess að stöðva og lækka þá dýrtíð og verðbólgu, sem nú ógnar öllu okkar atvinnulífi.

Við höfum skip til veiða, verksmiðjur til vinnslu, fólk til starfa og markaði, sem vilja kaupa. En þrátt fyrir þetta allt vofir yfir okkur stöðvun framleiðslunnar hvað eftir annað. „Hvað skortir á?“ spyrja menn, og þurfa raunar ekki að spyrja, því að það vita allir, sem vilja vita, að það skortir á, að framleiðslukostnaður okkar er meiri en markaðsverðið. Markaðsverðinu ráðum við ekki, því að fleiri eru um söluna, þjóðir, sem hafa komið málum sínum þannig fyrir, að framleiðslukostnaður þeirra er lægri en okkar, sumpart vegna lægra kaupgjalds og sumpart vegna lægra verðlags yfirleitt í landi þeirra. Þessari staðreynd komumst við ekki fram hjá og verðum því að miða okkar aðgerðir við. að henni verði ekki breytt. Það er því ekki nema um tvær leiðir að velja: annars vegar að lækka framleiðslukostnaðinn og hins vegar að tryggja framleiðendum greiðslu úr ríkissjóði á þeim halla, sem þeir kunna að verða fyrir af sölunni. Í frv. eru báðar þessar leiðir farnar. Útvegsmönnum er tryggt sama verð fyrir fiskinn og þeir fengu s.l. ár, hraðfrystihúseigendum og saltfiskframleiðendum sömuleiðis. Enn fremur er tryggt í frv., að kaupgjald verði miðað við vísitölu 300 í stað 326 eða 328 nú, og er það hvort tveggja í senn festing vísitölugreiðslu í þessu ákveðna marki og nokkur lækkun frá því, sem nú er. Auk þess eru ákvæði í frv. um aðstoðarlán, allt áð 5 millj. kr., handa þeim, sem vegna aflabrests á árinu 1947 eiga erfitt með áframhaldandi rekstur. Þá eru loks ákvæði um, að helmingurinn af þeim eignaraukaskatti, sem frv. gerir ráð fyrir, að verði lagður á, skuli lagður í sérstakan aflatryggingarsjóð til aðstoðar fyrir þá, sem vegna aflabrests eða óhappa eða yfirleitt vegna óhagstæðrar afkomu þurfa á aðstoð að halda til þess að geta haldið útgerð sinni áfram. Þetta er sá hlutinn, sem að útgerðarmönnum snýr. Þó að þessar ráðstafanir fullnægi ekki óskum, sem útgerðarmenn hafa sett fram, þá væntir ríkisstj. þess, að með þessum aðgerðum sé þeim gert kleift að halda atvinnurekstrinum áfram og að til stöðvunar þurfi ekki að koma.

Hin hlið þessa máls og sú, sem fyrst og fremst snýr að almenningi, er lækkun og festing kauplagsvísitölunnar og lækkun verðlags á innlendum vörum og þjónustu. Kaupgjaldslækkunin. miðað við vísitöluna 326, sem nú gildir, er tæp 8%, en um 81/2%, ef miðað er við vísitöluna 328. Þá eru í frv. ákvæði, sem segja, að verðlagsyfirvöld skuli þegar eftir gildistöku laganna gera ráðstafanir til þess að færa niður verð á hvers konar vörum, verðmæti og þjónustu til samræmingar við niðurfærslu vísitölunnar. Hagstofan hefur reiknað út, að ef verðlag þetta verður fært niður hlutfallslega við lækkun vísitölunnar, eða kannske réttara orðað, ef vinnulaunakostnaður innlendra framleiðsluvara verður lækkaður hlutfallslega eins og kaupgjaldsvísitalan, megi gera sér vonir um, að verðlagsvísitölulækkunin muni nema allt að helmingi af kauplækkuninni, og ætti því að mega gera ráð fyrir, að raunveruleg kauplækkun yrði af þessum sökum ekki nema 4–5%, — þar við bætist svo söluskatturinn, sem getur numið allt að 31/2%, en þar sem hann kemur hvorki á landbúnaðarafurðir né á fisk og fiskafurðir. ætti að mega gera ráð fyrir, að hann kæmi ekki á vísitöluvörur með meiri þunga en ca. 21/2%. Yrði þá lækkunin í heild 7–8%. Að vísu kemur fleira til greina, og þá fyrst og fremst verðlag aðfluttrar vöru, sem við ráðum ekki yfir, —- nema þá að nokkru leyti, og mun ég koma að því síðar. En í trausti þess, að hægt verði að halda verðlaginu niðri og lækkandi, hefur ríkisstj. lagt til, að þessi leið verði farin, og væntir þess, að almenningur muni sjá sinn hag í að styðja þessar aðgerðir.

