11.11.1947
Neðri deild: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (2411)

70. mál, héraðshæli

Flm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 87. um héraðshæli, var lagt fram á síðasta þingi af sömu flm., en varð þá ekki útrætt. Þar sem við teljum, að hér sé um nauðsynjamál að ræða, fannst okkur rétt og skylt að vita, hvort Alþ. vill ekki veita því samþykki sitt.

Orsakir þær, er að frv. liggja, eru í aðalatriðum þessar: Heilbrigðismálum í sveitum er nú mikil hætta búin sakir læknaleysis og skorts á húsnæði og aðhlynningu hinna sjúku og öldruðu. Ofan á það bætast svo ljósmæðravandræðin, sem mjög eru að verða alvarleg í sveitum landsins. Við flm. höldum því fram, að aðbúnaður að héraðslæknum sé ekki eins góður og nauðsyn beri til og að bæta mætti mjög mikið úr honum með byggingu héraðshæla. Búið er nú að koma því á, að ríkið byggir yfir ýmsa opinbera starfsmenn, svo sem dómara o. fl. Með frv. þessu er ætlazt til, að sameinað sé í eina stofnun sjúkrahús, fæðingarstofnun, gamalmennahæli og læknisbústaður. Ég hygg, að ég þurfi ekki að fjölyrða um, hvílík bót yrði að þessum héraðshælum. Hvað snertir fjárframlag ríkissjóðs til þeirra, þá þótti okkur flm. sanngjarnt, að þessi styrkur væri sá sami og til barnaskólabygginga. Og þó að þær byggingar séu mjög nauðsynlegar, þótti okkur fullkomlega sanngjarnt, að ríkisvaldið veitti ekki minni styrk til byggingar héraðshæla.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, þar eð frv. fylgir allýtarleg grg. Vil ég leggja til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. heilbr.- og félmn.