03.12.1947
Neðri deild: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (2535)

94. mál, dýrtíðarráðstafanir

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það eru ekki mörg orð. Hæstv. forsrh. hefur tekið þann kost að láta ekki á sér bæra hér. Hæstv. forsrh. hefur haldið hér ræðu í þessum umr., sem lengi mun verða í minnum höfð fyrir ófyrirleitna meðferð á tölum. Hann velur sér nú það hlutskipti að hlaupast á brott, en senda fulltrúa sinn fram á vígvöllinn til þess að bera blak af sér og verja þær ófyrirleitnu staðhæfingar, sem hann flutti hér í gær í sambandi við þetta mál. Og þessum málsvara hæstv. forsrh., hv. 4. þm. Reykv., honum ferst vörnin það vel, að hann heldur hér mjög belgingslega ræðu, og þegar nú búið er að hrekja þessa ræðu hans lið fyrir lið, þá ætlar hann að velja sama kostinn og húsbóndi hans. að þegja. Þegar maður verður áhorfandi að slíku, þá er erfitt að sitja þegjandi, og það gefur mér tilefni til að rísa á fætur. Ekkert sýnir betur málstað ríkisstj. en framkoma hennar í þessu máli og hin aumkunarverða framkoma hv. 4. þm. Reykv., þegar hann þorir ekki að standa fyrir máli sínu, eftir að hafa flutt hér með miklum belgingi ræðu í skjóli þess, að hann er hagfræðingur. (GÞG biður forseta um orðið.) Ég sé, að þessi áminning mín hefur orðið til þess, að þessi hv. þm. hefur nú kvatt sér hljóðs, og ég vona, að hann haldi frekar mannorði sínu óskertu eftir en áður, þannig að ég hafi gert honum greiða með því að veita honum þessa áminningu. — En hvers vegna velur ríkisstj. þann kost að segja nú ekkert orð? Það stendur þannig á því, eins og kom fram í ræðu hv. 2. þm. S-M., að allar ráðstafanir, sem ríkisstj. ætlar að gera til þess að leysa vandamál þjóðarinnar, sem hún talar um með miklum fjálgleik, eru fólgnar í því að gera árásir á laun verkalýðsins og laun yfirleitt í landinu. Það eru ráðstafanir, sem hljóta að verða óvinsælar, vegna þess að þær stjórnast ekki af hagsmunum þjóðarheildarinnar, heldur af hagsmunum tiltölulega fárra manna, auðmannanna Reykjavík. Þess vegna mun það líka fara svo þegar þessar till. koma fram, að þá verður lögð nótt við dag til þess að geta hraðað þeim gegnum þingið, helzt sem næst umræðulaust. Þá munu þeir, sem að þeim standa, vilja komast sem mest hjá að ræða þær ráðstafanir, vegna þess að það er lífsspursmál fyrir ríkisstj., að þær umr. komist fram með þeim hætti, að verkamenn landsins verði sem minnst varir við þær umr. Það kemur spánskt fyrir mínar sjónir, að hv. 4. þm. Reykv., sem var knúinn inn í fyrsta sæti á framboðslista Alþfl. í Reykjavík við síðustu kosningar vegna andstöðu vinstri hluta Alþfl. gegn þeirri afsláttarstefnu, sem hæstv. núverandi forsrh. og fleiri alþýðuflokksmenn fylgja vegna auðmannanna í Reykjavík, — það kemur mér nokkuð spánskt fyrir, að þessi hv. þm., 4. þm. Reykv., skuli nú hafa gengið í lið með hæstv. forsrh. um þau áform að gera árás á launamennina í landinu. Ég býst við, að hv. 4. þm. Reykv. sé svo barnalegur, að hann sjái ekki sjálfur, hvert hans hlutverk er í þessum umr., þegar hann er að bera blak af ríkisstj., sem ekki þorir að standa sjálf fyrir sínu máli hér, og bera blak af hæstv. forsrh., sem hefur komið hér með ósannar tölur og farið rangt með tölur. Hv. 4. þm. Reykv. er því að aðstoða ríkisstj. við að koma fram sínum árásum á launþegana í landinu. Og ég verð að segja, að það er ömurlegt hlutskipti þessa hv. þm., að það skuli lenda á hans herðum að vera skákað fram fyrir skjöldu af ríkisstj. til þess að verja hennar ljótu