02.03.1948
Neðri deild: 67. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (2484)

93. mál, útrýming villiminka

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég heyrði á ræðu hv. 1. þm. Árn., að hann leit svo á, að till. mín á þskj. 412 væri fjarri því að vera ráðstöfun til endalykta í þessu máli. Ég vil strax taka það fram, að till. mín er aðeins varatill., og hafði ég hugsað mér, að hún kæmi ekki til atkvæða við 2. umr., fyrr en útséð væri um það, að frv. eins og það var fyrst næði fram að ganga.

Nú vita menn, að mest hefur verið ræktað af minkum hér í nágrenni Rvíkur, og hefur villiminkur sá, sem nú herjar mikinn hluta Suðurlandsins, aðallega sloppið úr búrum hér í nágrenni Rvíkur og Hafnarfjarðar. Og þó að menn eins og hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt) vilji nú ekki — a. m. k. sem stendur banna minkaeldi, þá vita þeir, sem kunnugir eru þessum málum, að ef leyfa á áfram minkaeldi í Norðlendinga- og Austfirðingafjórðungi, þá getur þess verið skemmst að bíða, að einnig í þessum fjórðungum sleppi minkar úr búrum og þar með hafi þessi héruð fengið yfir sig villiminkapláguna. Eins og stendur er mér vitanlega enn ekkert minkabúr í Húnavatnssýslum, nema lítils háttar á Hvammstanga, ekkert í Norður-Þingeyjarsýslu og ekkert á Austurlandi.

Ég skal nú skýra lítils háttar frá því fyrir hv. form. landbn., hvernig fór um minkabú eitt. sem ég þekkti til, en það var á Svalbarðseyri. Það var eitt af þeim fáu búum hér á landi, sem ég veit, að voru rekin með hagnaði. Maðurinn sem hafði það, var ekki bóndi, heldur trésmiður og hann gat rekið búið þarna af því, að á staðnum var frystihús, svo að hann í sambandi við það hafði nóg fóður fyrir dýrin, en af því að íshúsið var ekki rekið allt árið, þá varð hann að flytja búið til Dalvíkur til þess að hafa alltaf nóg fóður. — Þetta sýnir ljóslega að það er alveg vonlaust að ætla sér nokkurn tíma að gera minka að húsdýri í sveit, þar sem þessi dýr eru aðallega alin á fiski og alls konar sjófangi.

Mér virðist, að hv. landbn., og þá ekki sízt sjálfur búnaðarmálastjórinn ættu fremur í þessu máli sem öðrum að hafa hagsmuni bænda og sveitabúskapar fyrir augum en hagsmuni kaupstaða og kauptúna, en allir vita, að það eru aðallega kaupstaðarbúar, sem atvinnu hafa haft við minkarækt hér á landi. Minkaeldi er nú síður en svo nokkurt hagsmunamál bændastéttarinnar, heldur þvert á móti, þar sem það hefur orðið mörgum bændum til stórtjóns. Þetta er stórt atriði, en ég býst þó varla við, að hv. landbn. breyti skoðun sinni í þessu máli, og er hræddur um, að frv. það sem hér liggur fyrir, verði fellt. Ég trúi nú samt ekki öðru en hv. 1. þm. Skagf. viðurkenni, að till. mín skaði engan, þar sem þeir, sem haft hafa hagnað af þessari atvinnugrein, eru aðallega hér í nágrenni Rvíkur.

Ég fæ ekki betur séð en ef minkurinn kemst að Mývatni, þá verði á skömmum tíma að engu gert það yndi og allur sá arður, sem Mývetningar hafa haft af hinu fjölbreytta fuglalífi við vatnið, og sama er að segja um fiskinn í vatninu. Ég mundi vart hafa lagt svona mikla áherzlu á till. mína, ef ég hefði ekki vitað þetta. Ég áleit í fyrstunni, að ekki væri neitt minkabú á Austurlandi. Þá var engin atvinna af þessari iðju í þessum landsfjórðungi. Þar var ekki byrjað á þessu á kreppuárunum. Ég held, að minkur mundi eiga erfitt uppdráttar á Norðausturlandi, að frádregnum jarðhitasvæðunum.

Ég er fús til þess að taka till. mína aftur til 3. umr. og laga hana í samráði við flm. frv.