19.12.1947
Efri deild: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. — Ég flyt hér brtt. á þskj. 242 ásamt hv. 6. landsk. þm. við 12. gr. frv. Sú gr. hljóðaði upphaflega í frv. þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Hvarvetna þar, sem fjárhæð starfslauna eða annarra greiðslna er miðuð við verðlagsvísítölu samkv. l., samningum eða á annan hátt, má ekki miða verðlagsuppbót við hærri vísitölu en 300, meðan lög þessi eru í gildi.“ Í hv. Nd. var bætt við þessa gr. því ákvæði, að elli- og örorkulífeyri skv. l. nr. 50 1946, um almannatryggingar, megi greiða með verðlagsuppbót, er nemi allt að 315 vísitölustigum. Vil ég nú leyfa mér að skýra frá því, að til er allstór hópur fólks, sem mjög er líkt ástatt um og þá, sem hér er heimilað að greiða elli- og örorkulífeyri með verðlagsuppbót, er nemi allt að 315 stigum, og á ég þar við fólk, sem hafði lögboðinn lífeyri, áður en l. um almannatryggingar gengu í gildi. Við leggjum því til, að á eftir orðunum „lögum nr. 50 1946, um almannatryggingar“ komi: svo og lífeyri starfsmanna ríkisins samkv. lögum nr. 101 30. des. 1943, lífeyri barnakennara og ekkna þeirra samkv. lögum nr. 102 30. des. 1943 og lífeyri hjúkrunarkvenna samkv. lögum nr. 103 30. des. 1943. Ég ætla, að hv. þdm. muni fallast á, að hér sé um sanngirnismál að ræða, og að þessi brtt. verði því samþ.