24.11.1947
Neðri deild: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (2453)

92. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Ég ætla nú ekki að gera þetta sérstaka frv. að umtalsefni, en þó minna á það í sambandi við síldarvinnslu hér við Faxaflóa á þessum árstíma að miklu skiptir um hagnýtingu síldarinnar. Jafnvel með þeim tækjum, sem koma og eru á leiðinni, að nægilega miklar þrær séu fyrir hendi, en skortur á þeim bagar vinnslu nú. Enn fremur þegar maður athugar, að þessi síld gagnstætt norðansíldinni veiðist á kaldasta tíma ársins, þá er það margra manna mál, sem vita bezt, hvað síldin þolir, að jafnvel þótt verksmiðjuvélar væru stórum auknar, þá mundi þegar mikið ávinnast, ef ríkulegt þróarpláss væri aðeins fyrir hendi. Öll líkindi eru til, að þetta sé rétt. Í fyrsta lagi er Faxaflóasíldin magrari en sumarsíldin og í öðru lagi er hún veidd á kaldari árstíma, og hún geymist svo vikum skiptir í þróm, og miklu lengur en norðansíldin. Mér virðist því, að um leið og talað er um að reisa hér verksmiðju við Faxaflóa, þurfi að gefa því sérstakan gaum að hafa þróarpláss þrefalt til fjórfalt miðað við annan viðbúnað, eins og hann er norðanlands. Það er talað um að reisa verksmiðju í Reykjavík, Akranesi, Keflavík, Hafnarfirði eða Hvalfirði, á einhverjum þessum stað við veiðisvæðið. Hitt er vitað, að á öllum þessum stöðum vantar geymslur og tanka til að byrja með, burt séð frá því, hvort reist yrði ný verksmiðja, en á flestum þessum stöðum eru verksmiðjur með litlum afköstum.

Það hefur verið bent á það í sambandi við þetta frv., að síldarvinnsluvélar væru hér til í landinu, sem ekki hefðu verið settar upp. Óskar Halldórsson útgerðarmaður fékk leyfi hjá nýbyggingarráði á sínum tíma til að flytja þær inn, og var þá þegar vitað, að hann mundi e. t. v. bíða eitthvað átekta með að setja þær upp, á meðan verðbólgan stæði sem hæst. Vélar þessar eru nú til og búið að láta fyrir þær gjaldeyri, og gefur auga leið, að betra er að nota þær til að framleiða nýjan gjaldeyri, þ. e. a. s. mjöl og lýsi, enda fullnægja þær ekki fyrr hlutverki sínu.

En fleira en bræðsla kemur til greina, og reynslan fyrir stríð gefur til kynna, að Faxaflóasíld sé vel séð á erlendum markaði. 1938 var nokkuð flutt af henni til Þýzkalands með togurum og reykt, og var dálítið af ís og salti saman við síldina. Sá útflutningur gekk vel, og mér er kunnugt um, að þessir gömlu kaupendur hafa nú áhuga á Hvalfjarðarsíldinni. Ég lét kaupendur í Hamborg vita af veiðinni, ef einhverjir möguleikar kynnu að vera á viðskiptum við þá, og í svari, sem borizt hefur frá þeim, segir að þeim sé ekkert kærara en að stofna til viðskipta aftur, en um það er eingöngu við hernámsyfirvöldin að eiga, þau ákveða, hvort kaupa skuli og leggja fram gjaldeyri í því skyni, en reynt mun verða að fá þessu af stað hrundið og fá kaupendur til að nálgast síldina og reykja hana. Ég fullyrði ekkert um það, hvað út úr þessu kann að koma. Ég stakk upp á því, að kaupendur sendu skip eftir síldinni, ef unnt yrði, því að það er miklum erfiðleikum bundið að senda síldina út með íslenzkum skipum á viðeigandi verði, þar eð flutningskostnaður með íslenzkum skipum er svo hár og verðið á afurðunum yrði þá fram úr máta hátt. Því hef ég látið skína í, að við vildum helzt selja síldina fob. hér. Við sjáum svo til, hvað fram fer. Það er hreyfing á málinu, og það er verið að vinna að því, en hvenær niðurstaða fæst og hvert gagn verður að þessu fyrir íslenzka síldveiði, er ekki gott að segja enn þá.

Hv. þm. Ísaf. minntist hér áðan á till. þá um síldarrannsóknir, er hann flytur í Sþ., og skal ég ekki verulega gera hana að umtalsefni, en vil aðeins láta í ljós, að ekki er ólíklegt, að það verði gert, sem þar um ræðir. Sjútvmrn. samþykkti fyrir síðustu vertíð að styrkja síldarleit, og var leitað bæði djúpt og grunnt, líka fyrir sunnan land. Og þó að árangurinn yrði ekki mikill af þeirri leit, tel ég það vel verjandi, því að það er margra mál, að síldargöngur hafi oft farið fram hjá landinu, t. d. fyrir síldarvertíð. Ég skal svo ræða nánar við þá n., sem hefur þetta mál til meðferðar, og ég er sammála því, að eitthvað gæti þurft að gera í því, áður en það er búið að ná þinglegri meðferð.

Þetta frv. fer nú til n. Það hafa heyrzt margar raddir um það, hvar reisa skuli verksmiðju við Faxaflóa, eftir því, hvar síldin stingur upp kollinum í það og það skiptið, og það er vandi að leysa það spursmál. Þá hafa einnig heyrzt og verið bornar fram till. um fljótandi síldarverksmiðju, og enn aðrir hafa talað um flutningaskip með sérstökum löndunartækjum, er fylgdi flotanum eftir. Sjútvn. mun kveðja til hina fróðustu menn um þessi mál. Nú er vitað, að fyrir liggur að taka ákvarðanir um aðgerðir á Norðausturlandi, og yfir höfuð þarf að reyna að leysa þessi vandamál þannig, að landshlutarnir verði sem jafnast úti. Og þá hvarflar hugurinn að því, hvort hin hreyfanlega lausn gæti e. t. v. ekki verið hin rétta lausn málsins, eða svo mikill hluti af henni, að til stórra bóta væri. En upp á eigið eindæmi vil ég ekki segja, hvað réttast er í þessu að svo komnu máli. En ég held, að þetta mál sé í hugum svo margra gamalla síldveiðimanna og að það sé komið á það stig, að líklegt sé að hægt sé að fá niðurstöðu, sem væri til úrbóta, og að verksmiðjur í landi verði ekki eina lausnin, heldur verði hið hreyfanlega sjónarmið tekið með í reikninginn með tilliti til þess, hvernig síldin slær sér niður hér og þar um tíma og tíma.