06.11.1947
Efri deild: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í C-deild Alþingistíðinda. (2716)

62. mál, menntaskólar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Ég skal ekki blanda mér í þær umr., sem fram hafa farið milli hv. þm. Barð. og hv. 1. landsk. þm., en verð þó að láta það uppi, að stúdentsmenntun er töluvert meiri en svo og tekur lengri tíma að afla sér hennar en svo, að það sé rétt og fái staðizt, að það sé sú menntun, sem allir þeir, sem ekki ætla sér að verða verkamenn, eigi að leggja kapp á að fá. Að vísu er það alveg rétt, að það er nauðsynlegt, að allir, bæði verkamenn og aðrir, njóti sem beztrar menntunar, en stúdentsmenntunin er með þeim hætti, að allur þorri manna hefur ekkert við hana að gera. Þeim tíma, sem til þess náms færi, væri í rauninni ekki beint kastað á glæ, en hann væri hægt að nota til þess að afla sér þroska á annan og hagnýtari veg fyrir allan þann fjölda manna, sem ekki ætla sér að leggja stund á bókleg fræði sér til lífsframfæris. Stúdentsmenntunin er auðvitað fyrst og fremst miðuð við það að búa menn undir háskólanám og veita mönnum undirstöðu, þekkingu í fjöldamörgum greinum, svo að þeir hafi undirstöðu í því, sem þeir síðar ætla að velja sér til sérnáms. Þess vegna er stúdentsmenntun líka flokkuð niður og er að vissu leyti orðin sérnám, sem er greint í máladeild annars vegar og stærðfræðideild hins vegar, og í hvorri deildinni um sig eru lærðir hlutir, sem fæstir mennskir menn hafa nokkurn hlut við að gera. Og þá að segja megi að menn hafi gagn af öllu námi, vegna þess að það þroski menn, er þar með ekki sagt, að menn geti ekki hlotið þann þroska í sjálfu sér á heppilegri veg með því að leggja stund á annað en þetta langa skólanám á sinum þroska- og uppvaxtarárum. Ég vil þess vegna mótmæla þeim hugsunarhætti, að það sé út af fyrir sig æskilegt, að allir eða sem flestir taki stúdentspróf. Hitt er annað mál, að það verður að gefa þeim mönnum kost á því, sem hafa til þess sérstaka hæfileika og eru þannig skapi eða gáfum farnir, að það liggi sérstaklega fyrir þeim að leggja stund á það í lífinu, og þar má auðvitað ekki efnahagur ráða eða ytri aðstæður, heldur verður að leggja kapp á, að þeir sem þessum gáfum eru gæddir, eigi þess kost að láta þær njóta sín. Hitt fannst mér koma of mikið fram hjá hv. þm. Barð., sá gamli hugsunarháttur, að það út af fyrir sig væri einhver upphafning að ganga í gegnum þessa skóla. Sannleikurinn er sá, að fjöldamargir menn hafa öðlazt meiri þroska á annan veg en þann að ganga í gegnum þessa löngu skólagöngu og eru í sjálfu sér allt eins fróðir og menntaðir menn. En þessi langa skólaganga er nauðsynleg forsenda fyrir sérstökum störfum í lífinu. Það verða menn að skilja, og ég held, að það sé ekki hægt að ráða þessum málum til lykta nema með fullkomnum skilningi á þessu og að þessi langa skólaganga óneitanlega dregur menn töluvert frá praktískum störfum. Bæði er menntun þannig háttað og eins alltaf viðloðandi í þessum skólum sá andi að líta heldur niður á þá menn, sem vinna að praktískum störfum, sem er afleiðing þess, að menntunin gengur í þá átt að draga menn frá því yfir í bóknám, sem á að vera sú eðlilega afleiðing að loknu námi. Hitt er svo annað mál, að bóknámið getur verið praktískt í þeim efnum, sem það á við. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, að þessu máli verður ekki ráðið til lykta í eitt skipti fyrir öll. Þótt fest sé í l., að menntaskóla sé valinn staður, er hægt að breyta því næsta ár á eftir, en vandinn er þá tekinn af ráðh. Það hefur sýnt sig, að það hefur verið að vefjast fyrir yfirvöldunum um margra ára bil, hvort ætti að færa skólann eða ekki, og hefur það orðið til þess, að á meðan það hefur verið að vefjast fyrir yfirvöldunum, hefur menntaskólanum á Akureyri hlotnazt það, að þar hefur verið ráðizt í stórfelldar framkvæmdir, sem gera aðstöðu hans miklu betri en áður var. Ef þessi vafi hefði ekki leikið á um skólann hér, býst ég við, að búið væri að slá því föstu, að skólinn ætti að vera á sínum gamla stað. Þá hefði verið farið að kaupa lóðirnar eftir brunann í fyrra og búa þar að skólanum. K.F.U.M.-húsið hefði verið keypt, meðan það var skemmt, fyrir lítinn pening. Viðgerð og innrétting, hefði verið hafin, þannig að það hefði komið skólanum að gagni. — Hins vegar vil ég segja það, að þótt það sé á valdi Alþ. að breyta l. aftur, þá er það enginn vafi, að það yrði veruleg kjölfesta til opinberra ákvarðana í þessu efni nú í bili að kveða svo á, að skólinn skuli verða hér, ekki sízt ef menn eru komnir inn á það, sem ég hélt, að flestir væru sannfærðir um, að þetta stórkostlega skólabákn, sem ráðgert hefur verið, sé óheppilegt.

