19.02.1948
Neðri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í C-deild Alþingistíðinda. (2635)

159. mál, heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil nota þetta tilefni, þar sem þetta frv. er flutt af borgarstjóranum í Reykjavík sem 1. flm., hv. þm. Snæf., og tveimur öðrum hv. þm. Reykv., og stinga upp á því við borgarstjórann í Reykjavík, að það verði betri samvinna milli heilbrigðisstj. og bæjaryfirvaldanna í Reykjavík heldur en verið hefur fram að þessu, þannig að ef yfirvöldin í Reykjavík hafa áhuga fyrir breytingu á vissu fyrirkomulagi í heilbrigðismálum, þá verði sá háttur hafður á, að málið verði fyrst túlkað við heilbrmrn. og íhugaðar séu sameiginlega þær óskir, sem yfirvöldin í Reykjavík hafa í þessum efnum, og séð, hvort ekki sé hægt að koma sér niður á sameiginlegan grundvöll í málinu. Ég álít það heppilegri leið fyrir góða afgreiðslu máls, hvort sem það heyrir til heilbrigðis- eða menntamálum, að slík mál séu tekin upp á þann hátt heldur en að málið sé flutt beint inn í þingið, sem á eðlilega miklu erfiðara með að átta sig á málinu, nema slíkur undirbúningur hafi farið fram. Þessa aths. vildi ég, að borgarstjórinn í Reykjavík, hv. þm. Snæf., vildi taka til yfirvegunar. Ég vildi mjög gjarnan hafa góða samvinnu við bæjaryfirvöldin í Reykjavík, á meðan ég hef með þessi mál að gera. En til þess þurfa menn að tala saman um málin og hafa samband um þau öðruvísi heldur en í ræðum hér í þinginu.

Þá vil ég benda á það, að eftir heilbrigðislöggjöfinni er það þannig, að héraðslæknum er alls staðar ætlað að hafa með höndum eftirlit með heilbrigðismálum, eins og hv. 1. flm. frv. réttilega tók fram. Á því er þetta kerfi byggt. Og ef breytt er út frá þessu. þá þarf að athuga ýmislegt annað í því sambandi heldur en kemur fram í þessu frv.

Það er rétt, sem hv. flm. sagði, að heilbrigðisfulltrúinn, sem er að vissu leyti undirmaður héraðslæknis, eins og sakir standa. er kostaður af bænum. En þess ber að gæta, að ef þessu er alveg breytt og settur sérstakur borgarlæknir, sem ekki væri á vegum ríkisins, þá mundi hann þó hafa með höndum mörg verkefni, sem kostuð eru af ríkinu. Ef bæjaryfirvöldunum finnst, að þau þurfi að hafa meiri yfirstjórn yfir þeim verkum, sem bærinn kostar, þá kemur vitanlega það sama til greina með þau verk, sem kostuð eru af ríkinu, að það vilji einnig hafa íhlutun um þau mál. Þess vegna er þetta ekki eins einfalt mál eins og hv. flm. vildi vera láta. Og sannleikurinn er sá, að það þarf að endurskoða þessi atriði gaumgæfilega og sjá, hvort ekki sé hægt að finna heppilega lausn málsins með tilliti til óska bæjaryfirvaldanna í Reykjavík. Það má segja, að bæjaryfirvöldin hafi að vissu leyti óeðlilega litla hlutdeild í stjórn þessara mála. En ég álít, að ekki sé hægt að bæta neitt úr þessu með þeim ráðstöfunum, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., heldur þurfi að taka til athugunar löggjöfina um heilbrigðiseftirlitið í þessu sambandi.

Þá vil ég benda á til athugunar fyrir n., sem fær málið til meðferðar. og hv. flm., að þótt vel geti verið réttmætt, að bærinn hafi þarna meiri íhlutun heldur en verið hefur, og er sjálfsagt að taka það til athugunar, þá álit ég ekki heppilegt að tvískipta þessum verkum, eins og þarna er gert ráð fyrir. Ef héraðslæknir og borgarlæknir væru í Reykjavík, gæti verið örðugt að hafa hreinar línur þar um, hvað þeir ættu að hafa með höndum hvor um sig. Það mundi verða erfitt í framkvæmdinni. Ég held, að sú skipan sé hvergi á höfð, að tveir aðalmenn séu hafðir í þessu starfi. Ég held, að menn þurfi að hugsa sig vel um, áður en settir eru þessir tveir aðilar, héraðslæknirinn í Reykjavík, sem er ríkisskipaður, og borgarlæknirinn, sem er bæjarskipaður. Ég hygg, að það sé undir öllum kringumstæðum bezt að reyna að finna það fyrirkomulag, að toppurinn yrði aðeins einn.

Það kemur fram í grg., að þetta frv. á rót sína að rekja ekki sízt til þess, að ráðinn hefur verið ungur og duglegur læknir sem heilbrigðisfulltrúi og honum finnst, að hann geti eins vel einn ráðið um þessi verkefni, sem hann á að fjalla um, eins og að vera undir yfirstjórn héraðslæknis, en eins og hefur verið bent á, þarf fleira að athuga í sambandi við það mál, og við megum ekki hlaupa til allt í einu og breyta þessu skipulagi óhugsað.

Ég vil mæla með því, að frv. fari til hv. heilbr.- og félmn., og skora ég á þá n. að athuga málið rækilega og afla upplýsinga hjá þeim aðilum, sem þessum málum eru kunnugastir og reyna að finna lausn, sem báðir aðilar geta sætt sig við.