19.12.1947
Efri deild: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Þetta mikla mál, sem þjóðin hefur beðið eftir í daga, vikur og mánuði, er nú komið hér til umr. í hv. d., og frsm. n. lýsti því hér yfir og lagði aðaláherzlu á það, að þessu máli yrði að ljúka sem fyrst og helzt í dag, því að ferð félli á morgun til Norðurlands, sem væri síðasta ferð fyrir jól. Það virðist því vera aðaláhugamál hv. frsm. meiri hl. fjhn. að komast heim fyrir jólin, en hitt skipta minna máli, hvort okkar ágæta stjórn situr að völdum til þess að fara með líf þjóðarinnar og afkomu, styðja hana og styrkja á næsta ári. Það er ekkert atriði, hvernig hæstv. ríkisstj. tekst það, heldur hitt, hvort okkur tekst að afgreiða frv. hér frá þessari hv. d. á nokkrum klukkustundum.

Það er ekki meiri alvara gagnvart þessu máli en svo, að enginn úr hæstv. ríkisstj. situr hér undir umr. og sárfáir af þeim hv. þm., sem eiga að gera út um þetta mál. Ég er alveg undrandi yfir þessari meðferð á málinu. Það er vitanlegt, að ekki aðeins veltur líf þessarar ágætu ríkisstj. á því, hvort frv. verður samþ. eða ekki, heldur veltur líf hennar á því, að frv. sé samþ. þannig, að hægt sé að búa við framkvæmd þeirra l., ef frv. verður samþ. Það er hreinn bjarnargreiði við ríkisstj., ef þetta frv. er samþ. úr d. með slíku flaustri, að það sé alveg vitanlegt, að þegar á að fara að vinna undir ákvæðum 1., þá sé ómögulegt að starfrækja einn eða annan atvinnuveg í landinu og fyrir það verði ríkisstj. að víkja úr þeim embættum, sem hún á að sitja í og þarf að sitja í til þess að koma atvinnuvegunum í það horf, sem hún þarf að koma þeim. Ég skal þá snúa mér alveg að málinu.

Það hefur líklega ekkert mál komið hér fram á Alþ., sem hefur verið jafn mikið rætt og þetta mál og hefur tekið jafn langan tíma að bæta úr eins og dýrtíðarmál þjóðarinnar. Það er búið í raun og veru að ræða þessi mál síðan 1941, án þess þó að markaðar væru nokkuð ákveðnar og raunverulegar stefnur í þeim málum. Það hefur verið haldið uppi sífelldum auglýsingum um hættuna í sambandi við dýrtíðarmálin yfirleitt. Og í sambandi við dýrtíðina í landinu hefur verið sagt, að hún væri allt niður að keyra allan tímann síðan 1941. En þó hafa engar raunverulegar aðgerðir verið gerðar í þessum málum til þess að draga úr þeirri hættu, sem hinir myrksýnustu menn hafa öll þessi ár talað um. (HV: Það hefur engin stjórn þorað það.) Það hefur engin stjórn þorað það, segir hv. 3. landsk., og skal ég koma að því seinna. Ég er einn þeirra manna, sem hafa haldið því fram, að dýrtíðin væri ekkert böl fyrir þjóðina, á meðan atvinnuvegirnir gætu þolað kaupgjaldið. Og ég tel, að það hafi verið réttar ráðstafanir. sem gerðar voru 1942, þegar sú ákvörðun var tekin að hækka launakjör fólksins í landinu. Ég álít, að það hafi ekki verið stætt á neinu öðru. Það var verið að dreifa gróðanum, sem skapazt hafði í landinu, út til fólksins, sem líka mestur hluti þjóðarinnar hefur haft gott af og langsamlega þó mest fátæklingarnir í landinu, og það tel ég ekki vera neina goðgá.

