19.12.1947
Efri deild: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Frsm. meiri hl. hefur nú lokið máli sínu. Eins og hann sagði, hefur n. klofnað. Meiri hl. vill láta samþykkja frv. og hefur a.m.k. ekki að sinni neinar beinar brtt. fram að bera. Hins vegar er málið ekki fullrætt í n., sérstaklega að því er snertir það erindi, sem n. hefur borizt frá sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem gerir ákveðnar kröfur til u. um, að hún taki upp verulegar breytingar á frv. N. í heild er ekki búin að taka afstöðu til þessa. Ég aftur á móti er andvígur þessu frv. Ég er andvígur því, eins og það er, og legg til, að það verði fellt, nema því aðeins að þessi hv. d. vilji gera á því gerbreytingu, svo mikla, að það yrði raunverulega annað frv. og tæki allt aðra stefnu en frv. hefur nú.

Ég þarf ekki að hafa langt mál til þess að gera grein fyrir þessari afstöðu minni, eða þeim ástæðum, sem eru fyrir henni. Ég gerði það við 1. umr. Ég skal láta nægja að draga saman aðalástæðurnar. Tilgangur þessa frv. samkv. því, sem gerð hefur verið grein fyrir af hæstv. ríkisstj. eða þeim ráðherrum, sem hafa haft orð fyrir henni, er að vinna bug á dýrtíðinni eða draga úr henni, fyrsta skrefið, eins og það er oft orðað, til að ráðast á dýrtíðina. Í öðru lagi á frv. að tryggja atvinnuvegina, fyrst og fremst bátaútveginn. Ég hef sýnt fram á með svo einföldum rökum, að ekki verður á móti mælt, að þetta er alrangt. Þetta frv. verður ekki til að draga úr dýrtíðinni, heldur til að auka hana. Þótt það sé ákveðið, að kaup skuli reiknast eftir vísitölu 300 stig, þá heldur vísitalan áfram að vera 328 stig, og þær verðhækkanir, sem koma á næstunni, halda áfram að hækka vísitöluna. þrátt fyrir þetta ákvæði. Hins vegar verður þetta frv. ráðstafanir til að auka dýrtíðina í landinu. Veltuskatturinn er kallaður söluskattur í þessu frv., en um hann fjallar VII. kafli frv. Söluskattur sá, sem hér um ræðir, á að nema um 3.5% á flestar nauðsynjavörur, eða flestar þær vörur, sem ganga inn í vísitöluna, auk þeirra vara, sem ekki ganga inn í hana. Þetta leiðir af sér, að vöruverð hækkar allverulega, eða sem svarar 6–7 visitölustigum. Að vísu er þetta ekki hárnákvæmur útreikningur, en þetta mundi þýða, miðað við núverandi vísitölu, að hún hækkaði í 334–335 stig, á sama tíma og vinnulaun yrðu greidd eftir vísitölu 300. M.ö.o., áhrif frv. þessa verða hækkandi verðlag á öllum nauðsynjum, sem leiðir af sér, að ekki koma þessi ákvæði frv. útgerðinni að gagni, sem svo mjög er talað um. Útvegsmenn verða að búa áfram við vísitölu 328 auk þeirrar viðbótar, sem hækkað vöruverð skapar. Í III. kafla frv. er lagt til að olíuverð verði lækkað að nokkru, en ekkert er þar að finna um lækkun á veiðarfærum og öðrum útgerðarvörum. Ég hef spurzt fyrir um þetta, hverju þetta sætti, en ekkert svar fengið. Ef engin lækkun fæst á vörum til útgerðar, — hvert gagn er þá frv. þetta útveginum? Ákvæði III. kafla frv. hafa hér sama og engin áhrif, því að vinnulaunin eru aðeins lítill hluti útgerðarkostnaðarins. Fyrir utan ábyrgðarverðið er aðeins eitt ákvæði í frv., sem bætir nokkuð hag útgerðarinnar eða aðstöðu hennar. Það er heimildin til að lækka beituverðið. En þó er hér um óákveðna heimild að ræða. Það er alls ekki að sjá á frv., hvaða gildi þetta hefur. Þá er hér að finna ákvæði um aðstoðarlán handa útveginum vegna síldveiðanna, en það er nú með öllu óskylt máli því, sem hér um ræðir, dýrtíðinni. Hér er aðeins um eðlilega ráðstöfun að ræða, sökum þess að síldveiðarnar hafa brugðizt undanfarin ár. Þessi tvö atriði. sem ég hef nefnt hér, eru tekin upp úr frv. sósíalista.

