26.02.1948
Neðri deild: 64. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2474)

93. mál, útrýming villiminka

Pétur Ottesen:

Hv. 1. þm. Árn. (JörB), sem er jafnframt 1. flm. þessa frv., hefur nú gert grein fyrir þessu máli og reifað þetta frv. við 1. umr. og auk þess gert grein fyrir afstöðu okkar til brtt. landbn., sem m. a. felur það í sér, sem við álitum kjarna málsins, að leggja niður minkaeldi í landinu. Þetta byggist á þeirri almennu skoðun, að meðan haldið verði áfram eldi minka í búrum, þá sé vonlítið eða algerlega vonlaust, að létt verði af okkur þeim ófögnuði, sem miklum hluta af lifandi náttúru landsins stafar nú hin mesta hætta af. Við lítum enn fremur svo á að litlu sé offrað af alþjóðarhagsmunum, þótt tekið verði fyrir minkaeldi í landinu, því að eins og hv. 1. flm. frv. hefur gert hér glögga grein fyrir, eru nú hér í eldi um 5000 kvikindi þessarar tegundar og samkvæmt því, sem vitað er um þann arð, sem af þeim er, þá veltur á litlu um þjóðarafkomuna, hvort þessari atvinnugrein er haldið við eða ekki. Hitt hefur reynslan sýnt. að afleiðingarnar af því að flytja þessi dýr inn í landið ógna okkur blátt áfram, bæði á sviðum, sem hafa fjárhagslega þýðingu, og í ýmsu því, sem bæði veitir fegurð og unað og ekki er hægt að meta til fjár — auk þess sem atvinnugreinum eins og t. d. dúntekju stafar geysimikil hætta af þessum vargi. Í því sambandi má enn fremur nefna það til, að á tímabili höfðu bændur í uppsveitum allverulegar tekjur af rjúpnaveiðum. Úr því hefur að vísu nokkuð dregið hin síðari ár og verður alltaf mismunandi frá ári til árs, en það er alveg vitanlegt. að sá tekjustofn á enga framtíð fyrir sér, ef minkaplágan verður áfram slík sem nú er, hvað þá heldur, ef hún á fyrir sér að aukast, eins og allar líkur benda til, ef ekki verður stemmd á að ósi og tekið gersamlega fyrir allt minkaeldi í landinu.

Reynslan mun sýna, að ekki er hægt að vekja trú á því meðal almennings, að herferð móti minkunum beri árangur nema því aðeins, að tekið sé fyrir minkaeldi með öllu. Hún hefur þegar sýnt, að minkar sleppa úr haldi og halda vafalaust áfram að gera það, þótt mismunandi brögð verði að því frá ári til árs. Þar kemur margt til greina annað en beinn trassaskapur minkaeigenda. Til dæmis hefur reynslan sýnt, að fárviðri og mikil snjóalög hafa eyðilagt girðingarnar og dýrin þannig sloppið, svo að vanrækslu einni er ekki um það að kenna, að þau leika lausum hala nú um byggðir þessa lands. Þetta hefur ágerzt mjög hin síðari ár, t. d. frá því ég fyrir fjórum árum flutti frv. svipað þessu. Þá var farið að bera allmikið á þessari plágu, en þó ekki neitt svipað því sem nú er.

Sá ótti, sem mönnum stafar af þessu úti um hinar víðu byggðir landsins, virðist þó ekki hafa okað því, að sú n., sem hefur haft þetta mál til meðferðar — og hefur enn — hafi dregið af því þá lærdóma, sem vonazt var til. Árið 1943 fékk frv. ekki góðan byr í landbn., og lagði meiri hluti á móti því. Þó var einn maður í n. þá. sem studdi frv. öfluglega, enda þótt við yrðum að lúta í lægra haldi. Nú virðist það, sem gerzt hefur síðan, verka alveg öfugt á þennan hv. þm. við það, sem búast mátti við, því að hann hefur gengið í lið með þeim, sem eru á móti því að gera þær ráðstafanir, sem þarf til að stemma á að ósi. Ef minkaeldi hefði ekki verið tekið hér upp, værum við lausir við þessa plágu, og satt að segja höfðum við nóg af plágum fyrir, sem hafa skapað okkur mikla erfiðleika, þótt þessi kæmi ekki þar til viðbótar.

