11.11.1947
Neðri deild: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (2404)

69. mál, veiting prestakalla

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. (GÞG) taldi, að varla fylgdi hugur máli hjá mér í þessu máli og sérstaklega dró hann það af því að ég hefði ekki komið með till. um, að dýralæknar yrðu kosnir í almennum kosningum. Þetta var nú kannske meira sagt í gríni en alvöru hjá þessum hv. þm. En mér finnst nú meira af hans „verðstuðlum“sem hann hefur fært fram fyrir sínu máli, vera álíka. Þessi hv. þm. er enn að tala um, að með núverandi fyrirkomulagi geti söfnuðir ekki haft nóg kynni af umsækjendum um prestsembætti áður en safnaðarmeðlimir ganga til kosninga, en hv. flm. býður okkur þó upp á annað fyrirkomulag, sem alls ekki tryggir þeim aðilum, sem ákveða eiga, hver prestur skuli valinn í hvert skipti, neitt meiri kynni af umsækjendunum. Eru þetta sterk rök? Eða eru þetta kannske veik rök fyrir þessu frv.? Mér finnst þau mjög veik, fyrir svo stóru máli sem þessu.

Nei, það fylgir hugur máli hjá mér í því að vera á móti þessu frv. — Og sú röksemd, sem hv. 1. flm. vildi bera fram til þess að reyna að rýra rök mín sem ég færði fram, að ég hefði nú ekki fundið upp á því að láta landslýðinn kjósa dýralækna, er ekki veigamikil. Hér er um tvenns konar embætti að ræða, prestsembætti og dýralæknisembætti, sem eru nokkuð óskyld í eðli sínu. Það hefur nú ekki verið sá háttur á, að kosið hafi verið af landsfólkinu um lækna. En það hefur komið til tals að kjósa þannig læknana og ef að því yrði horfið, þá býst ég við, að litli bróðir lafi með, nefnilega, að þá yrðu dýralæknar líka kosnir. En við erum svo fáir dýralæknarnir, að það þykir ekki ómaksins vert að kjósa um þá embættismenn. Lengst af var ég einn og annar maður til dýralæknar á þessu landi. Nú erum við 5. Getur vel verið, að heppilegast sé að kjósa þessa 5 menn, lofa mönnum að velja. Hingað til höfum við verið settir niður og nokkuð eftir því, sem við höfum kosið. En það er ekkert því til fyrirstöðu frá mínu sjónarmiði, að kosningafyrirkomulag verði tekið upp í sambandi við val dýralækna, fyrr eða seinna, og alveg sérstaklega, ef landsmenn almennt vildu hafa það fyrirkomulag um að velja á milli okkar. En það fyrirkomulag, sem stungið er upp á í frv. þessu, sem hér liggur fyrir, er að mínu viti brot á lýðræðinu í landinu, þó um andleg embætti sé að ræða.

Ég hef ekki orðið var við frekari rök í síðari ræðu hv. 1. flm. en í þeirri fyrri, heldur veikari rök í þeirri seinni. — Og það, hvort söfnuður eigi að hafa rétt til að afhrópa prest, ef breytast kynnu trúarskoðanir meiri hl. safnaðarins eða prestsins, þannig að samræmið breytist í því efni eftir að prestur hefur tekið við starfi, það atriði er fyrir utan þetta mál. En það er rétt, sem hv. þm. Borgf. tók fram, að prestskosningar markast mjög af trúarskoðunum umsækjenda. Það er vitanlega ákaflega viðkvæmt mál fyrir safnaðarfólk að kjósa sér prest. Það reynir eftir beztu getu að afla sér kunnugleika um umsækjendur eða umsækjanda, og hefur tækifæri til þess að afla sér furðanlegrar vitneskju um umsækjendurna, bæði af ræðum og framkomu þeirra og öðru, þann tiltölulega stutta tíma, sem mun vanalega vera mánuður, sem umsóknarfresturinn er. Það er rétt, að þannig getur fólk ekki kynnzt umsækjanda til hlítar. En hygginn maður, sem vill leita dýpstu raka, mun komast nokkuð á snoðir um það af þeirri viðkynningu, hvaða mann tiltekinn prestur eða prestsefni hefur að geyma.

Það hefur ekki heyrzt, að söfnuður hafi afhrópað prest sinn fyrir trúarskoðanir. Það eru afhrópaðir prestar hér fyrir almennt framferði, sem hefur misboðið velsæmistilfinningu fólksins. Það þekkjast kannske dæmi í þessa átt, en það er ekkert aðalatriði í sambandi við þetta frv.

Ég er á móti þessari breytingu.