06.02.1948
Neðri deild: 52. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (2568)

107. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Síðan ég tók til máls um þetta mál síðast, hafa orðið þó nokkrar umr. um þetta mál. Í þeim umr. hefur dálítið verið almennt farið inn á verksvið fjárhagsráðs. Það voru þeir hv. 3. þm. Reykv. (HB) og hv. þm. Ísaf. (FJ). sem ég vildi sérstaklega svara, og þætti mér vænt um, ef gætt væri að því, hvort þeir væru í húsinu, og þeim borin boð um það, að ég væri að tala til þeirra. (Forseti: Hv. Þm. Ísaf. (FJ) hefur fjarvistarleyfi og hv. 3. þm. Reykv. (HB) hefur ekki borið fyrir augu mín í dag.) — (3. þm. Reykv. kom í þessu inn í salinn.]

Hv. 3. þm. Reykv. (HB) ræddi um það, að við sósíalistar vildum leggja að velli allt frjálst einstaklingsframtak. Ég vildi bara spyrja hann að því, hvar það væri, þetta frjálsa einstaklingsframtak, sem við viljum drepa núna. Ég sé ekki betur en búið sé að reyra þetta frjálsa einstaklingsframtak slíkum böndum, að það aldrei hafi verið fastar bundið né reyrt á Íslandi í allri þess eymd en nú með þeirri stjórn, sem Sjálfstfl. hefur á málum þjóðarinnar núna, og það væri gaman að sjá, hvort hv. 3. þm. Reykv. (HB) getur sýnt fram á, að einstaklingsframtakið gæti orðið reyrt fastari böndum undir skipulagi sósíalismans en það er nú hér.

Ég held, að þetta tal um frjálst framtak og frjálsa verzlun eigi bara alls ekki við hér á Íslandi. Það er svo fjarri sanni að halda því fram, að til sé eitthvað, sem heitir frjálst einstaklingsframtak. Framtakið er til, en það er reyrt svo í bönd embættismannastjórnarinnar, að það fær sig hvergi hrært, og undan þessu kvarta bæði samvinnufélög og einstaklingar, og það er Sjálfstfl., sem reyrir það í þessi bönd, og það er ekki til neins fyrir þann flokk að reyna að koma sér undan því. Þessi einokun, sem nú er á Íslandi er verk Sjálfstæðisfl. Það er Sjálfstæðisfl., sem heldur því við, og án hans væri ekki hægt að halda því við.

Það er úthlutað, hvað verzlun snertir, sérstökum einokunarleyfum, leyfum til þess að okra á. Meiri hluti þessara leyfa fer til manna, sem embættismenn ríkisins ráða, hverjir séu. Einu sinni var rætt um að skapa reglur um það, hvaða menn skyldu verða þessara leyfa aðnjótandi. Einu sinni átti að fara eftir svo kallaðri kvótareglu. Þessi regla var ekki haldin. Þá var lýst yfir því af fyrrv. stj., að farið skyldi eftir því, hvað menn seldu ódýrt. Það var ekki farið eftir þeirri reglu. Þá var lýst yfir þeirri reglu, að neytendur fengju að ráða, hvar þeir verzluðu. Stj. hefur játað, að ekki væri farið eftir þeirri reglu. Það er ekki farið eftir neinni reglu. Eftir hverju er farið? Eftir gerræði stjórnarvaldanna. Innflutningsleyfum er úthlutað eftir því, hvaða menn eru í náðinni hjá stjórnarvöldunum á hverjum tíma. Það er það sama gerræði og ríkti hér fyrr á tímum, þegar gæðingar dönsku hirðarinnar réðu því, hvaða danskir einokunarkaupmenn fengju hverja höfn á Íslandi. Og það er vitað, að á undanförnum árum hefur stj. staðið á móti því að innleiða réttlæti í þessum efnum. Með öðrum orðum: Sjálfstfl. og aðrir flokkar hafa lagt að velli frjálst einstaklingsframtak á Íslandi, og það er vissulega hart, þegar sá flokkur leyfir sér að gefa út blað, sem hann kallar Frjálsa verzlun, og heimtar í því, að það verði frjáls verzlun í landinu.

