06.11.1947
Efri deild: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í C-deild Alþingistíðinda. (2713)

62. mál, menntaskólar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég skal nú ekki mæla á móti því, að skóli verði stofnaður á Ísafirði og Eiðum. Ég hef ekki gert mér nægilega grein fyrir því. Hins vegar vildi ég aðeins sem Reykvíkingur og kosinn á þing með atkvæðum Reykvíkinga láta það uppi, að ég tel ákaflega hæpið, að það verði lögboðið, að aðeins einn menntaskóli skuli vera í Rvík.

Flm. las hér upp úr grein eftir menntaskólakennara, sem nýlega birtist í Morgunblaðinu, þar sem á rökvísan hátt var sýnt fram á, að það yrði fjarstæða að flytja gamla skólann frá sínum stað, og var þar bent á, að hvað sem öðru liði, þá ætti skólinn að vera kyrr, þar sem hann er nú. En ég held, að það fylgi með í þessari grein, að þar sé gert ráð fyrir, að ef skólinn er kyrr og ekki er fengið frekara húsrými honum til handa, þá sé nauðsynlegt að reisa fleiri menntaskóla í Rvík. og ég held, að það sé ákaflega djarft að setja löggjöf um byggingu menntaskóla víðs vegar um land og ganga fram hjá þessari þörf Rvíkur. Ég mundi þess vegna vilja skjóta því til n., sem fær þetta mál til athugunar, hvort ekki væri rétt að setja það í löggjöfina, svo að ekki þyrfti frekar um það að deila, að menntaskólinn skuli vera á sínum gamla stað í bænum, að það væri þannig ákveðið, svo að framkvæmdarvaldið og ýmsar n. þurfi ekki frekar að burðast með það, og síðan sé ákveðið, að fleiri menntaskólar skuli vera reistir í bænum eftir ákvörðun kennslumálastjórnarinnar, þegar fé er veitt til þess í fjárl. Og hvað sem menn segja um þörf annarra landshluta fyrir menntaskóla, sem ég skal ekki véfengja á þessu stigi málsins, þá held ég, að ekki verði deilt um þörf Rvíkur bæði vegna hins mikla fólksfjölda hér og einnig vegna þess, að það eru ætíð talsvert margir utanbæjarmenn, sem æskja skólavistar í Rvík, svo að það er ljóst, að það þarf fleiri en einn skóla hér. Það var hugsunin að ráða bót á þessu með því að byggja þetta ógurlega skólabákn, sem lýst var í þessari ágætu grein tveggja af kennurum menntaskólans, en ef menn hverfa frá þeirri hugmynd, held ég að öll rök hnígi að því, að það þurfi að reisa fleiri skóla. Hv. flm. heldur, að hægt sé að komast fram hjá þessu með því að reisa skóla úti um land. Það kann að vera rétt að nokkru leyti, en ekki nema að nokkru leyti. Eins og þjóðfélagsháttum okkar er nú varið, þá er það svo, að vegna fjölmennis í bænum og vegna þess, að hér er fólk hvaðanæva af landinu og nánir ættingjar unglinga á skólaaldri, þá mun það ætíð koma sér vel fyrir aðstandendurna að senda unglinga hingað, svo að þeir geti verið til heimilis og á vegum vandamanna sinna, þó að það séu ekki nánir aðstandendur eins og foreldrar, en slík aðstoð kemur miklu síður til greina á stöðum eins og Ísafirði og Eiðum, þar sem ekki er nema tiltölulega fátt fólk. Það verður því að gera ráð fyrir, að talsverður hluti utanbæjarmanna komi hingað til náms, auk þess sem það er greinilegt, að Rvík yrði afskipt, ef hún ætti aðeins að hafa þennan eina gamla skóla, ef það eiga að koma fjórir aðrir víðs vegar um landið, eins og mér skilst, að gert sé ráð fyrir í þessu frv. Þegar Rvík hefur nú yfir 50 þús. íbúa, þá er greinilegt, að mjög væri misskipt, ef bærinn ætti ekki að hafa nema einn skóla af fimm, þar sem mér líka skilst, að Akureyrarskólinn hljóti að verða nokkuð ámóta stór og skólinn hér eða hafa möguleika til þess með þeim viðbótarbyggingum, sem nú er verið að gera þar.

Ég held því, að hvernig sem litið er á þörf landsins eða þörf Rvíkur, sé óumflýjanlegt að gera ráð fyrir því, að fleiri en einn menntaskóli sé hér og að það sé einmitt lausnin á þessu byggingarvandamáli menntaskólans í Rvík að láta skólann verða þar, sem hann hefur verið, og lögfesta það, svo að ekki verði frekar um það deilt, og veita heimild í l. til þess að byggja annan menntaskóla í Rvík, þegar fé er veitt til þess í fjárl.

