09.02.1948
Neðri deild: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (2570)

107. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Einar Olgeirsson [frh.]:

Herra forseti. Í fyrri hluta þessarar umr. var hv. þm. Ísaf. kominn inn á aðbúnað manna, sem sækja þyrftu til gjaldeyris- og innflutningsyfirvaldanna utan af landi. Hv. þm. taldi viðtökur þessara manna alls ekki svo slæmar. Það hefur nú oft verið kvartað yfir því, að erfitt sé að ná til þessara háu herra og menn þurfi jafnvel að bíða dögum saman til þess að ná tali af þeim, ef ekki vikum. Hv. þm. lýsti nú samt yfir því, að í fjárhagsráði hefðu meðlimir þess þriggja tíma viðtalstíma á viku hverri. Það kann nú að vera, að þar sé nú ekki mikil þröng sem sakir standa, en það stafar þá af því, að þessir háu herrar eru þá búnir að drepa menn af sér, og ég veit af nokkrum mönnum, sem kvartað hafa yfir því, að hv. þm. Ísaf, hefur ekki tíma til þess að ræða við þá. Ef því fólki fækkar, sem bíður á viðtalstímum, þá stafar slíkt af því, að þessir herrar drepa það af sér. Aðsóknin var mikil í haust, en það kann að vera, að menn séu orðnir uppgefnir á því að elta fjárhagsráðsmennina. En hvað viðkemur undirn. fjárhagsráðs, viðskiptan., þá er svo ástatt um hana, að troðningurinn er svo mikill, að það er nær útilokað, nema fyrir einstaka menn, að ná tali af henni. Menn þurfa að bíða vikum saman til þess að ná tali af undirn. fjárhagsráðs. Ég held, að það þýði ekkert að reyna að gylla það fyrir mönnum, og ég veit ekki annað en að á morgun komi nefndir frá bæjarstjórnum og hreppsnefndum utan af landi til þess að reyna að fá fram, að tekið verði eitthvað skár á móti þeim einstaklingum, sem fara á eigin spýtur til þess að hitta fjárhagsráð og til þess að kvarta yfir því, hvers konar afgreiðsla hefur verið á þessum málum.

Hv. þm. Ísaf. fór svo nokkuð inn á það, að það hefði verið mjög mikið eftir af gömlum leyfum, sem þyrfti að framlengja. Æskilegt væri að fá upplýsingar um það, hvaða leyfi væru framlengd og eftir hvaða reglum. Því að eins og ég gat um, virðast engar reglur vera gildandi um það, eftir hverju farið er um úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa, og væri mjög ánægjulegt fyrir Alþ. að fá að vita, eftir hvaða reglum farið er um framlengingu leyfanna.

Þá kom hv. þm. Ísaf. síðast í ræðu sinni inn á það, að ég hefði verið sérstaklega að tala um brtt. hv. þm. A-Húnv. og meðflm. hans. Ég hafði ekki tekið afstöðu til þess máls, en ég benti á, að það væri skarð í þetta kontrolsystem, sem þyrfti að ráða bót á. Ég tók hins vegar ekki afstöðu til þess máls, sem hv. þm. Ísaf. talaði um, að ég hefði verið svo ánægður með og óskaði mér til hamingju með, að ef það væri samþ., þá væri samþ. að byggja sumarbústaði úti um landið. Það er vitanlega ákaflega hægt að banna með l. að byggja sumarbústaði úti um land. Og það er hægt með þess háttar aðferðum að koma í veg fyrir þá hluti, ef mönnum þætti eðlilegt að fara inn á þá braut í aðalatriðum, sem hv. þm. A-Húnv. var með. Aðalatriðið í ræðu hv. þm. Ísaf. snerist hins vegar um það, að hann sagði, að viðskiptan. teldi sig ekki hafa umboð til að ávísa á það, sem ekki væri til, og vildi hann gera það að aðalatriði í sinni ræðu, að gjaldeyrisskorturinn væri afsökun fyrir því að afgreiða ekki gjaldeyris- og innflutningsleyfi í tíma. Og þessi atriði í starfsemi fjárhagsráðs langar mig til að fara inn á. Ég hafði talið, að gjaldeyrisskorturinn afsakaði ekki að afgreiða ekki í tíma umsóknir um innflutning. Þegar áætlunarbúskapur er hjá þjóð, þá er vitanlegt, að það verður að afgreiða innflutnings og gjaldeyrisleyfi fyrir þeim hlutum, sem á að nota, það löngu fyrr en þeir eiga að koma til nota, að það sé t. d. búið að fá hráefnin hingað flutt, þegar á að fara að vinna úr þeim. Það þarf því að afgreiða leyfin þremur til sex mánuðum áður en reiknað er með, að hráefnin komi til landsins. Svo tekur það nokkuð langan tíma að vinna úr þessum hráefnum. Allur áætlunarbúskapur byggist á því að ávísa á það, sem ekki er