24.02.1948
Neðri deild: 63. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (2470)

93. mál, útrýming villiminka

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég vildi svo gera, ef ég hefði ástæðu til, að þakka hv. landbn. fyrir góða afgreiðslu á þessu máli, en slíkt mun vart sæma, því að n. hefur nú loks skilað áliti seint og síðar meir. Afgreiðsla hv. landbn. er fjarri því, sem ég hafði búizt við, og eru litlar líkur fyrir því, að stríðinu ljúki nokkurn tíma við þetta dýr, ef það verður áfram í landinu. Ég legg ekki trúnað á að unnt sé að halda dýrinu í skefjum, fyrr en eldi dýranna verður alveg hætt. Þetta álít ég af tveimur orsökum. — Það er alls ekki öruggt, að dýr geti ekki sloppið úr búrum, og þó að þetta dýr sé alltaf í búri, þá hænist það aldrei að manninum og verður alltaf villt, jafnvel þó að það væri 100 ár í búri. Þetta dýr temst ekki og verður alltaf villt. — Það hlýtur að vera mjög erfitt að útrýma minkum, því að minkurinn er slungið og harðvítugt dýr. Þess vegna missir eyðing hans marks, sé eldi hans ekki bannað. Það hlýtur að verða að gera greinarmun á því, hvort þeir, sem vilja reyna að útrýma minkum, geta átt von á að fá viðbót eða ekki. Á meðan menn geta átt von á viðbót, er varla von að menn vilji leggja hart að sér að útrýma minkunum. En ef það væri öruggt, að ekki bættust fleiri dýr í hópinn, þá mundu menn finna frekari hvöt hjá sér til þess að reyna útrýmingu en ef stöðugt bætist við, eftir því sem af er tekið.

Hv. frsm. landbn. sagði, að þó að minkabúr yrðu vel úr garði gerð, þá væri ekki útilokað, að dýr gætu sloppið fyrir aðgerðir skemmdarvarga. Já, mikið rétt, og einnig getur illviðri haft þær afleiðingar, að minkar sleppi úr heilu búi. Það gildir einu máli, hvernig dýrin sleppa, en ef þau sleppa, auka þau brátt kyn sitt og fylgja áfram sama hætti eftir eðli sínu og lifa villt úti í náttúrunni. Hv. frsm. fullyrti, að það væri aðeins ein minkategund, sem sloppið hefði úr haldi til þessa, og hefði slíkt sannazt á rannsókn þeirra dýra, sem veiðzt hafa, en nú væri búið að útrýma þessari tegund úr eldisbúunum og ekki vitað, að neitt hefði sloppið út af þeim dýrum, sem síðar voru flutt til landsins. Það má vera, að þetta sé rétt hjá hv. þm., en ég legg ekki mikið upp úr þessum fullyrðingum, ég læt þær liggja á milli hluta. En mikið óhapp hefur skeð. Er minkarnir voru fluttir hingað, byrjuðu menn að ala þá af mikilli fáfræði og vankunnáttu og fullkominni fáfræði um líf og eðli þessa dýrs. Nú segir hv. frsm. landbn., að það hafi verið mein, að byrjað var með þennan grimma mink, en ekki þetta fína dýr, sem síðar var flutt inn til landsins. Ég held nú, að þetta fína dýr sé svipað til munnsins og hinir minkarnir. Ég býst við, að kjafturinn sé ekkert ósvipaður á þeim, því að þetta er sama ættkvíslin, þótt hér kunni að vera um mismunandi afbrigði að ræða af sömu ættkvísl. Þótt dýrin séu af mismunandi afbrigðum, hafa þau sömu eiginleika, og skiptir ekki miklu máli, hver tegundin er. Nýja tegundin beitir kjafti og klóm eins og hin, og eru þessar fullyrðingar hv. þm. því ekki mikils virði.

