04.12.1947
Neðri deild: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (2539)

94. mál, dýrtíðarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Í umr. hér í gær um þetta frv. gerði hv. 4. þm. Reykv. nokkra tilraun til þess að færa líkur fyrir því. að rétt hefði verið skýrt frá hjá hæstv. forsrh. um áhrif þau, sem till. okkar í þessu frv. um niðurfellingu á tollum af nauðsynjavörum mundu hafa í framkvæmd. Ég gerði nú þessum aths. þessa hv. þm. nokkur skil hér í gær. Síðar á fundinum endurtók hann allmikið af þessu aftur. Og vegna þess og einnig vegna hins, hvernig blöð stjórnarflokkanna hafa farið með þær upplýsingar, sem um þetta hafa verið gefnar, tel ég nauðsynlegt að rifja þetta nokkuð upp.

Hæstv. forsrh. sagði. að till. okkar um niðurfellingu á tollum mundu þýða 25 millj. tekjuskerðingu fyrir ríkissjóð, og enn fremur að vísitalan mundi ekki lækka nema um 15 til 17 stig af þessum ástæðum. Ég benti á, að þessar upplýsingar hæstv. forsrh. væru algerlega rangar og þær kæmu í bága við útreikninga, sem hv. 4. þm. Reykv. o. fl. hagfræðingar höfðu unnið að að gera og lagt fyrir aðila, sem hafa unnið að undanförnu að því að undirbúa till. í sambandi við dýrtíðarmálin, í þessu áliti þeirra um það, hvaða áhrif niðurfelling tolla á nauðsynjavörum mundi hafa, er alveg skýrt fram tekið, að áhrifin yrðu þau, að vísitalan lækkaði um 21 stig (GÞG: Ef tollar væru felldir niður af öllum nauðsynjum.) miðað við niðurfellingu tolla af öllum nauðsynjavörum. En þegar hv. 4. þm. Reykv. gerir tilraun til þess að sanna fyrir mönnum, að þessi yfirlýsing hæstv. forsrh., að áhrifin af þessu mundu nema aðeins 15–17 stigum á vísitölunni, en ekki 21 stigi, eins og þetta plagg segir, sem hv. 4. þm. Reykv. hefur sent frá sér með þessum útreikningi, þá reynir hann að fara þær krókagötur í þessum efnum, að ekki sé beinlínis tekið fram í frv., að um leið og tollarnir séu lækkaðir, þá eigi sú hundraðshlutaálagning, sem nú er lögð á tollinn og á innkaupsverð varanna, ekki að hækka. Hann segir, að það sé ekki alveg víst, að álagningin mundi minnka að sama skapi og í réttu hlutfalli við það, sem innkaupsverð varanna lækki við tollniðurfellinguna, ef núverandi tollur er talinn með innkaupsverði. En verzlanir fá, eins og kunnugt er, að leggja vissa hundraðshlutaálagningu á innkaupsverð vara að viðbættum tolli, sem á vörunum hvílir. En þegar búið er að fella niður tolla, sem á vörum hvíla, virðist þessi hv. þm. gera ráð fyrir, að verzlanir geti tekið að krónutölu áfram sömu álagningu eftir sem áður, m. ö. o. hærri hundraðshlutaálagningu. eftir að tollurinn er felldur niður. En í þeim útreikningi, sem hann stóð að ásamt öðrum hagfræðingum að gera, hafði hann vitanlega reiknað með því, að verzlanir fengju ekki að leggja því hærri hundraðshlutaálagningu á vöru, sem tollurinn væri felldur niður af sem því næmi, er varan yrði ódýrari, komin í hendur innflytjenda, vegna þessara aðgerða. Og þannig hefur hann reiknað með, að vísitalan lækkaði um full 6 stig af þessum ástæðum, að álagningin hækkaði ekki neitt að hundraðshlutum. En nú reynir þessi sami maður, hv. 4. þm. Reykv., að halda fram, að það sé ekki alveg víst, nema verzlanir fengju að hækka sína álagningu og þannig gæti þetta, sem hæstv. forsrh. sagði staðizt. Ég veit, að allir sem lesa þetta mál, vita að öllu aumlegri aðferð getur varla í ræðu til þess að reyna að snúa sig út úr vandræðum í málflutningi. Það væri vitanlega bezt bæði fyrir hv. 4. þm. Reykv. og hæstv. forsrh. að viðurkenna, að hæstv. forsrh. hafi hér farið með falskar tölur og skýrt rangt frá, því að þessi lækkun á tollgreiðslum til ríkissjóðs, ef afnumdir væru þeir tollar, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. að afnema, verkaði á vísitöluna um 21 stig til lækkunar, en ekki 15 til 17 stig.