Ég hef nú sýnt fram á, að frv. þetta tryggir ekki útveginn og læknar ekki dýrtíðina, og engin trygging er fyrir því, að bátarnir fari af stað eftir nýár, þó að þetta frv. verði að l. Þannig standa nú þessi mál, eftir að hæstv. ríkisstj. er búin að veita þeim fyrir sér í 10 mánuði. Tilmæli hafa og borizt frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, þar sem þess er krafizt, að breyting verði gerð á frv. til að tryggja rekstur þessara fyrirtækja. Ef ekki verður gengið að þeim breytingum, sem fulltrúar hraðfrystihúsanna bera fram, er óvíst, hvort hraðfrystihúsin verða starfrækt í vetur. Þannig eru þessi mál í pottinn búin af hæstv. ríkisstj., að hún hefur enga samvinnu og leitar engra ráða til þeirra aðila, sem eiga hér mestan hlut að máli, og veit hún því ekkert um það, hvernig af reiðir með framkvæmd ákvæða þeirra, sem þetta frv. felur í sér. Nei, þetta frv. nær hvergi tilgangi sínum sem verðbólgulækning, og aðalinnihald þess er kauplækkun. Með frv. er blátt áfram verið að aðstoða atvinnurekendur til að lækka kaup verkamanna sinna. Það er sett vatn á þeirra mylnu til höfuðs verkamönnum. Lögbundinn réttur verkamanna og verkalýðsfélaga til samninga á frjálsan hátt er af þeim tekinn, og bannað er að greiða kaup, sem verkamenn hafa tryggt sér með harðri baráttu. Hér er höggvið allnærri frumstæðasta rétti mannsins, og finnst mér rétt af alþm. og ríkisstj. að íhuga, hvort ekki sé höggvið of nærri stjórnarskránni með slíkri réttindasviptingu. Á sama tíma og skerða á kjör launþega landsins, er leitazt við að koma árum svo fyrir borð, að eignamönnum verði hlíft við nokkrum verulegum álögum. Má hér minna á, að húsaokrarar sleppa. Lóðir í og við kaupstaði hafa margfaldazt í verði síðustu árin, hafa margfaldazt frá sínu upprunalega verði. Gagnvart þessu er ekkert atriði og engin ákvæði í frv., og almenningur í bæjum landsins er hvergi verndaður gegn slíku okri. Nei, frv. þetta verður til þess eins að stofna vinnufriðnum í landinu í hættu. Frv. er ekki fram komið til að lækna dýrtíðina, heldur til þess að auka ófriðinn í landinu, og í samræmi við þetta eru hér launráð við höfð gagnvart framleiðslustéttum landsins. Stéttaráðstefna sú, sem hæstv. ríkisstj. talaði svo mjög um á tímabili, var ekki kvödd til ráða, og Alþýðusamband Íslands var ekki kvatt til ráða, sem á þó hér mestan hlut að máli og mest undir komið. Ekki Landssamband ísl. útvegsmanna, og ekki samtök hraðfrystihúsanna, sem ég minntist á fyrr í ræðu minni. Allir þessir aðilar hafa lýst sig óánægða með frv. Það er hvort tveggja í senn hroki og fásinna að ætla að leysa dýrtíðina án samstarfs og tillagna frá þessum stéttum. Þetta hafa hæstv. ráðh. raunar viðurkennt. Fyrrgreind félagssamtök eru fólkið í landinu, en allar ráðstafanir, sem gerðar eru gegn vilja fólksins, eru dæmdar til að ónýtast, hvort sem um l. er að ræða eða aðra þvingun. Frv. þetta, ef að l. verður, er því dæmt til ófarnaðar, enda eru mótmæli stéttanna þegar farin að berast.