En það hefur verið einn flokkur í þessu landi, sem sífellt hefur verið að tala um þetta mikla böl þjóðarinnar, dýrtíðina í landinu, og alltaf spáð hruni frá ári til árs allan tímann, og það var einmitt fyrir þessa spádóma og fyrir þessar mismunandi skoðanir á þessum málum, að þrír flokkar, Alþfl., Sjálfstfl. og Sósfl., tóku höndum saman árið 1944 til þess að sanna, að þetta þyrfti ekki að vera neitt böl. Þeir höfðu þá bölsýnisflokkinn á móti sér í landinu, sem að sjálfsögðu taldi það skyldu sina að gera allt til þess, að þær björtu vonir, sem bundnar voru við þessi mál þá, mættu að engu verða, og þetta var hin raunverulega andstaða hér á Alþ. á þeim tíma. En á þessum árum er lagður grundvöllur undir framtíð íslenzku þjóðarinnar um mörg ár. Þeir menn, sem héldu uppi verstu hrakspánum, urðu sér til skammar fyrir þær.

En svo kemur annar þáttur, sem aldrei hefur tekizt að fyrirgefa Sósfl., að hann sveik alveg þá samninga, sem hann gerði 1944. Hann lofaði 1944, að hann skyldi sjá um, að haldið yrði niðri dýrtíðinni í landinu, kaupgjaldinu yrði haldið niðri, þannig að atvinnuvegirnir gætu staðið undir því. En þegar menn fara að svíkja sín helgu loforð, þá er ekki von á góðu. Sósfl. á því langstærstu sökina á því, hvernig komið er í þessum málum nú. Þeir hlupu frá sínu starfi í ríkisstj. af óverjandi ástæðum, og afleiðingin varð sú, að sú ríkisstj. gat ekki tryggt það, að hin mörgu nýsköpunartæki geti náð þeim árangri, sem búizt var við.

Það var ekki að búast við því, að einmitt þeir menn, sem alltaf héldu því fram, að þetta mikla starf fyrrv. ríkisstj. væri ekkert nema blekking, færu að hjálpa til þess að sýna opinberlega, að það væri veruleiki, en ekki blekking, eins og þeir höfðu alltaf sagt. Hvernig mátti það ske, að þeir tækju þannig á málunum eftir allt, sem þeir höfðu áður sagt og skrifað um nýsköpunina?

Sósfl. var líka bent á þetta á þeim tíma, en þeir vildu ekki trúa því, og þeir eiga fyrst og fremst sökina á því, að ekki varð betri árangur af þessu starfi frá 1940 til 1946 en orðið hefur. Það vekur þess vegna undrun að heyra hv. þm. Sósfl. tala um það nú, að ef þeir hefðu ráðið og fengju að ráða nú, þá væri allt öðruvísi. Hvers vegna vildu þeir ekki halda áfram að ráða þessum málum, þegar þeir störfuðu til þess í ríkisstj.? Trúðu þeir ekki á nýsköpunina í landinu, eða héldu þeir, að nýsköpunin mundi reynast betri, ef hún kæmist í hendur framsóknarmanna, sem alltaf spáðu illa um nýsköpunartogarana? Það er fyrst og fremst sök Sósfl., ef um sök er að ræða, að Framsfl. er kominn í þessa aðstöðu, sem hann er kominn nú.

Nú er svo komið. að ekki verður lengur um það deilt, að kaupgjald í landinu er orðið of hátt til þess, að framleiðslan geti borið það. Og það er, eins og ég sagði áðan, fyrst og fremst fyrir tilverknað Sósfl. Því hefur verið haldið fram, m.a. af hæstv. dómsmrh., að engin þjóð í heimi, sem hann þekkir til, hefði þolað að greiða fulla vísitölu á kaup síðan stríðið hófst, eins og við höfum gert, og býst ég við, að þetta sé rétt. En þetta er ekki þannig á Íslandi. Hér hefur verið hægt og er hægt að greiða vísitölu að fullu, ef ekkert hefði verið gert annað, eins og þegar er búið, að grunnlaun hafa verið tvöfölduð, og svo er borguð full vísitala á þau. Þarna er ekki aðeins um laun verkamanna að ræða, heldur og allra embættismanna í landinu. En það er annað verra, sem hefur komið, síðan þessi hækkun á vinnulaunum varð. Það eru vinnusvikin, sem eru kannske verst þolandi af þessu öllu saman og einnig erfiðust viðureignar. Sé hætt á það að færa grunnlaunin í það horf, sem þau voru fyrir stríð, og greiða fulla vísitölu á það, þá eru ekki vandræði að reka atvinnuvegina. En til þess er aldrei hægt að ætlast, að nokkur atvinnuvegur í nokkru landi þoli stjórnlausa launahækkun, án þess að komi á móti jafn miklar eða meiri tekjur. En verði snúið við á þessari braut, þá koma þeir menn, sem mesta ábyrgðina bera á því, að þannig verður að fara að, og reyna að standa á móti því, sem þeir mega. Þeir munu sjá, hvað það gildir fyrir umboð þeirra í landinu. Og hvort sem þetta frv. fer hér í gegn á Alþ. breytt eða óbreytt, þá hefur það ekki áhrif á meginþátt málsins, að atvinnuvegirnir verða að ganga og þannig, að þeir geti borið sig, og það verður ekki fyrr en búið er að samstilla launakröfurnar annars vegar og tekjur atvinnuveganna hins vegar. Það er eins víst lögmál eins og að vatnið fellur frá fjallshlíðunum niður í sjó.