Ég vil í sambandi við það, sem notað hefur verið af hv. n. sem rök gegn samþykkt þessa frv., segja nokkur orð. En rökin eru þau, að nú sé svo vel frá búrunum gengið, að engin hætta sé á því, að dýrin sleppi og því sé ástæðulaust að gera þær ráðstafanir, sem felast í frv. Það er nú um þetta að segja, að þeir sem þekkja hætti þessara dýra, m. a. í því að komast inn í hænsnabú og vita, hve torvelt er að búa svo um þær byggingar, að þau komist þar ekki inn, hljóta að ugga mjög um, að ekki sé heldur öruggt, að svo verði girt fyrir minkana, sem leita frelsisins af náttúruhvöt, að þeim verði haldið. Í þessu efni er reynslan ólygnust. En hið sama er og upp á teningnum hjá vísindamönnum á þessu sviði, sem hafa kynnt sér hætti þessara dýra annars staðar. Þeir telja. að engan veginn verði svo búið um þessi dýr, að öruggt sé. Og á meðan svo er, að haldið er áfram minkaeldi hér í ótryggum girðingum og dýrin halda áfram að sleppa, þá er minkaplágunni haldið við, hvað sem allri útrýmingarstarfsemi líður, og þeir halda áfram að njóta frelsisins úti í náttúrunni með þeim margháttuðu lífsskilyrðum, sem hún hefur að bjóða.

Ég vil í því sambandi benda á, hvað hinn glöggi náttúrufræðingur, Guðmundur Bárðarson, sagði um þetta á sínum tíma, eftir að hafa kynnt sér mjög rækilega, hvernig til hagar um þetta annars staðar. Ég þarf ekki að lýsa því, að hann hafði getið sér mikinn orðstír sem framúrskarandi athugull náttúrufræðingur og bæði vakið athygli á þessum hæfileikum sínum hér heima og einnig í nágrannalöndunum í gegnum skrif sín, sem birtust víðs vegar í náttúrufræðiritum. Hann segir um þetta atriði, og máske vill hv. landbn. leggja eyrun við, og æskilegt væri, að hv. atvmrh. hefði líka tækifæri til að fylgjast nokkuð með umr. um þetta mál og m. a. því. sem ég kann að segja um ræðu hans fyrir tveimur dögum. Hann er ekki hér í d., og máske hefur hann ekki tækifæri til þess, og verður þá að hafa það, þó að það skaði, að hann skuli ekki geta verið við. Það er alkunnugt, að Guðmundur Bárðarson varaði ákaflega og eindregið við því, að minkaeldi væri tekið upp hér á landi, því að hann taldi vonlaust, að hægt yrði að halda dýrunum örugglega innan girðinga, og það hefur reynslan staðfest eftirminnilega. Ég get hér um tvö atriði, sem tekin eru úr grein hans, sem hann skrifaði um minkinn. Þar segir m. a.:

„Það er engin leið að hafa svo öruggt eftirlit með vörzlum minkanna á mörgum uppeldisstöðvum, að eigi geti út af borið.“ Reynslan hefur sýnt átakanlega, að þetta er rétt. Í öðru lagi segir Guðmundur :

„Ég tel það mjög misráðið að leyfa að flytja hingað slík dýr sem þessi af marðarættinni. Væri hyggilegast að banna allan innflutning á sundmörðum, en hafa þann stofn, sem þegar er kominn hingað, í strangri gæzlu, þangað til hann verður upprættur, og þyrfti það að verða sem fyrst.“

Þetta eru nú aðvörunarorð þess lærða og athugula náttúrufræðings, sem gert hafði sér sérstakt far um að kynna sér hætti þessara dýra af því, að minkarækt hafði verið tekin upp hér. Og þegar reynslan hefur sýnt réttmæti þessara orða, er harla einkennilegt, að ekki skuli vera hægt að koma fram hér á Alþ. alveg nauðsynlegum ráðstöfunum til þjóðþrifa, til að draga úr og helzt að útrýma plágunni.