En þessi málamyndaafsökun fyrir því að fylgja ekki stefnu þessa frv., hún var í sama stíl hjá þeim báðum, þegar hæstv. forsrh. sagði, að ríkið tapaði af þessum ráðstöfunum 25 millj. kr. af tekjum sínum og þess vegna mundu þessar ráðstafanir kosta ríkissjóð um 25 millj. kr. Hv. 4. þm. Reykv. varð hér í gær í umr. að vísu að viðurkenna, að þetta mundi ekki kosta ríkissjóð 25 millj. kr., heldur væri útkoman sú, ef reiknað væri með sömu tolltekjum hlutfallslega eins og þær hefðu verið á 9 fyrstu mánuðum af yfirstandandi ári, en eftir áætlun, sem gerð hefði verið nú um innflutninginn, að þá mundi kostnaður ríkissjóðs í tekjumissi vegna þessara ráðstafana, sem gert er ráð fyrir í frv., ekki verða nema 10 til 11 millj. kr., svo að nokkuð hafði lækkað talan, sem hæstv. forsrh. hafði hér gefið upp í þessu sambandi daginn á undan. En eftir sem áður stendur í blöðum hv. þm. Alþfl. sú yfirlýsing, að hæstv. forsrh. hafi upplýst það fyrir þingheimi að þessar niðurfellingar á tollum mundu kosta ríkissjóð í beinum tollgreiðslum 25 millj. kr. — En hvernig víkur svo við þessum útreikningi hv. 4. þm. Reykv. um það að niðurfelling tollanna muni raunverulega kosta ríkissjóð 10–12 millj. kr.? Ég benti í fyrsta lagi á það að þessi niðurfelling tollanna mundi ekki í ár hafa numið 25 millj. í brúttóútgjöldum fyrir ríkið, þó að brúttóútgjöld ríkissjóðs hefðu numið á fyrstu 9 mánuðum þessa árs um 18 millj. kr., ef tollar af þessum vörum hefðu ekki verið innheimtir, vegna þess að innflutningur á þrem síðustu mánuðum þessa árs mun verða hlutfallslega minni en fyrstu 9 mánuði ársins. Og þetta var viðurkennt af hv. 4. þm. Reykv., að svona mundi þetta verða um innflutninginn. Eigi að síður vill hann ekki taka tillit til þessa og reiknar áfram með 25 millj. kr. tekjumissi fyrir ríkissjóð, ef þessir tollar yrðu felldir niður og miðað vært við innflutning yfirstandandi árs. En þó að ég vildi gera honum það til geðs að halda mig við of háa tölu og halda mig við 25 millj. kr., þá verður hann að taka tillit til þess, að innflutningurinn í ár er sá mesti, sem hefur verið nokkurn tíma hjá okkur á einu ári. Og það liggur fyrir yfirlýsing um það frá ríkisstj. gegnum útvarpsumr. á Alþ., að ráðgert sé að skera niður innflutninginn um helming, svo að tollar eru nú miðaðir við 220 millj. kr. innflutning í staðinn fyrir 440 millj. kr. í ár. Þess vegna eru tollar áætlaðir í fjárlagafrv. helmingi lægri en á þessu ári. En hv. 4. þm. Reykv. hleypur alveg fram hjá þessari staðreynd. En ráðstafanir þær, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., mundu koma til framkvæmda á næsta ári, ef frv. væri samþ., en ekki á þessu ári, sem nú er að líða. Niðurfelling tolla samkv. Þessu frv. mundi því ekki þýða 25 millj. tekjumissi fyrir ríkissjóð, heldur 12 til 14 millj. kr. brúttó í mesta lagi, um helming af þeirri upphæð, sem hæstv. forsrh. gaf upp. — Og ef sá sparnaður fyrir ríkið í launagreiðslum yrði vegna lækkunar á vísitölunni, sem hv. 4. þm. Reykv. upplýsti hér, eða 650 þús. kr. sparnaður hjá ríkinu fyrir hvert stig, sem vísitalan lækkaði, þá kemur það þannig út, að ríkið muni beinlínis ekki tapa neitt í nettógreiðslum vegna þessarar lækkunar á vísitölunni, sem nema mundi samkv. útreikningi hv. 4. þm. Reykv. sjálfs 21 stigi. Þetta er staðreynd, sem ómögulegt er að flýja frá, ef maður vill ganga út frá þeim tölum, sem þessi hv. þm. hefur sjálfur gefið upp, eins og hv. 4. þm. Reykv. hefur í þessu efni gert. Ef hann vill hugsa beint áfram, verður hann að viðurkenna þessar staðreyndir, því að hér eru aðeins ályktanir dregnar beint frá þeim tölum, sem hann hefur lagt sjálfur fram á pappírnum. — Enda fann líka þessi hv. þm., að þessar röksemdir hans dugðu ekki, þó að hann hefði fallið frá 25 millj. kr. útgjöldunum eða tekjumissinum fyrir ríkissjóð, sem hæstv. forsrh. til tók. Þegar þetta dugði ekki, sem hæstv. forsrh. kom með, þá flýði hv. 4. þm. Reykv. að því að halda fram, að með þessum ráðstöfunum, sem í frv. er farið fram á að gera, væri fölsuð vísitalan, sem mundi verða launþegum til ógagns, og þess vegna gæti hann ekki verið með þessum ráðstöfunum. — Það er næsta kaldhæðnislegt, að þessi hv. þm. og aðrir málsvarar ríkisstj. skuli taka þann kost að flýja út í það hornið að segja, að þeir geti ekki verið með þessum ráðstöfunum til að lækka dýrtíðina, vegna þess að þessi leið mundi miða að því að skerða hin réttlátu laun launþega í landinu, því að þetta muni verða til þess að lækka vísitöluna á óréttmætan hátt fyrir launþegana í landinu, falsa hana — á sama tíma og vitað er, að þessir menn eru að búa til frv., sem færa á landsmönnum stórfalsaða vísitölu og neita viðurkenndum útreikningi vísitölunnar og binda hana við 280–300 stig, sem mundi verka þannig að hækka allt vöruverð í landinu. Þetta sýnir, hvernig þessir menn eru innikróaðir, þegar þeir grípa til slíkra úrræða sem þessara til þess að lækka vísitöluna á þennan hátt án þess að taka tillit til þess, sem samband launtaka í landinu hefur gert samþykktir um. En samt vilja þeir fastbinda vísitöluna og vilja neita að reikna hana út, þó að launastéttasamtökin séu á móti því að hætta því, og þannig vilja þeir brjála alla sanngirni í launagreiðslum í landinu.

