01.03.1948
Efri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (2731)

62. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það hefur mjakazt heldur seint áfram þetta frv., eins og fleiri mál hér á Alþ. Frv. var útbýtt þann 3. nóv. fyrra árs. Til 1. umr. kom það fram 6. nóv. Þá var því vísað til 2. umr. og menntmn. Menntmn. hélt fljótlega fund um málið. En með því að þá hafði ýmsum spurningum, er málið snertu, verið beint til n., var ákveðið að senda það til umsagnar fræðslumálastjóra og mþn. í skólamálum, m. a. til þess að fá svör við áður nefndum spurningum. Eftir að svör höfðu borizt frá þessum aðilum, var hvað eftir annað boðað til fundar í menntmn., og var rætt um málið, en jafnan vantaði þar til nefndarstarfa fulltrúa Sjálfstfl. Þar sem um allþýðingarmikið mál var að ræða, þótti rétt að afgreiða málið á fundi fullskipaðrar n., ef unnt væri, eða a. m. k. fá það rætt að öllum nm. viðstöddum. En þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir í þessa átt tókst það aldrei. Loks — þann 16. febr. hygg ég að það hafi verið — náðust þó fjórir nm. á fund. og var frv. þá afgr. með sameiginlegri afstöðu þriggja nm. og þar með meiri hl. menntmn., en einn tók ekki afstöðu til málsins og áskildi sér rétt til að gera síðar grein fyrir atkv. sínu. Hefur þessi nm., hv. 2. þm. Árn. (EE), nú lýst afstöðu sinni hér í hv. d., og skildist mér af hans löngu grg., að hann mundi varla greiða málinu atkv., nema með einhverri breyt., sem hann óljóst gerði grein fyrir og boðaði, að hann mundi bera fram við 3. nmr.

Loks komst málið á dagskrá á ný 23. febr. Þá bar annað mál svo brátt að, að frsm. menntmn. gafst rétt með naumindum tóm til að ljúka máli sínu, og þó aðeins með því að stytta ræðuna. Ástæðan var sú, að sá sjaldgæfi atburður gerðist, að með mikilli fyrirhöfn hafði tekist að smala öllum dm. til atkvgr. um mál, sem mikið þótti við liggja að geta stöðvað, og varð því að rjúfa umr. um þetta mál, til þess að ljúka atkvgr. hins málsins, sem hvað eftir annað hafði orðið að fresta vegna fjarvista þm. Í það sinn var því þetta mál tekið af dagskrá og umr. frestað. Þann 24. febr. kom málið aftur á dagskrá og var enn tekið af dagskrá. Þann 27. febr. sést það enn á dagskrá og er þá einnig tekið af dagskrá og nú að beiðni hæstv. fjmrh. vegna fjarveru hæstv. dómsmrh. Nú, hinn 1. marz. er þá málið enn þá einu sinni komið á dagskrá og til umr., hvort sem afgreiðsla fæst á því í þetta sinn eða ekki.

Ég taldi rétt að rekja þessa sögu seinlætis og vafninga, ekki af því, að hún sé einstök í þessu máli, heldur miklu fremur vegna hins, að hún er hin sameiginlega skipbrotssaga flestra mála, sem einstakir þm. flytja og þingið á um að fjalla. Mönnum liggur við að sturlast og missa alla þolinmæði af að sitja hér dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð og hafast ekkert að, vegna þess að allt stendur fast. Þm. hafa ekki tíma mánuðum saman til þess að mæta á fundum þeirra n., sem þeir hafa verið kosnir I. og ekki heldur tíma til að mæta á þingfundum til að greiða atkv. um þau fáu mál, sem úr dauðadái nefndanna rakna seint og síðar meir. Þegar í óefni er svo komið, eru forsetar beðnir dag eftir dag. Í hverju málinu á fætur öðru, að bíða nú með atkvgr. í dag, því að þennan eða hinn þm. vanti — og venjulega fleiri en einn. Það er því ekki réttmætt, þegar forsetunum er í opinberum ádeilugreinum kennt um værð Alþ. Þar eru aðrir sekari, eins og hrakningasaga þessa máls sýnir. Það eru þm. almennt, sem stefna heiðri Alþ. í voða með vanrækslu í nefndarstörfum og þingfundasókn. Og slíkar vanrækslur ásamt þeim silabrag í lausn allra vandamála, sem ávallt fylgir sambræðslustjórnum, eru tvímælalaust orsakir þeirrar værðar, sem nú er orðin höfuðeinkenni á störfum Alþ. á þessari öld hraðans allt í kringum okkur.

Þetta var nú um meðferð málsins fram til þessa, en nú hverf ég að efni þess. Er þá held ég rétt að geta þess fyrst, að nokkru eftir að við hv. þm. N-M. bárum fram frv. okkar, bar hæstv. dómsmrh. fram brtt. við það. Sú till. er á þskj. 142. Leggur ráðh. til, að 1. gr. menntaskólal. orðist svo:

„Menntaskólar skulu vera í Reykjavík og á Akureyri. Ef fé er veitt til þess í fjárl., er heimilt að koma upp fleiri menntaskólum, þar sem Alþingi þá ákveður. Menntaskólinn í Reykjavík skal vera á sama stað og nú er, en heimilt er að reisa í Reykjavík fleiri skóla samkv. ákvæðum næstu málsgr. á undan. Kostnaður við stofnun og rekstur menntaskóla greiðist úr ríkissjóði.“

