18.03.1948
Neðri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (2653)

180. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Viðvíkjandi brtt. frá hv. þm. Ísaf., sem hann flytur á þskj. 511, hef ég þrátt fyrir eftirgrennslan ekki getað á þessum skamma tíma fengið upplýsingar um það, hvaða fjárhagslega þýðingu það hefur fyrir hljómsveitina, ef sú breyt. yrði samþ., sem þar er lagt til. En hvað sem því líður, get ég ekki annað en lagt eindregið á móti þessari brtt. Mér sýnist það svo augljóst mál, að hér sé verið að stofna til menningarstarfsemi, sem þjóðina alla varðar, að ég álít, að það eigi ekki að koma aðeins í hlut Reykvíkinga að standa undir þeim fjárhagslegu byrðum, sem af þeirri starfsemi leiðir. Og ég vil sérstaklega benda á það, að eigi að takmarka þetta algerlega við Reykjavík, eins og lagt er til í brtt. hv. þm. Ísaf., þá virðist mér það ekki koma til mála, því að það er öllum ljóst, sem til þekkja, að það eru ekki aðeins Reykvíkingar, sem sækja hingað skemmtanir slíkar sem þær, sem symfóníuhljómsveitin mundi halda, heldur sækir þær skemmtanir fólk úr Hafnarfirði og jafnvel úr kaupstöðum við sunnanverðan Faxaflóa. Það er víst að Reykvíkingar sækja mikið bíósýningar til Hafnarfjarðar, og hafa Hafnfirðingar af því tekjur, þannig að ef ætti að setja takmörk vegna þessa sætagjalds, þá álít ég ekki koma til mála að undanþiggja Hafnarfjörð.

Ég heyri, að nokkur ágreiningur muni vera um þessa brtt., og hv. þm. Borgf. mun hafa kvatt sér hljóðs, og vil ég vita, hvað hann hefur fram að bera um málið, og mun ég ef til vill svara honum, ef ástæða verður til.