27.02.1948
Neðri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (2479)

93. mál, útrýming villiminka

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það er nú búið að ræða allmikið og ýtarlega um þetta mál hér í hv. þd., en hvað málsatriði snertir hefur lítið á því græðzt. Ekki hefur heldur neitt nýtt fram komið í ræðum þeirra manna úr hv. landbn., sem látið hafa til sín heyra, og ekki hafa þeir heldur viljað taka minnsta tillit til ástæðna okkar flm. frv. fyrir því, að við höfum flutt mál þetta. Þeir telja þó, að með till. sínum séu þeir að flytja ákvæði, sem herði á útrýmingu villiminka, og mér skilst á till. þeirra, að lengra telji þeir ekki komizt í því að draga úr minkaplágunni. Af ræðum þeirra nm., sem talað hafa, má álykta, að þeir hafi enga trú á því, að mögulegt sé að útrýma mink, og telja lítils virði að gera ráðstafanir til þess, að minkahald verði bannað í landinu. Þetta og þvílíkt hefur verið fært fram sem rök af hálfu þeirra manna, sem sæti eiga í landbn. og hafa unnið að því að auka og varðveita hlunnindi landsmanna með ýmsu móti, og ættu þeir að vita, í hverju hlunnindi landsmanna eru fólgin. Reynt er eftir fremsta megni að auka lax- og silungsgöngur í ám og vötnum með ýmsum ráðum og dáðum, og nú nýlega er verið að undirbúa ráðstafanir til þess að auka æðarvarpið í landinu. En villiminkurinn og þessar nytjar, sem ég nefndi, fara ekki saman, ef minkurinn fær að ráða. Það er til lítils að ræða þetta mál með slíkum rökum. Þetta eru hrein hindurvitni.

Ég ætla, að það hafi verið þrír þm. í sætum fyrir utan forseta nýlega. Og þó að stólarnir kunni að vera haldnir einhverri kynngigáfu frá þeim, sem í þeim eiga að sitja, þá efast ég um, að sá kraftur hafi mikil áhrif á þá, sem eiga að húka í stólunum. En ég ætla þó upp á seinni tímann, þó að það nái ekki eyrum þm., að fara nokkrum orðum um það, sem fram hefur komið í málinu.

Ég vík þá örfáum orðum að ræðu hv. þm. A-Húnv. Ég varð fyrir hinum mestu vonbrigðum af honum í þessu máli. Þegar það var borið hér fram árið 1943, stóð hann eins og hetja með málinu og vildi uppræta villiminkinn og banna eldi aliminka. Nú hefur skaðræði villiminkanna sýnt sig enn ljósar, þeim hefur fjölgað afar mikið og það, sem menn trúðu ekki árið 1943, að þessi dýr væru skaðræði fyrir fiska- og fuglalíf, hefur nú komið enn berlegar í ljós, svo að ætla mætti, að þeir, sem ekki voru langt frá því að hallast að því að banna minkaeldi, væru því nú fylgjandi og hikuðu ekki. En þá ber það furðulega við, að hv. þm. A-Húnv. er á móti málinu í landbn. og talar á móti því hér og segir við okkur flm., að við höfum vaknað nokkuð seint. Ja, það kann að vera. Betra er seint en aldrei. Hv. þm. Borgf. hafði þó sýnt viðleitni á því fyrir nokkrum árum að stemma stigu fyrir þessari meinvætti, og það gerði ég eins og hv. þm. A-Húnv. þá með mínu atkv., en ég átti ekki sæti í þeirri n., sem fjallaði um málið og gerði ekkert sérstakt annað en greiða því atkvæði mitt.

Hv. þm. A-Húnv. fór að rifja hér upp forsögu málsins, en í sjálfu sér skiptir það ekki miklu. Það breytir engu um óhappið, hver er valdur að því. Hann telur, að það hafi verið Framsfl., en ég held, að það yrði nú erfitt að færa sönnur á, að hann hafi verið við það riðinn. Sá maður, er fyrst fór úr landi til að kynna sér minkarækt, var ekki framsóknarmaður, og sá, er fyrst flutti inn þessi dýr, kom Framsfl. ekkert við. Hins vegar leitaði annar til þess manns, er mikið stóð til. Þó að það rynni allt út í sandinn, voru tilburðirnir miklir til að fá þann mann í lið með sér til meiri háttar hernaðar.