áform í dýrtíðarmálunum svo kölluðu. Það er eitt atriði í sambandi við frammistöðu hv. 4. þm. Reykv., sem hv. 2. þm. S-M. kom ekki inn á, sem ég vil geta til þess að sýna, hvernig málflutningur þessa hv. þm. er miðaður við það eingöngu að bera blak af hæstv. forsrh., en alls ekki við það að skýra satt og rétt frá hlutunum. Hann fullyrti og tafsaði á því lengi, að till., sem fælust í þessu frv. um lækkun á tollum af lífsnauðsynjum, þær séu ekki tollalækkanir, heldur niðurgreiðsla á dýrtíðinni. Hvernig getur þessi hv. þm. sagt það? Og í sömu ræðu segir hann, að þetta lækki vísitöluna um 18 stig. Ef um niðurgreiðslu væri að ræða, yrðu peningarnir fyrst að renna í ríkissjóðinn og vera greiddir úr ríkissjóði aftur til þess að greiða niður með þeim vísitöluna. Við höfum notað orðið niðurgreiðsla um að greiða peninga úr ríkissjóði til þess að lækka vísitöluna. En hér í þessu frv. er hins vegar lagt til, að ekki verði innheimtir tollar af ákveðnum lífsnauðsynjum, eins ég skýrt er tekið fram í frv., og þar með ekki heldur nein verzlunarálagning á þá tolla, sem felldir eru niður, því að sú álagning fellur niður af sjálfu sér, nema ríkisstj. geri ráðstafanir til þess að auka hundraðshlutaálagningu á vörurnar til þess að bæta kaupmönnum upp missi álagningarinnar á niður fellda tollahlutann. En með því að ríkisstj. léti vera að innheimta þessa tolla, mundi hún lækka vísitöluna, og sömuleiðis með því, að þá væri ekki lögð verzlunarálagning á þann hluta tollanna, sem felldur væri niður, ef frv. okkar væri samþ. Eftir þeirri merkingu, sem við höfum lagt í orðin að „greiða niður“ í þessu sambandi, þá er ekki nokkur leið að nota þau orð um það, sem við leggjum hér til, nema í þeim tilgangi að rugla fyrir almenningi með því að reyna að láta hann halda, að þetta tvennt séu hliðstæð mál. — Það er hægt að lækka vísitöluna um 21 stig með því að hætta að innheimta tolla af nauðsynjavörum, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. og með því, að álagningin falli alveg niður, sem yrði sett á þessa tolla, ef þeir væru innheimtir, og með því sparaði ríkissjóður sér útgjöld, sem hann nú hefur, að sama skapi sem vísitalan lækkaði. Og sá sparnaður yrði, samkv. upplýsingum hv. þm., um 650 þús. kr. fyrir hvert stig, sem vísitalan lækkaði, og kæmi þessi sparnaður fram í launagreiðslum og öðrum greiðslum, sem ríkið innir af höndum. Þarna er því ekki um niðurgreiðslu að ræða, heldur hitt, að reyna að stöðva mjög kleppsleg vinnubrögð, sem sé það að innheimta mikil gjöld með háum tollum og greiða svo niður vísitöluna. Það liggur fyrir, að borguð séu niður 56 stig af vísitölunni, Ríkissjóður, sem sagt, innheimtir nú tolla, sem valda, eftir upplýsingum hv. 4. þm. Reykv., allt að 18 stiga hækkun á vísitölunni og hafa svo í för með sér um 7 stiga vísitöluhækkun vegna álags heildsalanna, og tekur tekjurnar og notar þær svo til þess að borga niður þá sömu hækkun á vísitölunni, sem ríkissjóður orsakar með tollinnheimtunni, ásamt því að leyft er að leggja verzlunarálagningu á tollinn. Eitt atriðið í okkar frv. eru till. um að afnema þessi Kleppsvinnubrögð. Og er þar í frv. ekki um niðurgreiðslu að ræða, heldur það að hætta heimskulegum vinnubrögðum. Og um leið og ríkissjóður getur sparað sér 650 þús. kr. fyrir hvert stig, sem vísitalan lækkaði með þessu móti, þá sparar þetta atvinnuvegunum það sama, án þess að hagsmunir neytenda og launþega séu skertir. Þannig hefur ríkisstj. staðið beinlínis að því að skrúfa verðlagið upp með þessu tollafyrirkomulagi.

