03.12.1947
Neðri deild: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (2532)

94. mál, dýrtíðarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var í byrjun september á þessu hausti, að ríkisstj. boðaði til hinnar svonefndu stéttaráðstefnu til að leita þar eftir samstarfi við fulltrúa stéttanna í landinu til að glíma við dýrtíðarvandamálið, eins og það hét. Nú eru liðnir um 3 mánuðir síðan þetta var, og harla lítið hefur enn þá heyrzt frá þessari ráðstefnu, en það er af ofur skiljanlegum ástæðum. Þó að um það leyti. sem stéttarráðstefnan var kvödd saman, væri býsna hátt talað um dýrtíðina og hver ráðherrann eftir annan kæmi í útvarpið til að útmála hið voðalega ástand, já, þrátt fyrir hin mörgu og stóru orð forustumanna þjóðarinnar í sambandi við þessi stóru mál, þá hafa engar tillögur komið fram til lausnar af hálfu þeirra, er með völdin fara. Strax í byrjun september var það rækilega auglýst fyrir þjóðinni, að hún væri á gjaldþrotsbarmi. Skýrsla fjárhagsráðs átti að sanna þetta. Gjaldeyririnn var á þrotum og litlar eða engar líkur til öflunar lágmarksgjaldeyris fyrir þjóðina til að lifa af. Þessar lýsingar þekkja nú allir. Formenn tveggja stærstu þingflokkanna brugðu samt á rás vestur um haf í haust, þó að allt væri að fara til fjandans eftir lýsingum stjórnarvaldanna að dæma, og sjálf ríkisstj. tók svo á þessum málum, að er hún hafði kvatt saman 10 fulltrúa frá stéttunum, héldu ráðherrarnir sömu ræðurnar og þeir höfðu áður haldið í áheyrn alþjóðar í útvarp, og er þeim var lokið, var sagt við fulltrúana: Hingað og ekki lengra, nú skuluð þið strax fá hvíld, á meðan við höldum áfram að reikna og teikna og vita, hvað hægt er að gera í málinu. Sem sagt, það fyrsta, sem sagt er við stéttaráðstefnuna, er það, að ríkisstj. hafi ekki undirbúið málið. Strax á fyrstu dögum ráðstefnunnar, þegar fulltrúarnir ætluðu að fara að snúa sér að viðfangsefnum sínum, var allt undirbúið af hálfu ríkisstj. Hún átti eftir að láta reikna og teikna og bað um frest um óákveðinn tíma. Þessi frestur hefur svo orðið þannig, að þó að liðnir séu þrír mánuðir, frá því að ráðstefnunni var frestað, þá hafa fulltrúar fram að þessum tíma ekkert fengið að starfa, og nú skilst manni helzt, að ríkisstj. hafi kvatt til þessarar ráðstefnu í þeim tilgangi að gabba fulltrúana og gera grín að þeim, því að nú boðar ríkisstj., að hún muni innan skamms leggja dýrtíðarfrv. sitt fyrir þingið, en í millitíðinni hefur hún ekkert samband haft við fulltrúa stéttasamtakanna. Þetta eru satt að segja einkennileg vinnubrögð, ef einhver alvara er um það hjá stjórninni að leysa aðkallandi vandamál í samvinnu við höfuðstéttir landsins. Sýnir þetta kannske, að alvaran sé harla lítil í því efni, eða er leitað að þannig lausn, að ekki kæmi til greina samvinna við stéttasamtökin um hana? En þegar flestir landsmenn sjá, að ekki má lengur dragast að hefja raunhæfar aðgerðir, og þegar stjórnarandstaðan ber fram till. til úrbóta á vandamálum þjóðarinnar, þá ber ríkisstj. sig illa og tekur lítinn þátt í umræðunum um þær till. Í stað þess gefur hún út skriflega tilkynningu, sem gengið hefur á milli allra ráðherranna, og tilkynningin er á þessa leið: Hér er um erfitt mál að ræða. Við erum að láta lærða menn reikna og teikna, en niðurstaðan er ekki enn þá fundin, en stundin nálgast. — Þetta er tilkynningin, sem þjóðin fær eftir allt, sem á undan er gengið. Já. stundin nálgast. Mér þykir þingheimur sýna ríkisstj. mikla þolinmæði og mikið umburðarlyndi, ef þm. láta sér þetta lynda, þegar svo brýn nauðsyn er á því, að fram kæmi till. til umbóta aðkallandi vandamála. Þm. hlýtur að vera nóg boðið af svona aðferðum, og þeir hljóta annaðhvort að krefjast till. af hálfu ríkisstj. eða þá að ræddar verði í alvöru till. okkar sósíalista og á þeim þá gerðar þær breyt., sem meiri hluti þm. telur æskilegar. Eða á að halda áfram á braut úrræðaleysisins og drepa allan kjark úr þjóðinni og stefna út í atvinnuleysi og öngþveiti? Ég vildi sérstaklega benda á eitt atriði í sambandi við lausn dýrtíðarmálanna. en það er það, að þær ráðstafanir, sem gerðar verða nú til lausnar vandanum, verða að grundvallast á samkomulagi við aðalstéttasamtök landsins. En með þeim vinnubrögðum af hálfu ríkisstj., sem ég lýsti áðan, eru stéttasamtökin skágengin og lítils virt, og virðist helzt í ráði að kasta hér fram till., án þess að ráðgast við þau að nokkru.

