16.03.1948
Neðri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (2604)

121. mál, Reykjavíkurhöfn

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Þegar breyt. á 1. um hafnargerðir og lendingarbætur voru til umr., ræddi ég þetta mál nokkuð við hv. þm. Snæf. Hann leitaðist við að rökstyðja, að með afnámi lögveðsheimildarinnar væru réttindi Reykjavíkurhafnar skert, en ég verð að segja, að mér fundust rök hans léttvæg. Við vorum allir sammála um það í sjútvn., að með því að lögfesta lögveðsheimildina væri meiri kvöð lögð á bátana en sem svaraði ávinningi Reykjavíkurhafnar. Þegar búið er að leggja þetta ákvæði á, að skipin falli undir lögveð, þýðir það, að lánsstofnanir sjá, að skipin sem veð eru rýrari en áður, og lána því síður út á skipin. Það má kannske segja, að þetta sé bankasjónarmið, en það er nú svo með útgerðina, að flest eða öll skip verða að treysta á það að fá lán í bönkum, og snertir það því talsvert hag útgerðarinnar, hvernig bankarnir líta á skipin sem tryggingu fyrir láni. Það gæti ef til vill orðið nauðsynlegt að setja lögveðsheimildina á, en það er ekkert meiri ástæða fyrir Reykjavík en aðra staði og hefur hv. þm. Snæf. viðurkennt þetta sjónarmið, en ég segi fyrir mitt leyti, að ég sé ekki ástæðu til að setja þessa heimild í lög, fyrr en rök eru færð fyrir því, að þetta sé höfnunum nauðsynlegt. og ég lagði áherzlu á það við hv. þm. Snæf., að hann færði rök fyrir því, að niðurfelling lögveðsheimildarinnar hefði skaðað Reykjavíkurhöfn. Ég hef verið forstöðumaður Siglufjarðarhafnar í 4 ár án þess að hafa lögveðsheimild, og það, sem höfnin tapaði á því að hafa ekki lögveðsheimild, var svo óverulegt, að ég tel lögveðsheimildina alls ekki nauðsynlega. Þar sem sjútvn. hefur nú gengið svo til móts við hv. þm. Snæf. að taka upp aðalatriði þess frv., sem hann hefur nú fengið forseta til að taka á dagskrá, þá tel ég ástæðulítið fyrir hv. þm. að halda því fram og tel því dagskrártill. okkar fyllilega réttmæta. Hins vegar á hv. þm. Snæf. náttúrlega rétt á því að láta Alþ. skera úr um það, hvort það vill láta Reykjavíkurhöfn fá réttinn til lögveðs eina allra hafna og við í sjútvn. viljum engan veginn hindra það, enda er dagskrártill. miðuð við það, að vilji þingsins geti þegar komið í ljós. Ef lögveðsheimildin verður tekin upp, þá verður það að vera af því, að sýnilegt sé, að höfnunum sé það nauðsynlegt, en það get ég ekki séð að sé, eins og nú standa sakir.