16.03.1948
Neðri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (2503)

93. mál, útrýming villiminka

Jörundur Brynjólfsson:

Ég veit, að hæstv. forseti tekur frjálsmannlega á því, þótt athugasemd mín verði nokkru lengri en venja er. — Hv. frsm. telur, að landbn. hafi gengið til móts við flm. með till. sinni. og ég efa ekki, að fengizt hefði heppileg niðurstaða. ef n. hefði sýnt viðleitni í þá átt. Hv. frsm. sagði, að n. hefði tvennt að athuga við till. okkar. Að bara væri leitað álits nokkurra landshluta, og ef meiri hlutinn væri málinu fylgjandi, hefði Alþ. afsalað sér löggjafarvaldinu. Hvað það fyrra áhrærir, er það að segja, að okkar till. er byggð á skírskotun til þeirra, er þekkja þessi mál bezt og hafa þessi dýr í nágrenninu. Þeir eiga að kveða upp sinn dóm um það, hvort hafa eigi þessi dýr í eldi eða ekki. Þetta virðist okkur eðlilegast. Hvað hitt atriðið áhrærir, að Alþ. hafi með þessu afsalað sér áhrifum á löggjöfina, er ég á öndverðri skoðun. Með samþykkt till. okkar hefur Alþ. beygt sig undir skoðun þeirra, sem þessu eru kunnugastir, og vill hlíta þeim dómi kjósendanna. Þetta er lýðræðislegt og þannig ætti löggjöf að vera, að meiri hluti þjóðarinnar, er hlut á að máli, sé henni samþykkur, og með hliðsjón af því setjum við lögin. Þetta er ekki óeðlilegt. Það má kannske segja, að stundarfrestur skipti ekki miklu fyrir lausn málsins, en hitt skiptir meira, að eftir till. n. getur það verið komið undir dómi meiri hluta sveitarstjórna, sem málinu eru ókunnugar og vita ekki, hve illt viðskiptis þetta dýr er, og kunna að hafa fengið af því litaðar fregnir. Ég skírskota til þeirrar reynslu, sem fengizt hefur og ég hef áður lýst í umr. Ég vil einntg geta þess, að Guðmundur heitinn Bárðarson, sem var mjög þekktur náttúrufræðingur bæði hér og erlendis, varaði íslendinga við þessum dýrum. En ekkert var úr því gert, og því er komið sem komið er. Dómur þeirra er hafa stundargróða af því að ala þessi dýr, er einskis nýtur.

Ég get ekki fallizt á brtt. n. Mér finnst, að n. hefði átt að fallast á að leita álits þeirra aðila. sem um getur í brtt. okkar. Það er varla von, að bæjarstjórn Vestmannaeyja og hreppsnefndir í Grímsey, Flatey á Breiðafirði og Flatey á Skjálfanda geti gefið nokkrar upplýsingar í þessum efnum, þar sem dýrin hafa ekki verið alin á þessum stöðum. Aðrir landshlutar mundu svara af litlum kunnugleik, og sumpart ekki svara. Mér finnst því, að n. hafi missýnzt, og get ekki greitt till. hennar atkv. Ég vona að d. fallist á okkar till., hún er eðlilegust.