19.11.1947
Neðri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (2441)

83. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta. Hv. síðasti ræðumaður talaði um, að lagaskýring mín væri hæpin, vildi ekki fullyrða, að hún væri röng. En það var annað, sem hann taldi að staðfesti. að hún gæti ekki staðizt, en það var það, að fyrst byggja ætti brúna 1948, þegar lítið fé eða ekkert væri í brúasjóði, þá gæti ekki átt sér stað, að ætlazt væri til, að fé til brúargerðarinnar kæmi úr þeim sjóði. Nú veit hann, að það er oft gert, þegar verið er að reyna að koma upp mannvirkjum án þess að peningar séu fyrir hendi, að þá er tekið lán til framkvæmdanna. Mætti því vel hugsa sér að taka lán til þessarar brúargerðar, sem síðar yrði greitt með fé úr brúasjóði, eftir því sem fé kæmi í þann sjóð.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að þótt samþ. hafi verið sú till., sem við höfum hér fyrir framan okkur, um brúargerð á Hvítá hjá Iðu, þá hefur þar með engin ákvörðun verið tekin um, á hvern hátt fjárins skuli aflað til brúargerðarinnar. Okkur er báðum ljóst og Alþingi í heild, að það hefur ekki annað gert en að ákveða. að brúna skuli byggja. Það getur verið, að horfið verði að því ráði, að það skuli gert með framlagi úr ríkissjóði samkvæmt fjárveitingu í fjárl., ekki fyrir næsta ár, heldur sennilega fyrir 1949, því að sennilega verður brúin á Hvítá ekki komin á sama ári og hin nýja brú á Þjórsá.

Það er sem sagt ljóst, að það hefur ekki verið ákveðið enn, hvernig fjárins skuli aflað til brúargerðarinnar.