Ég geri ekki mikið úr brtt. þeim, sem hv. landbn. hefur látið frá sér fara. Hv. n. virðist leggja aðaláherzlu á útrýminguna og leggur til, að landbrn. hafi yfirstjórn hennar. Ráðuneytið getur þó falið loðdýraræktarráðunaut að vera generalinn við eyðingarherferðina. Loðdýraræktarráðunautur hefur til þessa haft herforingjastöðuna með höndum og ætti því nú að vera búinn að sýna herkænsku sína. En það stendur nú kannske svo á, að það sé nú verið að sníða úniformið, en er hann kemur nú í fullum skrúða, mun hann vonandi vera þess albúinn að leggja dýrin að velli. Hreppsnefndum á og að vera skylt samkvæmt till. n. að sjá um útrýmingu minka, hver í sínu umdæmi, og eiga þær að tilkynna landbrn. um útbreiðslu minksins í umdæmum sínum svo og dvalarstaði þeirra. Dýrið getur nú ferðazt um 100 mílur á sólarhring, og væri ekki óskemmtileg sjón að sjá loðdýraræktarráðunautinn í sínum fulla skrúða með lið sitt í áhlaupi á dýrið. Þó að skýrsla hreppsnefndar væri nú rétt, þá kynni að vera, að dýrið hefði skroppið í burtu, er generalinn gefur fyrirskipanirnar um áhlaupið. Þetta kann nú að finnast dálítið skoplegt, en það virðist hafa gengið heldur illa hjá landbn. að gera sér ljóst, hvað hér er um að ræða. Það verður að ganga miklu betur frá þessum ákvæðum, ef það á að verða hægt að fá menn til þess að taka þátt í þessu.

Hvernig er svo háttað með þetta dýr? Mér er kunnugt um, að með öllu Þingvallavatni og upp úr hrauni þar um allt eru villiminkar. Það hafa sagt mér menn, sem þar búa, og einnig menn, sem þar hafa verið á rjúpnaveiðum í haust, að þeir hafi séð för eftir hann upp um fjöll og firnindi. Hjá okkur í Biskupstungum hefur mátt rekja slóð hans um byggð, og inni á afrétti hreppamanna hefur hann sézt. Um allt héraðið og fram að sjó er dýrið komið. Ég tala nú ekki um, að nú síðan harðnaði í vetur, þá er fjöldi dýra meðfram sjónum, því að minkurinn heldur sig mikið meðfram ám og lækjum, því að hann lifir mikið á fiski, en því minna sem hann hefur meira af fuglum.

Nú kynni að vera, þegar svona er komið málum, að menn yrðu ekki sérlega fúsir til þess að hlýða kalli hreppsnefndar og elta þessi dýr. Það er ekki nema um einar 60 kr. að ræða fyrir þá menn, sem ná í dýr, og maður verður að vona, þó að nokkuð sé til af villiminkum, að þá verði það ekki margir, sem hver maður nær í, og sumir menn munu engu dýri ná. Það verður víða að fara og víðar en vitað er fyrir víst um minka, og aðalútrýmingin verður að fara fram að vetrarlagi. Ég get ekki séð, að menn séu skyldugir til að hlýða skipun hreppsnefndar, þó að hún kveðji menn til þessara ferða. Ég get ekki séð, að með þessum breyt. sé lögð sú kvöð á menn, að þeir geti ekki skorazt undan slíku.