Hv. 4. þm. Reykv. lagði sérstaka áherzlu á, að í þessu frv., sem fyrir liggur hér, fælist ekki prinsipialt afnám á tollum. — Ég hef aldrei stúderað hagfræði, en ég veit, að það bara felst í frv. afnám á tollum. Og hv. 4. þm. Reykv. viðurkenndi það. Það er kannske ekki „prinsipialt“ að vera með afnámi á tollum að gera till. um að afnema tolla. Það kann að vera, að þegar búið væri að lækka með lagaboði vísitöluna niður í 280 stig, þá stæði kannske Alþfl. upp og segði: „Ég er prinsipialt á móti afnámi á tollum.“ En í frv. þessu er lagt til að fella niður tolla á vissum vöruflokkum. Og ef Alþfl. er tilbúinn til að lækka alla tolla eða fella niður alla tolla, þá verður Sósfl. með í því. „Nei, Sósfl. er prinsipialt ekki á móti tollum.“ vildi hv. 4. þm. Reykv. segja. — En Sósfl. hefur aldrei gengið inn á það sem leið til þess að afla ríkissjóði tekna að leggja tolla á nauðsynjavörur. Og það hefur aldrei verið gert, meðan sósíalistaflokksmenn hafa setið í stjórn. Og meira að segja vil ég benda hv. 4. þm. Reykv. á það, að Alþfl. er tvisvar búinn að sitja í stjórn á tiltölulega fáum árum, og allar þær tollahækkanir, sem framkvæmdar hafa verið á Íslandi á síðustu 10 til 15 árum, sem nokkuð kveður að, hafa verið framkvæmdar af ríkisstjórnum, sem Alþfl. hefur tekið þátt í. Þegar tollskráin 1939 var samþ., var hún sett í gegn af stjórn, sem Alþfl. átti ráðh. í. Og frá 1934 til 1937 var oft reynt að grípa til þess að hækka tolla. Og nú er fyrsta úrræðið, sem sú hæstv. ríkisstj. sér, sem nú situr, þegar Alþfl. er kominn í stjórn, að hækka tolla um 65%. Það er kannske ekki eðlilegt, að þessi hv. þm., 4. þm. Reykv., muni að svona er það með Alþfl., sem alltaf hefur „prinsipialt“ verið á móti tollum. En ég vildi ekki láta þessum umr. ljúka svo, að hann vissi ekki um það, að þetta hefur nú skeð. En ég vil sérstaklega aðvara þennan hv. þm., 4. þm. Reykv., um það, að það er mjög misráðið af honum að koma inn í þessar umr. á þennan hátt, sem hann gerir hér. Hann tekur ekki til alvarlegrar yfirvegunar það frv., sem hér liggur fyrir, heldur tekur eitt atriði frv. og ætlar að reyna að gera frv. þetta tortryggilegt í sambandi við það atriði með einhverjum talna-hundakúnstum. Og í því efni treystir hann á, að hann er hagfræðingur og prófessor. Og það, að hann er hagfræðingur og prófessor, virðist eiga að duga til þess, að þessar talna-hundakúnstir geti orðið honum og hæstv. forsrh. til gagns og til afsökunar því að vera á móti þessu máli. En þessi hv. þm. fer ekki inn á önnur atriði frv., bara þetta eina. — Um frv. segir hann í heild, að það sé ábyrgðarlaust og fljótfærnislega samið og beri vott um alvöruleysi. En ég vil benda þessum hv. þm. á, að það kann vel að vera, að eitthvað í frv. þessu mætti betur fara og hefði betur farið, ef þeir, sem sömdu frv., hefðu notið svo ágæts hagfræðings eins og hv. 4. þm. Reykv. En að segja, að það sé ábyrgðarlaust, sem felst í frv. þessu, eða að ábyrðarleysis hafi gætt í samningu þess, það er barnaskapur, sem kemur fram í ræðu hv. 4. þm. Reykv., af því að hann ætlar að skjóta sér undan því að svara, þegar búið er að tæta sundur lið fyrir lið það, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði um tollamálin í sinni ræðu, svo og hæstv. forsrh., sem hv. 4. þm. Reykv. svo lagði höfuðáherzlu á að verja.