02.03.1948
Neðri deild: 67. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (2485)

93. mál, útrýming villiminka

Jón Pálmason:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til þess, að ég bæti nokkrum orðum við það, sem áður er sagt í þessu máli, en skal þó ekki langorður verða.

Hv. 1. flm. þessa frv., 1. þm. Árn. (JörB), hélt hér langa og undarlega ræðu, sem var reyndar að mestu endurtekning á fyrri ræðum hans um, hve minkurinn væri skaðlegt dýr. Það er enginn ágreiningur um það og það þarf ekki að endurtaka það. Landbn. er sömu skoðunar og flm. á því. Það er ekki þörf að ræða það. Það eru allir þm. sammála um. En hér er um það deilt, hvort eigi að eyða þeim minkum, sem eru í haldi, eða ekki. En þó að minkunum, sem eru í haldi, yrði nú útrýmt, þá er engin trygging fyrir því, að þeim villtu verði útrýmt. Og reynslan í sveitunum af þeirri viðleitni að útrýma refnum mælir á þá leið, að menn ættu ekki að vera sterktrúaðir á það, að takast megi að ráða dýrin algerlega af dögum á Suður- og Vesturlandi. En það er nauðsynlegt að gera alvarlega herferð gegn þessum óargakvikindum, sem laus eru.

Ég ræði ekki till. hv. þm. S-Þ. (JJ). Á Norðurlandi hefur nokkuð verið um minkarækt, en villtra minka hefur ekki orðið þar vart. Það gæti því verið umtalsmál að banna minkaeldi, þar sem villtra minka hefur enn ekki orðið vart á landinu. Um uppruna hinna villtu minka talaði hv. 1. þm. Árn. nokkur orð, og vildi hann fríkenna flokk sinn frá því að hafa komið minkunum inn í landið. Í þessu máli sem mörgum öðrum, sem ekki hafa reynzt góð, hefur oft verið töluverð viðleitni að reyna að fríkenna sig frá nokkurri hlutdeild. En minkar voru fyrst fluttir inn með styrkveitingu úr ríkissjóði. Þáverandi stjórn veitti nokkurn styrk til loðdýraræktar, og sá styrkur flutti síðan inn þau dýr, sem hafa orðið uppsprettan. Það er þýðingarlaust fyrir hv. þm. að ætla sér að undanskilja flokk sinn frá þessu, þó að engin nafnaköll finnist fyrir fjárveitingunni, hverjir þm. voru með og hverjir móti. Það er víst, að þessi styrkveiting hefur orðið upphaf ógæfunnar í minkaeldinu.