Ég er ekki að mæla með því, það er öðru nær, en ég sé ekki, að með þessu fyrirkomulagi muni vinnast mikið í þá átt, sem virðist vera ætlunin, nema að gera þetta að skyldu, ef þetta ákvæði á að vera í l. Þá finnst mér langtum nær að hafa það fyrirkomulag, að þeir, sem hafa svo mikla trú á, að þetta séu nytjaskepnur og leggja stund á ræktun þeirra, beri kostnaðinn af þessu. Þeim er það skyldast, og kemur það einmitt hæfilega niður, að þeir greiði kostnaðinn, en ekki, að kostnaðinum verði velt yfir á menn, sem enga sök eiga á þessari villiminkaplágu. Og að detta það í hug að leggja kvöð á þá menn, sem ætla má, að geti orðið fyrir tjóni af völdum annarra manna, finnst mér ekki vera hægt, nema talið sé, að þetta sé fullgilt, og mér finnst fráleitt, að gegn þeim manni, sem ekki hlýðir, megi beita refsiákvæðum frv. allt frá 200 kr. og upp í 5 þús. kr. og jafnvel öðrum refsingum samkvæmt öðrum l. Ég veit ekki, hvernig ber að skilja, en mér sýnist líklegra, að það eigi ekki svo að vera.

Ég hef býsna litla trú á því, að þetta komi að tilætluðum notum. Hv. frsm. n. sagði, að Alþ. hefði stuðlað að eldi þessara dýra og hæfði því ekki, að það bannaði eldi þeirra allt í einu fyrr en fullvíst væri, að dýrið ylli tjóni.

Ég álít, þó að við settum það ekki í okkar frv., ekkert á móti því að greiða þeim, sem dýrin eiga — en þau munu hafa verið í haust um 5 þús. á öllu landinu — bætur fyrir dýrin. Það væri áreiðanlega búhnykkur, svo að þeir slyppu skaðlaust frá því að verða að hætta þannig, að þeir fengju verðmæti þeirra dýra, sem þeir fengju greidd.

Við fluttum þetta frv. í þessum búningi eins og það er, til þess fyrst að sjá, hvernig málinu yrði tekið, og eins og ég gat um í fyrstu ræðu minni um þetta mál, erum við flm. reiðubúnir til þess að ræða um sérstakar ráðstafanir einmitt þeim til handa, sem eiga þessi dýr.

Mér virðist hv. landbn. og aðrir, sem um þetta mál hafa fjallað, geri lítið úr þeirri hættu, sem af þessum dýrum stafar, og það er áreiðanlegt, að það er höfuðyfirsjónin í sambandi við þetta mál allt frá byrjun. Mönnum hættir til að vitna til þess, hvernig þetta dýr er í sínum upprunalegu heimkynnum í Ameríku, en gæta þess ekki, hve skilyrðin eru í raun og veru ólík þar og hér. Í Norður-Ameríku er dýralífið geysilega fjölbreytt og lifir minkurinn á mörgum tegundum fugla, spendýra, fiska, skriðdýra og krabbadýrum. Hér er fábreytt líf úti í náttúrunni, sem hann getur lifað á. Kannske eru það hagamýs og rottur og þá aðallega nærri byggð. Þá eru það aðallega fuglar og fiskar. Það má segja, að fuglategundirnar séu að vísu nokkuð margar þann tíma, sem farfuglarnir sækja okkur heim, vegna þess að hér hefur verið griðland fyrir þá, en nú fer ekki að verða lengur um það að tala. En það er þó einn nytjafugl hjá okkur, sem við megum ekki gleyma, og það er æðarfuglinn. Ég þori að fullyrða, að svo framarlega sem ekki verður hafizt handa og útrýmt villiminknum, þá upprætir hann hér um bil allt æðarvarp á landinu áður en langt um líður. Minkurinn er nú kominn upp um allan Borgarfjörð, vestur í Dali, og hvernig verður það, þegar hann kemst út um allan Breiðafjörð?

Þegar minkurinn verður búinn að eyðileggja svo að segja öll æðavörp í landinu, þá skulum við ekki ímynda okkur, að hann láti staðar numið. Þá koma árnar og vötnin með silunginn og laxinn. Það er talið af fróðum mönnum, sem þekkja þetta dýr vel, að minkurinn sé það fimur á sundi, að hann taki silung á sprettinum, og af því geta menn dálítið ráðið í leikni hans. Þeir, sem þekkja svo til þess, hvernig laxinn er, þegar komið er fram á haustið og hrygningartímann, en þá er laxinn máttfarinn og svifaseinn og getur lítið komið sér undan. Ég þekki til með eitt vatnsfall í Biskupstungum, þar sem minkurinn er búinn að vera við í 3 ár, að það er viðburður þar, að sjáist lítill lax.