Mér þykir þó rétt að taka mjög greinilega fram. að hér er ekki um neina kaupbindingu að ræða. Grunnkaup er látið óbundið, og geta því samtök launþega á hverjum stað og hverjum tíma haft það í sinni hendi, hvort þau vilja hlíta þessum aðgerðum eða ekki. Hins vegar vil ég einnig mjög greinilega undirstrika það, að ríkisstj. væntir þess, að þessi réttur verði ekki notaður. fyrr en séð verður fyrir endann á því, hver útkoman verður af þessari tilraun. Ef tekst að halda verðlaginu niðri, svo sem til stendur, og jafnvel að færa það enn niður, vill ríkisstj. vænta þess, að allur almenningur geti sætt sig við þessar aðgerðir til þess að halda uppi öruggu atvinnulífi, til að tryggja gjaldeyrisafkomuna og forðast atvinnuleysi.

Brynjólfur Bjarnason sagði, að verðlagsvísitalan lækkaði ekki, þó að því væri logið, að hún væri 300 stig. — Þetta er mikið rétt. Ég vil aðeins taka það fram, að það hefur aldrei verið meiningin að ljúga neinu um vísitöluna. Hún verður skráð mánaðarlega, og getur þá hver og einn fylgzt með, hvort um hækkun eða lækkun er að ræða, og gert sínar ráðstafanir samkvæmt því. Hv. þm. sagði enn fremur, að raunveruleg vísitala mundi bráðlega komast upp í 350 stig, og reiknaði síðan út, að verið væri að stela 50 millj. á ári frá launþegum. Hvort tveggja er alveg út í hött. Það er ómögulegt á þessu stigi málsins að segja neitt um þetta. Það getur vel verið, að þetta fari allt úr reipunum og vísitalan fari upp, en á þessu stigi er ekkert hægt um þetta að segja. Það getur líka verið, að þessar fórnir verði til að lækka raunverulega vísitölu niður í 300 stig.

Í þessu einu viðkvæmasta og þýðingarmesta máli, sem til er, er auðvitað ákaflega vandfarið. Margir hafa tilhneigingu til þess að finnast þær byrðar, sem á þá eru lagðar, of þungar samanborið við það, sem lagt er á náungann, og má vei vera, að þar hafi ekki tekizt til fulls að skipta sól og vindi, svo sem réttast væri. En þar til er því að svara, að þetta er tilraun, sem ríkisstj. vill gera, þó þannig, að lagt er undir dóm þjóðarinnar sjálfrar. Ef hún vill fara aðra leið og taka á sig þá ábyrgð, sem því fylgir, þá standa allar leiðir opnar, ríkisstj. hefur ekki lagt til, að kaupbinding væri lögfest. En hún skírskotar til allra að taka þátt í þessari tilraun og sjá, hvað út úr henni kemur. Ég held, að fullyrða megi, að nú hafi alls staðar orðið reynslan, þar sem verðbólga og dýrtíð hafa komizt á hátt stig, jafnvel þó að samfara væri hátt kaupgjald hjá almenningi hlutfallslega við dýrtíð að mestu leyti, þá hafi þetta ávallt og alls staðar orðið til bölvunar. Atvinnuvegirnir hafa komizt í þrot og ekki getað keppt á erlendum mörkuðum vegna þess, hve framleiðslukostnaður hefur orðið hár, atvinnuleysi og erfiðleikar, sem því eru samfara, fylgt í kjölfarið, og öngþveiti og kommúnismi komið í staðinn, enda hafa kommúnistar bæði hér og annars staðar kappsamlega að því unnið, að þetta ástand skapaðist. Í sambandi við lausu þessa máls, sem hér liggur fyrir, hafa þeir lagt fram frv., sem á að tryggja útvegsmönnum sama verð fyrir afurðirnar, en án þess, að nokkur tilraun sé þar gerð í alvöru til lækkunar rekstrarkostnaði, og án þess, að nokkurs fjár sé aflað handa ríkissjóði til að standast kostnaðinn.