Slík vinnubrögð hljóta að leiða af sér vandræði, sem erfitt verður að leysa, og er því ekki seinna vænna að breyta til og hefja ákveðið og einlægt samstarf við höfuðstéttirnar um lausn dýrtíðarmálanna.

Það er aðallega einn þáttur í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, sem ég vildi gera að umtalsefni, en það er sá þáttur, er snýr að fiskibátaflotanum. En þannig er nú ástatt fyrir fiskibátaflotanum, að gera verður alveg sérstakar ráðstafanir til þess, að útgerðin geti hafizt á réttum tíma í vetur. Það er raunar búið að draga nauðsynlegar aðgerðir svo lengi, að af þeim drætti hefur þegar skapazt tjón, sem ekki verður bætt. Útgerð bátaflotans krefst minnst mánaðar undirbúnings, og það er ekki hægt að setja allan flotann af stað í einni svipan, eins og ýtt sé á takka og allt fari þá á stað. Nú er komið fram í desember, og enn er hér talsvert eftir af þingstörfum, sem ljúka þarf, áður en nauðsynlegar ráðstafanir vegna útvegsins verða gerðar, en venjan að hefja útgerð strax upp úr áramótunum. Drátturinn á raunhæfum aðgerðum hefur þegar valdið óbætanlegu tjóni, og hver dagur, sem líður án þess að eitthvað sé gert til tryggingar rekstri bátaútvegsins, þýðir tapaðan dag á næstu vertíð. En hvernig er viðhorfið í sambandi við rekstur bátaflotans, og hvað verður að gera? Það, sem fyrst blasir við, er það, að vegna síldarleysisins s. l. sumar er mikill hluti flotans þannig efnum búinn, að á mörgum bátum hvíla stórkostleg sjóveð, og geta þeir því ekki farið til nýrrar vertíðar, nema eitthvað verði gert til að leysa af þeim skuldaböndin. Þetta er atriði nr. 1. Það eru skuldirnar. sem hvíla á allmiklum hluta bátaflotans frá því í sumar og verður tafarlaust að leysa. Í frv. okkar eru gerðar sérstakar till. til lausnar á þessu atriði. og ég verð að segja það, að ég kem ekki auga á aðra lausn, enda hefur áður verið horfið að sams konar lausn þessa máls hér á Alþingi. — 2. atriðið er einnig afleiðingin af því, hversu síldveiðarnar brugðust s. l. sumar, en það er, að mikill hluti bátaflotans getur ekki staðið í skilum við stofnlánadeildina og aðrar lánstofnanir. Stofnlánin hafa yfirleitt fallið í gjalddaga nú 1. nóvember, og hafa þannig hrúgazt upp skuldir hjá útvegsmönnum, og á þessum skuldum eru mjög háir dráttarvextir. Skuldir útvegsins verða þannig enn stórkostlegri og gera flotanum gersamlega ófært að hreyfa sig. Þetta er annað höfuðatriðið varðandi bátaútveginn, sem tafarlaust verður að leysa. Í frv. okkar eru einnig ákveðnar till. um lausn á þessum vanda. og sé ég heldur ekki, að þar sé um aðra leið að ræða, og hef ég hvergi í umræðum né blaðaskrifum heyrt eða séð um önnur atriði en þau í till. okkar til lausnar á þessu. Þessi grundvallaratriði þykist ríkisstj. vilja leysa, en er svo varla til viðtals, þegar till. til úrbóta koma fram. Auk þessara tveggja atriða, sem ég hef gert að umtalsefni, er óhjákvæmilegt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja fast lágmarksverð fyrir aflann á komandi vertíð. Þetta hefur áður verið gert, en heyrzt hafa raddir, að þetta væri óviðkunnanlegt, óréttmætt og óeðlilegt. En þetta er alveg óhjákvæmilegt. að tryggja fast fiskverð, og þeir, sem eru á móti, verða að öðrum kosti að benda á aðra leið, því að þetta er undirstöðuatriði