til. Og ef hv. þm. Ísaf. og aðrir, sem með honum eru í fjárhagsráðl. hafa ekki skilið þetta, þá skil ég ekki, hvernig þeir taka að sér að starfa í þessu ráði. Þetta er það fyrsta í hugtakinu áætlunarbúskapur. Svo að það felst í því, ef um áætlunarbúskap á að vera að ræða, að það eigi að áætla, að á árinu 1948 komi íslenzku þjóðinni til með að áskotnast svo eða svo mikið af gjaldeyri. Og fjárhagsráði er gert að áætla um það, hve mikils gjaldeyris megi vænta, og svo hvernig heppilegast sé að verja honum. Og þegar við vitum. að t. d. ákveðin iðnaðarvara á að vera til í september, þá er gefið, að við verðum að gefa út gjaldeyrisleyfi fyrir hráefni til hennar í desember næst áður, ef það tekur sex mánuði að ná í vöruna til landsins og svo allt að því þrjá mánuði að vinna úr hráefninu þessa vöru. Allur áætlunarbúskapur byggist á því að ávísa á það, sem er ekki til, og að þetta sé gert í tíma, eftir raunhæfar áætlanir um það, hvaða líkur eru um það, hve mikill gjaldeyrir áskotnist til nauðsynlegra innkaupa. Ef hins vegar höfð væri sú aðferð, sem hv. þm. Ísaf. virtist gefa til kynna áðan sem mögulega leið, er hann spurði, á hvað ætti að ávísa, hvort það væru vörur, sem hér liggja — ef ætti að vísa á þær vörur, sem fluttar væru inn án þess að gjaldeyrisleyfi væri fyrir innflutningnum og ef þetta þýðir það, að bíða eigi með að gefa leyfin þangað til vörurnar eru komnar hingað til landsins, og það ætti að gilda um svo eða svo mikil verðmæti, þá þýddi það það, að vara sem ætti að vinna úr, kæmi óhæfilega seint til landsins. Það væri álíka óforsvaranlegt og ef fiskimaður færi þá fyrst að hugsa fyrir netum, þegar hann sér síldina vaða. Það er alveg gefið, að áætlunarbúskapur verður að byggjast á því, að höfð sé forsjálni viðkomandi innflutningnum og reiknað með innflutningnum löngu áður en þarf að fara að nota vörurnar, sem inn eru fluttar. Vitanlega getur brugðið um það til beggja handa. hvernig um gjaldeyrisöflun fer hjá fiskveiðiþjóð eins og okkur. Og meira að segja stórþjóðir, sem byggja útflutning sinn á landbúnaði, geta ekki reiknað út með neinni vissu framleiðslu sína fyrirfram. En engri þjóð, sem tekið hefur upp áætlunarbúskap, hefur dottið í hug annað en að beita þessari reglu, að ávísa á það, sem er ekki til. Því áætlunarbúskapur þýðir það að áætla um mörg ár fram í tímann um framleiðslu og gjaldeyrisöflun eftir skynsamlegum rökum um það, hvað muni verða til af framleiðsluvörum og gjaldeyri á hverjum tíma. Ef fjárhagsráð ætlar að byggja upp Sogsvirkjunina og Þjórsárvirkjunina og ætlar sér aldrei að ávísa á annað en það, sem er til, þá er ég hræddur um, að það gangi seint að koma hlutunum upp. Ég veit líka, til hvers þetta fyrirhyggjuleysi hjá fjárhagsráði muni leiða. Ég býst við, að fyrst fjárhagsráð hefur tekið upp þá aðferð að, vilja ekki ávísa á það, sem er ekki til, sem sagt hefur enga áætlun um þessa hluti, þá muni það verða til þess, að keyptar verði inn vörur, sem eru dýrari en hægt væri að framleiða þær hér. T. d. þegar þvottaefni vantaði á Íslandi, þá sá ég einhvers staðar, að þvottaefni hefði verið keypt inn frá Ítalíu, sem var mörgum sinnum dýrara en það, sem hér hafði verið framleitt. Ef áætlunarbúskapur væri það, sem gilti hjá fjárhagsráði, þá hefðu verið gerðar ráðstafanir til þess, að hægt hefði verið í tæka tíð að kaupa inn hráefni til þess að framleiða þvottaduft, til þess að ekki hefði þurft að kaupa það við óhagstæðara verði frá útlöndum en hægt var að framleiða það með hér. En það þarf mörgum sinnum meiri gjaldeyri til þess að kaupa þessa vöru tilbúna frá útlöndum en að kaupa inn hráefnið í hana, ef forsjálni væri gætt til þess. Ég býst við. að þetta ráðleysi hjá fjárhagsráði leiði líka til annars hlutar. Þegar fjárhagsráð og viðskiptan. þess láta undir höfuð leggjast að gefa út þessar ávísanir, gjaldeyrisleyfin, í tæka tíð, þá þýðir það það, að svo eða svo margir kaupsýslumenn brjóta l. með því að kaupa erlendis frá svo og svo mikið af vörum, sem engin leyfi hafa verið gefin út fyrir. Og ég spyr