Ég ætla nú ekki að fara mjög mörgum orðum um ræðu hv. þm. A-Húnv., en ákaflega þótti mér leiðinlegt að heyra. hvernig afstaða hans er nú. Ég er þeirrar skoðunar, að því aðeins takist okkur að sigrast á ófögnuðinum, að við höfum trú á því og leggjum okkur fram um útrýminguna, en við höfum ekki trú á því og leggjum okkur ekki fram á meðan sú hætta vofir yfir, að ný dýr geti sloppið út í sama mund og við erum að vinna önnur, því að verðlaunin eru hégómi. Þau sýna að vísu viðleitni af hálfu hins opinbera, en nægja ekki ein sér. En það, sem mestu varðar er, að menn fái trú á því, að útrýmingin takist og viti að dýr séu ekki alltaf að sleppa út og bætast við þau hundruð eða þúsund villiminka, sem þegar leika lausum hala. Það þýðir ekkert að fullyrða, að dýrin sleppi ekki út, reynslan er búin að sýna allt annað.

Við vitum, hvernig þetta er í Svíþjóð og Noregi t. d. Í Svíþjóð er minkurinn orðinn hinn versti vargur. Mér er ekki kunnugt um þær ráðstafanir, sem þar hafa verið gerðar, en ég veit, að þar hefur nýlega vakizt upp alda í þessu máli. Frá Noregi hef ég séð það, að verðlaun fyrir minkadráp hafa verið stórhækkuð. Ég ætla, að áður hafi þau verið 130 kr. á dýr, en hafa nú verið enn hækkuð um 10%, og þetta bendir til þess, hvernig Norðmenn líta á þetta mál.

Það hefur verið talað um það hér, og frsm. lagði áherzlu á það, að það sannaði nokkuð mikið um það, hve geymsla minkanna hefði verið örugg í seinni tíð, að þeir minkar, sem veiðzt hefðu, væru allir af hinni upprunalegu tegund, sem flutt var inn í landið, en ekki af þeim tegundum, sem seinna hafa verið fluttar inn. En þótt svo sé, að þeir hafi ekki sloppið út um skeið, þá er það engin sönnun fyrir því, að slíkt sé öruggt um alla framtíð. Það þarf ekki nema sérstakt óhapp til þess að illa fari.

Það er næstum hlálegt að líta á þetta mál. Þessi fáu kvikindi, sem hér eru geymd í búrum, á að meta til jafns og eru metin til jafns við landsnytjar af laxi og silungi og að nokkru leyti af dún, en tekjur af þessu skipta hundruðum þúsunda, og stangast þetta illa við, er við hér á Alþ. þykjumst vera að auka þessi hlunnindi með öðrum ráðstöfunum. Eins og ástatt er um þetta, er aðalminkastofninn hér í Rvík og í grennd við borgina. En þótt svo væri, sem ekki er til að dreifa, að minkastofninn væri að verðmæti metinn nákvæmlega til jafns við þær landsnytjar, sem eru að eyðileggjast eða í hættu vegna minkaeldis, þá legg ég það ekki til jafns að öðru leyti, — ánægjuna og unaðinn af lífinu í náttúrunni annars vegar og þessi kvikindi í lokuðum búrum hins vegar. Þó að hér væri um sama peningaverðmæti að ræða, sem er langt frá að sé, þá væri þetta ekki sambærilegt.

Það hefur verið minnzt á refinn í þessu sambandi sem hliðstæðu minksins, en ég veit, að frsm. og hv. þm. A-Húnv. vita vel, að þó að refurinn geri nokkurn usla, er ekkert við hann að kljást hjá minkaplágunni, sem er margfalt skaðlegri. Ég býst ekki við, að minkar ráðist á fullorðið fé, en það tjón, sem hann vinnur fiskistofninum í ám og vötnum, verður ekki metið til peninga, að ég tali nú ekki um æðarvarpið. Og ef við miðum við fyrri reynslu í þessu efni, þá er augljóst, hvert stefnir.

Ég geri heldur lítið úr þeirri kvöð, sem lögð er á hreppsn. samkvæmt 2. brtt. n., og þarf vafalaust að ganga betur frá þeim ákvæðum. Hér er allt öðruvísi búið að hreppsn. en varðandi refaveiðar, en um framkvæmd þeirra ráða n. að mestu sjálfar samkvæmt fjallskilareglum. Að vísu er nokkur kostnaður af refaveiðum, en hann verður margfalt meiri af minkadrápinu. Það skal sannast, ef minkunum fær að fjölga. eins og horfur eru á.

Hv. frsm. sagði, að Norðmenn snerust nú eitthvað öðruvísi við þessum málum en við flm. þessa frv. Þeir mundu ætla að auka minkaræktina, norska Stórþingið ætlaði að gera ráðstafanir til þess, og vildi frsm. ekki taka það trúanlegt, að minkurinn réðist á lömb. Og honum fannst ómenningarbragur að því, að úr því að við hefðum nú einu sinni byrjað á minkarækt, skyldum við svo fara að banna minkaeldi. Ég er nú ekki svo hörundssár. Það kemur ekkert menningu við, þó að Alþ. yrði það á að leyfa innflutning þessara dýra. Það var einu sinni sagt hér á árunum, er talað var um innflutningsbann á áfengi, að það væri hálfgert skrælingjamerki að banna þann innflutning. Þau ummæli missa nú marks, og hvað þetta áhrærir skiptir okkur það að vissu leyti engu, hvað Norðmenn ætla að gera. Þeir ráða því, þeim kemur það við, hvað þeir gera, en við verðum að hugsa um okkur.