fyrir bátaútveginn. Á atvinnuleysisárunum fyrir stríð var hægt að fá fiskimenn til að róa upp á hlut, án þess að þeir vissu, fyrir hvað aflinn mundi seljast, eða hvenær hann yrði seldur. Slíkt ástand er nú liðið hjá, og nú fást engir til að róa án þess að vita, hvenær eða fyrir hvað aflinn selst. Öll stríðsárin vissu sjómenn þetta og gátu því reiknað nokkurn veginn út kaup sitt í meðalaflaári. En þegar mikill hluti aflans er óseldur í vertíðarbyrjun, verður að tiltaka eitthvert lágmarksverð og tryggja útvegsmönnum það með einhverju móti, og er þá varla um annað að ræða en ríkið ábyrgist verðið. Og ég er líka sannfærður um, að þegar menn, meira að segja þeir sem skipa núverandi ríkisstj., fást til að hugsa um þessi mál, að þá munu þeir sjá, að það verður að tryggja fiskverðið að tilhlutun ríkisvaldsins. Þyki einhverjum óviðfelldið að nota orðið ríkisábyrgð, þá getur ríkisvaldið skyldað bankana til að ábyrgjast fiskverðið til þess að friða þá, sem eru feimnir við orðið ríkisábyrgð. En slíkt er eingöngu álíka hringsól í kringum rófuna á sér eins og þegar ríkisstj, ætlar að koma á gjaldeyrisskatti, sem verkar eins og gengislækkun. en það má bara ekki kalla það gengislækkun. Verði verðið tryggt á annan hátt en með ríkisábyrgð, skiptir það engu máli, en mér sýnist, að í okkar frv. sé lagður grundvöllurinn að lausn þessa máls, og hefur þá annað eins gerzt á Alþingi og breytt sé einu orði í stórum lagabálki. Í þessu frv. höfum við gert ráð fyrir, að verðið verði jafnhátt og gengið er út frá á þessu ári, eða 65 aurar fyrir hvert kg. af þorski og ýsu með haus. Það er ljóst, að þetta verð er heldur lágt fyrir útgerðarmenn að óbreyttum kringumstæðum. Rekstrarkostnaður útvegsins er nú það mikill, að þetta dugir ekki, nema aðrar ráðstafanir komi til. Því er í frv. okkar gert ráð fyrir að lækka rekstrarkostnað útgerðarinnar útgerðinni í hag, og bendum við þar á þessar leiðir: Í fyrsta lagi er lagt til, að vaxtakostnaður lækki. Það ætti að vera tiltölulega auðvelt að lækka hann um helming, ef skilningur er fyrir hendi. Sé miðað við áætlun hagfræðinganefndarinnar, sem sat á rökstólum í fyrra. þá verður vaxtakostnaðurinn á bát, eftir því sem hagfræðingarnir reiknuðu. tæpar 30 þús. kr., en það er alveg augljóst, að hér er verulega of lágt áætlað, og er auðvelt að benda á, að vaxtaútgjöldin í sambandi við síldveiðarnar eru miklu hærri en þeir gera ráð fyrir. Ef takast mætti að lækka þessa upphæð um helming, eða niður í 15 þús. kr., þá vegur það mjög mikið til að draga úr rekstrarkostnaðinum. S. l. ár græddi Landsbanki Íslands samkv. skýrslum, sem hann sjálfur hefur gefið út, 14,2 milljónir kr. Verulegur hluti þessa gróða er tekinn beint frá útgerðinni, en þær breyt. voru gerðar á rekstri bankans, að hann var með lögum skyldaður til að lána háar fúlgur til útgerðarinnar, en þær ráðstafanir leiddu til þess, að útlán bankans jukust stórkostlega og heildarvaxtatekjurnar að sama skapi, svo að bankinn græddi á síðasta ári meira en helmingi meira en árið þar á undan. Þar sem mikill hluti þessa gróða, sem bankarnir hafa rakað saman að undanförnu, er frá útgerðinni, þá virðist ekki nema eðlilegt að þeir slaki nú til með útlánsvexti til þess að gera útgerðinni færara fyrir. — [Umr. frestað um stund.]