Ég get ekki gert mikið úr því, sem mjög er vikið að í nál., að reynslan af þeim villiminkum, sem unnir hafa verið á undanförnum árum, sýni og sanni, að þeir séu allir af þeirri tegund, sem fyrst var flutt til landsins, og af því megi draga þá ályktun, að nú sé farið að búa svo örugglega um minkabúrin, að dýrin séu hætt að sleppa út á síðustu árum. Ég get ekki lagt mikið upp úr þessu því að ég held, að þó að loðdýraræktarráðunautur sé allur af vilja gerður, þá hafi hann mjög lélega aðstöðu til að dæma um þetta. Til þess hefði hann þurft að skoða öll dýrin, sem unnin hafa verið, en hann hefur ekki getað skoðað þau öll. Ég held, að hann hafi ekki komizt í náið samband við mörg af þeim hræjum. sem unnin hafa verið um land allt. Þessu hefur ekki verið haldið til haga að öðru leyti en því, að þegar dýrin hafa verið unnin á þeim tíma, þegar skinnin eru nothæf, þá hafa skinnin verið tekin og þeim komið í verð. Þess vegna hafa öll slík dýr farið fram hjá honum. Í öðrum tilfellum hefur ekki þurft að sýna önnur sönnunargögn en skottin, sem munu afhent oddvitum og tekin af þeim sem næg sönnunargögn. Hefur og gengið á ýmsu um varðveizlu skottanna. Þau eru daunill, þegar þau hafa ekki verið verkuð sem bezt, og býst ég við, að oddvitar séu ekki geymnir á þau, en séu teknir trúanlegir um tölu þeirra. En ef skottin eru send til Rvíkur, hver vill þá ábyrgjast eftir dúk og disk, þegar skottin eru orðin þvæld og rotin, að þau séu óyggjandi sannanir fyrir því, hvaða afbrigði minka sé um að ræða. Ég held því, að þetta sé fyrirsláttur einn með tegundina, sem ekki hafi við nein raunhæf rök að styðjast og sanni því ekki neitt. Í fyrsta lagi eru skinnin seld, þegar það er hægt, en ekki send loðdýraræktarráðunautnum, og í öðru lagi eru skottin lítil sönnun fyrir kynferði og afbrigði. Ég held því, að þessar ástæður sem færðar hafa verið móti frv., hrynji um sig sjálfar. Þær geta engan veginn slegið því föstu, að dýr hafi ekki sloppið úr búrum að undanförnu eins og í upphafi. Ég sé ekki annað en þeir, sem byggja andstöðu sína gegn 1. gr. frv. á þessum forsendum, séu algerlega afvopnaðir, hvort sem þeir ætla að láta sér segjast við það eða þeir ætla að berja höfðinu við steininn. Því að það leiðir af sjálfu sér, að ef þeim er alvara með að afstýra þessari plágu, þá verður að banna allt minkaeldi, því að það er undirstaðan undir því, að nokkurs megi vænta af þeirri herferð gegn villiminkunum, sem þeir vilja þó hefja. Að öðrum kosti er hún unnin fyrir gýg. Ég vil gjarna minnast á það, sem kemur fram í breytingum n. um útrýmingu villiminkanna. Það er ástæða til þess út af fyrir sig að fagna því, að n. vill leggja í herferð gegn þeim minkum, sem lifa frjálsir í náttúrunni, þó að það sé, eins og ég hef lýst, engan veginn einhlítt. Eða hvaða yfirburði hafa brtt. n. fram yfir frv. og það, sem nú er gert í þessum efnum? Í frv. okkar hv. 1. þm. Árn. er kveðið svo á í 3. gr., að ráðh. setji reglugerð um framkvæmd l., svo sem um eftirlit með eyðingu aliminka samkvæmt 1. gr. og um það, hverra sannana beri að krefjast fyrir drápi villiminka, til þess að verðlaun megi veita. Í reglugerð skulu enn fremur sett ákvæði um viðurlög fyrir brot gegn 1. gr., þar á meðal um upptöku dýrastofns og búra, og skulu mál út af brotum sæta meðferð opinberra mála. En ef við berum 2. gr. samkv. brtt. n. saman við það, sem nú er gert. hver er þá munurinn? Ég vil segja hæstv. atvmrh. það til hróss, að hann hefur tekið sig fram um að gera ráðstafanir til að gera árás á þennan ófögnuð, þar sem hann er frjáls úti í náttúrunni, og af því að hæstv. ráðh. er nú kominn hér í d., en hlustaði ekki á fyrri hluta ræðu minnar, sem ég sé enga ástæðu til að fara að endurtaka, þá vil ég aðeins segja það, að við flm. teljum alveg vonlaust um, að ráðið verði niðurlögum minksins þar, sem hann lifir frjáls, nema minkaeldi verði með öllu bannað.