hv. þm. Ísaf. sem meðlim í fjárhagsráðl. hvort rétt sé, að þrátt fyrir það, að auglýst var í haust, að nú mundu framkvæmd verða l., sem banna mönnum að flytja inn vörur án þess að hafa áður fengið gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir þeim, þá liggi hér vörur, sem þannig hafa verið fluttar inn, fyrir tugi millj. kr., svo sem vefnaðarvara fyrir 15 til 20 millj. kr., sem hinir og þessir menn hafi flutt inn, annaðhvort undirstungnir um það af yfirvöldunum, að ekki yrði tekið hart á því, þó að þeir flyttu þannig inn, eða þá sem hafa verið svo frekir, að þeir hafi gert það af því, að þeir hafi þótzt vita, að með frekju sinni mundu þeir hafa það fram, að fyrir vörum, sem þannig væru komnar til landsins, mundu sjálfsagi fást innflutningsleyfi, og þá kannske til þess að bjarga landinu frá vöruskorti. Er það meiningin nú að láta þá, sem flutt hafa inn vefnaðarvörur á þennan hátt, þrátt fyrir bann laganna, fyrst og fremst fá leyfi til þess að fá að flytja slíkar vörur inn, og eiga þeir einir að fá að flytja vörur inn, sem flytja þær inn þannig vörur, sem þá sumar eru nauðsynjavörur, en aðrar ekki nauðsynlegt fyrir okkur að flytja inn. Það að fjárhagsráði hefur undir þessum kringumstæðum ekki þótt rétt að gefa út gjaldeyrisleyfi í tíma, og það út frá þeirri meginreglu, sem hv. þm. Ísaf. var að tala um, að vísa ekki á það, sem er ekki til, hefur orðið til þess, að framtakssamir einstaklingar hafa brotið l. og flutt inn vörur án þess að hafa áður fengið gjaldeyris- og innflutningsleyfi. Þetta setur óorð á stjórnarfarið í þessum efnum, þannig að menn álíta, að það sé ekki nema slóðaskapur, sem hér komi til greina um að veita leyfi fyrir þessum vörum. Og að þessir einstaklingar taka sér fyrir hendur að flytja inn á þennan hátt, sem ég hef greint, er af því að þeir hugsa, a. m. k. sumir hverjir, að ef þeir ekki gerðu það, þá hefði með því að flytja ekki inn á þennan hátt skapazt enn þá meira öngþveiti. Það er þokkalegt ástand í þjóðfélaginu, þegar svona er komið! — Mig langar til að spyrja hv. þm. Ísaf., hvort það sé svo, að auk þess sem innflutningur fari fram án kontróls, þá eigi sér stað þar að auki sá innflutningur hér á landi sem undirdeild fjárhagsráðs leyfi, að menn flytji inn bara án innflutningsleyfa fjöldann allan af vörum, en fái síðan innflutningsleyfi hjá n., kaupi síðan dollara á svörtum markaði suður á Keflavíkurflugvelli og greiði með dollurum, og jafnvel einstök firmu hafi þessar vörur, sem keypt eru með þessum innflutningsleyfum og þessum dollurum, og hvort það sé regla fjárhagsráðs að leyfa innflutning þannig og eftir hvaða reglum sé farið um slík innflutningsleyfi, sem þannig eru gefin út. Ég segi þetta ekki sérstaklega til þess að álasa fjárhagsráði og viðskiptan., þó að þeir gefi innflutningsleyfi fyrir þess háttar innflutningi inn í landið. Það er ekki nema eðlilegt, að viðskiptan. fari inn á svona óviðkunnanlegar aðferðir, þegar ríkisstj. gengur á undan með því fordæmi að leyfa mönnum að smygla inn í landið í eins stórum stíl og þeir vilja hvaða vörum sem þeir óska að flytja hér inn. Ég ætla ekki sérstaklega að álasa fjárhagsráði eða þess undirn. fyrir þær aðfarir, þegar þeir, sem í þessum n. eru, hafa þá menn yfir sér, sem þetta gera. Það er kannske eins gott að láta menn kaupa inn vörur svona hér í Rvík eins og að menn kaupi vörur suður á Keflavíkurflugvelli. En ég nefni þetta sem dæmi um það, hvers konar upplausn er í því ríkiskerfi, sem hefur þetta svona.

Í l. um fjárhagsráð segir svo. með leyfi hæstv. forseta. í 3. gr. þeirra laga:

„Fjárhagsráð semur fyrirfram fyrir hvert ár áætlun um heildarframkvæmdir. Fyrir yfirstandandi ár semur ráðið áætlun þessa svo fljótt sem auðið er og að svo miklu leyti sem við verður komið.

Í áætlun þessari skal gerð grein fyrir kostnaði við allar stærri framkvæmdir, svo og með hverjum hætti fjár skuli aflað, enda skal kveða á um það, í hverri röð framkvæmdir skuli verða, svo að vinnuafl og fjármagn hagnýtist þannig, að sem mest not verði að.