Minknum er fært af framhaldsmönnum hans það til gildis, að hann útrými skaðræðisskepnum fyrir laxaseiði og silungsseiði í ám og vötnum. Nú mótmæli ég því ekki, en það vill þá svo til, að einmitt fiskiöndin, sem skaðar einna mest laxa- og silungsseiði, er svo stygg og vör um sig og heldur sig svo langt frá landi, að það verður heldur lítið, sem minkurinn nær til hennar. Það verða frekar aðrar endur, sem minna tjón gera á laxa- og silungsseiðum, sem verða minkunum að bráð, en einmitt af þeim öndum getum við haft nokkurn hagnað.

Þá mun nú vera alkunnugt, hvernig fer með alifuglaræktina þar, sem minkurinn er kominn, og vil ég í því sambandi, af því að mér láðist að geta þess áðan, taka fram, að það er hægara sagt en gert að passa þá fugla fyrir minknum, þó að ekkert sérstakt óhapp komi fyrir. (StgrSt: Það er enginn vandi að passa alifugla fyrir minknum.) Það er mikill vandi, og skal ég nefna dæmi um það. (StgrBt: Ég skal nefna mörg dæmi). Já, það má vitanlega finna dæmi um það, að dýrin sleppi ekki. En menn munu ekki alltaf kalla upp um það, þó að dýr sleppi, þó að ætlazt sé til þess. Ef það hefði alltaf verið gert, þá hefði kannske verið auðveldara að útrýma þeim, og ég efast um, að menn verði samvizkusamari hér eftir en hingað til.

Dæmið, sem ég ætla að nefna, er að það var maður, sem er hér ekki langt frá, sem hafði orðið fyrir heimsókn af þessu dýri, þannig að það komst inn í hænsnahúsið og drap þar eitthvað á annan tug. Honum þótti þetta illt og ætlaði að koma í veg fyrir, að þetta endurtæki sig, svo að hann gekk frá húsinu svo vel sem hann gat að utan og tjaldaði að innan með nokkuð smáriðnu neti og áleit sig hafa gengið vei frá því. En nokkrum vikum síðar, þegar hann kemur í hænsnahúsið, liggja yfir 20 hænur dauðar. Hann fer að athuga, hvernig á því geti staðið, að minkur hafi getað komizt inn í húsið, því að auðséð var, að þar hafði slíkt dýr verið að verki. Öll samskeyti á netinu voru í lagi, en þegar betur er að gætt, er á einum stað á netinu uppi á vegg dragmöskvi, og var hann aðeins í þeim eina stað, og þar hafði dýrið troðið sér í gegn. Mér finnst þetta vera glöggt dæmi um það, hversu vel verður að gæta þessara fugla fyrir dýrinu, ef vel á að fara, þó að ekkert sérstakt óhapp komi fyrir, að dýrið ekki sleppi úr búri.

Ég hef kynnt mér dálítið yfir nokkur ár, hvað þessi dýr gefa af sér, en það er tala skinna og söluverð þeirra. Árið 1943 hafa verið seld nærri 14 þús. skinn og hafa fengizt fyrir þau um 840 þús. kr. til samans, sem seld voru úr landi, og meðalverð um 67 kr. á skinn. Áríð 1944 voru seld um 1700 skinn á 168 þús. kr., meðalverð 96 kr. Árið 1945 voru seld 9 þús. skinn á 1148 þús. kr., meðalverð 124 kr.

Árið 1946 voru 460 skinn seld á 640 þús. kr., meðalverð um 138 kr.