Þá er að bera þetta saman við það, sem hæstv. ráðh. hefur talið sér fært að gera nú. Það er tekið upp að greidd verði 60 kr. verðlaun fyrir hvert unnið dýr, og er kveðið svo á að loðdýraræktarráðunautur skuli vera höfuðsmaður þessarar herferðar samkvæmt till. n. Það sem á milli ber er, að hreppsn. eiga eingöngu að hafa útrýminguna með höndum í framkvæmd. En landbn. og atvmrh. hafa hvorki farið fram á það við Alþ. að fá aukið vald eða betri aðstöðu í þessum efnum, en af því að ég veit, að hæstv. ráðh. hefur áhuga á eyðingu þeirra dýra. sem lifa frjáls, þá tel ég, að hann mundi hafa farið fram á það vald, ef hann teldi sig ekki hafa það. Hann virðist gera ráð fyrir, að allt sé hægt að gera, sem n. gerir ráð fyrir, en ég hef enga trú á, að það sé hægt meðan gengið er á snið við ráðstafanir 1. gr. Ég vil taka fram, að það sem n. vill gera, bætir ekki fyrir þá höfuðsynd hennar að vilja ekki taka fyrir minkaeldið og það nær ekki tilgangi sínum, þó að það geti e. t. v. dregið úr mestu plágunni á stöku stað. En sú leið er eftir sem áður opin, að meira eða minna sáldrist út af dýrum þessum og því óskiljanlegri er þessi afstaða landbn. og ráðh., þegar athugað er, hve litlu þarf að offra til að fá grundvöll til að standa á og létta af plágunni. Það eru ein 5000 dýr, sem verið er að verja, það er nú allt og sumt. Sá stofn getur að vísu vaxið, en honum getur líka hrakað frá því sem nú er. Ég skil því ekkert í þessari afstöðu.

Hv. 1. þm. Árn. minntist á eitt, sem sýnir ákaflega vel veika aðstöðu þeirra, sem verja minkaeldið, og það er það, að minkaeigendur hafa kropið ár eftir ár fyrir Alþ. og beðið um að fá afnuminn toll á þessum dýrum á þeim grundvelli, að framleiðslan þyldi ekki að greiða hann. Þetta sýnir vel, hve arðvænlegan atvinnuveg hér er um að ræða. Og ég vil í sambandi við aðra plágu, fjárpestirnar, minna á að nú hefur verið algerlega tekið fyrir þann innflutning. Það var talið nauðsynlegt, ekki aðeins að hætta við að geyma féð í girðingum í landi og ekki að geyma það innan steinveggja í landi, heldur geyma það í eyðiey. Það eitt var talið öruggt, og það í eyðiey svo langt frá landi, að engin tök væru á, að skepnurnar gætu synt í land. Og við skulum þar að auki bera saman fimi sauðkindarinnar og fimi minksins, og þegar það er athugað og hitt, að engin geymsla í landi er talin örugg fyrir búfé, þá sjá allir, hvílíkt regindjúp er staðfest milli þessara ráðstafana. Ég skil sannast að segja ekkert í því, að sama n., sem á sama þingi gerir fyrrgreindar ráðstafanir gagnvart sauðfé, skuli þrjózkast við að banna minkaeldi í landi. Í þessu er hrópandi ósamræmi, og er undarlegt að slíkt skuli koma fyrir á Alþ., sem á að vera valinn hluti þjóðarinnar. Annað atriði er það, sem er vægast sagt einkennilegt fyrirbrigði, að n., sem leggur fram viturlegar till. í flestum eða öllum málum nema þessu, skuli berja höfðinu svo við steininn sem raun ber vitni.