Atvinnurekendur mættu því með fullum skilningi að láta af hendi ákveðinn og allstóran hlut af sínum tekjum 1942 til þess að bæta kjör fólksins í landinu. Árið 1944 lofuðu fulltrúar í Sósfl., að þetta skyldi tekið til athugunar, þegar þess þyrfti með vegna atvinnulífs þjóðarinnar. En það er eitt af því, sem sá flokkur hefur svikið.

Nú viðurkenni ég, að allur sá áróður, sem haldið hefur verið uppi öll þessi ár af andstöðuflokki þessa máls, Framsfl., hefur gert sitt til þess, að nú er svo komið sem komið er, því að annars hefði verið hægt að ná miklu betri árangri af starfi fyrrv. ríkisstj. En það var allra verst, þegar einmitt sá aðili, sem átti að vera hlynntastur þessu máli, eins og Sósfl. átti að vera vegna launastéttanna, bregzt algerlega og hjálpar til þess, að hinir illu spádómar andstæðinga málsins fengju að rætast, og það verður þjóðin lengi að fyrirgefa þeim, þegar hún áttar sig á því, hvaða óskaplegan glæp þeir frömdu á þeirri stundu.

Í þessu frv. eru ströng ákvæði. Ströng ákvæði geta haft fullan rétt á sér, en það verður ekki hægt að ná árangri, ef í þeim felst óréttlæti. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir hæstv. ríkisstj., sem ég styð og styð svo vel, að ég vil benda henni á þetta, að hún láti ekki þetta frv. fara í gegn með þeim göllum, sem á því eru. Ríkisstj. verður ekki fær um að framkvæma þau l., ef frv. verður samþ. óbreytt, vegna þess að fólkið álítur ákvæði þeirra l. ranglát og of ströng. Þetta hefur sýnt sig með gerðardómsl. og bannl. á sínum tíma, og það hefur sýnt sig með skattal. Þess vegna er það ekki mælt gegn stjórninni að reyna að fá hana til þess að laga þá ágalla, sem á frv. eru nú, heldur til þess að hjálpa henni að gera þessi 1. þannig, að við þau megi una. Ég tel, að það sé mjög óskynsamlegt að ákveða svo fyrir fram, að engu megi breyta, eins og gert er með þetta mál, og því fremur sem það virðist gert vegna þess, að það þarf að hraða svo störfum þingsins, til þess að hv. frsm. meiri hl. fjhn. og aðrir norðanþm. komist heim fyrir jól. Það virðist vera meiri áhugi fyrir því en hvernig tekst að leysa þetta mikla vandamál, sem afkoma og líf þjóðarinnar byggist á að miklu leyti. Ég teldi það enga goðgá, þó að þeir hv. þm. kæmust ekki heim og við yrðum að sitja alla jóladagana og fram yfir nýár, ef hægt væri að ganga þannig frá málinu, að útveginum væri bjargað og því, sem bjarga þarf.