Það kemur ekki þessu máli við, að hv. flm. gat þess, að það hefði verið talað um að kasta 5 millj. kr. í kaup á lóðum einum til viðbótar við núverandi menntaskólalóð, svo að fullnægjandi væri, ef ætti að hafa skólann á sama stað. Ég held, að sú upphæð, sem að vísu er miðuð við núverandi verðlag, sé miðuð við, að öll húsin séu keypt með. En þá er þess að gæta, að á þessum lóðum eru fjöldamörg hús, sem eru mjög mikils virði og hægt að hafa mikið gagn af, hvort sem þau eru notuð til íbúðar eða annarra nota, ef menn kjósa það. Það er mjög mikið, ef á að ráðast í það á 1–2 árum að kaupa eignir fyrir 5 milljónir og rífa öll hús til grunna. Slík framkvæmd kemur ekki til greina, heldur hafa þau not, sem hægt er, af þessum húsum, en meðal þeirra er eitt stærsta samkomuhús og skólahús landsins, hús K.F.U.M., sem hefur nú verið stórlega endurbætt eftir brunann í fyrra. Það er samkomuhús og þar er skóli einn af þeim stærstu í bænum. Það er gefinn hlutur, að ef vilji væri fyrir hendi, þá væri hægt að nota þetta hús áfram til slíks, þó að það kæmist í eigu ríkisins. Þar þarf enga verðmætasóun, það er hægt að semja við félagið að selja húsið. Það á tvær aðrar lóðir, og önnur er á bezta stað í bænum, svo að ef félagið fær fullt verð fyrir húsið, þá er það alls ekki illa sett, en ríkið fengi hús, sem hægt er að nota til kennslu og ýmiss konar starfsemi í sambandi við menntaskólann og, að ég hygg, án stórvægilegra breyt., til íbúðar. Húsin í kring má einnig nota til íbúðar. Hér er ekki um það að ræða að kaupa hús og jafna allt við jörðu, heldur að kaupa og haga svo til, að að nokkrum tíma liðnum sé hægt að reisa þarna gott og einangrað skólahverfi, sem ekki er hægt að búast við, að spretti upp úr jörðinni á einum degi fremur en hvað annað. Þannig er hægt, ef vilji og skilningur væri fyrir hendi, með hæfilegum útgjöldum að nota þessa aðstöðu mjög fyrir menntaskólann án þess að byrja á nýjum byggingum, meðan öðrum verkefnum þarf að sinna. En það verður ekki gert fyrr en því er slegið föstu í eitt skipti fyrir öll með löggjöf, að menntaskólinn skuli vera á sínum stað. Og úr því að nú er komið fram frv., sem ég álit sjálfsagt að athuga til hlítar, úr því að búið er að koma upp þessu mikla skólakerfi og það verður því að fullnægja þeim fyrirmælum 1., að unglingar fái þá menntun. sem þeir hafa undirbúning til og þeir eru sveigðir til að óska eftir, þá finnst mér, að það komi til mála, að menntaskólar séu settir eins og lagt er til í þessu frv. En þá má ekki ganga fram hjá þörfum og hagsmunum Rvíkur í þessu efni, en ástæðan til þess, að ég stóð hér upp, var sú að ég vildi benda á það og enn fremur, að réttast sé að lögfesta það nú, að menntaskólinn í Rvík skuli ekki verða fluttur af núverandi stað, því að það mundi ákaflega hreinsa loftið, ef það yrði ákveðið með í.

Þá vil ég leiðrétta misskilning hjá hv. flm., þó að það komi ekki beint þessu frv. við. Það er misskilningur hjá honum, að byggðin í Kleppsholti hafi engan barnaskóla. Það má deila um það, hvenær fullnægt er ýtrustu kröfum í þeim efnum, en skólinn í Laugarneshverfinu er auðvitað svo stór og veigamikill, að hann nægir fyrir þetta hverfi, sem hann er byggður fyrir, enn um hríð, og var alltaf hugsaður einnig fyrir Kleppsholtið, annars væri hann allt of stór. En eftir því, sem tímar líða, þarf sjálfsagt að byggja fleiri skóla og þá sjálfsagt einn fyrir Kleppsholtið eða öllu heldur inni í Langholti eða nálægt Suðurlandsbraut. Laugarnesskólinn er svo glæsileg bygging, að hann stendur ekki að baki barnaskólanum á Akureyri og Ísafirði og ég hygg, að hann sé einhver glæsilegasta skólabygging, sem hér hefur verið reist, og sé ekki ástæðu til að gera lítið úr þeirri byggingu. Það má eins deila um, hvenær leikvellir séu nægir, en nokkrum hefur verið komið þarna fyrir, þó að þeir séu ekki með fullkominni gæzlu í þessu byggðarlagi. Auk þess er á það að líta, að síður þarf fullkomna leikvelli þar, sem byggð er svo dreifð. Það er miklu meiri þörf á fullkomnum leikvöllum í þéttbýlinu hér niðri í bæ en þar inn frá, meðan allt í kring er óbyggt.

Mér fannst nokkuð hallað í þessari frásögn hv. flm. og vildi leiðrétta það, þó að það komi ekki beint við þessu máli.