Fyrir síðastliðið ár var í haust komið til hagstofunnar, að 400 skinn væru seld á 32 þús. kr., 80 kr. meðalverð, en þessar tölur eru ekki ábyggilegar að því leyti, að það eru ekki lokatölur frá hagstofunni. Þetta er brúttóverð, og þarna dregst því frá kostnaður, og mér skilst á þessum tölum, að ekki sé um mikinn arð að ræða, enda bendir annað til þess líka, — að þeir sem þessa ræktun stunda, hafa farið fram á það að fá eftirgjöf á tollum og voru með erindi um það hér í þinginu að fá gefnar eftir 10 þús. kr., og nú hefur heimild í fjárl. verið sett í sama skyni. Það lítur því út fyrir, að þessi atvinnuvegur borgi sig ekki sérlega vel, þegar þá sem þessa atvinnu stunda, munar um að annast þessar lögboðnu greiðslur.

En hvernig er ástatt með það, sem í húfi er? Undanfarin ár hefur á hverju ári fengizt töluvert á þriðja þús. kg. af æðardúni, og eftir því verðmæti, sem hægt er að áætla eftir heildsöluverði æðardúnsins, þá mun sú upphæð vera frá 600–700 þús. kr. Þegar litið er því á, hvert tjón það er, sem þetta dýr mundi valda í æðarvarpi landsmanna, þá hefði ég haldið, að þar kæmi ekki svo lítil fjárupphæð, sem tapast vegna þessara dýra.

Þá koma og lax- og silungshlunnindin, sem ekki er vafi, að muni rýrna til mikilla muna af völdum villiminksins. Og það er ekki endilega víst, að þarna verði numið staðar hvað þetta tjón snertir, sem er þó alveg gefið, að þetta dýr veldur, ef ekki tekst að útrýma því.

Þá kemur til sauðfjárins, og sé ég nú, að hv. frsm. n. þykir nóg komið. (StgrSt: Ég er hissa á því, að það skuli ekki leggjast á mannfólkið.) Það má hamingjan vita, ég væri ekki óhultur með lítil börn úti um hagann, að minkurinn gerði þeim ekki mein. Það er síður en svo, en ég sé, að hv. frsm. n. leggur lítið upp úr því, að sauðfé stafi hætta af villiminknum. En ég skal þá nefna tvö dæmi, þar sem nokkurn veginn er alveg víst, að minkurinn hefur verið að verki. Það fannst lamb uppí í Biskupstungum þannig bitið, að það gat ekki verið eftir tófu, það var bitið ofan á hálsi. Hitt dæmið er úr Borgarfirði, þar sem bóndi á bæ þar sá lambið ásamt móður þess rétt fyrir utan túngarðinn, og var það vel frískt, en það leið ekki nema lítil stund frá því að bóndinn á bænum sá lambið með ánni og þar til hann lítur út aftur, og var þá lambið illa útleikið. Það var bitið, en ekki eins og þar hefði tófa verið að verki, því að það var bitið á sama hátt og hitt lambið, en þarna var að vísu í hvorugt skiptið minkur staðinn að verki, þó að miklar líkur séu til þess, enda mun hann halda sig þarna á næstu grösum. En ég skal þá benda á það, að í Noregi eru ekki lítil brögð að því, að minkur leggist á lömb, og ætli hann sé ekki eitthvað líkt innrættur hér eins og í Noregi? Það mun vera sama tegundin. Mundi hann spara það, ef hann gæti, að ráðast á lömb hér hjá okkur, úr því að hann gerir það annars staðar? (StgrSt: Hvaðan eru þessar upplýsingar?). Ég hef fengið þær úr góðri átt. (StgrSt: Ég óska eftir að fá að vita, hvaðan þær eru). Þessar upplýsingar gaf mér maður, sem er mjög fróður um þessa hluti. Hann sagði, að minkurinn mundi haga sér þannig sums staðar í Noregi. Og ég vil benda hv. frsm. á það, að Norðmenn hafa nýlega hækkað verðlaun fyrir að veiða villimink úr 130 kr. upp í 150 kr., og ég ætla, að ekki þurfi að fjölyrða um það, að þeir geri þetta ekki neitt að gamni sínu og ekki nema dýrið væri farið að valda miklum spjöllum hjá þeim. Ég veit til þess, að Svíar þykjast eiga í miklum erfiðleikum út af þeirri plágu, sem villiminkurinn er orðinn hjá þeim. En hvaða tegundir það eru, hefur mér ekki tekizt að fá upplýsingar um, 1947 er mér sagt, að hafi verið veidd um 801 dýr, og búið sé að greiða úr ríkissjóði á því ári 33100 kr. Það munu hafa verið greiddar 30 kr. fyrir yrðling, en 50 kr. fyrir fullorðið dýr.

