18.11.1947
Neðri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (2421)

82. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Þegar samþ. voru l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, þá voru sameinaðir tveir sjóðir, þ. e. byggingarsjóður og nýbýlasjóður, í eina heild og nefndir byggingarsjóður. Nú var það svo, að á þessum sjóðum hvorum um sig hvíldu skyldur samkv. l. um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum annars vegar um greiðslu á verkfærum og vélum. Í öðru lagi samkv. l. um byggingarsamþykktir í sveitum um það að greiða að 1/3 hvor laun byggingarfulltrúanna, sem ráðnir kynnu að verða til að stjórna eða hafa eftirlit með byggingum húsagerðarfélaga í sveitum landsins. Út af þessu gæti risið ágreiningur, enda þótt til þess sé ætlazt, að byggingarsjóður taki á sig þessar skyldur fyrri byggingarsjóðs, úr því að hann var látinn hafa þessa tvo sjóði. Þess vegna hefur landbn. flutt þetta frv. á þskj. 104. sem fjallar um að taka þetta skýrt fram, að þær skyldur, sem hvíldu á báðum sjóðunum áður, þær hvíli nú á þessum sjóði einum.

Þetta er einfalt mál, og býst ég við, að ekki þurfi nánar að útskýra það. Ég vænti og legg til fyrir hönd landbn., að þetta mál fái greiðan framgang, svo að ekki þurfi að verða ágreiningur út af skilningi þessa ákvæðis. Þar sem þetta frv. er flutt af n., sé ég ekki ástæðu til þess, að því verði vísað til n., en óska þess að að umr. lokinni verði því vísað til 2. umr.