Enn fremur semur fjárhagsráð fyrir hvert ár heildaráætlun um útflutning og innflutning þess árs, magn og verðmæti. Skal áætlun þessi miðast við það að hagnýta sem bezt markaðsmöguleika og fullnægja sem hagkvæmast innflutningsþörf landsmanna. “

Síðan segir í 6. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Jafnhliða því sem fjárhagsráð semur áætlun þá um heildarframkvæmdir, er áður greinir, skal það og gera sérstaka áætlun um framkvæmdir ríkisins áður en fjárlög eru samin ár hvert, og sé við samningu þeirrar áætlunar, er ríkisstjórnin og Alþingi geti haft til hliðsjónar, stefnt að því að tryggja landsmönnum öllum næga atvinnu. en koma jafnframt í veg fyrir ofþenslu.“

Sem sé, næst á eftir þeirri stefnuskrá ríkisstj., sem er í 2. gr. fjárhagsráðsl., kemur 3. gr. um það að semja áætlun um framkvæmdir ríkisins. Þessi gr. var enn þá ákveðnari, þegar hún kom frá ríkisstj. Ég benti á, að ekki væri rétt að gera áætlun um hverja einustu framkvæmd í landinu. Þessi áætlun er aðalverkið, sem fjárhagsráð á að vinna. Þessa áætlun um heildarframkvæmdir ber fjárhagsráði, ásamt áætlun um framkvæmdir ríkisins, að hafa lagt fyrir ríkisstj. og Alþ. áður en fjárl. eru samin ár hvert. Þessi áætlun er ekki komin fram enn. Og af fjárhagsráði eru það bein lögbrot, að það hefur ekki lagt fyrir Alþ. í tíma þessa áætlun, eða ef þessir hv. menn, sem settir voru í þetta ráð, ekki treysta sér til að gera þessa áætlun, hafa þá ekki sagt: Við treystum okkur ekki til þess. — Hér hafa verið settir ákveðnir menn til þess að vinna ákveðið verk, sem lagafyrirmæli eru um, að skuli unnið, og ákveðið er í l., á hvaða tíma skuli vinna það, og svo er verkið ekki unnið. Þetta er lagabrot. Og það er ekki hægt að skjóta sér undan þessum l. Þau eru samin af ríkisstj., sem sjálf setur sér verkefni, sem hún ætlar að láta framkvæma og setur sína menn í það. Og ef hv. þm. Ísaf. dettur í hug í þessu sambandi að fara að tala um áætlun nýbyggingarráðs og að hún hefði ekki verið til, nema að nokkru leyti, þá voru þar að verki menn, sem voru klárari á það, hvað þeir treystu sér til að gera. Þeir slógu einmitt þann varnagla, að byrjað skyldi á framkvæmdum áður en áætlun væri lokið. Og engin takmörk voru sett um það, hvenær hún skyldi vera búin. En sú ríkisstj., sem tók við völdum á eftir, ætlaði nú aldeilis að vinna vel! Það skyldi nú verða sú stjórn hjá henni á þjóðarbúskapnum, að ekkert færi nú í handaskolum, sem ætti að gera. Þess vegna var kveðið svona skarpt að orði og gerðar svona háar kröfur. Og þessar kröfur voru gerðar að lagafyrirmæli. Þess vegna er um það að ræða, að fjárhagsráð og hæstv. ríkisstj. brjóta nú gagnvart Alþ. l., sem Alþ. hefur sett eftir ósk hæstv. ríkisstj. sjálfrar. l., sem eru aðallögin, sem sú ríkisstj. hefur óskað eftir að fá samþ. á Alþ. Þetta eru aðallögin, sem ríkisstj. kemur fram með, og eru um nýja stefnuskrá. Nú er það svo, að ekki aðeins fjárl. koma of seint fram hjá ríkisstj., heldur hefur líka fjárhagsáætlunin um þjóðarbúskapinn ekki verið lögð fram, sem átti að liggja frammi. Ég býst við, að fjárhagsráð hafi ekki þá afsökun, að það hafi of litlum vinnukrafti á að skipa. Meðan nýbyggingarráð starfaði, var alltaf talið eftir, að fólk ynni þar. Ég býst hins vegar við, að aukið hafi verið stórum starfslið hjá fjárhagsráði, frá því sem nýbyggingarráð hafði. En ég geri ráð fyrir, að fjárhagsráð hafi gert þau mistök, sem margar n. hafa gert hér á landi, að sökkva sér niður í aukaatriðin, en gleyma meir aðalatriðunum. Ég býst við, að fjárhagsráð hafi sökkt sér niður í það að athuga, hvaða byggingar skyldi leyfa að byggja á landinu. En það var alls ekki það verk, sem það fyrst og fremst átti að vinna. Þetta er eins og sýki hjá mörgum mönnum, sem gerir þeim mjög óhægt að starfa, að sökkva sér um of niður í daglegar áhyggjur, í stað þess að vinna að aðalatriðunum í því, sem n. eiga að starfa að. Þess vegna er það svo, að grundvöllurinn, sem átti að leggja fyrir þjóðarbúskap Íslendinga árið 1948, hefur alls ekki verið lagður. Þar hafa verið brotin l. Það hefur verið svikizt um að vinna að þessu og þess vegna byggjum við jafnmikið í lausu lofti eins og áður viðkomandi þjóðarbúskapnum. Og auk þess sem ekki hefur komið fram nein áætlun um heildarframkvæmdir í landinu, þá hefur ekki heldur legið fyrir nein áætlun um útflutninginn. Sú áætlun er ekki farin að sýna sig enn þá. Það er ekkert farið að koma fram, sem bendi til þess, að farið sé að vinna að því að framkvæma meira að segja neina leynilega áætlun, sem samin hefði verið í þessa átt. Mér sýnist líka, að starfsemin hvað snertir útflutning Íslendinga