26.01.1948
Neðri deild: 46. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í C-deild Alþingistíðinda. (2617)

128. mál, ullarverksmiðja í Hafnarfirði

Flm. (Hermann Guðmundsson) :

Það kom mér ekki á óvart, þótt eitthvað syngi í hv. þm. Ísaf. Sá góði maður og margir af hans flokki hafa látið þau orð falla hér, þegar frv. er borið fyrir Alþ., að það sé sannarlega ekki fullkomið nauðsynjamál. Sú andstaða hefur verið á þeim forsendum byggð, að hér sé verið að flytja mál, sem ekki sé þörf á. Það er venja hjá þeim, sem mæla á móti þeim málum, sem vitað er, að eru nauðsynjamál að segja, að það sé ekki þörf á þeim því að búið sé að leysa þá annmarka sem á þeim eru.

Ég hef heyrt frá hv. þm. V-Húnv. og svo hv. þm. Ísaf. um að hér sé búið að sjá svo fyrir, að ekkí sé þörf á að bæta við meira af ullarverksmiðjum. Mér er kunnugt að samkvæmt því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, þá eigi þær verksmiðjur, sem hér eru að geta tekið allmikilli aukningu. Þrátt fyrir þessar upplýsingar, sem hér hafa komið álít ég nauðsynlegt, að frekar sé að gert. Ég læt mér í léttu rúmi liggja, hvort einn eða annar talar um. að hér sé flutt frv. til að sýnast, aðalatriðið er fyrir mig að hér er ráðin bót á þeim vanda, sem fyrir er. Þrátt fyrir þessa aukningu, sem hér er talað um, þá er hún ekki nægileg til þess að framleiða og vinna úr þeirri ull, sem við getum haft á ári hverju.

Ég geri ráð fyrir því, eins og hv. þm. Ísaf. gat um, að þær upplýsingar, sem koma fram hjá n. um málið, fari í útvarpið. Ég tel, eins og ég hef alltaf sagt, að hér sé mál, sem er fullkomlega þess virði, að það sé tekið alvarlega og ekki vísað frá í d. á þeim forsendum, að ekki þurfi aðgerða við, heldur verði það látið fara til n. og að þar þá athugun, sem þau mál fá, sem til n. fara. Ég vænti að frv. komi frá n. á þann veg, að hún mæli með því að það verði samþ.