Ein uppáhaldskrafa kommúnista er sú, að við eigum fyrst og fremst að hafa viðskipti okkar við meginland Evrópu, en ekki England og Bandaríkin. Þetta verður skiljanlegt, þegar aðstæður eru athugaðar. Verðlag allt í þessum löndum er miklu hærra en annars staðar. Verðlagsvísitalan hefur þegar sums staðar í þessum löndum komizt í um eða jafnvel yfir þúsund stig. Þessi lönd geta því keypt af okkur vörur eitthvað dýrara en aðrir, en aðeins með því skilyrði, að þau fái að selja okkur sínar vörur í staðinn og með því verði, sem þau þurfa fyrir þær að fá. Þessar útlendu vörur eru því fyrir okkur ein aðalhættan á aukinni dýrtíð í landinu. Það eru dæmi þess, að sama varan, keypt í þessum löndum, hefur kostað þrisvar til fjórum sinnum meira en tilsvarandi vara frá Bretlandi eða Ameríku. Segir sig sjálft, hvert stefnir, ef innflutningur okkar í framtíðinni á að miklu leyti að koma frá þessum löndum. Þá fer málið að nýju úr böndunum, og við fáum óviðráðanlega dýrtíð með atvinnuleysi, gengisfalli og hruni, og það er vissulega það, sem kommúnistar stefna að vitandi vits. Verðlagið innanlands fer þess vegna mjög mikið eftir því, hvort okkur tekst að verzla við þau lönd, þar sem verðvísitalan er 160–200, eins og hún er á Norðurlöndum, Englandi og Bandaríkjunum, eða hvort við neyðumst til vöruskiptaverzlunar við þau lönd, þar sem verðlagsvísitalan er 400–1000. En það er talandi tákn, að yfirleitt liggur verðlagsvísitalan á því bili, þar sem áhrifa kommúnista hefur gætt verulega á stjórn eftir styrjöldina.

Það er lærdómsríkt að bera saman verðvísitöluna í nokkrum löndum. Í júní s.l. var hún þessi, miðað við 100 fyrir stríð: Í Ástralíu 148, Kanada 157, Nýja Sjálandi 156, Bretlandi 175, Noregi 172. Svíþjóð 174, Danmörku 193, Bandaríkjunum 171, Tékkóslóvakíu 304, Ungverjalandi 489, Finnlandi 640 og í Frakklandi 904, en síðan í júní hefur vísitalan í Frakklandi hækkað svo, að hún er nú komin upp í 1157.

Það virðist því vera ljóst, hvað leiðir skilur. Með háu verðlagi innanlands og auknum framleiðslukostnaði getum við hvergi keppt til sölu nema þar, sem um vöruskiptaverzlun er að ræða, óhagstæða fyrir þjóðarhag, sem aftur leiðir til enn hækkandi verðlags og svo koll af kolli.

Það var frá því skýrt hér á Alþ. nýlega og síðan staðfest af vottum, að einn höfuðsmaður þeirra kommúnista og fulltrúi þeirra í stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefði sagt, þegar rætt var um eitthvert atriði þar, sem talið var að gera þyrfti vegna almennra þjóðarhagsmuna: „Hvað varðar okkur um þjóðarhag?“ Þetta hefur orðið frægt orðtak síðan og með réttu, svo vel lýsir það vinnubrögðum og innræti sanntrúaðs kommúnista. Hvað varðar hann um þjóðarhag? Sannarlega ekki nokkurn skapaðan hlut. Hann varðar aðeins um eitt, hann varðar um flokksins hag og hvernig takast megi sem bezt að reka hér erindi sinna erlendu húsbænda — alþjóðasamtaka kommúnista. Það er hans eitt og allt. Til þess að ná því marki krefst hann hærra kaupgjalds handa almenningi, ekki vegna alþýðu þessa lands út af fyrir sig, heldur til þess að reyna að tryggja sér fylgi hennar. Þess vegna krefst hann hærra afurðaverðs handa bændum til þess að koma sér við þá og reyna að tryggja sér fylgi þeirra.

Mér er sagt, að tími minn sé nú á þrotum, en ég get samt ekki stillt mig um, áður en ég lýk máli mínu, að benda á, að hjá kommúnistum hefur, jafnt í þessu máli sem öðrum, vakað það eitt fyrir að tryggja flokksins hag, en ekki hag þjóðarinnar, því að þá varðar ekki um þjóðarhag. Brynjólfur Bjarnason, hv. 4. landsk., sagði, að þetta frv., þessi tilraun væri dæmd til ósigurs. Það er enginn vafi, að þeir gera sitt til, kommúnistar, að svo verði. En það verða ekki þeir einir, sem ákveða það. Lokaatkvæðið um málið er hjá þjóðinni sjálfri. Þeir, sem vilja ekki áframhaldandi vöxt verðbólgu og dýrtíðar, munu hugsa sig um vel og rækilega, áður en þeir hlýða þessu kalli kommúnista. Þeir munu bíða og sjá, hvort ti1raunin tekst eða ekki. Sem betur fer, eru enn margir Íslendingar, sem láta sig skipta þjóðarhag á því hyggist líka þetta frv.