Sjálfstfl. úthlutar leyfum til sérstakra gæðinga stj., til þess að gera þá ríka á kostnað annarra. Það er ekkert frjálst einstaklingsframtak, engin frjáls verzlun. Það er eingöngu gerræðið sem ræður og flokkur núv. stj. hefur sýnt sig í því að vilja ekki innleiða það, að kaupmenn og kaupfélög gætu keppt um þetta. Þess vegna er rétt fyrir hv. 3. þm. Reykv. (HB) að skjóta geiri sínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er, og höggva á þau bönd, sem reyra verzlunina í landinu. Verzlunin hefur verið fjötruð fyrr, en það hefur aldrei verið gengið eins langt í að fjötra hana eins og nú, og vilji hv. 3. þm. Reykv. (HB) fást um það, að einstaklingsframtakið sé lagt að velli, er bezt fyrir hann að snúa sér að Sjálfstfl., og það er það, sem getur höggvið á þau bönd, sem allt eru að hefta í einokunarkaupmennsku.

Menn hafa verið hræddir um það, þegar þeir hafa talað um sósíalismann, að þar yrði svo mikil embættismannastjórn. En ef menn vildu taka allt það versta, sem orðið gæti undir sósíalisma, ef hann væri illa framkvæmdur, geta menn kynnzt því í núverandi þjóðfélagi. Hins vegar er ekki neinn af þeim kostum, sem sósíalisminn hefur.

Það væri æskilegt og vonandi að hv. 3. þm. Reykv. vildi styðja að því að fá fram, hvers konar skipulag það er, sem ríkir í verzlunarmálum hér á Íslandi núna, og hvar sé jafnrétti manna fyrir l. Það er að minnsta kosti ekki til neins að „eltera“ í það, að það sé eini flokkurinn, sem er á móti stj., sem hafi lagt að velli einstaklingsframtakið á Íslandi, en það er Sjálfstfl., sem hefur lagt það í fjötra, hvað marga fundi sem honum tekst að kalla saman hér í Rvík til þess að fullvissa menn um, að hann hafi ekki bundið frjálsa verzlun. Það er vissulega hægt að hafa hér frjálsa verzlun, og þótt ég sé ekki með frjálsri verzlun, skal ég játa, að það er betra en öngþveiti það, sem nú ríkir.

Sem sagt: Allar þær reglur, sem átti að fara eftir, þegar núv. stj. og fjárhagsráð tók við, hafa verið brotnar. Það er engin regla, engin lög, bara geðþótti. Þetta er eins og á einvaldstímunum, og það sem þótti verst við einvaldsstjórnirnar, var það, að það var aldrei hægt að vita, hvað væru l. og hverju menn gætu treyst. Það er embættismannastj., sem öllu ræður, og þá á ég ekki við hina eldri embættismenn þjóðarinnar, heldur ráð, sem sett eru um stuttan tíma og skortir þá ábyrgðartilfinningu, sem embættismennirnir hafa. Ég held þess vegna, að hv. 3. þm. Reykv. (HB) verði, næst þegar hann talar, að tala meira konkret um hlutina og taka það fyrir og rannsaka, hver ber ábyrgðina á því, sem hann er að skilgreina, og um leið að sýna, í hvers þágu þetta er gert. Annars er verið að gera þetta til þess að gera hér eins konar aðal, nokkra stóratvinnurekendur og heildsala hér í Rvík, en útiloka aðra, skapa einokunarfyrirkomulag og meina öðrum að ná rétti sínum vegna þessarar einokunar. Mér sýnist, að stj. sé að undirbúa einokun í þjóðfélaginu, og verð ég að segja það, að ef sú einokun á að gilda, þá er nær að taka upp einokun ríkisins á þessum hlutum. Þá er nær að láta ríkið hafa þetta. Það er annaðhvort að hafa frjálsa verzlun eða ríkið hafi þetta, en að skapa hér einokun nokkurra fárra manna, er fyrirkomulag, sem ekki nær nokkurri átt. Hv. 3. þm. Reykv. (HB) talaði á móti þessu og kenndi okkur sósíalistum það, en hann verður að gera sér ljóst, að það er Sjálfstfl., sem ber ábyrgðina, og það er ekki til neins fyrir hann að skjóta sér undan henni.

Hv. þm. Ísaf. (FJ) var að tala hér á móti, og mér þykir leitt, að hann skuli ekki vera hér nú, en ég get samt ekki komizt hjá að taka fyrir hans ræðu, þó að hann sé ekki við. Mér þykir þetta slæmt, en ég hef aðeins 2 ræður og þetta er sú síðari og síðasta umr. málsins hér í d. En ræða hans var þess efna, að ég þarf að svara henni. Hann er eini maðurinn hér í d., sem á sæti í fjárhagsráði, en það ráð hefur ekki látið svo lítið að leggja fram fyrir þingið skýrslu um störf sín og kem ég því til með að saka það um lögbrot. Vildi ég því spyrja hæstv. forseta. hvort hugsanlegt væri að fresta umr., þar til hv. þm. Ísaf. getur verið viðstaddur. [Frh.)