N. hefur leitað álits ýmissa aðila utan þings, og er ekkert við því að segja út af fyrir sig. Það stendur hér í nál., að hún hafi leitað umsagnar Loðdýraræktarfélags Íslands, loðdýraræktarráðunauts, tilraunaráðs búfjárræktar og Búnaðarfélags Íslands. Það má teljast eðlilegt, að leitað hafi verið álits aðalstofnunar landbúnaðarins í landinu. Búnaðarfélags íslands, enda hefur það skipazt svo, að meiri hluti stjórnar þess leggur til, að frv. okkar verði samþ. Það var nú fyrirfram vitað um álit loðdýraræktarráðunauts, en þó var rétt að leita þess formlega og hefur reynslan orðið létt á metunum hjá honum. En hvað er þá um Loðdýraræktarfélagið? Jú, það má vel vera, að rétt hafi verið að leita álits þess. Og hvaða sérstöðu hefur tilraunaráð búfjárræktar í þessu máli? Ég get ekki verið að nefna minkinn búfé. (Menntmrh.: Er hann það ekki?). Ja, þarf hæstv. menntmrh. að bera fram svona spurningu? Mér dettur ekki í hug að líta þannig á. (StgrSt: Víst er hann það.)

Ég vil þá taka upp aðrar hliðar á þessu máli og minna á það, að n. hefur ekki dottið í hug að fara út fyrir Rvík um álit á þessu. Náttúrlega má segja, að farið hafi verið út fyrir Rvík í einu tilfelli en það er, þegar leitað er til Búnaðarfélags Íslands. því að allir stjórnarnefndarmenn Búnaðarfélags Íslands eiga heimili utan Rvíkur, þó að þeir eigi heima í næsta nágrenni Rvíkur. En það vill svo til, að stjórnarnefndarmenn Búnaðarfélagsins, sem heima eiga utan Rvíkur og í næsta nágrenni, leggja eindregið til, að frv. verði samþ. Allir hinir aðilarnir, sem spurðir hafa verið, leggjast á móti því, enda eru sumir þeirra beinir þátttakendur í minkaeldi. Ég nefndi hér nafn eins manns, sem frsm. vildi mæla gegn, að væri minkaeigandi. Ég dró þá ályktun af því, að hann er félagi þeirra manna, sem hafa ritað Alþ. út af þessu. M. ö. o., landbn. hugkvæmdist ekki eða taldi ekki þörf að leita álits annarra en þeirra, sem búsettir eru í Rvík, að undanteknu því, sem ég talaði um stjórnarnefndarmenn Búnaðarfélags Íslands. Það er þó sannarlega í Rvík, sem minnst hætta er á því, að minkarnir geri usla, þó að það hafi komið fyrir í einu tilfelli, að minkur hafi komizt inn á Hótel Borg. Af því varð mikið uppistand. Væri þó ef til vill minni hætta á því, að minkar gerðust hættulegir á veitingahúsi, og er trúlegra að það lægi þá næst í samkvæmislífinu að krefjast þess, að minkarnir væru samkvæmishæfir. Þeir ættu að geta orðið það með tímanum. Mér þykir það undarlegt, að úr því að n. leitaði út fyrir Alþ., skyldi hún ekki leita til annarra aðila en búsettra í Rvík. (StgrSt: Hvers vegna þá það?). Minn málstaður þolir það vel, að gripið sé fram í fyrir mér, og er ég tilbúinn að taka við því.

Ég benti á það áðan, að afstaða landbn. væri í þessu máli alveg í hróplegri mótsögn við það, hvernig hún hafði hagað sér í sams konar tilfelli í öðru máli. Það var annað mál, sem n. þótti ástæða til að senda út fyrir Alþ. og sendi til umsagnar búnaðarsambandanna úti á landi, og það sama hefði verið eðlilegt að gera í þessu máli, því að það er úti á landi, sem hætta stafar af minkafaraldrinum. Þess vegna er einmitt ástæða til að leita álits manna úti um hina dreifðu byggðir landsins og til fyrirsvars væru að sjálfsögðu búnaðarsamböndin. Álits þeirra hefur ekki verið leitað, og við skyldum bara sjá, ef þetta hefði verið gert, hvort svörin hefðu ekki verið nokkuð lík og hjá dreifbýlismönnunum, sem stjórna Búnaðarfélagi Íslands. Það þurfti að fá svör utan af landsbyggðinni um þetta mál. Það hefur ekki verið gert, og þess vegna er ekki hægt að leggja neitt upp úr þessum svörum á þá lund, að bak við þau liggi almannavilji eða vilji þeirra manna, sem eru í varnarstöðu gagnvart þessari minkaplágu.