Ég skal þá fara nokkrum orðum um sjálft frv. Í fyrra um þetta leyti var einnig verið að semja um afkomu eins aðalatvinnuvegar landsmanna, sjávarútvegsins. Þá voru afgr. hér l. um ríkisábyrgð vegna bátaútvegsins. En í því frv. stóð, að samfara því, sem þá skyldi gert, skyldi sett á stofn fjögurra manna nefnd til þess að gera till. í dýrtíðarmálunum, og þær áttu að ráða þá svo miklu í þessu máli, að n. átti að vera búin að skila till. sínum fyrir 1. febr. Þessi n. var skipuð. Hún var skipuð einum manni úr hverjum stjórnmálafl., og í n. voru að minnsta kosti tveir fulltrúar frá sjávarútveginum, einn frá bændastéttinni, kaupmönnum og kaupfélögum sameiginlega, og einn frá verkalýðsfélögunum, og í raun og veru var annar fulltrúinn fyrir sjávarútveginn einnig fyrir verkalýðsfélögin. Fráfarandi ríkisstj. lét aldrei þessa n. byrja að starfa, sem ekki var von. Hún vissi ekkert um, hverjir tækju við, og hún vildi beinlínis ekki láta þessa menn leggja grundvallaratriðið að þessu stóra máli, vitandi ekki, hvaða skoðanir ríkisstj,, sem tæki við, hefði á málinu. Og núverandi ríkisstj., sem alveg sérstaklega situr að völdum til þess að vinna bug á dýrtíðinni, hefur aldrei dottið í hug að láta þessa n., sem samkvæmt h var skipuð til þess, leggja nein grundvallaratriði fram í þessu máli. (HV: Það var enginn formaður fyrir n.) Það var að vísu enginn formaður fyrir n., en þó svo hefði verið, er það víst, að hæstv. ríkisstj. gerði ekkert til þess að fá þessa menn sér til aðstoðar. En ríkisstj. gerir annað, hún kallar saman stéttaráðstefnu, og það í raun og veru alveg án þess, að þeir menn hafi nokkurt vald til þess að vinna. Sú ráðstefna starfar án þess, að nokkuð sé talað við þá menn, sem l. samkvæmt voru skipaðir til þess að vinna það verk. Þessi stéttaráðstefna hafði ekki einu sinni umboð frá stéttarfélögunum, en þessir fjórir menn höfðu umboð frá Alþ. til þess að vinna verkið. Og síðan er skipuð sex manna n. til þess að vinna þetta verk, og árangurinn af því starfi er þetta frv., sem hér liggur fyrir. En hvernig er sú n. skipuð? Hún er skipuð þannig, að í henni eru 3 menn af 6 frá kaupfélögunum í landinu, og það sést líka á frv. Þannig eru 3 af 6 mönnum fyrir ákveðna stétt í landinu. Það er enginn fyrir verkalýðinn og það er enginn fyrir sjávarútveginn. Það er einn fyrir alþýðufélögin, bæjarfógetinn í Hafnarfirði. Það er enginn fyrir útgerðarmenn, enda sést það á frv. Það er enginn þar til þess að gæta þeirra hagsmuna, enda verða þeir að rísa upp sjálfir til þess að fá sinn hlut réttan.

Ég hef ekki farið dult með það, síðan þetta mál kom hér fram, að ég er á móti málinu. Ég hef hins vegar ekki tekið upp harðskeytta baráttu í þessu máli hér í hv. d., heldur annars staðar, og orðið vel ágengt í því að færa það til betri vegar, sem sést meðal annars á þeim breytingum, sem gerðar hafa verið.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. tekið að sér að lækka dýrtíðina í landinu, og eru nú liðnir rúmir 10 mánuðir, síðan það var ákveðið. En er nú hæstv. ríkisstj. viss um, að ef frv. nær fram að ganga eins og það er, að hún nái þá sínu marki með því? Ég tala hér ekki sem andstæðingur, heldur sem fylgismaður hæstv. ríkisstj., og þess vegna hef ég verið að benda á ýmsar veilur, sem ég álít, að séu í þessu frv. Og ég tel það skyldu hennar að taka þær aths. til athugunar, ef hún vill þjóðinni svo vel, að hún vilji, að þetta mikla mál komist í gott horf. Ríkisstj. getur yfirsézt við undirbúning l., ef hún hefur ekki nægilega mikið og lifandi samband við það fólk, sem við l. á að búa. Ég held, að hv. frsm. n. ætti að athuga það, hvernig banni., sem hann lengst af hefur verið umboðsmaður fyrir, var tekið af þjóðinni. (BSt: En ég snerist í málinu, þegar ég fékk reynsluna.) Og mér þætti ekki ólíklegt, þótt hann ætti eftir að snúast í þessu máli, ef hann er ekki búinn að því nú þegar.

