24.11.1947
Neðri deild: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (2454)

92. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Borgf., að þessi síldveiði hér í Faxaflóa er nýtt fyrirbæri, sem hefur skapað þann vanda að vinna og hagnýta sem bezt aflann. Þetta mátti þó sjá fyrir í fyrra, og þá fluttum við hv. þm. Siglf. till. um að skipa nefnd, er hefði með höndum að hagnýta aflann sem bezt, þannig að hann gæfi sem mestan gjaldeyri, með því t. d. að salta eða reykja síldina. Þetta mál dagaði uppi, en hefur nú verið flutt aftur. Þá fluttum við einnig till. í Sþ., er fjallaði um fljótandi síldarverksmiðju, um möguleika á þeirri framkvæmd og athugun á því, hvort hún mundi borga sig. Hv. 4. þm. Reykv. hefur nú flutt þáltill. um sama efni á þessu þingi, og af þeim sökum höfum við þm. Siglf. að sjálfsögðu ekki flutt það mál aftur. En einmitt vegna þess, að við stöndum alveg í sömu sporunum og í fyrra varðandi hagnýtingu síldaraflans, þykir mér leitt, að ríkisstj. skuli ekki hafa athugað þetta, þó að henni væri ekki beinlínis falið það af Alþ., því að það var vitað og sýnt, að vilji Alþ. var sá, að Faxaflóasíldin yrði hagnýtt sem allra bezt og undirbúningur að því hafinn. Hér fyrir sunnan þarf t. d. aðra gerð af nótum en fyrir norðan, og hafa ekki verið gerðar nægilegar ráðstafanir til að útvega þær. A. m. k. er um vöntun á þeim að ræða. Og þetta er því verra, þegar þess er gætt, að þessar nætur, sem henta bezt hér, er einnig hægt að nota fyrir norðan. Smáriðnu næturnar mætti svo nota sem grunnnætur, svo að þær yrðu ekki ónothæfar. þegar Faxaflóasíldin er búin.

Í sambandi við þetta frv. vil ég segja, að það munu allir vera sammála um það, að frekari ráðstafana þurfi við, til að hagnýta megi Faxaflóasíldina, og að þau skilyrði, sem hér eru fyrir hendi, eru mjög ófullnægjandi. Það hefur sýnt sig í umræðunum hér í dag. En um hitt skiptast svo skoðanir, hvar velja skal nýrri síldarverksmiðju stað, og kemur þar til greina hinn gamli draugur, hreppapólitíkin. Ég tel mig ekki fulldómbæran um það, hvar verksmiðjan ætti að vera, en það er nokkuð til í því, sem hv. flm. sagði, að Akranes hefur ýmislegt til síns ágætis, en ég vildi nú beina því til hv. dm., hvort ekki væri athugandi að koma hér upp fljótandi síldarverksmiðju, eins og ég hef áður minnzt á, því að slíkt gæti samrýmt mörg sjónarmið og slíka verksmiðju mætti nota fyrir norðan á sumrin og fyrir sunnan á veturna. Þetta er af minni hálfu aðeins ábending, en hér er um svo mikið málefni að ræða, að allir möguleikar verða að vera rannsakaðir gaumgæfilega, áður en ákvarðanir eru teknar. Það má segja, að út af fyrir sig sé það gleðilegt, að við þurfum að glíma við þau vandamál, sem Faxaflóasíldin býður okkur, því að hún er okkur mikils virði. Hvort hún verður til frambúðar, veit ég ekki, en margt bendir þó til þess, og allar leiðir til að hagnýta þessa síld sem bezt verður að athuga. Í þessum umr. hefur og komið fram, að athuga þurfi, hvernig vinna megi úr þessari Faxaflóasíld, og benti hæstv. fjmrh. á það, að flytja mætti hana ísaða til Þýzkalands, en sú aðferð hefur áður verið höfð og skapað mikinn gjaldeyri. Ég mun svo ekki orðlengja þetta frekar, en tel eðlilegt, að málið gangi til sjútvn.