sé þannig, að það sé yfirleitt varla unnið að því að reyna að selja vörur okkar. Það mun nú ekki vera búið að gera samninga nema við eitt einasta land um þetta. Og áætlunin um sölu afurða okkar mun vera hjá fjárhagsráði og hefur ekki legið fyrir Alþ. enn þá. Það væri ákaflega gott að vita, hvers konar áætlunarbúskapur þetta er hjá fjárhagsráði og ríkisstj., hæstv., hvað það er, sem þessir aðilar ætla sér með því að sleppa að semja þessa áætlun, sem við gætum svo byggt á áætlun um innflutning okkar. Mig langar í þessu sambandi alveg sérstaklega til þess að beina þeirri spurningu til hv. þm. Ísaf. sem fjárhagsráðsmanns, hvernig háttað sé starfsáætlunum um heildarframkvæmdir á t. d. sviði þeirrar stóriðju, sem hefur með iðnað að gera, eins og t. d. fiskiðjuversins. Það var sagt hér frá því fyrir skömmu í blöðum bæjarins, að þetta fiskiðjuver eða þessi niðursuðuverksmiðja starfaði ekki nema að nokkru leyti á móts við það, sem hún gæti, vegna þess að það vantaði rekstrarfé og hráefni til hennar, svo sem blikk í dósir. Nú hefur það sýnt sig, að þetta fiskiðjuver hefur unnið úr Faxaflóasíld óvenju góðan mat, sem gengið hefur vel að selja hér í Rvík, sem sannar að þessi niðursoðna síld er óvenju góður matur. Og vegna þess hve hægt er að selja þessa niðursoðnu síld ódýrt, þá eru allar líkur til, að við getum fengið þarna góða útflutningsvöru, sem muni verða samkeppnisfær á markaðinum í Evrópu. Og það mundi verða okkur stór ávinningur að þurfa ekki að bræða alla síld, sem veiðist í Hvalfirði. Hvað líður nú áætluninni um innflutning á blikki í dósir? Og hvað líður samningum við Landsbankann um að tryggja rekstrarfé til þessarar verksmiðju? Við vitum að þessi verksmiðja er ekki rekin nema að nokkru leyti, miðað við afkastagetu verksmiðjunnar, og þessu er borið við að rekstrarfé vanti og blikk. Það er borið við gjaldeyrisskorti hér. En það er hins vegar vitað, að það er hægt að fá meiri gjaldeyri með því að sjóða niður síldina en með því að bræða hana. Og það er gert ráð fyrir því í l. um fjárhagsráð, að það eigi að keppa að því marki að fullvinna úr framleiðsluvörum okkar hér innanlands. Hvernig stendur þá á þessum aðförum? Er kannske verið að reyna að láta þetta fiskiðjuver ganga með tapi til þess að hægt sé að segja, að það borgi sig ekki fyrir ríkið að reka Það til þess að svo á eftir sé hægt að selja það til einstakra braskara? Og hvaða afskipti hefur fjárhagsráð haft til þess að tryggja þessu iðjuveri að geta fengið gjaldeyri til þess að kaupa inn umbúðir og til þess að tryggja því rekstrarfé? Hefur starfsemi fjárhagsráðs eingöngu gengið í þá átt að koma í veg fyrir, að menn geti byggt yfir sig, þó að þeir eigi nóg sement til þess? Hefur verið stuðlað að því að koma gjaldeyrisframleiðslu okkar í það horf, að hún sé með fullum krafti? Það hefur orðið svo um starfsemi og afskipti ýmissa n. viðkomandi rekstri hér á landi, að full ástæða er til að gera það að umtalsefni hér á Alþ. Hv. 3. þm. Reykv. getur vafalaust líka upplýst eitthvað um þetta, af því að hann hefur setið á fundi, sem kaupsýslumenn hafa nú, og af því að hann líka er formaður Verzlunarráðsins. Og ég vildi, að hann gæfi upplýsingar um það, hvort það er satt, að ákveðið firma utan Rvíkur hafi verið búið að selja síldarmjöl eða fiskimjöl erlendis og óskað eftir útflutningsleyfi fyrir því, sennilega á góðu verði, en að þess hafi verið krafizt af samninganefnd utanríkisviðskipta, að firmað gæfi upp, hvert það ætlaði að selja mjölið, og á eftir hafi svo komið tilkynning til þessa firma hér frá viðkomandi firma erlendis um, að annar aðili hér hafi boðið sams konar vöru á lægra verði en þetta fiskimjöl eða síldarmjöl var boðið, sem hér var um að ræða, að sótt var um útflutningsleyfi fyrir. Það er orðið fullkomið íhugunarmál, ef ástandið er orðið þannig í þeim n., sem um þessi mál fjalla hér á landi, að ekkert öryggi sé til fyrir venjulegan verzlunarrekstur, þannig að kontrólið sé notað til þess að frádæma viss fyrirtæki á þennan hátt frá markaðssamböndum og trúnaðarbrot framin til þess að undirbjóða þá menn, sem vilja selja út vörur, en þeir menn reknir frá störfum, sem reyna að hindra, að slík trúnaðarbrot séu framin gegn þjóðinni. Það er náttúrlega í samræmi við ríkisstj. og starfsemi hennar og n. hennar að hjálpa til þess, að vara okkar sé undirboðin á erlendum markaði. Þetta virðist miða allt saman í sömu áttina. Þarna liggur við, að bein skemmdarstarfsemi sé rekin. Og ég er hræddur um, að það verði ekki komizt hjá því, að þeir sem í þessum ráðum og n. sitja. verði að svara hér á Alþ. til þess, hvað þarna er verið að framkvæma.

