19.02.1948
Neðri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (2634)

159. mál, heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í l. nr. 35 frá 1940 er gert ráð fyrir, að í hverjum kaupstað skuli bæjarstj. ráða heilbrigðisfulltrúa að fengnum till. heilbrigðisn., héraðslæknis og lögreglustjóra. Þessi fulltrúi skal svo annast dagleg eftirlitsstörf fyrir hönd heilbrigðisn., eins og 1. gera ráð fyrir og tekið er fram l 6. gr., undir eftirliti héraðslæknis.

Nú er það svo hér í Reykjavík, að heilbrigðisfulltrúinn hefur ekki verið læknisfróður maður, og hafa verið valdir til þess starfa gegnir og góðir menn og ekki verið gerðar til þeirra sérstakar þekkingarkröfur. Þegar þetta starf varð laust hér í Reykjavík fyrir nokkru, var það einróma álit bæjarráðs og bæjarstj., að rétt væri að fá læknisfróðan mann til starfsins, og það tókst að fá prýðilega menntaðan mann, dr. med. Jón Sigurðsson, til þess að taka að sér starfið, sem lengi hefur verið við nám og starf erlendis. Og hann var ráðinn á þeim grundvelli af bæjaryfirvöldunum, að bæjarstj. beitti sér fyrir lagabreytingu á þann hátt, að starf hans væri sjálfstætt starf, sem þótti sjálfsagt, um leið og gerðar væru þessar nýju kröfur. Frv. fer því fram á þetta, að heilbrigðisfulltrúinn í Reykjavík, sem verði nefndur „borgarlæknir,“ verði sjálfstæður starfsmaður bæjarstjórnar Reykjavíkur, og er það í samræmi við þær nýju kröfur, að heilbrigðisfulltrúinn sé læknir, sem er í samræmi við það, sem tíðkast á Norðurlöndum. Það er hvort tveggja, að þegar menntaður læknir er fenginn í þetta starf, þykir ekki ástæða til þess, að hann sé undirmaður héraðslæknis og hafi ekki sjálfstætt vald til boðs eða banns í þeim málum, er til hans taka. Þar að auki munu störf þau, sem heilbrigðisfulltrúi og borgarlæknir annast, verða greidd úr bæjarsjóði. Má þar til nefna sorphreinsunina, sem stórar fjárhæðir fara til á hverju ári. t. d. hér í Reykjavík töluvert á aðra millj. kr. á síðasta ári. Þannig eru það fleiri störf, sem bærinn stendur straum af.

Hér er um ekkert kostnaðaratriði að ræða fyrir ríkissjóð. Það hefur engan kostnað í för með sér fyrir hann. Þetta er aðeins sú skipulagsbreyting, sem bæjarstj. óskar eftir, að heilbrigðisfulltrúinn, sem nefndur verði borgarlæknir, verði sjálfstæður í starfi sínu undir yfirstjórn bæjaryfirvaldanna, en ekki ríkisins.

Þær mótbárur hafa komið fram, að störf héraðslæknisins mundu verða mjög lítils virði. ef þessi maður yrði sjálfstæður embættismaður, en eins og sjá má af yfirliti því, sem prentað er í grg., þá mundi héraðslæknirinn hafa mikið starf þrátt fyrir þetta, enda er ekki vafi á því, að eins og nú er, þá er hann allt of störfum hlaðinn.

Ég vil taka það fram, til þess að það komi skýrt fram, að það er á engan hátt með þessu verið að bekkjast til við núverandi héraðslækni, Magnús Pétursson, og er sett inn í þetta frv. ákvæði, að þessi breyt. á starfi héraðslæknis og heilbrigðisfulltrúa skuli ekki koma til framkvæmda, fyrr en núverandi héraðslæknir, Magnús Pétursson, lætur af embætti, sem samkvæmt 1. mun verða eftir þrjú ár.

Þá er gert ráð fyrir í frv. að hækka sektarhámark fyrir brot gegn heilbrigðissamþykkt. Það hefur komið í ljós, að sektirnar eru svo lágar, að þær gefa ekki nógu mikið aðhald, og er gert ráð fyrir að hækka þær úr eitt þús. kr. í fimm þús. kr.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni, Bæjarstj. Reykjavíkur leggur áherzlu á, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu ári.

Ég legg svo til, að málið gangi til heilbr.- og félmn.