15.12.1947
Neðri deild: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í C-deild Alþingistíðinda. (2584)

109. mál, stríðsgróðaskattur

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er upplýst, að framkoma hæstv. forseta síðasta föstudag í sambandi við það mál, sem hann hefur kveðið upp úrskurð í, byggðist á algerum misskilningi. Hæstv. fjmrh. óskaði þess aldrei, að málið yrði tekið á dagskrá. Hæstv. forseta voru hins vegar flutt um það skökk skilaboð. Ég vil aðeins segja það í sambandi við úrskurð hæstv. forseta og til ítrekunar á því, sem ég sagði síðasta föstudag, að í raun og veru hefði hæstv. forseta verið mjög auðvelt að ræða við flm., þegar hann fékk þessi skilaboð, sérstaklega vegna þess, að það lá nokkurn veginn í augum uppi, að þarna hlaut að vera um misskilning að ræða, því að það liggur í augum uppi, að ólíklegt er, að hæstv. fjmrh. hafi sérstakan áhuga fyrir því að hraða afgreiðslu þessa máls. Ég mun allra þegnlegast hlíta úrskurði hæstv. forseta, ég veit, að honum hefur ekki gengið neitt illt til í þessum efnum. En ég vil þó láta þá skoðun í ljós, að meðferð hæstv. forseta hefði getað verið önnur.