Hv. þm. Barð. vildi svo gera lítið úr því, að skólinn ætti að vera kyrr, og sagði að, það væru aðeins gamlir skólanemendur, sem því héldu fram. Sannleikurinn er sá, að því miður er rækt þeirra gömlu skólanemenda allt of lítil, því að ef hún hefði verið slík sem æskilegt er, þá hefði aldrei komið til mála að bollaleggingar um að flytja skólann hefðu náð nærri eins langt og þær hafa náð, því að þær bollaleggingar eru sprottnar í huga einstakra gamalla nemenda skólans, að vísu í óþökk mikils hluta þeirra.

En það er fleira en það, að þeim nemendum, sem þarna hafa verið, eigi að þykja vænt um skólann. Þetta er einn af þeim fáu stöðum hér á landi, sem við höfum nærri eingöngu góðar minningar tengdar við, — minningar, sem ná þó nú orðið töluvert langt aftur í tímann. Það er að vísu til einstaka eldri bygging, eins og við skulum segja Stjórnarráðshúsið, en það var fyrst byggt sem hegningarhús, varð síðan stiftamtmannshús, en aðsetur hins æðsta valds, útlends valds, sem gerir það að verkum, að í því sambandi getur fárra sögulegra hárra og helgra minninga í hugum íslenzks fólks. Hið sama er að segja um Bessastaði. Það er að vísu gamalt hús, sem þar stendur. En það er byggt með tilstyrk þeirra útlendinga, sem þar sátu mann fram af manni. Það er eingöngu sá skammi tími, þegar menntaskólinn var þar, frá því um 1800 og fram til 1845, sem sá staður eiginlega tengist tryggðum í hugum íslenzkra manna, þannig að þeir bera ekki heldur kaldan hug til hans, og svo aftur síðan hann var gerður að forsetasetri. Alveg gagnstætt þessu hefur menntaskólahúsið hér í Rvík frá fyrstu tíð verið nátengt öllu því bezta, sem orðið hefur í Íslandssögu þann tíma, sem liðinn er síðan það hús var reist. Það þarf ekki að geta um það, að sá skóli, sem starfar þar, er sá skóli, sem er ein helzta menntastofnun landsins og er framhald af elztu skólastofnun landsins. Minna má á fyrsta rektor í þeim skóla, Sveinbjörn Egilsson, sem öllum öðrum mönnum frekar á þakkir skilið fyrir það að hafa endurreist og endurlífgað íslenzka tungu. Hann má að vísu telja fremstan af þeim rektorum, sem þar hafa verið, en þar hafa líka verið margir afburðamenn, sem getið hafa sér gott orð í sínu starfi bæði varðandi skáldskap og vísindi. Frá skólanum hefur á þessum tímum útskrifazt fjöldinn allur af fremstu mönnum íslenzku þjóðarinnar á þessu aldursskeiði. Í skólahúsinu var haldið Alþ. fyrst eftir að það var endurreist. Þar var þjóðfundurinn háður, sem er einn áhrifaríkasti atburður í Íslendingasögunni. Þar situr löggjafarþingið þegar Alþ. fékk löggjafarvald. Þar var haldin söguleg sýning við lýðveldisstofnunina, sem mun eftirminnilegur atburður og þannig mætti lengi telja. Það eru ekki svo margir staðir, sem hafa slíkar minningar, hér á landi, að við getum fórnað þeim stöðum, jafnvel þó að það kannske samrýmist ekki 6 hæða nýtízku húsum að láta gamalt 2–3 hæða tréhús standa við hliðina á þeim. En ég held, að flestar aðrar þjóðir mundu meta meira 2–3 hæða tréhúsið en 6 hæða nýtízku byggingarnar. Ég minnist þess frá landi skýjakljúfanna, að þar er t.d. borgarstjóraaðsetrið í New York gömul bygging, eins eða tveggja hæða, sem stendur innan um 20–30 hæða hús. Það mundi engum detta í hug, að vegna þess, að þarna eru komin svo há hús í kring, ætti að rífa þetta gamla hús og byggja skýjakljúfa í staðinn. Og meðan húsið stendur, er því haldið við, og það er eitt af því, sem menn telja sjálfsagt að skoða í New York borg. Á sama veg hygg ég að þetta sé í Englandi.

