19.02.1948
Neðri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í C-deild Alþingistíðinda. (2637)

159. mál, heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil út af því, sem hv. flm. sagði, taka fram, að ég veit, að hann hefur átt viðræður við héraðslækninn um þetta mál. Og það er náttúrlega ákaflega mikilsvert að fá álit héraðslæknis á þessum efnum, því að honum eru þessi mál mjög kunn. En hv. þm. minntist ekki á það, sem mér er kunnugt, að héraðslæknir er andvígur því, að þessi breyt. verði gerð á löggjöfinni, sem hér er stungið upp á. Ég átti um þetta viðræður við héraðslækni í morgun og hann telur á þessu tvo megingalla. Annað er það að hann telur mjög varhugavert að tvískipta starfinu, og hitt er að hann telur að ef það er gert, þá þurfi að endurskoða löggjöfina um þessi efni miklu víðtækar heldur en hér er stungið upp á, ef ætti að leggja þetta undir yfirstjórn bæjarins, og að bærinn yrði þá að taka við ýmsum verkefnum í þessu sambandi. sem ríkið hefur nú. Og þó að það sé að sjálfsögðu réttlátt og eðlilegt, að borgarstjórinn í Reykjavík fari og tali við héraðslækninn í Reykjavík um þetta, þá vil ég undirstrika það, að 1. flm. þessa frv. er það vel kunnugur því, hvernig á að fara að um mál, að hann veit, að sá rétti aðili til þess að hafa samband við um svona mál er ekki héraðslæknirinn í Reykjavík, heldur ráðuneytið, sem þessi mál heyra undir. Hv. þm. segist hafa haft samband um þetta við hæstv. dómsmrh., og ég efast ekki um, að það sé rétt. Hæstv. dómsmrh. hefur minnzt á við mig, að áhugi væri um breyt. í þessu efni hjá bæjaryfirvöldunum í Reykjavík. En að öðru leyti hefur málið ekki verið lagt neitt fyrir ráðuneytið. Og mér datt ekki í hug að líta á þetta umtal innan um tal um fjölda annarra mála sem málsfyrirlag af hálfu bæjarstjórnar Reykjavíkur. Þetta er alveg þykkjulaust af mér, en ég vil benda á það til frambúðar, að svona er ekki hægt að vinna að málum. Það er ekki hægt að senda svona boð um þetta og annað slíkt á milli aðila, heldur verður að fara með málin rétta leið. Það stendur ekkert á okkur í ráðuneytinu að athuga þessi mál. Og ég bendi borgarstjóranum á að bæta úr þessu, því að það er ekkert lag á þessu. Þetta á líka við um ýmislegt í skólamálum, sem ég vil ekki fara inn á í þessu sambandi neitt verulega við þessa umr., að starfsmenn, sem eru á vegum Reykjavíkurbæjar, þeir rita sjálfir nefndum í þinginu uppástungur um, að vissar till. séu gerðar í þinginu, án þess að hafa minnzt á það munnlega eða skriflega við það ráðuneyti. sem á að fjalla um þá löggjöf. Það er ekki hægt að koma samvinnu við, ef þannig er á málum haldið.

Viðvíkjandi því, sem hv. flm. sagði, að það hefði ekki þýtt að skrifa ráðuneytinu, vegna þess að landlæknir lægi svo á málum, þá er það ekki afsökun fyrir hv. þm. Snæf., borgarstjórann í Rvík. Hann gat haft samband við ráðuneytið og prófað, hvort mundi verða á þessu máli legið. Og hann hefði þá haft fullkomna ástæðu til að ganga fram hjá ráðuneytinu og flytja þetta mál í þinginu, ef það hefði verið legið á þessu máli af heilbrigðir yfirvöldunum. Ég er ekki að segja þetta af þykkju, heldur til þess að fá lagfæringu á þessu. Ef borgarstjóranum í Reykjavík finnst svo, að logið sé á málum í ráðuneytinu, þá láti hann okkur vita um það. Og ef svo væri, þá hefði hann frjálsar hendur um að fara sínar leiðir að því er við kemur flutningi mála, ef hann fær ekki svör eða undirtektir í ráðuneytinu.

Hv. flm. minntist á, að sér virtist, að sú ástæða gæti verið úr sögunni, að heilbrigðisfulltrúi þyrfti að vera undirmaður héraðslæknis, þegar góður læknir hefði tekið við starfi heilbrigðisfulltrúans. Þó að þetta sé ekki mjög stórt atriði, þá er málið ekki svona einfalt, því að heilbrigðisfulltrúinn í Reykjavík hefur ekki verið látinn heyra undir héraðslækninn í Reykjavík af því, að honum væri vantreyst, heldur til þess að tryggja, að samræmi fengist í störfum, þannig að á einum stað væri úrskurðarvaldið, sem sé hjá héraðslækn.

Þetta sem sagt verður allt athugað í n.. sem fær málið til athugunar.