11.11.1947
Neðri deild: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (2401)

69. mál, veiting prestakalla

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Í okkar þjóðfélagi er trúfrelsi og menn hafa rétt til þess að mynda með sér félög út frá því, hvaða skoðanir þeir hafa. Og þó að þjóðkirkja sé viðurkennd hér hjá okkur sem stendur, ríkiskirkja þá held ég, að okkur beri að líta á hana sem mest sem frjálsa stofnun, sem mynduð sé af einstaklingum, sem kjósa að vera innan hennar og mynda sér sérstök samtök í því formi sem kirkjufélög eru mynduð í. Ég álít þess vegna, að það skipti allt öðru máli um þjóðkirkjuna en um almennan rekstur ríkisins hvað snertir val embættismanna. Þjóðkirkjan á að vera frjáls og sjálfstæð stofnun, þar sem þeir menn eru, sem hafa sameiginlegar skoðanir í trúmálum, og að þar eigi menn að hafa eins mikinn sjálfsákvörðunarrétt og frekast er unnt. Og í stjskr. er gert ráð fyrir, að með einföldum l. sé hægt að afnema það fyrirkomulag, sem nú er, að hafa ríkiskirkju. Og ég álít, að þar sem líta beri á þjóðkirkjuna sem mest sem frjáls samtök, þar sem ekki eru allir landsmenn í, þá eigi Alþ. að láta sjálfstæði hennar sem mest haldast og hlutast sem minnst til um málefni hennar. Og ég álít að það sé réttara að þeir menn, sem hana skipa, séu látnir sem mest um það sjálfir, hvernig þeir haga sínum málum. Þess vegna álít ég, að þetta frv. stefni í ranga átt, en það eigi að láta kirkjuna halda þeim réttindum, sem hún hefur nú, þannig að þeir sem þar eru, eigi að vera frjálsir um að kjósa sér sína starfsmenn. Þó að við höfum þann hátt á, að ríkið launi presta og annað slíkt, þá álít ég mjög fjarri lagi að setja undir ríkið þann rétt sem meðlimir þjóðkirkjunnar hafa haft um val sinna starfsmanna fram að þessu, ekki sízt með tilliti til þess að staðið hefur barátta innan kirkna í vissum Evrópulöndum fyrir því, að söfnuðir fái að ráða ráðningu presta sinna. Og aldalangar deilur hafa orðið þar um þessi mál, og frelsisbarátta kirkjunnar hefur verið þar, sem hefur komið fram í þessu formi. Ég álít, að frv. þetta stefni í ranga átt, en ríkið eigi ekki að sölsast til meiri afskipta af kirkjunni en það nú hefur. Ég álít þetta fyrst og fremst út frá því, að kirkjan eigi að vera frjáls stofnun, sem eigi að hafa rétt til að velja sína presta. Og ég álít frekar, að ríkið ætti að taka sér skipun kirkjunnar í vali embættismanna sér til fyrirmyndar og láta kjósa einhverja fleiri af embættismönnum þjóðarinnar, heldur en að fara öfuga leið, eins og ég álít stefnt að með þessu frv. Ég álít það aðalsmark á lýðræðinu hjá hverri þjóð, að lýðræðið fái að komast að í því efni að hafa áhrif á val embættismanna þjóðarinnar. Og ég álít, að það væri til bóta frá því, sem er, ef embættismenn okkar ættu öðru hverju að leggja starfsferil sinn undir dóm fólksins. Ég álít, að við ættum frekar að fara þá leiðina en leið þá, sem frv. gerir ráð fyrir, og það gæti verið frískandi fyrir embættismannakerfi okkar, sem er nokkuð steinrunnið. Þó að það sé gallað fyrirkomulag að kjósa embættismenn, þá er það hlutur, sem engan veginn er rétt að slá frá sér. Við eigum ekki að fara lengra inn á þá braut að sölsa undir ríkið áhrif um embættaveitingar frá því sem nú er. Og ekki sízt gildir þetta, þegar um þjóðkirkjuna er að ræða, sem við eigum að skoða sem frjáls samtök, þó að hún sé viðurkennd í stjskr. og l. sem ríkiskirkja. Ég er því á móti því að afnema það fyrirkomulag um val presta, sem nú er. Og ég vil segja, að rökin, sem flutt eru hér í grg. fyrir þeirri breyt., sem í frv. felst, þar sem sagt er í grg., að kosningafyrirkomulagið geri ráð fyrir verulegum kynnum kjósenda af umsækjendum, og svo segir, að að öðrum kosti sé hefndargjöf að fela almenningi málið til úrskurðar og að samkeppni um hylli kjósenda sé ekki holl eða heppileg fyrir stéttina og árangur slíkrar samkeppni gefi engan veginn örugga vísbendingu um starfhæfni og mannkosti, — ég er ákaflega hræddur um, að ef ætti að útfæra þessa röksemd út í æsar, væri farið að höggva nærri þeim, sem eiga allt undir því að vera kosnir til þess að ráða málum eins og þessum. Mér finnst fulllangt gengið hér í þá átt að neita því, að fjöldinn sé þrátt fyrir allt, sem út á hann má setja, færastur um starfhæfni manna að dæma, eins í þessum málum sem öðrum. Þannig að það gengur á móti lýðræðinu sjálfu, ef við þorum ekki að viðurkenna það innan þessara vébanda, sem er kirkjan í þessu sambandi, að fjöldinn eigi að ráða. — Það hafa komið fram raddir um það áður, að ríkið færi að setja ákveðin fyrirmæli um ýmis frjáls samtök landsmanna. Það hefur mætt mótspyrnu. Og ég álít, að þessar till., sem hér eru fram bornar í frv., fái mótspyrnu hér og fyrir mitt leyti er ég á móti því, að þær verði samþykktar.