Það sem komið hefur fram hjá hv. 4. þm. Reykv., og sérstaklega hjá Alþfl., það er þetta: Þeir lýsa yfir, eins og hv. 4. þm. Reykv. tók fram, að „prinsiptalt“ hafi Alþfl. alltaf verið með því og sé með því að afnema tolla á nauðsynjavörum og með því að afnema tolla yfirleitt. Það hafi verið stefna Alþfl. að vera á móti tollal. En í framkvæmdinni hefur Alþfl. verið með í því að gera allar tollahækkanir, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum og jafnvel áratugum. Og nú, þegar fram koma hér till. um að afnema tollana á nauðsynjavörum, þá er Alþfl., sem „prinsipialt“ er á móti tollum, hann er á móti því að afnema nú þessa tolla á nauðsynjavörum, sem í frv. eru till. um að afnema. — Og hv. 4. þm. Reykv., sem nýlega flutti frv. svipað og okkar till. eru nú um fyrirkomulag í verzlunarmálunum, hann virðist nú ekki vera samþykkur okkar till. í þessum efnum, þó að hann hafi áður flutt næstum samhljóða till. á Alþ. — Og það má nú ekki fella niður tolla af nauðsynjavörum, af því að það getur skert vísitöluna launþegum í óhag, segir hv. 4. þm. Reykv. En á sama tíma er verið að reikna út fyrir ríkisstj., hvernig eigi að lækka vísitöluna til þess beinlínis að lækka öll laun launtaka í landinu. — Þess vegna liggur það nú fyrir, að hv. alþýðuflokksmenn virðast vera í verkum sínum í fullkomnu ósamræmi við það, sem yfirlýst stefna þeirra var um þetta, og í ósamræmi í öllum greinum við það, sem þeir áður hafa lýst yfir. Í öllum greinum stangast verk þeirra á við þeirra fyrri yfirlýsingar, sem stafar af því, að þeir vilja nú fara þá leið að koma fram hinni langþráðu launalækkun. Það er ekki lækkun dýrtíðarinnar, sem vakir fyrir ríkisstj. og Alþfl. Að því vilja alþýðuflokksmenn ekki vinna nú að lækka dýrtíðina, en það er að launalækkun almennt, sem þeir vilja vinna.

Eftir þessar umr. okkar í sambandi við tollana og niðurfellingu þeirra, vænti ég, að þessir hv. þm. sýni þann manndóm að leiðrétta í blöðum það, sem þeir vísvitandi hafa skýrt rangt frá um áhrif þessara tollalækkana, sem í frv. þessu er lagt til, að framkvæmdar verði.