Ég ætla ekki út í það að lýsa því, hvílíkur voði hér er fyrir dyrum. Hv. 1. þm. Árn. (JörB) gerði þetta rækilega. Hér er um mikla tortímingu að ræða. Fuglalíf hefur látið mikið á sjá á þeim stöðum, þar sem minkaplágan er, og stefnir víða til eyðingar á fuglum, bæði þeim, sem dvelja hér árlangt, og þeim sem dvelja hér sumarlangt, og ætli okkur þætti ekki tjón að því að hafa misst af þeim unaði og þeim nytjum, sem við höfum af fuglalífinu? Það eru líka æðimiklar dúntekjur, sem eru í voða. Ég vildi að nm. hefðu getað komið í litla hólmann minn, þá hefðu þeir getað séð æðarkollurnar, sem minkarnir voru búnir að draga í hauga, og hreiðrin auð. Krían er harðger fugl, en einnig hún er að láta undan síga fyrir minknum.

Ætli mönnum bregði ekki við, þegar þeir sjá, að fiskistofninn í ám og vötnum fer að minnka einmitt á þeim tíma, þegar verið er að gera ár landsins miklu verðmeiri en áður var með skynsamlegri löggjöf. Einmitt þegar verið er að gera náttúrugæði landsins verðmeiri fyrir þjóðina, samtímis því sem verið er að friða vötnin og auka fiskstofninn, þá eyðir minkurinn því, sem verið er að vinna upp.

Ég vil nefna Mývatnssveitina, þar sem sveitafólkið hefur haldið mestri tryggð við byggð sína. Ætli það yrði ekki dálítið erfitt fyrir þetta fólk, ef frá því yrði tekið það bjargræði, sem felst í fiskveiðum í Mývatni, og það bjargræði, sem leiðir af andavarpinu við Mývatn. En þetta hvort tveggja liggur fyrir eyðileggingu, ef minkaplágan verður ekki stöðvuð. Ég tek þetta sem dæmi, en það er líka Þingvallavatn og fleiri vötn, sem eru mikill liður í lífi og afkomu þessarar þjóðar, en gegn þessari sjálfsbjargarviðleitni og þessari hagnýtingu er unnið með hinni vaxandi minkaplágu.

Ég sé nú, að hæstv. landbrh. hefur brostið þolinmæðina, en nú er ég einmitt kominn að þeim hluta ræðu minnar, sem ég vildi beina að honum, en hann er ekki hér við, og gæti ég þá minnzt á annað á meðan.

Hv. frsm. landbn. (StgrSt) var að segja, að ef til vill gæti orðið sport úr þessum minkaveiðum. Það er margt á þessu landi, sem má tileinka sporti, en ég vil segja það, að þetta verður dýrt sport, og ég held, að við ættum að gera allar hugsanlegar ráðstafanir til að víkja frá þeim beiska kaleik að gera minkaveiðar að sporti í landinu.

Hv. frsm. (StgrSt) var að tala um það, hverjir væru sekir í þessu efni, og að þeir, sem væru sekir, ættu að greiða kostnað þann, sem af því leiðir að útrýma minkunum. Já. hverjir eru sekir? Það er sagt, að sá valdi mestu, sem upphafinu veldur. Og hverjum er það að kenna, að tekið var upp minkaeldi í þessu landi? Er það ekki Alþ. að kenna, að slíkt skuli hafa verið leyft? Það var Alþ., sem leyfði þetta, þrátt fyrir þá viðvörun, sem ég hef hér bent á. Svo að það má segja, að jafnframt því, sem sektin liggi hjá þeim, sem hleyptu dýrunum út, þá sé höfuðsektin fólgin í því að hafa nokkurn tíma leyft þetta minkaeldi í landinu. Það er þess vegna fyrst og fremst Alþingis að taka á sig ábyrgðina af þessari sekt og gera það með því að kveða niður þennan ófögnuð og með því að samþykkja frv. okkar 1. þm. Árn. (JörB), — ef ekki eins og það liggur fyrir, þá með einhverjum umbótum.