Hv. landbn. hefur leitað álits nokkurra aðila um þetta mál, svo sem Loðdýraræktarfélags Íslands, loðdýraræktarráðunauts, tilraunaráðs búfjárræktar og Búnaðarfélags Íslands. Meiri hluti stjórnar Búnaðarfélags Íslands mælti með samþykkt þessa frv., en hinir aðilarnir gegn frv. Það var í sjálfu sér ekki óeðlilegt, að Loðdýraræktarfélagið vildi ekki fallast á þetta frv., en það var kannske ekki jafnsjálfsagt af loðdýraræktarráðunautnum að vera á móti því, sérstaklega þegar þess er gætt, að einmitt nú í nokkur ár, sem hann er búinn að starfa við þetta, hefur dýrið breiðzt út um landið og valdið meira og meira tjóni með hverju ári, sem líður. En um tilraunaráðið mun það vera svo, að nokkrir af þeim mönnum, sem í því eru, stunda þessa minkarækt. (StgrSt: Ég hygg, að það geri enginn þeirra). Eru þeir kannske hættir því núna? (StgrSt: Hverjir, vil ég spyrja?). Runólfur Sveinsson hefur gert það og jafnvel Pétur Gunnarsson. En hvað sem því liður, þá hafa þessir menn a. m. k. ekki orðið fyrir neinu tjóni af völdum þessara dýra.

Það er bréf, sem ég hef hér frá stjórn Loðdýraræktarfélagsins, ekki alveg nýlega skrifað, þar sem minkurinn er gerður að umtalsefni og hvers konar dýr hann sé. Þeir segja í þessu bréfi, að það sé mjög vafasamt að telja, að hann leggist á lax og silung. Ég ætla ekki að fara langt út í það. Það kemur einhvers staðar fram hjá þessum mönnum, að það mundi jafnvel aukast lax- og silungsveiði þar sem minkurinn væri. En þessi ummæli eru í öfuga átt við það, að við Elliðaárnar er reynt að útrýma honum vegna þess, hve hættulegur hann er veiði þar í ánum. — Svo er talið í þessu bréfi, að hann muni alls ekki ráðast á hænsni. Það er talið fjarri öllu lagi. Og einhvers staðar hef ég lesið, að þeir telji mjög fjarri lagi, að hann ráðist á aligæsir. En hann gerir það, og líka ræðst hann á aðrar gæsir, sem eru varari um sig en þær, og ég veit nú vel um það og ég gat um það við framsögu þessa máls. Og þá er talið í þessu bréfi, að minkurinn sé ekki hættulegur í æðarvörpum. Það er reyndar viðurkennt í þessu bréfi, að hann gæti nú sjálfsagt gert einhvern usla, ef hann kæmist í æðarvarp. En svo er sagt, að sem betur fari hagi þannig víða til, að hann komist ekki í vörpin. En það er náttúrlega barnaskapur einn að segja slíkt, að hann komist ekki í vörpin. Ég ætla nú ekki að eyða tíma í að rekja þetta bréf mjög. En það kemur fram í því mjög mikill barnaskapur, þar sem þar er þetta dýr talið allt öðruvísi í háttum sínum en það er. Og í fáfræðinni um það liggur kannske mest sú meinsemd, hvernig tekizt hefur til með þetta allt í sambandi við minkana.

