29.01.1948
Neðri deild: 48. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í C-deild Alþingistíðinda. (2627)

138. mál, vernd barna og ungmenna

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Í gildandi l. um vernd barna og unglinga nr. 29/1947, er m. a. gert ráð fyrir því að ráðstafa börnum og unglingum, sem er andlega eða siðferðilega ábótavant, um sinn á heimili, hæli eða upptökuheimili. Nú er það svo, að þessar ráðstafanir á börnunum eru gerðar af barnaverndarnefnd og oft án samþykkis foreldra eða forráðamanna eða jafnvel gegn vilja þeirra. Það hefur því þótt eðlilegt að gera kostnaðinn við þessar ráðstafanir sem minnstan.

Það er tekið fram í 37. gr. barnaverndarl., að um greiðslur fyrir börn og ungmenni á hælum þessum og öðrum hælum og stofnunum handa börnum og unglingum fari eftir l. nr. 78 1936, en það eru l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Þar greiðir ríkið 4/5 kostnaðar. Um greiðslu kostnaðar við dvöl barns eða ungmennis á athugunarstöð eða upptökuheimili er ekkert fram tekið í l., en það þýðir það að kostnaðinn er hægt að endurheimta að fullu, ýmist af aðstandendum barnanna eða sveitarfélaginu. Nú mun það hafa verið tilætlun þeirra, sem að þessum l. stóðu, að sama reglan gilti um hvort tveggja, en í barnaverndarl., 37. gr., er aðeins sagt að þessi kostnaður. að 4/5 hlutum, skuli greiddur, en það er ekkert tekið fram um það í 36. gr., sem fjallar um upptökuheimilin. Þetta frv. er borið fram til þess að bæta úr þessum ágalla og ákveða að um dvalarkostnað þessara barna skuli fara með sama hætti og um dvalarkostnað á venjulegum barnaheimilum, að ríkissjóður greiði 4/5 hluta. Nú er það svo, að kostnaður vegna dvalar á þessum heimilum er miklu hærri á barn en á venjulegum barnahælum. Þarna þarf forstöðufólk nokkuð fast, greiðslur til starfsmanna. húsnæði, ljós og hita, en hins vegar er mismunandi, hversu mörg börn eru á hverjum tíma. Þegar heimta skal þannig dvalarkostnað af aðstandendum, verður það í mörgum tilfellum mjög þungbært, og verður ekki séð, hvers vegna þarf að hafa þetta öðruvísi en á venjulegum barnahælum.

Frv. þetta er flutt í samráði við barnaverndarn. Rvíkur, sem hefur lagt áherzlu á. að þetta kæmist á, en eins og kunnugt er, rekur ríkið upptökuheimili að Elliðahvammi, og er þangað ráðstafað börnum, ekki aðeins úr Rvík. heldur annars staðar af landinu.

Ég vil vænta þess, að þessi orð skýri tilgang frv., og vil óska þess, að því verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og til heilbr.- og félmn.