Ég skal þá koma að IV. kafla frv. Þessi kafli miðast við sjávarútveginn. Nú get ég sagt frsm. n. það, að það er ekkert líklegra en að þann dag, sem þetta frv. verður að l., verði stórútgerðin að stöðva sinn rekstur. Það er ekkert gert í frv. til hjálpar henni. Það er hér um tvennt að ræða, að hafa mennina góða og reka útgerðina með stórkostlegum taprekstri eða að ráðast á fólkið og segja: Við verðum að lækka ykkar laun, eða við verðum að leggja skipunum. Ég er alveg viss um, að ekki hefur verið haft nægilegt samband við þessa menn. Ég tel, að grundvöllurinn fyrir áhættuþóknuninni sé fyrir löngu fallinn burt, en þessir menn hafa sagt: Áhættuþóknunin er ekki þóknun, hún er kjarabætur. Þeir vilja ekki lækka sitt kaup, en útgerðarmenn eiga ekki annars kost en að láta stöðva útgerðina, og getur það kostað þjóðina milljónatap.

Ég skal segja það, að ég er ekki viss um, að búið sé að ganga svo frá málinu enn, að ekki þurfi að gera einhverjar aðrar sérstakar ráðstafanir til þess að halda uppi atvinnulífi í landinu. Það er líka rétt, sem hv. 4. landsk. (BrB) sagði, að frystihúsin geta ekki starfað, ef ekki verður breytt til. Útlenda varan er hækkuð í verði, en þeirra framleiðsla hefur ekki hækkað, og þó að mismunurinn á vísitölunni komi þeim í hag, hafa margir útgjaldaliðir orðið miklu meiri, og hér í þessu frv. stendur fyrir mistök ýsuflök í staðinn fyrir lönguflök, en þetta er svo stórkostlegt atriði, að það skiptir tugum þúsunda. Svona mistök kosta það, að það verður að stöðva þessa atvinnu, og ef á að hafa svona stirfni hér að vilja ekki laga slík mistök, þá er ekki hægt að tala um málið hér, og ef menn hafa ekki meiri trú á fylgi málsins í Nd. en svo, að það megi ekki laga atriði, sem eru alveg nauðsynleg, þá veit ég ekki, hvort rétt er að samþykkja frv.

Il. kafli frv. er um eignaraukaskatt. Þetta er samkvæmt kokkabókum þeirra Haralds Guðmundssonar og hv. þm. Str. (HermJ) frá 1943. Út af fyrir sig tel ég nú, að þetta sé stærsti bletturinn á frv., og skal færa fyrir því rök.

Ég álít ófært, að þegnar þjóðfélagsins skuli ekki geta treyst löggjöf Alþingis yfirleitt. Þetta var rætt mikið árið 1943, þegar sams konar frv. var hér á ferðinni. Því var lofað á þeim tíma, að ef menn greiddu tekjuskatt, sem lög standa til, þá væru þeir frjálsir. Nú er komið aftan að þessum mönnum og sagt: Nei, þú færð ekki að eiga þetta. — Þetta er svo mikil siðferðileg uppgjöf, að það er undarlegt, að alþm. skuli vilja samþykkja þetta.

Það er farið lengra. Þegar eignakönnunin var samþykkt, var viðurkennt, að það væri síðasta sporið. Þá var fólkinu í landinu boðið upp á það, að ef það bara vildi vera góðu börnin, þá skyldi það fá fyrirgefningu. Það skyldi fá fyrirgefningu allra sinna synda, ef það bara vildi telja fram. Viðurlögin voru ekki þung. Ríkissjóður vildi taka féð og geyma það, en enginn blettur átti að falla á þá, og þá var viðurkennt, að það væru engin lögbrot að svíkja skatt. En nú, áður en séð er allt það tjón, sem þessi l. skapa þjóðinni, þá er komið og sagt: Nei, nú ætlum við að taka þetta. — Þetta er ekki ólaglega að farið hjá Alþ. í þessu viðkvæma máli. Það getur verið réttlátt að láta l. um eignakönnun ganga fram, en vilja þessir menn ekki athuga, hvað mikið tjón hefur orðið að þeim l. Mest af þeirri peningakreppu, sem við höfum, er afleiðing eignakönnunarl. Það þarf ekki að hafa verið rangt að svíkja skatt, en hver einasti maður, sem ekki vildi trúa Alþ., vildi heldur kaupa allt það rusl, sem fannst í verzlunum, en eiga peningana. Og tómar búðirnar kölluðu á nýjan innflutning, sem ekki var hægt að standa á móti, hvernig sem neitað var í stórráðinu. Það er áreiðanlegt, að þjóðin er ekki búin að bíta úr nálinni með það.