Það er ákaflega mikill misskilningur að halda, að gildi skólanna út af fyrir sig standi í sambandi við þægindi, sem hægt, sé að hafa í skólastofunum. Oftast eru þessi þægindi í göngum og í stigum, og það getur verið þægilegt fyrir þá sem eiga að halda hreinu og sumpart fyrir kennara, en nemendum má yfirleitt standa á sama. Og jafnvel þó að eitthvað sé óþægilegt fyrir nemendur, er það Svo að ef maður kemur t. d. í Eton-skólann í Englandi, þá mundi hann vera talinn mjög skuggalegur og gamaldags, jafnvel miðað við okkar menntaskólahús en sá maður mundi sennilega fá heldur kaldar kveðjur í Englandi, sem gerðist talsmaður þess að rífa niður Eton-skólann vegna þess, að hann væri gamaldags. Hið sama er að segja um byggingarnar við ensku háskólana. t. d. Oxfordháskólann. Þar er margt glæsilegt, en flestar af kennslustofunum eru skuggalegar miðað við okkar hugmyndir. Mönnum dettur hins vegar ekki í hug að breyta þessu, vegna þess að ef frá þessu yrði horfið, þá hyrfi einmitt einn helzti þáttur uppeldisins og einn helzti vinningurinn við það að láta menn vera í þessum skóla.

Þessu gerir hv. þm. Barð. sér ekki grein fyrir, þegar hann segir, að allir ættu að verða stúdentar, sem ekki eru verkamenn. Ég álít þetta, eins og ég sagði, mikinn misskilning. En það er enginn vafi á því, að það á að láta sem allra flesta menn njóta þeirra uppeldisáhrifa að vera í þeirri stofnun, sem hefur með réttum skilningi og réttri túlkun kennara og nemenda aðrar eins minjar og okkar gamla menntaskólahús hefur. Það er alveg rétt, að það verður nokkuð að vera að þessu starfað vísvitandi af hálfu skólastjóra og kennara. En ef þeir nota rétt uppeldisáhrif, sem hægt er að fá gegnum þessar minjar, og hvetja nemendur sína til dáða í krafti þeirra minninga, sem vissulega lifa á slíkum stað í hugum góðra manna, er þar um að ræða miklu áhrifaríkari kennslu en það, þó að verið sé að troða í mann öllum þeim vísindagreinum, sem kenndar eru í þessum skólum. Enda er það vitað mál, að t. d. kennsla í gamalli Rómverjasögu og Grikkjasögu og annað slíkt gengur að miklu leyti út á að kenna mönnum einstaka atburði, sem í sjálfu sér eru sízt tilkomumeiri eða frásagnarverðari en t. d. þjóðfundurinn, sem skeði í gamla menntaskólahúsinu hér í nágrenninu. Og menn mega ekki varpa slíkum kennslutækjum fyrir borð eingöngu af því, að það þykir, miðað við okkar hugmyndir í dag, fara illa á því að láta þetta gamla hús standa þarna. Það er mesti misskilningur, að ekki sé hægt að byggja upp á þessum lóðum í kring fallegar byggingar og samræmdar, þó að þessi bygging standi. Ef þetta er einhver vandi, þá á að miða við menntaskólann sem frumbyggingu og haga hinum byggingunum í samræmi við það. Og það er enginn vandi að byggja mjög glæsilegar byggingar á svæðinu frá Amtmannsstíg og út að Bankastræti. — byggingar, sem ekki þurfa að koma illa heim við skólann, þó að hann standi enn um hríð. Og jafnvel þó að hann muni fúna, þá er spurning, hvort ekki eigi að vekja þann hug hjá mönnum, að hann verði byggður upp jafnóðum í sínu gamla formi sem okkar elztu fornminjar í þessum efnum. Þegar við komum t. d. á staði eins og Skálholt annars vegar og Hóla hins vegar, hljótum við að sjá, hvaða meginmunur er að koma á þessa staði. Menn hafa í rauninni skammazt sín fyrir sjálfa sig, þegar þeir koma í Skálholt, hvernig þar er allt í niðurníðslu. Menn telja oft, að íslenzka þjóðin eigi þar meiri minjar en menn geta gert sér grein fyrir, þegar þeir koma í ekki stærri byggingu en dómkirkjan á Hólum er, og það er af því, að þar er fornum minjum haldið við og sýnd tryggð. Og þó að það sé rétt, að margt af því, sem þar er nú, sé endurbyggt og reist eftir hugmyndum manna um það gamla, þá eru Hólar nú ein helzta prýði landsins, af því að þessum fornu hlutum er haldið við, þar sem Skálholt er einn skammarlegasti bletturinn á okkur. Ég held þess vegna, að það eigi ekki að ráða þessu máli til lykta eftir þeim sjónarmiðum, sem komu fram hjá hv. þm. Barð., og þess vegna hef ég fjölyrt um þetta og vildi vekja athygli á því, að hér eru meiri verðmæti í húfi en minningar mínar og annarra pilta, sem voru nokkur ár í þessum skóla. Skólinn er ekki í gildi okkar vegna, vegna þess að við vorum þar, heldur vegna þess, að þar hafa þjóðinni helgir atburðir gerzt fyrir löngu, og staðurinn fær á sig meiri helgi og þýðingu eftir því, sem tíminn líður. Það eru þessi verðmæti, sem við megum ekki kasta á glæ.