Ég var að gera grein fyrir þeim lið í till. okkar sósíalista sem fjallar um lækkun á rekstrarkostnaði útvegsins og hafði vikið nokkuð að vaxtalækkun, en vil fara um það fáum orðum til viðbótar.

Þær vaxtagreiðslur, sem útvegurinn býr nú við, eru ekki einungis allt of háar, heldur líka í fyllsta máta ósanngjarnar. Það er t. d. kunnugt. að bankarnir hafa mikið lánað út á veiddan fisk, sem legið hefur í öruggri geymslu í frystihúsum, en sökum ýmissa örðugleika ekki verið sendur á markaðinn. Þessi framleiðsla er í alla staði tilbúin á markaðinn og auk þess með ríkistryggðu verði. En þrátt fyrir það hafa bankarnir tekið háa vexti af þessum lánum, sem hvílt hafa með miklum þunga á framleiðendunum, því að lánin hafa oft þurft að standa marga mánuði. Við athugun hljóta menn að sjá ósanngirnina í háum vöxtum af slíkum lánum, samanborið við ýmsar aðrar lánveitingar. Í Noregi eru lán veitt með mjög hagkvæmum kjörum og það miklu betri kjörum en lán til annarrar starfsemi, en það er alveg gagnstætt því, sem hér er. Ég var staddur á útgerðarmannafundi nú fyrir nokkru. Þar lýsti einn frystihúseigandi því, að s. l. ár hefði hann greitt í vinnulaun við frystihúsið samtals 300 þús. kr., en vaxtagreiðslurnar fyrir árið námu af þessu sama frystihúsi 100 þús. kr., eða vextirnir voru 1/3 á móti öllum vinnulaunum. Það sjá allir, hvað slík vaxtagjöld torvelda reksturinn. Þessu verður að breyta, bæði með því að lækka vextina alla og auk þess veita sérstaklega hagkvæm rekstrarlán, því að það er engin meining að láta greiða miklu hærri vexti af lánum, sem veitt eru út á fullunna vöru, er tefst nokkra mánuði, áður en hún er flutt út, heldur en af lánum, sem standa eiga marga áratugi. Ég er sannfærður um, að bankarnir þola vel og hafa aðstæður til að lækka vextina.

Þá vil ég minnast nokkuð á annað atriði í till. okkar, sem varðar rekstur útvegsins, en það eru vátryggingarnar. Meginhluti bátanna er skyldaður til að vera vátryggður hjá ríkistryggðu fyrirtæki, samábyrgðinni. Þessa tryggingu verða útvegsmenn að kaupa óeðlilega háu verði, eða 6–8%, og er það mun hærra en aðrar stofnanir, sem aðstöðu hafa fengið til tryggingastarfsemi, bjóða upp á. Með þessu fyrirkomulagi verður hver bátur að greiða um og yfir 30 þús. kr. í iðgjöld á ári, en allir sjá, að slíkt nær ekki nokkurri átt og það því síður, þegar ríkið skyldar útgerðarmennina til að tryggja hjá þessu fyrirtæki, meðan aðrir bjóða miklu betri kjör. Þennan útgjaldalið bátaútvegsins þarf að lækka verulega, og það er hægt.

Um aðrar till. til lækkunar á útgerðarkostnaði skal ég ekki hafa mörg orð. Það er minnzt á að lækka beituna um 10%, en eins og allir vita, þá er beitan stór útgjaldaliður. Sú aðstaða, sem boðizt hefur nú í haust, gerir þessa lækkun auðvelda, ef ríkisstj. vill nota þá heimild, sem til þess þarf.

Þá er alkunnugt, að viðgerðarkostnaður á bátum er óeðlilega hár, og stafar það fyrst og fremst af því, að vélaverkstæði og slippfélög fá að leggja allt að 100% á vinnu og efni, sem til þessara viðgerða þarf. Það viðurkenna allir menn í orði, að þetta sé áeðlilegt, en þessu verður ekki kippt í lag nema með lagaboði eða a. m. k. sérstökum ráðstöfunum af hálfu hins opinbera.