Hv. þm. Ísaf. lét þau orð falla í ræðum sinum hér nýlega, — það var kannske í útvarpsræðu hans. — að það hefði verið gengið út frá því, að hér væri full atvinna og fjárhagsráð hefði gert sínar áætlanir í sambandi við það. Mig langar til að spyrja hv. þm. Ísaf., hvernig fjárhagsráð reiknaði í sinni áætlun, að það mundi tryggja mönnum atvinnu í haust í sambandi við Faxaflóasíldina. Mig langar til þess að sjá þann hluta áætlunarinnar, sem fjallar um Faxaflóasíldveiðina, svo sem um það, hve mikinn vinnukraft hafi verið gert ráð fyrir, að sú veiði þyrfti, og hve mikils útflutnings mætti vænta af þeirri veiði. Og mig langar til að fá að vita, hvað átti að gera við þann vinnukraft, sem fór til að veiða þá síld, hefði Faxaflóasíldin ekki komið. Hv. þm. Ísaf. talaði hér í útvarpið. O-já, það voru nú ekki vandræðin þeim megin. Og tónninn í ræðunni var: Við höfum nú séð fyrir öllu, það er nú ekki hætta á atvinnuleysi. — En ég vil, að hv. þm. Ísaf. leggi fram áætlun fjárhagsráðs um það, hvernig átti að ráðstafa vinnukraftinum hér í vetur, ef Faxaflóasíldin hefði ekki komið. Vinnukrafturinn og hagnýting hans er fyrsta spursmálið í öllum áætlunarbúskap. Og ef hv. þm. kynnir sér það, sem fjmrh. Norðmanna áleit um þetta árið sem leið, þá mun hann komast að raun um, að fyrsta atriðið í áætlun Norðmanna er ráðstöfun vinnukraftsins. — Það er eðlilegt, að hv. þm. Ísaf. vilji komast hjá því að ræða þessi mál, enda er hann ekki stöðugur hér á fundi nú. Því að það er slempilukka, en ekki fyrir forsjálni fjárhagsráðs, að ekki hefur verið atvinnuleysi hér í vetur. Því að í sínum útreikningum hefur hvorki hæstv. ríkisstj. né fjárhagsráð gert ráð fyrir Faxaflóasíldinni.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir því í l. um fjárhagsráð, að það hafi samvinnu við ríkisstj. og við lánsstofnanir í landinu, og þá m. a. Landsbankann um það, ef nauðsyn krefur, að séð verði fyrir fjárþörf til ýmissa framkvæmda. Mjög gott væri nú að fá að vita, hvernig þær samræður hafa farið fram, hve margir fundir hafi verið haldnir í bankaráði Landsbankans eða hvort látið hefur verið nægja að tala við formann bankaráðs, það mun vera sami maður, sem semja ætti þá við bankaráð. Eða ef hann hefur ekki viljað láta slíkt eintal sálarinnar nægja, væri gott að fá að vita, hvort hann hefur spurt einhvern bankastjóranna og leitazt við að komast eftir því, hvað hægt væri að gera til þess að tryggja ýmsum fyrirtækjum rekstrarfé. — Nei, viðkomandi áætlunum, sem fjárhagsráð átti að gera, liggur ekkert fyrir Alþ. um, að ráðið hafi neitt þar að unnið. Það hafa verið búin til l. um að gera þetta allt, sem ég hef talið. En þau l. hafa verið þverbrotin. Ég skal nú ekki fara að ræða það, hvað þessu muni valda, hvernig þarna er komið. En ég læt nægja að slá því föstu, að þarna er um lögbrot að ræða. Og það má ekki minna vera en að slíkt mæti gagnrýnt hér á hæstv. Alþ. En það var þannig, þegar verið var að ræða um l. um fjárhagsráð, að þá var ekki samkomulag innan ríkisstj. um það. hvað fjárhagsráð ætti að vinna. Hæstv. forsrh. taldi, að með þessum lagaákvæðum ætti að koma á áætlunarbúskap á Íslandi, og ég tók þá undir þessi orð hans. Hins vegar sagði hæstv. dómsmrh., að af hálfu Sjálfstfl. væri ekki óskað eftir áætlunarbúskap. Þegar því þessi l. um fjárhagsráð voru samþ., var ríkisstj. ekki sammála um þetta. Það eru í þessu efni tvær stefnur innan ríkisstj. Ég býst við, að út frá þessum forsendum hafi skapazt það ástand í framkvæmdum fjárhagsráðs, sem átt hefur sér stað að undanförnu, að ráðið hefur verið sjálfu sér sundurþykkt. Ég þykist sjá, að stefna Sjálfstfl. hafi sigrað. Og það, sem hefur