19.12.1947
Efri deild: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. — Þegar ég talaði í dag, lýsti ég í stórum dráttum þeim till., sem ég mundi leggja fram sem minni hl. fjhn., en till. voru þá ekki fram komnar, þannig að ég gerði ekki grein fyrir einstökum atriðum þeirra. En áður en ég sný mér að því, vil ég segja nokkur orð út af ræðu hv. frsm. meiri hl. — Hann sagði, að það væri viðurkennt, að sjávarútvegurinn þyrfti á aðstoð að halda og einmitt þess vegna sæti sízt á mér að vera á móti því, að gerð yrði sú ráðstöfun af Alþ. að aðstoða atvinnurekendur til þess að lækka kaup verkamanna, því að það væri einmitt sú aðstoð við sjávarútveginn, sem hér um ræðir, sem á þyrfti að halda. En ég sýndi fram á það svo skýrt, að ég held, að ekki verði á móti því mælt, enda gerði frsm. ekki tilraun til þess, að þetta dugar sjávarútveginum alls ekki. Þessi kauplækkun, sem frv. framkvæmir, er ekki gerð fyrir sjávarútveginn, vegna þess að það er honum engin aðstoð. Á fundi með fjhn. var forstöðumaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, og skýrði hann þetta mál nokkuð frá sjónarmiði hraðfrystihúsanna. Hann sagði, að þessi vísitölulækkun — þ.e. þessi kauplækkun, því að um lækkun hinnar eiginlegu vísitölu er ekki að ræða — hún gerði ekki betur en vega rétt á móti þeirri hækkun, sem nú hefði orðið aðeins á umbúðum einum. Þetta sagði formaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna.

Frsm. spurði þá, hver ætti að borga það, sem þyrfti til aðstoðar sjávarútveginum. Ég hef einmitt sýnt fram á, hver ætti að gera það: ýmsir aðilar, sem nákvæmlega hefur verið gerð grein fyrir og lifa hátt á sjávarútveginum, og það er einmitt þessi leið, sem Sósfl. vill fara, að létta þessari byrði af útveginum, og mun ég nú einmitt í sambandi við þessar till. gera nokkru nánari grein fyrir því.

Frsm. talaði um mannréttindi í þessu sambandi. Hann mótmælti því, að hér væri höggvið nærri nokkrum mannréttindum. Ég vissi nú, að hv. frsm. er ekki sérstaklega viðkvæmur fyrir þeim mannréttindum, sem sérstaklega snerta rétt verkamanna til að lifa. En þar sem hann talaði um, að skerðingin væri í því fólgin að breyta l. um vísitöluna, á ég ekki við það, heldur hitt, að með þessum l. eru frjálsir samningar milli atvinnurekenda og verkamanna að engu gerðir og þar með höggvið nærri mannréttindum, sem maður skyldi ætla, að tryggð væru með stjórnarskrá landsins.

Frsm. hneykslaðist einnig á því, að því skyldi hafa verið haldið fram í bréfi, sem ég vitnaði til, að þm. hefðu ekkert umboð til þess að setja slík l. Ég held, að þetta sé alveg rétt. Ég held, að þeir hafi ekkert umboð til þess að afnema frjálsa og löglega samninga, sem verkalýðsfélögin hafa gert.

Hv. frsm. sagði, að það hefðu verið tekin ráðin af bændum í tíð fráfarandi stjórnar. Það er furðulegt, að þm. skuli bera slíkt fram, því að eins og nú standa sakir er afurðaverð bænda ákveðið með gerðardómi, nú siðast með gerðardómi, þar sem hagstofustjóri er oddamaður. Í tíð fyrrv. ríkisstj. var það verðlag ákveðið af n., þar sem bændur áttu sæti.

Frsm. vill ekki gera mikið úr þeim mótmælum, sem fram hafa komið gegn frv. Það hafi oft góðum málum verið mótmælt, og réttast sé fyrir þm. að hafa þau mótmæli að engu. Hefur hann athugað það, að þessi mótmæli eru frá öllum þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, undirstöðustéttum þjóðarinnar, þeim stéttum, sem allt þjóðfélagið byggist á? Og þegar setja á þvingunarlög gegn slíkum stéttum, verða lögin ekki framkvæmanleg, en hér hefur slíkt gerzt, og þetta er eini þm., sem hefur ekki viðurkennt, að ekki sé hægt að setja slík l. gegn meiri hl. þjóðarinnar og sérstaklega þeim stéttum, sem hér eiga hlut að máli. En úr því að hv. þm. hefur þessa skoðun, að þetta sé ekki á móti vilja meiri hluta þjóðarinnar, — hvers vegna vill hann þá ekki vera því fylgjandi, að þetta sé lagt undir þjóðaratkvæði, og láta reynsluna skera úr?