Ég get ekki á það fallizt hjá hv. fram. landbn., að þó að Alþ. á sinni tíð hafi með löggjöf ekki bannað og máske gert mönnum auðvelt að hafa þessa dýrarækt, þá beri því skylda til að leyfa þessa dýrarækt áfram. Það er síður en svo sé, að Alþ. sé af þessu bundið. En eins og ég hef áður sagt, tel ég rétt að mönnum sé greitt fyrir dýrin um leið og þeir eru látnir hætta ræktun þeirra. Því að það er alls ekki af neinni hvöt til að gera þeim mönnum bölvun og fjárhagslegt tjón, sem þessa dýrarækt hafa stundað, að þetta frv. hefur verið borið fram. Aðalatriðið fyrir okkur flm. frv. er að vernda aðra menn fyrir stórkostlegu tjóni af völdum þessa dýrs og reyna með þeim ráðstöfunum, sem gera þarf, að uppræta villiminkinn í landinu og þá hættu, sem af honum stafar. Ég geri ákaflega lítið úr, að þessi hækkun á verðlaunum fyrir að drepa villiminka nægi til að útrýma þeim. Það er áreiðanlegt, að ef útrýma á villiminkunum, þá verða menn að leggja mikið af mörkum við útrýminguna, án þess að fá tekjur fyrir. Það er alveg rétt, sem hv. frsm. n. sagði, að það eru til hundar, sem eru góðir til minkaveiða, og þeir mundu sennilega verða einna bezta tækið við útrýmingu á þeim, ásamt öðrum ráðstöfunum, sem gera þarf. En til þess að menn, sem búa úti um byggðir landsins, hafi nú ekki annað að gera eða megi vera að því að iðka það eins og nokkurs konar sport að veiða villiminka, þá má eitthvað breytast hvað mannahald í sveitum snertir, frá því sem nú er. Hins vegar veit ég, að menn sem í sveitum búa og sjá, hvílíkt skaðræðisdýr þetta er, mundu leggja hart að sér til Þess að reyna að útrýma villiminkum, ef þeir ættu þá ekki á hættu að fá þennan stefnivarg yfir sig aftur úr minkabúum. Og þó að þetta kunni að vera annað minkaafbrigði, sem nú er komið til landsins, heldur en það afbrigði, sem fyrst var flutt inn, þá mun þetta afbrigði hafa sömu eiginleika og nákvæmlega sömu eðlishætti og minkarnir, sem fyrst voru fluttir inn.

Ég vil nú vona, að hv. þd. láti sig ekki henda það að eyðileggja þetta frv. okkar hv. þm. Borgf. Því að þessi breyt., sem hv. landbn. vill gera á því, veldur því, að frv. okkar er að aðalkjarnanum til úr sögunni. Og önnur ákvæði frv., sem hv. landbn. leggur til, að samþ. verði með samþykkt frv., yrðu heldur lítils virði upp á það, að verulega yrði hafizt handa um útrýmingu villiminka, ef ekkert er meira að gert, það er ég alveg sannfærður um. Ég vildi því mega vænta þess, að hv. d. felldi þessar brtt., en samþ. frv. okkar við þessa umr. Og þá mætti við 3. umr. bæta inn í frv. ákvæði um að bæta mönnum það tjón, sem þeir yrðu fyrir, ef minkaeldi yrði bannað, og gera þá frekari ráðstafanir viðvíkjandi útrýmingu minkanna í sambandi við það. Því að það mun sýna sig, ef brtt n. verður samþ., að það út af fyrir sig, sem með því móti fælist í l., ef frv. yrði samþ. þannig, hefði lítið að segja til útrýmingar villiminkum.