04.03.1948
Neðri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (2489)

93. mál, útrýming villiminka

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég geri ekki ráð fyrir að tala oftar í þessu máli, enda finnst mér, að það megi fara að ljúka þessari umr., sem er búin að standa upp undir hálfan mánuð í þessari hv. d. Málið verður ekki upplýst frekar fyrir það, þó að haldið sé áfram með það hér í d. á þennan hátt. En ég neyðist til þess að segja örfá orð til þess að bera af mér sakir, vegna þess að hv. þm. Borgf. (PO) bar í rauninni á mig sem frsm. n., að ég hefði farið rangt með tvö atriði varðandi upplýsingar, sem ég flutti hér fyrir hönd n. í sambandi við þetta frv., og get ég ekki legið undir því sem einstaklingur eða frsm. landbn.

Það, sem hv. þm. Borgf. taldi mishermt eða rangt hjá mér, eru þau ummæli, sem í fyrsta lagi eru höfð í grg. hér í nál. landbn., þar sem n. telur og hefur það eftir loðdýraræktarráðunautnum, að rannsakaðir hafi verið eitthvað í kringum 600 villiminkar, sem veiddir hafa verið, með tilliti til þess, undir hvaða afbrigði þeir gætu heyrt. Ég vil taka það fram, að ég sagði aldrei, að allir villiminkar, sem veiddust, hefðu verið rannsakaðir með tilliti til tegunda heldur, að af þeim, sem hefðu verið rannsakaðir, hefði fundizt einn vafasamur minkur, sem ekki væri gott að ákveða, hverrar tegundar væri. Ég hef fengið hér í hendur nýtt plagg frá loðdýraræktarráðunaut um þetta, sem er til afnota fyrir hv. þm. Borgf. og aðra þm., sem vildu sjá skýrslu hans um málið. En ég vil aðeins leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa niðurlagið á skýrslu hans um þetta. sem hljóðar þannig:

„Skilyrði fyrir verðlaunaveitingu hefur verið, að hinu dauða dýri eða skinninu af því hafi verið skilað til mín. Stundum hafa þó sýslumenn eða hreppstjórar móttekið dýrin og gefið vottorð um það. Hafa þá verðlaun verið greidd í skrifstofu minni gegn afhendingu vottorðanna. Sjálfur hef ég skoðað hræið eða skinnið af rúmlega 500 dýrum, sem veitt voru verðlaun fyrir að drepa. Öll þessi dýr voru af stofni Mið-Ameríku-minksins (Missisippiminksins, sem fyrst var fluttur hingað til landsins, en hvergi hefur verið ræktaður hér hin síðari ár. Um hina minkana, sem ég hef ekki séð, get ég ekkert sagt. “

Þetta er umsögn loðdýraræktarráðunautarins varðandi þetta mál, og vísa ég þar með frá mér og landbn. öllum getsökum um það, að við höfum á nokkurn hátt farið rangt með þær upplýsingar, sem við gátum fengið í þessu máli. Loðdýraræktarráðunauturinn talar um 500 minka. En til viðbótar skal það sagt, að Páll Þormar, sem er aðalsérfræðingur í skinnasölu og skinnakaupum fyrir Loðdýraræktarfélagið, hefur tekið á móti allmörgum skinnum af villiminkum, og þau hafa öll verið af þessum sama stofni, nema vafasamt er um 1 eða 2 stykki.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en þetta ætti að nægja til að sýna, að landbn. hefur reynt að byggja á þeim upplýsingum, sem hún gat fengið í þessu máli, og mér dettur ekki í hug að væna opinberan starfsmann í þjónustu ríkisins um það, að hann gefi upplýsingar, sem ekki megi byggja á. — um tölu minka, sem beinlínis hafa verið rannsakaðir í þessu augnamiði. Það er vitað mál, að drepnir hafa verið fleiri villiminkar. Og þó að brennd hafi verið skottin af þeim, þá haggar það ekki tölu þeirra, sem rannsakaðir hafa verið.

Hitt atriðið var það, að hv. þm. Borgf. dró í efa, að við færum rétt með umsögn tilraunaráðs í búfjárrækt varðandi frv. Ég hef hér í höndum bréf frá Runólfi Sveinssyni sandgræðslustjóra, þar sem hann skýrir frá afstöðu ráðsins til málsins. Vil ég ekki þreyta hv. d. og ofbjóða þolinmæði hæstv. forseta með því að fara að lesa upp þetta bréf, en þar er ekki tekið fram neitt annað en að tilraunaráð í búfjárrækt hafi allt staðið að samþykktinni.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál frekar eða endurtaka það, sem ég hef áður sagt fyrir hönd n. Við erum reiðubúnir til samvinnu um örugg ákvæði um útrýmingu villiminkanna og viljum vinna með flm. frv. á því sviði. En mér ógnar sú græðgi hjá flm. að gera sig ekki ánægða með annað en að fá fullvissu fyrir því, að minkarnir hafi verið að sleppa út allt fram á síðustu ár. Ég tel það til sóma, að það virðist hafa tekizt að hindra, að minkurinn hafi sloppið úr haldi síðustu árin, og þess vegna er afstaða landbn. í þessu máli eins og ég hef lýst.

Um brtt. hv. þm. S-Þ. skal ég ekkert segja á þessu stigi. Hún hefur verið tekin aftur til 3. umr., og mun þá verða tækifæri til að ræða hana frekar.