04.03.1948
Neðri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (2490)

93. mál, útrýming villiminka

Pétur Ottesen:

Ástæðan til þess, að ég fór að kynna mér, hversu háttað væri aðstöðu loðdýraræktarráðunautar til að dæma um, að minkurinn hafi ekki sloppið, var sú, að hv. frsm. vildi gera lítið úr því, sem ég hef haldið fram í ræðu minni, að loðdýraræktarráðunauturinn hefði takmarkaða aðstöðu til þess að dæma um þetta. Og eiginlega var ekki hægt á honum að skilja annað en að hann hefði yfirlit yfir og hefði farið höndum um skott af flestum ef ekki öllum þeim minkum. sem drepnir hafa verið. Og þrátt fyrir það að nokkuð hafi verið farið að slá í sum skottin við langa geymslu á þeim. þá hefði hann góða aðstöðu til að dæma um þetta, jafngóða og ég hefði til að dæma um það, hvort dindill af kind væri svartur eða hvítur. Þetta voru hans ummæli um þetta. En ég hafði í ræðu minni fært fram þær ástæður, að það væri allmikið af þeim minkum, sem drepnir hafa verið, sem loðdýraræktarráðunauturinn hefði enga aðstöðu til að dæma neitt um. Og svo þegar ég fór að leita mér upplýsinga um þetta, þá kemur það í ljós, að þau skott, sem afhent hafa verið oddvitum víðs vegar úti um landsbyggðina, koma aldrei út fyrir bæjardyr oddvitans, af því að jafnskjótt sem honum er afhent skottið, þá kastar hann því á bál, en tekur það sem fullkomið sönnunargagn viðkomandi manns, sem fær svo kvittun hjá oddvitanum, sem hann fær endurgreidda í stjórnarráðinu. Og ég er enn þá með hér í vasanum ávísun, sem gefin hefur verið út á slíka kvittun. Svoleiðis að það er augljóst af þessu, að aðstaða loðdýraræktarráðunautarins til þess að taka fyrir, að dýr hafi sloppið, er ákaflega hæpin og ekkert upp úr henni leggjandi framar því, sem hann hefur beinlínis farið höndum um þau dýr. sem drepin hafa verið, sem eru fæst af þeim, sem drepin hafa verið. Þess vegna dreg ég ekkert í land um það, að það er ákaflega hæpið að ætla að byggja á þessu, þegar á það er litið hins vegar, hve óskaplegir erfiðleikar eru á því að halda þessum dýrum í búri.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, þá var það einn af þessum mönnum, sem sagði mér, að hann ætti engan hlut að því að mæla gegn framgangi þessa máls. Það var Halldór Pálsson, búfjárræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands. og veit ég, að hv. frsm. fer ekkert að rengja umsögn mína um þetta, þó að af því bréfi, sem honum barst í hendur, hafi máske ekki mátt ráða um þessa afstöðu Halldórs Pálssonar.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en vil aðeins árétta það, að ég tel vonlítið, að þeirri baráttu, sem hér er hafin, verði haldið áfram, ef við höldum áfram að ala þennan snák við brjóst okkar hér á Íslandi, villiminkinn, bæði af þeirri ástæðu, að það verður miklu erfiðara að fá almenna þátttöku í útrýmingu minkanna, af því að menn eru vonlitlir um þetta, enda vofir alltaf yfir okkur á hverjum degi sú hætta, að eitthvað geti sloppið úr þessum búrum, þó að vel sé um búið og fullur ásetningur þeirra manna fyrir hendi, sem að því standa, að gera sitt bezta til þess að halda dýrunum innibyrgðum. Þar höfum við reynsluna hjá okkur og yfirlýsingu merks náttúrufræðings, sem byggð er á reynslu og þekkingu annars staðar úti í heimi um þetta atriði. — Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en aðeins endurtaka það gagnvart þeim mönnum, sem mundi þykja bezt gengið frá því hvað snertir útrýmingu minksins í þessum brtt., að þeir slá engu úr hendi sér með því, að svo verði frá þessu gengið, þó að þeir greiði atkv. gegn þeim á þessu stigi málsins og bjargi því við, að ekki sé haldið áfram villiminkaeldi. Því að það er vitanlega aðstaða til þess við 3. umr., að menn taki höndum saman um það að búa sem allra traustlegast um útrýmingarákvæðið. Geri ég ekki ráð fyrir, að það verði neinn ágreiningur um það út af fyrir sig að vanda til þess eftir beztu föngum.