Þá minntist hann á söluskattinn og bar hann saman við veltuskattinn. Hér er um rangan samanburð að ræða. Ég var að tala um söluskattinn í sambandi við það, að hann yrði tif þess að hækka stórum dýrtíðina í landinu. Veltuskatturinn hækkaði ekki dýrtíðina, svo að hér er um óskylda hluti að ræða. Veltuskatturinn var lagður á verzlunarfyrirtæki, en þessi skattur leggst aftur á móti á neytendur, á vöruna, og hækkar verðlag í landinu og þá réttu vísitölu.

Mun ég svo snúa mér að till., sem ég ber fram. Ég hef rætt um þær almennt áður og mun nú gera nánari grein fyrir nokkrum þeirra í örstuttu máli. Ætla ég fyrst að minnast nokkuð á þær till., sem miða að því að aðstoða bátaútveginn. Það er þá í fyrsta lagi 6. brtt., þar sem lagt er til, að vátryggingariðgjöld fiskiskipa verði lækkuð niður í 4% á ári og þegar um sérstaklega vandaða báta er að ræða niður í 3%. Vátryggingarútgjöldin eru nú gífurlega stór útgjaldaliður hjá útgerðinni, yfirleitt 8%. Af bátum, sem eru vátryggðir fyrir 600 þús. kr., eru þetta 40 þús. kr. á ári. Á því er enginn vafi, að þessi gjöld eru óeðlilega há. — Þá er b-liður 6. brtt. um það, að ríkisstj. endurgreiði þær 4 kr. af verði hvers síldarmáls, sem haldið var eftir samkv. 6. gr. l. nr. 97 frá 28. des. 1946, um ríkisábyrgð vegna bátaútvegsins o.fl. Þetta teljum við bæði sanngjarnt og sjálfsagt, þegar athugað er, hvernig síldarvertíðin gekk í sumar, og það sé fyllilega sanngjarnt að greiða þetta út nú. Samtals nemur þetta 3 millj. kr. — Þá er það e-liðurinn, að allar afborganir af lánum útvegsins, sem tryggð eru með veði í bátum, skipum, fiskiðjuverum og öðrum fasteignum og falla til greiðslu á árinu 1947, skuli falla niður, og framlengist lánstíminn um eitt ár, nema breyt. séu gerðar á lánstíma samkv. 6. gr. Þegar þess er gætt, við hve mikla erfiðleika sjávarútvegurinn hefur að stríða, er vissulega ekki óeðlilegt, að þessar breyt. séu gerðar, og mundu þær verða útveginum mikil aðstoð, enda er lánstími þessara lána miklu styttri en nauðsyn ber til í flestum tilfellum, en samkv. öðrum till., sem ég ber fram hér á sama þskj., er einmitt lagt til, að lánstíminn verði lengdur. — Þá er það d-liðurinn, en samkv. honum er ríkisstj. heimilt að veita samtökum útvegsmanna einkarétt til þess að flytja inn og annast heildsölu á veiðarfærum og öðrum útgerðarvörum. Ef nauðsynlegt reynist að taka leigu eða eignarnámi veiðarfæraverksmiðjur, til þess að hægt sé að tryggja útvegsmönnum veiðarfærin með kostnaðarverði, er ríkisstj. heimilt, að fengnum till. útvegsmanna, að gera slíkar ráðstafanir. — Veiðarfærakostnaður og kostnaður á öðrum útgerðarvörum er orðinn mjög tilfinnanlegur útgjaldaliður fyrir útgerðina, og hef ég minnzt á eitt tilfelli áður, þar sem er umbúðakostnaður hraðfrystihúsanna. Þær upplýsingar, sem formaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna gaf fjhn. í sambandi við þetta, sýna bezt, hve ónotalegar ráðstafanir fyrir sjávarútveginn það eru að lækka kaupið á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Eðlilegasta leiðin til þess að lækka verð útgerðarvara er vafalaust sú, að samtök útgerðarmanna hafi innflutninginn með höndum, og er það áreiðanlega bezta tryggingin fyrir því að fá þessar vörur ódýrt. — Þá er það e-liðurinn, sem fjallar um, að ríkið taki einkasölu á olíu til þess að tryggja, að útgerðin fái hvers konar olíu og benzín með kostnaðarverði.

Þá er það 7. brtt. Það er till. um nýjar verðlagsreglur um alla vinnu vélsmiðja, báta- og skipasmiðastöðva og annarra, sem kunna að hafa með höndum viðgerðar- og viðhaldsstörf í þjónustu útgerðarinnar. Það fyrirkomulag, sem nú er, stuðlar beinlínis að því að gera viðgerðarkostnaðinn óhæfilega mikinn, því að þessu er svo vísdómslega fyrir komið, að því meiri sem tilkostnaðurinn er og því lengri tíma sem vinnan tekur, því meira fá fyrirtækin í sinn hlut.