Eins og hér hefur verið sýnt fram á, þá er hægt að lækka rekstrarkostnað bátanna og gera útgerðarmönnum þannig kleift að gera bátana út. En hitt er sýnilegt, að það virðist heldur lítill vilji fyrir hendi hjá valdhöfunum til þess að hrófla við þessum liðum, sem hér hefur verið drepið á, nei, heldur er stöðugt hrópað um of hátt kaup og talað um kauplækkun sem einu leiðina til úrbóta. En sannleikurinn er sá, að við rekstur báta munu menn reka sig á, að sú leið kæmi bátaútveginum að litlu gagni. Þetta eru því einu liðirnir, sem að gagni geta komið, en það er að tryggja bátunum gott verð eða lækka verulega þá útgjaldaliði við reksturinn, sem hér hefur verið minnzt á. Það er líka alveg víst, að það má ekki dragast að gera ráðstafanir í þessu efni. Þess vegna er alveg furðulegt, að ríkisstj. skuli ekki grípa tækifærið og ræða þær till., sem hér liggja fyrir, og styðja að því, að þær komist fram í lagaformi.

Út af ræðu forsrh. hér í gær og þeim ummælum hans, að till. þær um tollalækkun, sem gerðar eru í þessu frv., mundu valda ríkissjóði um 25 millj. kr. tekjumissi, þá vil ég segja það, að ég tel þessa yfirlýsingu furðulega. Ríkisstj., sem þessi ráðh. hefur forsæti í, hefur nýlega lagt fram frv. til fjárlaga. Í þessu frv. eru allar tolltekjur ríkissjóðs áætlaðar 32 millj. kr. Af því má sjá, hversu mikil fjarstæða er, að sú tollalækkun, sem hér er gert ráð fyrir, nemi 25 millj. Nei, þessi tollalækkun mundi rýra tekjur ríkissjóðs um 13 til 15 millj., ef miðað er við þá áætlun, sem ríkisstj. hefur gert um innflutning á næsta ári, en ekki 25 millj., eins og forsrh. hélt fram. Þá hélt ráðh. því fram, að þessi tollalækkun hefði aðeins í för með sér 15–17 stiga hækkun á vísitölu, en þó er það skýrt tekið fram í útreikningum, sem hagfræðingur ríkisstj. hefur gert, að slík tollalækkun mundi hafa í för með sér 21 stigs lækkun á vísitölunni. Það er því upplýst, að hér hefur forsrh. farið vísvitandi með rangt mál. Auk þess, sem hér hefur verið talið, mundi slík vísitölulækkun, sem frv. gerir ráð fyrir með afnámi tollanna, hafa í för með sér mikla lækkun á útgjöldum ríkissjóðs, og hafa hagfræðingar ríkisstj. reiknað út, að sérhvert stig, sem vísitalan lækkar, spari ríkissjóði 683 þús. kr. Upphæðin, sem sparaðist með 21 stiga vísitölulækkun, mundi því nema um 14–15 millj. Þessi sparnaður mundi vega verulega upp á móti því tapi, sem ríkissjóður yrði fyrir vegna tollalækkunarinnar.

Ráðh. minnist ekkert á þann lið frv., þar sem gert er ráð fyrir að afnema milliliðagróðann, en samkv. till. frv. skal afnema milliliðagróða heildsalanna og koma skynsamlegu skipulagi á innflutningsverzlunina, en þær ráðstafanir mundu lækka vísitöluna um nálægt 20 stig, eftir því sem hagfræðingar hafa komizt að raun um. Slík ráðstöfun mundi spara ríkissjóði aðrar 14–15 millj., ef lagður er til grundvallar útreikningur sá, sem hagfræðingar ríkisstj. hafa gert. Útkoman af ráðstöfunum frv. yrði því sú, að ríkissjóður græddi verulega upphæð á kostnað heildsalanna. En það þykir ríkisstj. of dýr biti, og þá væri kannske gengið of nærri þeim flokkum og blöðum, sem byggja tilveru sína ekki sízt á fjárframlögum heildsalanna.

Á þessu stigi málsins ætla ég ekki að fara fleiri orðum um þetta frv., en vil að endingu undirstrika það, að það er furðulegt, eins og á þessum málum er haldið, að ríkisstj. skuli komast upp með það og láta það nægja að gefa þær upplýsingar, að nú sé stundin, hin mikla stund að nálgast. Það er í sjálfu sér verið að stefna atvinnurekstri okkar og afkomu allri í hættu með slíkum vinnubrögðum. Einnig er furðulegt, að ríkisstj. skuli svo neita að taka við þeim till., sem hér eru lagðar fram á Alþ., og ræða þær í alvöru, sem málefnið gefur fyllilega tilefni til.