komið út af þessu, eru örgustu höft, sem nokkru sinni hafa verið til á Íslandi. en enginn áætlunarbúskapur. Ég ætla ekki að fara að halda því fram, að þeir menn. sem fjárhagsráð skipa, eins og hv. þm. Ísaf., hafi ekki þekkingu á þessum málum og að þeir hafi ekki getað unnið að þessu þess vegna. Ég geri ráð fyrir, að þeir hafi aflað sér þeirrar þekkingar áður en þeir settust í það háa ráð og hafi aflað sér upplýsinga frá þeim þjóðum, sem eru búnar að koma á áætlunarbúskap hjá sér, svo sem Norðmönnum og öðrum, og aflað sér fyrirmynda. Og ég veit, að hv. þm. Ísaf. hefur haft sérstakt tækifæri til að kynna sér þetta, vegna þess að formaður fjárhagsráðs Norðmanna var hér í ár. Ég ætla ekki heldur að bera þessum mönnum á brýn hæfileikaleysi eða þess háttar. En það virðist vera deila innan ríkisstj. um það, hvort það eigi að framkvæma þennan áætlunarbúskap. Og afleiðingin verður svo margföld höft. Ég held, að engan þurfi að undra, þó að lítið hafi verið gert af fjárhagsráði til gagns, þegar athugað er, hve hæstv. ríkisstj. er þannig ósammála um þessa hluti, og þá einnig, hvað Framsfl. hefur sagt um það, hvaða ráðstafanir eigi að gera. — Ég geri ráð fyrir, að hæstv. Alþ. verði að rannsaka þann glundroða og vitleysu, sem orðin er í þessum efnum, og láta þetta til sinna kasta koma við fyrsta tækifæri. En einu vil ég frábiðja mig algerlega, og það er, að það sem verið er að framkvæma nú af fjárhagsráðl. eigi á einhvern hátt skylt við áætlunarbúskap eða sósíalisma. Það hefur einn af hv. fjárhagsráðsmönnum úr Sjálfstfl. sagt, að það væri í raun og veru sósíalismi, sem hér væri framkvæmdur. Þetta á þó ekkert skylt við sósíalisma. Það á meira skylt við dönsku einokunina en sósíalisma. sem hér er verið að gera. Það er nú í eitt ár búið að sýna sig, hvernig hæstv. ríkisstj. er búin að stjórna með þessari aðferð, sem hún hefur tekið upp. Og það hefði verið rétt að fá uppgjör frá fjárhagsráði um það, hvaða ráðstafanir það hefur gert til þess að búa í haginn fyrir þjóðina upp á framtíðina. Þegar nýbyggingarstjórnin var búin að sitja eitt ár og nýbyggingarráð, þá var búið að gera m. a. ráðstafanir til að kaupa inn 30 togara til landsins, það var gert í ágúst 1945. Og það var gert með það fyrir augum að bæta úr ástandinu ekki 1945, heldur 1947 og 1948, vegna þess að menn vissu, að það þyrfti að taka slíkar ákvarðanir þremur árum áður en þær áttu að koma að notum. Ríkisstj. hæstv. hefur nú haft heilt ár til þess að taka sínar ákvarðanir, sérstaklega gagnvart því, sem nauðsynlegt mundi verða fyrir þjóðina árin 1950 og 1951. og það hefur verið sleppt að taka þessar ákvarðanir. Afleiðingarnar af þessu koma niður á okkur á hinum seinni tíma, sakir þessa skorts á forsjálni og búhyggju, sem þarna á sér stað. Ef það á að vera meginreglan að ávísa ekki á það, sem er ekki til, þá býst ég ekki við, að það bætist mikið við kaupskipaflotann eða að hér verði reist ný fiskiðjuver eða stofnað til annarra stórframkvæmda og stóriðju. Og ef þeir, sem fara með þessi mál af hálfu ríkisstj., hafa þessa skoðun, að ekki megi ávísa þannig, þá er ekki von að vel fari. Og þó ætti hv. þm. Ísaf. að hafa sérstaka ástæðu til að skilja þessa hluti, þar sem hann er fulltrúi í fjárhagsráði af hálfu Alþfl. og Alþfl., a. m. k. í orði kveðnu, gengur út frá því, að hann berjist fyrir áætlunarbúskap, ekki aðeins til eins árs, heldur til fjögurra ára og jafnvel lengri tíma.

Ég tel, þar sem tilefni hefur verið gefið til þess, óhjákvæmilegt að það komi fram á hæstv. Alþ., hvernig einstakir þm. líta á það hvernig fjárhagsráð hefur unnið og á aðgerðaleysi þess í þjóðmálum þeim, sem það átti að vinna að.