Þá er það loks 8. brtt., sem er um lækkun vaxta á lánum til útgerðarinnar og lengri lánstíma. Þetta er ein veigamesta till. og hefur úrslitaþýðingu beinlínis fyrir útgerðina. Það er viðurkennt af bönkunum, að mismunurinn á útlánsvöxtum og innlánsvöxtum sé óeðlilega mikill. Bankarnir hafa haft óeðlilega mikinn gróða, en hins vegar hafa bankarnir haft í undirbúningi að jafna metin þannig að hækka innlánsvexti og hækka líka útlánsvexti, bara ekki eins mikið, og virðist þetta furðuleg ráðstöfun, þegar allir viðurkenna, að nauðsyn ber til þess að styðja útgerðina, og vextirnir, sem útgerðin verður að bera, eru eins gífurlegir og raun ber vitni. Það virðist vera sjálfsagður hlutur, eins og hag útgerðarinnar er nú komið, að lækka útlánsvextina að mun, enda eru heildarvextirnir hér óeðlilega háir, og sérstaklega sýnist það auðsætt, að hið fyrsta, sem gera ætti til aðstoðar útgerðinni, væri að lækka vextina.

Það hefur áður verið rætt um heildarþýðingu þessara till. Samkvæmt þeim útreikningum, sem gerðir hafa verið um rekstrarkostnað hvers fiskibáts, mundu með þessu sparast milli 50 og 60 þús. kr. fyrir hvern bát, og getur enginn neitað því, að slíkt er raunveruleg aðstoð við útgerðina.

Þá eru hér nokkrar till. á þessu sama þskj., sem ég hef borið fram samkv. þeim óskum, sem hraðfrystihúsin hafa komið á framfæri hjá hv. fjhn. Ég tel þessar till. hraðfrystihúsanna yfirleitt sanngjarnar, enda hafa þau lýst yfir því, að þessar breyt. sé nauðsynlegt að gera á l., til þess að þau verði rekin. Þessar till. ganga sumpart í sömu átt og brtt. fjhn., en sumar af brtt. mínum ganga enn lengra, og nái þær ekki fram að ganga, mun ég fylgja samsvarandi till. á þskj. 245, sem bornar eru fram af fjhn. allri.

Þá er hér loks brtt., sem ég flyt við III. kafla frv. Legg ég til, að sá kafli falli alveg niður, þ. e. kaflinn um festingu vísitölunnar og lækkun kaups, en að í staðinn fyrir þetta komi ein gr., sem fjallar um niðurfellingu tolla. Samkvæmt henni er ætlazt til, að allir tollar af þeim vörum, sem inn í vísitöluna ganga, falli niður árið 1948. Það hefur verið reiknað út, hvað þetta muni miklu til þess að lækka vísitöluna, og samkvæmt útreikningum hagstofunnar lækkar vísitalan strax um 22 stig, ef þetta verður gert, og af því mundi síðan leiða nokkra lækkun vegna þeirra áhrifa, sem slík vísitölulækkun mundi hafa á verð annarra vörutegunda. Samkv. þessari till. á sem sé að fella niður tolla af öllum þeim vörum, sem inn í vísitöluna ganga, sem nokkru máli skipta, en svo að segja eina undantekningin, sem til greina kemur og nokkru munar, er varðandi búsáhöld, sem ekki eru tekin með af þeim ástæðum, að þau verka lítið á vísitöluna og í öðru lagi er erfitt að greina á milli nauðsynjavöru og miður nauðsynlegrar vöru og sumpart lúxusvöru. Þetta munar þó aðeins broti úr stigi. Þá er lagt til að fella niður tolla af ýmsum hráefnum til iðnaðar, sem inn í vísitöluna ganga, og er gert ráð fyrir því samkv. útreikningum, að þetta muni lækka vísitöluna um rúmlega 20 stig. Kemur þarna náttúrlega til greina bæði tollarnir sjálfir og álagning á tollana. Það hefur verið reiknað út, að sparnaðurinn, sem af þessu mundi leiða, yrði svo mikill vegna lækkaðra útgjalda í fjárl., að um tiltölulega lítil bein útgjöld yrði að ræða fyrir ríkissjóð, og þar með yrði þeim tilgangi náð að koma vísitölunni raunverulega niður í 300 stig — ekki með því að setja hana niður í 300 stig með því að lækka kaup almennings, heldur með því að lækka verðlag í landinu.

Heildarútkoman af þessum brtt., ef þær næðu samþykki, yrði því þessi: Útgerðinni yrði veitt sú aðstoð, sem dugar, og vísitalan raunverulega lækkuð allt niður í 300 stig. En vissulega teljum við sósíalistar þessar ráðstafanir ekki nægilegar. Það þyrfti að gera miklu meira, t.d. að breyta verzlunarfyrirkomulaginu, svo sem Sósfl. hefur lagt fram frv. um í hv. Nd., og þyrfti því að samþykkja það frv., en ef þær till., sem ég hef nú rætt um, yrðu hér samþykktar og frv. hæstv. ríkisstj. þar með breytt, mundi það samt sem áður nægja til þess að leysa vandann í bili og hefja sókn í rétta átt, sem frv. hæstv. ríkisstj. gerir hins vegar ekki.