15.03.1948
Neðri deild: 73. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í C-deild Alþingistíðinda. (2648)

180. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson) :

Herra forseti. Svo sem ljóst er af frv., sem hér liggur fyrir til umr., er hér till. um að veita þá heimild, að lagt sé 25 aura gjald á hvern bíómiða, sem seldur er í landinu. og er reiknað með, að þessi upphæð nemi alls 600 þús. kr. Svo er til ætlazt, að þetta gjald renni í sérstakan sjóð, sem verði í vörzlum hæstv. menntmrh., og þar verði veitt úr honum samkv. settum reglum til hljómsveitarinnar. Það hafa verið færð ljós rök fyrir þessu í grg., og þarf ekki mörgum orðum þar við að bæta.

Ég vil segja, að frá mínu sjónarmiði er þarna um að ræða eftirtektarvert atriði á sviði okkar menningarmála, einmitt á sviði hljómlistarinnar. Síðan tónlistarskólinn var stofnaður, hefur það verið talin lofsverð framför. Ég hygg, að þeir menn séu margir, sem lagt hafa fram óeigingjarnt starf í þágu menningarmála, og ég segi, í þarfir einnar hinna göfugustu hugsjóna. Nú eru tónlistarmenn á einu máli um það, að til þess að tónlistin lifi og blómgist í landinu, þá er nauðsynlegt að koma hér upp fullkominni hljómsveit. Þetta hefur verið reynt oftar en einu sinni og víst með furðulega góðum árangri. En tilraunir til að láta slíka hljómsveit starfa til langframa hafa strandað á því sama, þ. e. fjárhagsörðugleikum, því að slík hljómsveit krefst margra kunnáttumanna og mikils starfs.

Nú hafa leiðtogar hljómlistarmanna komið að máli við hæstv. menntmrh. og rætt við hann um sín áhugamál. Árangur þessara viðræðna er fyrir hendi, sem sé í frv., sem er til úrlausnar á málinu. Þeir gerðu þegar drög að frv., sem þeir síðan sendu hæstv. menntmrh. Hæstv. ráðh. vildi gera nokkrar breytingar á frv., og var frv. síðan breytt í þá mynd eins og það nú liggur hér fyrir. Þeir aðilar, sem hlut áttu að máli með samningu frv., mættu síðan á fundi menntmn., og féllst n. á að flytja frv. Ég skal ekki endurtaka það sem getið er í grg. um starfssvið hljómsveitarinnar, en henni er ætlað að vinna fyrir ríkisútvarpið, þjóðleikhúsið og einnig að halda opinbera hljómleika. Að sjálfsögðu mun ríkisútvarpið og þjóðleikhúsið bera kostnað þann, sem verður af rekstri hljómsveitarinnar, en þó munu þeir aðilar ekki geta lagt til allt það fé, sem með þarf, og er því lagt til, að ráðstafanir fari fram vegna þessarar starfsemi.

Að svo komnu máli sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið, en vænti þess fyrir hönd menntmn., að málinu verði vísað til 2. umr.