Við gætum líka talað um það, hverjir eru sekir í sambandi við innflutninga á sauðfjársjúkdómum. Hver er sekur þar? Ætli það megi ekki líka færa það á reikning Alþingis, að það hafi ekki verið nógu varasamt gagnvart þessum hlutum. Alþingi hafði líka góðar leiðbeiningar í þessum hlutum, meðan Magnúsar Einarssonar dýralæknis naut við, því hann sparaði ekki að benda á það, að erlendir stofnar gætu flutt með sér sjúkdóma til landsins. Svo vitum við, að það þýðir ekki að tala um sekt við einstaklinga, af því að þeir hafa ekki bolmagn til að standa undir þeirri sekt. Tjónið af því er svo miklu meira en svo, að þeir séu borgunarmenn fyrir því. Þess vegna þýðir ekki að tala um bætur, hvorki við seka né saklausa. Þetta verður að ganga út yfir alþjóð. Og það verður að vera frá þeim almannasjóði, sem til þess var ætlaður, jafnframt því sem við verðum að byggja á áhuga, dugnaði og framtaki þeirra einstaklinga, sem hér eiga hlut að máli. En við verðum líka að leggja málin þannig fyrir þessa einstaklinga. að þeir geti unnið að þeim, og það verður ekki gert nema reynt sé að vinna gegn þeim plágum, sem hafa heimsótt okkur.

Hæstv. ráðh. (BÁ) er ekki kominn í sjónmál enn þá, og af því mig langaði að tala nokkur orð við hann, verð ég að gera það.

Mér þótti ákaflega einkennileg rökfærsla koma fram hjá hæstv. landbrh. í ræðu, sem hann flutti hér, þegar hann var að gera grein fyrir afstöðu sinni. Hann vildi ekki banna minkaeldi, heldur vildi hann snúa sér að því að eyðileggja alla villta minka, en svo vildi hann, að ef það tækist að ganga milli bols og höfuðs á þessum villtu minkum, þá yrði farið að drepa í búrunum. Þetta er einkennileg rökfærsla hjá hæstv. ráðh. Hann vill ganga út frá því, að hægt sé að halda þeim inni, en þó vill hann láta fara í að drepa þá niður. Felur þetta ekki í sér yfirlýsingu um, að ekki sé hægt að búa svo um minkana, að öruggt sé? Annars er þetta meiningarlaust hjá hæstv. ráðh. (StgrSt: Þetta er slitið úr samhengi). Nei, þetta er ekki slitið úr samhengi. Ég skrifaði þetta eftir honum. Hv. frsm. þarf ekki að smeygja sér inn í þetta. Það er nóg sem okkur fer á milli.

Hv. frsm. (StgrSt) vildi gera lítið úr því, sem hv. 1. þm. Árn. (JörB) hélt hér fram, að við hefðum fregnir um. að lömbum væri ekki óhætt fyrir minkinum. Hann benti á dæmi úr Borgarfirði og hafði þetta úr bréfi til mín frá fyrrverandi oddvita Hálsahrepps, sem er mjög skýr og glöggur maður og fer ekki með neitt fleipur. Hann hefur á þessu fullan grun. Hv. frsm. (StgrSt) sagði, að þetta gæti átt sér stað um eitt lamb eða svo. En ef minkur drepur eitt lamb, ætli hann gæti þá ekki drepið fleiri? Og það er vitað, að hann drepur fleiri. Ég hef umsögn um það frá góðum bónda sunnan af Vatnsleysuströnd, að þar hafi hann drepin t lömb. Við skulum athuga, að enn hagar svo til, að hann hefur nóg æti. Það er enn þá mikið eftir af fuglum og fiskseiðum, en það getur vel rekið að því, að þessi magafylli hans fari þverrandi og það skal enginn halda, að minkurinn hætti við bráð sína, þótt hann þurfi eitthvað meira fyrir henni að hafa en þegar hann er að fanga fugla og fiskseiði. Hvað segir Guðmundur Bárðarson um þetta í viðvörunarskjali sínu til Alþ.? Hann segir:

„Einnig er hætt við, að unglömbum stafaði hætta af sundmörðunum, og mundi þá fjármönnum reynast miklu örðugra að verja unglömbin fyrir þeim en tófunum. Það er kunnugt um hreysikettina, náfrændur sundmarðanna, að þeir ráðast oft á miklu stærri dýr en þeir eru sjálfir, halda sér þar föstum, bíta á hálsæðarnar og drekka blóð þeirra, unz þau hníga í valinn á flóttanum.“

Já, við skulum bara ekkert gera lítið úr þessari hættu, sem þarna er, og það er miklu betra og hyggilegra að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessu efni en að bíða þess, að miklu meira tjón hljótist af. Ætli við mundum ekki hrósa happi núna, ef við hefðum verið fyrr á verði gagnvart sauðfjársjúkdómunum? Ég er jafnvel fær um það og hv. frsm. að segja, hvílík plága sauðfjársjúkdómarnir hafa verið þessu landi, hvaða ráðstafanir er hægt að gera og hvað skammt er hægt að komast með þeim fjárframlögum, sem til þess hafa farið. Stynja ekki sveitirnar undir þessari plágu, þrátt fyrir þær milljónir, sem í þetta hafa farið úr ríkissjóði? Já, við ættum að vita þetta, sem fyrir stríð áttum allgott fjarbú, en erum nú að berjast fyrir fáeinum helsjúkum sauðkindum. (StgrSt: Er það líka minkunum að kenna?). Ónei, ég tek þetta sem dæmi. Ég veit, að það er ekki af vitsmunaskorti, að frsm. er að reyna að slá slíku fram, en hann heldur, að með þessu geti hann ruglað rökin fyrir mér. En af því að þetta hefur lent meira á mér en honum, kann ég að vera viðkvæmari fyrir því en hann. Ég hafði að vísu ekki miklar tekjur af þessum varphólma mínum, en mikla unun hefur hann fært mér og mínu heimili, sem nú er afnumin, og ég met það til allmikils fjár.

Hv. frsm. var að beita hv. 1. þm. Árn. (JörB) sömu brögðum og mig, að grípa fram í fyrir honum. Hann minntist á álftir. Ég skal benda á það, að hæstv. atvmrh. flutti hér frv. um það að ófriða álftirnar, með tilliti til þess, að þær hefðu skemmt í sínu kjördæmi og víðar. Ég skal ekki bera þetta saman. Ég var ekki þátttakandi í þessu, en ég get minnt á það líka, úr því að farið var að draga það inn í umr.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en mér hefur sannarlega þótt þetta mál þess vert að leggja það á mig að segja hér nokkur orð um það. Mér er fyrir löngu ljóst, hver hætta er hér á ferðum í sambandi við þetta mál, eins og mér er það ljóst, að það verður ekki með úrslitaárangri gengið að þessu máli á öðrum grundvelli en þeim, að það tvennt verði gert, sem í frv. okkar felst: Að banna með öllu minkaeldi í landinu og koma í veg fyrir, að minkurinn breiðist út villtur úr þeim búrum, sem hann er geymdur í og svo hitt, að ganga til verks um það að gera hreinsun og reyna að veita af sér þessari geigvænlegu plágu. Og ég vildi nú mega vona það, að þrátt fyrir andstöðu n. mætti það takast að ganga þannig frá þessum málum. Náttúrlega væri langæskilegast, að samkomulag gæti tekizt milli okkar flm. og n. um þetta mál, þrátt fyrir að það er komið á þetta stig. Hv. frsm. var að bjóða upp á samkomulag í því efni, og það stendur vitanlega ekki á okkur flm. frv. En það samkomulag hlýtur vitanlega að verða háð því af okkar hálfu, að það, sem er aðalatriðið í þessu máli til öruggs árangurs, sé ekki skert, og okkur þætti mjög vænt um, að umr. gætu tekizt upp á ný, og hefði það kannske mátt vera fyrr en hér í d., að við hefðum rætt um þetta saman. En hv. n. hefur aldrei kvakað til okkar til viðræðna við sig um þetta mál. Það er fyrst eftir að það er komið inn í d., sem hv. frsm. hefur boðið upp á samtöl í sambandi við þetta mál, og þau eru fullkomlega til reiðu af okkar hálfu.