Hér er umsögn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, þar sem því er hiklaust lýst yfir, að gera verði gagngerar breytingar á frv. á samræmi við till., sem komið hafa frá þessum aðilum. Hér hefur borizt bréf frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, þar sem segir, að frv. nái hvergi tilgangi sínum, og söluskattinum er mótmælt. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja lýsir því yfir, að frv. fullnægi ekki kröfum launþega um réttláta eignaskiptingu, og í bréfi Alþýðusambands Íslands segir, að Alþýðusambandið mótmæli harðlega frv. til laga um dýrtíðarráðstafanir, sem ríkisstj. hefur lagt fram á Alþingi. Alþýðusambandið lítur svo á, að með frv. þessu, ef að l. yrði, séu launakjör vinnustéttanna freklega skert, löglegum samningsákvæðum um fulla dýrtíðaruppbót riftað og dýrtíðin jafnframt aukin með ákvæðinu um hinn nýja söluskatt á nauðsynjavörur almennings. Alþýðusamband Íslands skorar því eindregið á Alþingi að fella frv. Iðnnemasamband Íslands mótmælir einnig harðlega frv. til l. um dýrtíðarráðstafanir og skorar á Alþingi að fella það. Stjórn fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík mótmælir harðlega hinu svo nefnda dýrtíðarfrv. ríkisstj. sem tilraun til stórkostlegrar lækkunar á launum launþega og skerðingu á samninga- og samtakafrelsi landsmanna. Fulltrúaráðið vill og leggja áherzlu á það, að með þessu frv. yrðu tugir milljóna króna teknir úr vasa launþega og afhentir stórgróðamönnum og atvinnurekendum í landinu. Þá minnir stjórn fulltrúaráðsins þm. á það, að þeir hafi ekki umboð til þess að ákveða árásir á lífskjör alþýðu, og skorar á öll launþegafélög að vinna ötullega gegn þessum árásum á lífskjör launþegaheimilanna og á Alþingi að fella frv. Þá telur Iðja, félag verksmiðjufólks, frv. vera ósvífna árás á hinar vinnandi stéttir í landinn og skorar á Alþingi að fella frv. Stjórn verkamannafélagsins Dagsbrúnar telur frv. þetta ósvífna kauplækkunarárás, þar sem riftað er ákvæðum frjálsra samninga, og skorar á Alþingi að fella frv. Þá er hér bréf, sem stjórn Starfsmannafélags ríkisstofnana hefur sent Alþingi. Stjórnin bendir á, að síðan launalögin gengu í gildi hafi grunnkaupshækkun orðið hjá öllum stéttum þjóðfélagsins, sem samningsfrelsi hafa. Hins vegar hafa grunnlaun opinberra starfsmanna, sem launalögin taka til, ekki verið færð til samræmis við téðar hækkanir. Nú er komið fram á Alþingi frv. til l. um dýrtíðarráðstafanir, sem skerðir mjög laun allra launþega í landinu með því að festa dýrtíðarvísitöluna í 300 stigum og leggja söluskatt að upphæð 3.5% á flestar vörur, án þess þó að tal:a ákveðið til um það, að vöruverð lækki, hvað þá að stöðva hækkun þess. Og stjórn starfsmannafélagsins mótmælir hvers konar launaskerðingu, sem felst í téðu frv. Þetta vildi ég, að kæmi hér fram, með leyfi forseta. Svona eru nú fyrstu raddirnar, sem koma frá launþegasamtökunum, og svona hljóða þær, en það kemur meira í kjölfar þessa.

