13.10.1947
Efri deild: 5. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (2706)

16. mál, vegalagabreyting

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Þegar ég í byrjun þessa þings sezt undir umr. hér í d., vil ég byrja á því að flytja hér brtt., sem ég flutti á áliðnu þingi í fyrra, en þá þótti hv. dm. ógerningur að flytja málið á milli, án þess þó að þeir færðu nokkur rök fyrir þeim mótbárum, önnur en þau, að áliðið væri þings. Ég vil nú leyfa mér að koma með brtt. aftur ásamt tveim brtt. frá meðflm. mínum. Ég hygg, að allar brtt. miði til bóta, en sumar þeirra miða að því, að staðir séu ekki uppnefndir, heldur nefndir sínum eigin nöfnum, nöfnum, sem þeir eru skírðir í lögunum. Ég skal ekki fara út í hverja einstaka brtt. hér, því að það er gert í grg., en ég vil geta þess. að frá flestum þeim, sem hér eiga hlut að máli, hef ég gögn í höndunum, sem mæla með þessum brtt. Og þrátt fyrir það, að hæstv. Alþ. hefur ekki séð ástæðu til að hafa þessa vegi á vegalögum, þá hefur hæstv. ríkisstj. á síðastliðnu sumri látið leggja einn þessara vega fyrir ríkisfé, og sýnir það ljóslega, hversu sjálfsagt það var álitið að leggja þennan veg. Vegurinn um Hegranesið var einnig lagður fyrir lánsfé í sumar fyrir atbeina ríkisstj. Svo sjálfsagt þótti það einnig. Það stafar kannske af ókunnugleika hv. þm., að þeir hafa ekki viljað samþykkja þetta, a. m. k. virðist mér, að svo hljóti að vera. T. d. skulum við taka veginn, sem vegal. gera ráð fyrir, að endi í Árnesi. Brtt. miðar að því, að vegur þessi sé lengdur um ca. 5–6 km og látinn enda í Ingólfsfirði, en þar er nú komin síldarverksmiðja, og er þar að rísa upp þorp, sem vitanlega á að tengja við akvegasamband landsins. Allir hljóta að sjá, hversu nauðsynlegt og sjálfsagt þetta er. Svipað má segja um ýmsar hinar brtt. Þær eru allar svo sjálfsagðar, að ekki er hægt með nokkurri sanngirni að mæla á móti þeim. nema ef vera kynni veginum um Hvítársíðuna, en í brtt. geri ég ráð fyrir, að hann nái af Kleifavegi um Hvítársíðu að Fljótstungu. Hv. 1. þm. Reykv. fannst ástæða til þess í fyrra að vera á móti því, að vegurinn frá Bjarnastöðum yfir Hvítá og á Borgarfjarðarbraut nálægt Reykholti væri samþykktur. En hann gætti þess ekki, að Borgarfjarðarbraut liggur fram með Reykjadalsá að Húsafelli og svo áfram, og það verður að tengja veginn frá Bjarnastöðum við þann veg. Hitt er svo rétt, að sýsluvegur liggur fram með Hvítá, og liggur hann af Borgfirðingabraut hjá Reykholti um Stóra-Ás og á Borgfirðingabraut aftur fyrir framan Hraunsás. Eftir till. minni yrði nú nokkuð af þessum vegi ríkisvegur, og finnst mér, að svo verði að vera til þess að koma ríkisvegunum saman. — Þetta var misskilningur hjá hv. 1. þm. Reykv. og kemur af því, að hann hefur haldið að vegurinn með Hvítá væri ríkisvegur.

Ég vildi þá aðeins drepa hér á tvær brtt. í viðbót, en það eru þær, sem heyra undir 1- og k-lið. Nú er ekki ákveðið, hvert vegurinn skuli liggja, því að enn er ekki ákveðið, hvort hin væntanlega brú á Vatnsdalsá skuli vera framan eða utan Ásbrekku. Nú er Ásbrekka orðin aðalsamkomustaður Vatnsdæla, og með brtt. er því slegið föstu, að þá að brú á Vatnsdalsá verði sett utar í dalinn, þá skuli þjóðvegurinn samt vera að Ásbrekku, og virðist það ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, þar sem um samkomustað er að ræða, auk þess sem vegurinn er nauðsynlegur til þess að margir bæir geti komið frá sér mjólk. Það er því lífsnauðsyn fyrir Vatnsdalinn að fá brúna á Vatnsdalsá sem fyrst og hafa hana sem fremst í dalnum, svo að hægt sé að koma mjólkinni til Blönduóss, en ég held því fast fram, að vegurinn nái að Ásbrekku, enda þótt svo illa kynni að takast til að brúin yrði sett utar í dalinn. — Svipuðu máli gegnir um Skagafjörðinn. Ekki er enn ákveðið, hvar Héraðsvötn eða Jökulsárnar verði brúaðar í fram-Skagafirði, og vegna þess er því slegið föstu með brtt., að þó að þau eða þær verði brúaðar utan Goðdala, þá skuli þjóðvegur ná þangað fram eftir. Vafalaust kemur einhvern tíma brú þarna, en það verður að líkindum ekki strax, og þess vegna er nauðsynlegt, að vegurinn nái að Goðdölum, og ef brúin kæmi hjá Teigakoti, væri allur framfjörðurinn vegalaus.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Vænti ég þess, að hv. þm. líti á brtt. með sanngirni og skilningi og setji sig inn í málið og hafi Íslandskort fyrir framan sig, þegar þeir þekkja ekki staðina, sem um er að ræða, svo að þeir fái betur skilið þetta mál en á síðasta þingi. — Ég vil leggja til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til samgmn.