Sumir, sem hafa safnað þessum eignum, sem nú á að taka, eru sjómenn, sem lögðu það á sig á stríðsárunum 1939–1945 að halda uppi ferðum milli Íslands og útlanda. Þeir fengu það loforð, að nokkur hluti launa þeirra skyldi vera skattfrjáls, en það er ekki nema þangað til vindurinn blæs af annarri átt. Nú er það tekið af þeim með hægri hendinni, sem sú vinstri gaf, og það er svo stór smánarblettur, að hann verður aldrei þveginn af. Það er vitað, að þeir, sem heima sátu, nutu góðs af störfum þessara manna, sem lögðu líf sitt og gæfu sinna í hættu, og margir bíða þess aldrei bætur. Nú kemur Alþ., kreppir klærnar og segir: Nú tökum við þetta. — Það er ekki lítið siðferði þetta. Þessir menn búast ekki við öðrum ófriði, enda veit ég ekki, hvernig þeir ætla að koma til þessara manna aftur. Ég ber fram brtt. á þskj. 229 um, að á eftir e-lið komi tveir nýir liðir, er verða d- og e-liðir og orðist svo:

„Fé það, sem greitt hefur verið til sjómanna sem áhættuþóknun á árunum 1940 til 1945, að báðum meðtöldum, og ekki hefur verið greiddur tekjuskattur af.“

„Fé það, sem lagt hefur verið í varasjóði hlutafélaga, annarra en þeirra, sem að framan getur, og ekki hefur verið greiddur tekjuskattur af.“

Ég hef takmarkað þetta við árin 1940–1945, af því að það voru stríðsárin. Það er ekki farið verr með þá en þjóðina almennt, þó að þeir fái ekki skattfrjálst það fé, sem þeir hafa fengið síðan, þótt það sé talin áhættuþóknun. En það er ekki hægt að reikna eignarskatt af því fé, sem þeir unnu inn á þessum árum. Það getur verið, að þeir hafi haft 150–200 þús. kr. tekjur. Menn vissu það vel, en það var engan hægt að fá til þess að vinna þetta verk nema fyrir þetta. Þeir kunna sumir að eiga allt upp undir milljón. Þeir kunna að hafa orðið að láta lífið síðan og þetta liggi hjá ekkju og börnum. Það er óhuggulegt, að ríkissjóður kemur svo og tekur þetta fé, og ég trúi því ekki, að þessi till. mín verði felld.

Hin till. um fé, sem lagt hefur verið í varasjóði hlutafélaga, var borin upp í Nd. og felld þar. Nú vil ég benda á, að þótt öðruvísi standi á um þetta atriði, er það hreint gerræði gagnvart þessum mönnum, sem lögðu þetta fé í ákveðna sjóði. Þeir hefðu kannske heldur viljað láta það liggja í hlutafélögunum eða reynt að eyða því, en þetta er gert vegna skattfrelsisins. Svo er komið og féð tekið af þeim. En það eru önnur félög, eins og samvinnufélögin, sem eru látin halda skattfrelsinu. Það er gaman að kynna sér, hvaða aðferðir framsóknarmenn hafa tamið sér í baráttunni fyrir skattfrelsi samvinnufélaganna á síðari árum. Það er ekki nema mannlegt, að menn taki upp baráttuna fyrir hagsmunum sínum og annarra, en það hafa ekki verið siðferðilega sterkar aðferðir, sem Framsfl. hefur notað. Ég sé á brtt. hv. 1. þm. N.-M. (PG), að hann er á þessari skoðun. Aðferðin er sú að ráðast alltaf á Eimskipafélagið til þess að taka af því skattfrelsið. Ég veit ekki, hvort það er meiningin, en það hefur verið gert á þann hátt, að sagt er: Það skal verða lagður skattur á Eimskipafélagið, ef skattur er lagður á samvinnufélögin. Sannleikurinn er sá, að þessu óskabarni þjóðarinnar er haldið á járnteini yfir logandi eldi, og það er sagt við móður þess: Þetta barn verður brennt, ef þið veitið ekki öðrum sömu fríðindi án sömu skyldu. Hvað er óhugnanlegri bardagaaðferð?

