16.03.1948
Neðri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (2506)

93. mál, útrýming villiminka

Jörundur Brynjólfsson:

Það eru aðeins örfá orð. Hv. frsm. virðist undrast það, að við skulum vilja leita álits um það, hvort leyft skuli minkaeldi framvegis. Ég hygg, að það, sem kom fram hjá okkur, stemmi alveg við raunveruleikann, og hann er ekki fallegri en þetta. Hann segir, að það sé fjarstæða hjá mér að tala um dóm. Til hvers er verið að leita álits? Ef hann er beðinn um álit um eitthvað og hann gefur það, þá felst í því dómur frá hans sjónarmiði. Ef leitað er álits, þá held ég að það eigi að fara eftir því. (StgrSt: Það er ekki þar með sagt). Nú, það á að hafa álit sveitarstjórna og bæjarstjórna að engu. Því bjóst ég ekki við.

Frsm. telur ekki fordæmi fyrir þessu í íslenzkri löggjöf, og hefur meðflm. minn svarað þessu að nokkru. Það er til fordæmi fyrir þessu, og get ég nefnt skattafrv., sem eru svo úr garði gerð, að það er undir áliti stj. komið, hvort þau koma til framkvæmda eða ekki. Með önnur lög einnig hefur það verið, að stj. þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til þess að þau gangi í gildi. og það er þá fyrst eftir aðgerðir stj., sem l. öðlast gildi. Dæmi um þetta eru áfengisl. Það var talið, að þau kæmu í bága við samninga við önnur ríki. Stj. átti að breyta þeim samningum. og þegar því væri lokið, átti hún að tilkynna, hvort l. öðluðust gildi. Ég ætla, að brtt. okkar eigi sízt minni rétt á sér en þetta.

Ég skal svo ekki níðast meira á þolinmæði hæstv. forseta. en ég teldi æskilegt, ef hægt væri að haga atkvgr. eins og hv. þm. Borgf. (PO) fór fram á.