18.03.1948
Neðri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í C-deild Alþingistíðinda. (2688)

180. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson) :

Herra forseti. Það hafa risið upp deilur um það, hvort rétt sé að afla fjár í fyrirhugaðan sjóð á þennan hátt, frá kvikmyndahúsum í öllum kaupstöðum þessa lands. Ég benti á það, þegar ég ræddi till. hv. þm. Ísaf., að að svo miklu leyti sem hljómsveitin ynni fyrir ríkisútvarpið, þá fengi hún það borgað af almannafé. Vissulega ber fyrst og fremst að líta á hljómsveitina sem menningartæki, sem vinnur í þágu allra landsmanna. Ég held, hvað sem þessu liður, þá hafi Reykvíkingar og næstu bæir verulega sérstöðu í þessu máli. Í Hafnarfirði starfa tvö kvikmyndahús, en svo er málum háttað, að þangað sækja Reykvíkingar iðulega kvikmyndahús og Hafnfirðingar til Reykjavíkur. Út frá þessum forsendum hefur menntmn. orðið sammála um að leggja til, að frv. yrði breytt í það horf, að hið umrædda 25 aura gjald yrði aðeins innheimt í Reykjavík og Hafnarfirði. Menntmn. leggur því til að 1. gr. frv. orðist svo: „Heimilt skal að innheimta sérstakt gjald af kvikmyndahúsum í Reykjavík og Hafnarfirði, er nemi 25 aurum á hvern seldan aðgöngumiða, samkv. nánari fyrirmælum í reglugerð, er menntamálaráðuneytið setur.“

Ég leyfi mér að leggja þessa brtt. fyrir hæstv. forseta og sé ekki ástæðu til að rökræða hana frekar á þessu stigi.