Hv. þm. Ísaf., form. fjhn., ræddi hér nokkuð um þær till., sem fyrir liggja, og kom inn á að segja, að það vært undarlegt, að hér skyldi vera lagt til, að fjárhagsráð fengi útnefndar fleiri gjaldeyrisnefndir, þegar svona væri rótgróin ótrúin á fjárhagsráði. En það er ekki svo undarlegt. Þó að margt megi að störfum fjárhagsráðs finna, þá býst ég við. að ef settar væru upp gjaldeyrisnefndir sín í hverjum landsfjórðungi, kæmi það í ljós, að aðalatriðið er, að menn úti á landi séu ekki girtir frá fjárhagsráði með öðrum eins kínverskum múr og menn eru nú girtir frá fjárhagsráði og viðskiptanefnd, sem eru hér í Rvík. Ég býst við að það sé ekki fyrst og fremst spursmálið um mennina í þessu sambandi, að það verði neitt erfitt að fá hæfa menn í þetta úti um land, heldur er fyrst og fremst um að ræða þær starfsaðferðir. sem hafðar eru nú í þessu sambandi sem eru alveg óhafandi með tilliti til fólksins úti á landi. Og með því að taka svipaða menn og þá, sem eru í viðskiptan. hér í Rvík. í viðskiptan. í fjórðungunum úti á landi, þá væri með því tekið réttlátt tillit til landsmanna, sem heima eiga úti á landi, um gjaldeyrisskiptinguna, og þeir þyrftu þá ekki að sækja allt undir eina nefnd hér í Rvík. — Hv. form. fjhn. fannst nú líka undarlegt, ef það væru nú komnir fram nýir menn, sem vildu vernda dreifbýlið, og fannst það koma úr hörðustu átt, þegar Reykvíkingar og jafnvel Hafnfirðingar væru farnir að stuðla að slíku. Ég vona, að hv. form. fjhn. (ÁÁ) fari ekki að skoða það sem neina ólögmæta samkeppni við hann eða aðra hv. þm. dreifbýlisins, þá að fram komi þær raddir frá Reykvíkingum og Hafnfirðingum, að það þurfi að ýmsu leyti betur að vinna að framkvæmdum fyrir dreifbýlið en gert hefur verið. Það hefur frá upphafi verið skoðun verklýðshreyfingarinnar hér í Rvík, hvort sem meiri hluti hennar hefur fylgt Alþfl. eða Sósfl., að reykvískur verkalýður hefði beinlínis hagsmuna að gæta um það, að þannig væri búið að verkalýðnum úti á landi, að hann gæti búið við mjög mannsæmandi kjör. Og reykvískur verkalýður hefur alltaf stutt að því að hjálpa til að bæta kjör verkamanna og verkakvenna úti á landi. Og það er vegna samúðar við verkamenn úti á landi, sem við viljum vernda hagsmuni þeirra. Og það er ekki heldur til hagsmuna fyrir verkamenn í Rvík, að fólksstraumurinn verði svo mikill til Rvíkur., að menn, sem bornir eru í Rvík eða hafa átt þar lengi heima, geti ekki fengið inni nema í bröggum, heldur hitt að búið sé þannig að fólki úti á landi hvað atvinnu og húsnæði snertir, að það vilji hafast þar við. Það er þess vegna skynsamlegast beinlínis frá eiginhagsmunasjónarmiði verkalýðsins í Rvík og Hafnarfirði að aðstoða menn í dreifbýlinu í þeim kröfum, sem þeir nú gera til lífsins.

Hv. form. fjhn. minntist á, hvernig það hefði verið með nýbyggingarráð og vald þess. Ég býst við, að þeir, sem í nýbyggingarráði voru, hafi skoðað það alveg sérstaklega sem hlutverk sitt að sjá til þess, að menn utan af landi ættu eins greiðan aðgang eða greiðari aðgang að því ráði en jafnvel Reykvíkingar. Og ég hef ekki orðið var við það, að það hafi verið kvartað um, að nýbyggingarráð hafi verið andvígt því, sem vinir hv. form. fjhn. og kjósendur og yfir höfuð dreifbýlið þurfti að fá framgengt, heldur var það þvert á móti þannig, að af nýbyggingarráði var gert það stærsta átak, sem gert hefur verið enn á þessu landi til þess að beina atvinnutækjum eins og togurum til byggðarlaga úti um land, til þess að tryggja, að þessi tæki söfnuðust ekki öll saman hér í Rvík og Hafnarfirði. Ég hygg því, að fáar kvartanir hafi komið frá dreifbýlinu yfir því, að nýbyggingarráð hafi verið sinnulaust um þess hag. Hins vegar kveður svo rammt að kvörtunum í garð fjárhagsráðs og viðskiptanefndar í þessum efnum, að á morgun koma hér saman í Rvík kjörnir fulltrúar frá hreppsn. og bæjarstjórnum á Norður- og Austurlandi til þess að bera fram kvartanir sínar við ríkisstj. og fjárhagsráð. Tala þessar aðgerðir sínu máli um það, hvernig þessar stofnanir hafa vanrækt að tryggja réttindi og hagsmuni þessara aðila undanfarið.