En svo er það líka rétt, sem hv. þm. Barð. sagði að skólastaðurinn sem slíkur er sá bezt valdi hér í bænum. Það eru mjög fáir staðir, sem liggja meira miðsvæðis en einmitt menntaskólinn, og þegar af þeirri ástæðu er fullkomin fjarstæða að vera að tala um að flytja skólann burt, hvort heldur væri vestur í bæ eða eitthvað inn fyrir bæ. Menn verða líka að gera sér grein fyrir því, að það mundi kosta stórkostlegt fé, ef slíkur flutningur ætti að eiga sér stað. Hvað halda menn að það mundi kosta í daglegum flutningsgjöldum, ef skólinn hefði verið settur niður í Laugarnesi, eins og talað var um, eða á Golfskálahæðinni, sem þó er betri en Laugarnes? Ég er viss um, að ef daglegur kostnaður við slíkan flutning væri reiknaður til stofnkostnaðar, mundi það nema milljónum, sem þannig væri kastað á glæ: Hitt er svo annað mál, að sjálfsagt er eð byggja menntaskóla einhvers staðar í kringum Öskjuhlíðina fyrir þau hverfi, sem eru þar í nágrenninu, og ætla honum gott rúm. En að ætla að fara að byggja skóla fyrir Rvík alla svo langt út úr nær ekki neinni átt. Þetta hefur að vísu verið gert með Sjómannaskólann en þar stendur öðruvísi á. Þar er um að ræða eldri og þroskaðri menn, sem koma víðs vegar af, landinu og geta valið sér búsetu eftir því sem þeim hentar. En í menntaskólanum eru að vissu leyti börn, sem verða að fara að heiman í myrkri á morgnana um langan veg og þeim er ekki á nokkurn veg treystandi til að fara svo langa leið nema með sérstökum ferðum sem til þess væri komið upp.

Ég held því, hvort sem litið er á málið frá þeirri hagkvæmu hlið sem hv. þm. Barð. minntist á, að hefði hér mikla þýðingu eða frá þeirri enn þá þýðingarmeiri og áhrifaríkari hlið, sem ég byggi helzt á, að þá verði niðurstaðan sú sama, að nauðsynlegt, sé og æskilegt að, ákveða þetta sem fyrst, að skólinn verði á sínum, gamla stað og haga frekari framkvæmdum og ráðagerðum í framhaldi af þeirri ákvörðun Alþ. Ég bið hv. flm. afsökunar á því, að ég blanda þessum umr. inn í það mál, sem hér liggur fyrir, en það er vegna þess, að þegar ákveða á um skóla í Rvík, þá er það einn þáttur þess máls, sem hann hefur tekið upp.