Ég hef áður rætt um skattaákvæði frv., og um eignaraukaskattinn mætti margt segja, en þar er að finna mörg heldur fáránleg atriði, sem koma mjög ranglátt niður á mönnum. Ef maður hefur átt fasteign 1940, þá sleppur hann við eignaraukaskatt, hversu mikið sem eignin hefur hækkað í verði. Aftur á móti verða þeir menn, sem hafa keypt húsnæði með okurverði á tímabilinu 1940–'47, að greiða háan eignaraukaskatt. Þetta var gagnrýnt mjög í umr. í hv. Nd., og þá sérstaklega af hv. þm. A.-Húnv., að athafnamönnum væri refsað svona. Þá er það að segja um veltuskattinn, að hann mun verka þannig, að mörg fyrirtæki reyna að telja fram sem minnsta veltu, en hins vegar verður söluskatturinn lagður á alla veltuna. Fyrirtæki, sem hefur 2 milljónir króna veltu á ári, gæti t.d. gefið upp aðeins helming þeirrar upphæðar. Þetta þýðir, að helmingur skatts þess, sem fyrirtækið hefði raunverulega átt að greiða í ríkissjóð, rennur til fyrirtækisins sjálfs. Þannig geta verzlunarfélög stungið í sinn eiginn vasa tugum milljóna króna á ári.

Ég held nú, að ég fari ekki miklu fleiri orðum um þetta mál, en eins og ég sagði í upphafi, flyt ég brtt. við frv., sem enn eru ekki komnar úr prentun. Ef þær brtt. næðu samþykki, þá yrði þetta frv. raunverulega allt annað frv. Brtt. þessar eru í höfuðdráttum svipaðar þeim, er flokksbræður mínir fluttu í Nd., þegar málið var þar til umr., en þær fela í sér: 1. Að lækkaður verði allur útgerðarkostnaður. 2. Að vísitalan verði fest, án þess að til nokkurrar launaskerðingar þurfi að koma, m.a. með því, að afnumdir séu tollar af nauðsynjavörum. Það hefur verið reiknað út, að þessar ráðstafanir mundu lækka útgerðarkostnað meðalbáts um 50–60 þús. kr., og vísitalan mundi falla niður í 300 stig. Þetta liggur mjög skýrt fyrir.

Ef þessar till. verða samþ., þá mundi hagur útgerðarinnar verða þess vegna töluvert betri heldur en s.l. ár. Þetta mundu því verða raunhæfar till. til þess að aðstoða útgerðina, þannig að hún gæti verið nokkurn veginn örugg um það að verða ekki rekin með halla, nema því aðeins að um aflaleysi væri að ræða, sem ekki verður gert við með neinum mannlegum ráðstöfunum. Og við það, að tilkostnaður útgerðarinnar væri þannig stórlækkaður, bætist, að útgerðin mundi geta búið við raunverulegt 300 stiga verðlag, en það er hins vegar rangt, að útgerðin muni búa við 300 stiga verðlag, þó að þetta frv. stj. verði samþ.

Þegar mínar brtt. koma fram, mun ég ef til vill gera nokkru nánari grein fyrir þeim eða einstökum atriðum þeirra. En ég vildi samt sem áður þegar á þessu stigi málsins skýra hv. d. frá aðalatriðum þeirra, þannig að ekki þurfi að endurtaka það. Og enn fremur mun ég í brtt. mínum taka tillit til óska hraðfrystihúsanna, sem ég tel sanngjarnar og fjárhagslega séð nauðsynlegar til þess, að þau verði rekin. Nú hefur hv. fjhn. ekki tekið tillit til þessara óska. Það má vel vera, að n. sem heild taki eitthvað af þessum brtt. til greina, það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það, og meiri hl. n. mun nú vera að ræða við sjútvmrh. um það. En ef þær brtt. mínar yrðu samþ., þá er frv. í höfuðatriðum komið í rétt horf og tekin þar með upp rétt stefna, þar sem útgerðin yrði í raun og veru aðstoðuð eins og með þarf og vísitalan þá raunverulega lækkuð og lækkun kaupgjalds í krónutali eðlileg afleiðing vísitölulækkunarinnar í samræmi við samninga verkalýðsfélaganna. Þetta mundi líka vera hið eina framkvæmanlega, og það er kannske aðalatriðið, því að það væri í samræmi við vilja þeirra samtaka, sem allt líf þjóðarinnar byggist á.

Ýmis minni háttar atriði eru auk þess í þessu frv., sem vissulega þurfa lagfæringar við, svo sem kaflinn um eignarskattinn, sem er stórgallaður, en hitt, sem ég hef nefnt, eru aðalatriðin.