Þegar hv. frsm. svaraði ræðu minni, var ekki laust við, að hann hallaði ummælum mínum. Hann taldi, að við flm. sýndum hinar mestu öfgar, og færði til að ég sagði. að minkurinn hefði ekki alltaf fast aðsetur. ætti ákaflega létt með að hreyfa sig og gæti komizt upp undir 100 mílur á sólarhring og átti ég þá við enskar mílur. Hann skaut því þá inn, hvort þetta dýr réðist þá ekki á börn og svaraði ég því þá til, að ekki vildi ég fríkenna hann af því. En frsm. sagði svo í ræðu sinni, að ég hefði sagt að minkurinn mundi ráðast á börn. Ég held, að hann ætti að spara slíkar röksemdir, en reyna að halda sig nær því rétta í málinu.

Hv. þm. Borgf. gerði þessu máli rækileg skil í gær og þarf ég því ekki að lengja mitt mál. Hann drap á það, að sér fyndist n. hefði átt að leita umsagna fleiri aðila eða manna úti um byggðir landsins, og tek ég undir það. En ég sé t. d. ekki. hvað tilraunaráð búfjárræktar hefur endilega um málið að segja. Mér er svo sem sama, þó að leitað sé umsagnar þess, en mér finnst nær að leita álits ýmissa annarra aðila. t. d. stjórna búnaðarsambandanna. og heyra álit þeirra á málinu, og mér leikur hugur á að gera seinna brtt. við frv. þess efnis, að leitað sé álits bændanna sjálfra, til þess að heyra, hvað sú stétt segir, en henni kemur þetta fyrst og fremst við. Bændur eiga mest í hættu, og því er eðlilegast að hlýða á óskir þeirra. Þó að búseta manna hafi ekki út af fyrir sig mikið að segja í þessu sambandi undir vissum kringumstæðum, þá getur hún haft mikið að segja í sumum tilfellum eða undir öðrum kringumstæðum, og svo mikið er víst, að ef nm. í hv. landbn. ættu æðarvarp, þar sem minkurinn væri þegar farinn að láta til sín taka, þá væru till. n. á annan veg en þær eru. En hverjar upplýsingar, sem gefnar hafa verið, hafa hér engu um þokað, svo gersamlega hefur n. lokað sínum dyrum. Nú skírskotar n. til þess, að hreppsn. eigi að sjá um útrýmingu villiminkanna, en þar er verið að hengja bakara fyrir smið. Loðdýraeigendur ættu að bera kostnaðinn af þessum ráðstöfunum, en Alþ., sem leyfði minkaeldið í upphafi, ber þó fyrst og fremst ábyrgðina á þessu öllu.

Ég hef ekki fulla vitneskju um það, hvaðan dýrin hafa sloppið út, en það getur verið rétt, að þau hafi sloppið frá Fossi í Grímsnesi og frá einhverjum búum í Gullbringusýslu munu þau hafa sloppið, ég ber ekki á móti því, en hvað sem því líður, er þessi plága nú orðin útbreidd um Borgarfjörð og Mýrasýslu og í veiðivötnunum þar. Mér þykir ekki ólíklegt, að einhver, dýr hafi einnig sloppið út á Snæfellsnesi, og mér er sagt, að vargurinn sé kominn vestur í Dalasýslu, og er þá skammt í æðarvarpið í Breiðafjarðareyjum. Hvað Norðurland áhrærir er mér kunnugt um, að minkur hefur sézt hlaupa um göturnar á Akureyri, og í Húnavatnssýslu mun hafa sloppið minkur eða sézt þar. Og þó að tiltölulega stutt sé síðan minkafaraldurinn fór að vera eins magnaður og hann er orðinn, þá hefur hann þegar upprætt fuglalíf og fiskalíf á ýmsum stöðum og þegar fuglar og fiskar eru á þrotum, mun sjást, hvort röðin kemur ekki næst að lömbunum. Því að þegar menn eru að fullyrða, að svona litið dýr geti ekki banað stærri dýrum, þá er það af því, að þeir þekkja ekki eiginleika dýrsins og vilja ekki trúa fræðimönnum, sem þekkja þetta. Látum nú vera, þó að n. virði aðvaranir okkar hv. þm. Borgf. að vettugi. En hv. nm. geta ekki hrundið ummælum Guðmundar heitins Bárðarsonar. Það er þeim um megn. [frh.].