Nú vil ég spyrja: Hvers vegna eiga samvinnufélögin að hafa meira skattfrelsi en önnur hlutafélög? Það er vitað, að þau eru góðir verzlunaraðilar. En ef þau væru betri en aðrir, þyrftu þau ekki skattfríðindi. Dæmin sýna sig. Nú er komið svo, að enginn maður hefur getað fengið sement nema að kaupa það hjá S.í.S. Þar kostar það 316 kr. tunnan, en hjá heildsölum ekki nema 271 kr. Þetta er ekki lítill skattur, en menn eru neyddir til að kaupa sementið þarna, svo að það gangi sem fyrst út. Það eru mörg dæmi um það, að vörur eru ekki ódýrari hjá samvinnufélögunum. Ég sé ekki, hvers vegna þessi félög eiga rétt á meiri skattfriðinum en önnur hlutafélög í landinu. Í hlutafélögunum er ekki hægt að taka út fé nema greiða skatt. Hlutafélögin geta ekki farið út fyrir það starfssvið, sem þeim er ætlað. Þetta hefur verið viðurkennt af hv. þm. S: M. (EystJ). Þess vegna er þetta fjarstæða. Það stendur nákvæmlega á sama, hvort um hlutafélag eða samvinnufélag er að ræða eða sameignarfélag. Þau geta ekki hreyft sitt fjármagn nema eftir vissum reglum.

Ég ætla hér að benda á það, hvað hæstv. dómsmrh. (BBen) sagði um þessi mál hér á þingi 1943. Þá var þetta til umr., og ætla ég að benda á það, hvaða álit hann — einn af allra mestu lögfræðingum landsins — hafði á þessu. Hann segir:

„Vil ég nú þegar gera þann fyrirvara, að ég mun ef til vill síðar leita forsetaúrskurðar um þetta frv., þar sem ég tel það áhorfsmál, hvort ekki sé með því verið að brjóta í bág við stjórnarskrá landsins, því að ég efast um, að ákvæði þessa frv. rúmist innan þeirra takmarkana, sem nú gilda í stjórnarskrá vorri um skattaálagningu.“

Hann tekur svo djúpt í árinni, að hann ætlar að leita forsetaúrskurðar um, hvort ekki eigi að vísa málinn frá. Hann segir enn fremur: „Ef menn geta .ekki fengið að ráðstafa því fé í sæmilegu trausti og byggt á því framtíðaráætlanir sínar, þá er algerlega kippt grundvellinum undan því efnahagsskipulagi, sem við búum nú við, og ef menn vilja halda því, þá mega þeir ekki viðhafa aðferðir, sem miða ekki að því að byggja það upp, heldur að því að rifa það niður og stofna til enn meira öngþveitis en verið hefur fram að þessu. Ég tel það vera stórhættulegt, ef sú trú kemst inn hjá mönnum, að það fé, sem er skilið eftir hjá þeim af skattheimtunni, megi þeir ekki í fullu trausti skoða sem eign sína og ráðstafa því samkvæmt því, heldur kunni að koma til þess, að löggjafarvaldið átti sig mörgum árum síðar á því, að það hafi skilið of mikið eftir í höndum einstaklinga og muni því ráðlegast að taka nú meira af því.“

Við skulum nú halda áfram og sjá, hvað hann segir við atkvgr. Þar hafði verið borin fram brtt. af hv. þm. S.–Þ. (JJ) um, að miðað væri við f0 þús. í stað 100 þús. Þá segir hæstv. dómsmrh.:

„Ég tel, að þetta frv. fái ekki staðizt fyrir dómstólunum og verði talið koma í bág við stjórnarskrána og vil láta uppi óbeit mína á því athæfi, sem hér fer fram, og segi því nei.“

Þetta sagði hann. Ég verð að segja, að það er ekki aðeins kaldhæðni örlaganna, að þessi sami maður skuli nú bera fram þetta frv. hér sem dómsmrh., það er ömurlegt hlutskipti manns, sem hefur fyrir eitthvað annað orðið að láta af sinni skoðun. En svona fer, þegar farið er til annarra eins okurkarla og þeirra, sem hafa lánað honum. [frh.]