12.02.1948
Neðri deild: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (2465)

93. mál, útrýming villiminka

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Þann 21. nóv. s. l. var útbýtt hér frv. um minkaeldi. og 25. s. m. var því máli vísað til landbn. þessarar d. Þetta var á árinu 1947. Nú er 12. febr. 1948, og þess hefur ekki orðið vart, að landbn. hafi afgr. þetta mál. Ég vil nú vænta þess, að hv. n. kæmi mjög skjótlega með þetta mál hér inn í d. Þó að hv. n. kunni að þykja þetta lítilvægt mál, sem ég veit ekki, þá mætti þó svo vera, að öðrum þætti ekki lítið mál, og er þá rétt, að hv. þd. skeri úr um það. Ég vil því mega vænta þess, að þetta mál komi hið bráðasta fram af hálfu landbn., en ef það dregst úr hömlu, þá vil ég óska þess, að hæstv. forseti hlutist til um að málið verði tekið á dagskrá d., svo að það geti fengið þinglega afgreiðslu.