Það, sem fyrir ráðh. vakir með brtt. þessari, er þá í fyrsta lagi það að koma í veg fyrir, að lögfest verði menntaskólasetur í öllum landsfjórðungum. „Menntaskólar skulu vera í Reykjavík og á Akureyri,“ segir hann. Þannig vill hann meira að segja láta fella niður ákvæði gildandi laga um menntaskóla í sveit á Suðurlandi, þegar fé sé veitt til þess á fjárl. Heimild vill þó ráðh. hafa í l. til að koma upp fleiri menntaskólum, þar sem Alþ. þá ákveður, þegar þar að kemur. En nú á þessari stundu má enginn stafkrókur frv. benda á neinn ákveðinn stað vestanlands, sunnan- eða austanlands. Hins vegar finnst ráðh. ekki nóg, að 1. gr. laga um menntaskóla byrji á menntaskóla í Rvík. Hún verður líka að enda á ákvæðum um, á hvaða þúfu Menntaskólinn í Rvík skuli vera staðsettur í framtíðinni. Í niðurlagi gr. vill ráðh. líka hafa ákvæði, sem bendi sérstaklega til hinna óljósu ummæla fyrr í gr. um heimild til að fjölga menntaskólum, og áréttar hann þar í till. sinni, að þau eigi að þýða það, að heimilt sé að reisa í Rvík fleiri menntaskóla. Þetta virðist mér vera efni brtt. á þskj. 142.

Á fundi menntmn. var till. rædd. og töldu engir nm. það vera lagasetningaratriði, hvar í Rvík menntaskóli skyldi vera settur. Ákvörðun um það hlyti miklu fremur að heyra undir stjórnarvöld Rvíkur og í annan stað koma sem beint framkvæmdaatriði undir fræðslumálastjórnina. Auk þess skildist mér, að nm. teldu þetta heita ágreiningsatriði Reykvíkinga, svo fjarskylt efni frv., að það ætti ekkert erindi inn í menntaskólalögin. Þeir menntamálanefndarmenn, sem að nál. standa, telja því, að till. á þskj. 142 beri að fella, þar sem efni hennar samrýmist á engan hátt efni frv. Hv. frsm., 8. landsk. (ÁS), tók það fram, að n. hefði ritað bæði fræðslumálastjóra og mþn. í skólamálum bréf vegna fyrirspurnar. sem hv. 1. landsk. bar hér fram við 1. umr. málsins. Svör bárust frá báðum þessum aðilum, og er það ekki n. sök, að fremur lítið var á svörum þessara aðila að græða. Fræðslumálastjóri kvaðst hafa leitað til skólastjóra menntaskólanna og upplýsingaskrifstofu stúdentaráðs og fengið þau svör, að ekki væri unnt á skömmum tíma að fá fullnægjandi svör nema við nokkrum þeim spurningum, sem fram væru bornar. Vil ég vænta þess, að hv. 1. landsk. sætti sig við þau svör, sem hægt var að afla, þótt ófullkomin væru, enda skal það fram tekið, að ekkert hefði n. verið kærara en að unnt hefði reynzt að upplýsa allt sem bezt varðaði þetta mál. Held ég líka, að allt, sem verulegu máli skiptir fyrir afgreiðslu þess á þessu stigi, megi heita nokkurn veginn fullljóst. Ég er sannfærður um það, að framgangi málsins er það hollast, að það sé grannskoðað og athugað sem vandlegast frá öllum hliðum. Réttlætismál eins og þetta græðir en tapar ekki á gaumgæfilegri athugun.

Í svörum mþn. er það látið í ljós, að það muni verða dýrara að hafa fleiri og smærri menntaskóla en fáa og stóra. Einnig dregur n. það í efa, að íbúafjöldinn á Vestfjörðum og Austfjörðum tryggi menntaskólum í þessum landshlutum nægilegan nemendafjölda. Að þessum atriðum báðum skal ég koma síðar.

Þá er þess að geta, að báðum svarbréfunum, sem n. bárust, bæði frá fræðslumálastjóra og eins frá mþn., fylgdu yfirlitsskýrslur um það, hvaðan af landinu þeir nemendur voru, sem sátu í menntaskólunum báðum veturinn 1946–47, þ. e. í fyrravetur. En um það hafði einmitt verið spurt, hvaðan af landinu þeir nemendur, sem setið höfðu í menntaskólunum 3 ár, hefðu verið. Kveðst fræðslumálastjóri gera ráð fyrir því, að svipað því sem í þessari skýrslu kemur fram hafi hlutfallið verið þau þrjú ár, sem um var spurt. Þó játar hann, að ekki hafi unnizt tími til að sannprófa það. Ég skal taka það fram, að ég er mjög ánægður með að hafa fengið þessa skýrslu frá fræðslumálastjóra, þó að hún sé engan veginn tæmandi. Um eitt atriði er hún þó beinlínis villandi. Eins og allir vita, útskrifar Verzlunarskóli Íslands einnig stúdenta og hefur gert það í nokkur ár. Þessa er að engu getið í skýrslunni, og gefur hún þannig beinlínis ranga hugmynd um tölu menntaskólanemenda í höfuðborginni og þá jafnframt ranga. þ. e. of lága hlutfallstölu menntaskólanema hér miðað við íbúatölu hér í Rvík. Röng verður því hlutfallstala Rvíkur líka af þessum sökum, miðað við hlutfallstölur annarra staða á landinu. Þetta ber mjög að harma, þar sem hér er um að ræða skýrslu frá sjálfri fræðslumálastjórninni, skýrslu sem vitað var, að nota átti sem óyggjandi sönnunargagn um undirstöðuatriði í mikilvægu máli.

Samkvæmt viðtali, sem ég hef átt við skólastjóra Verzlunarskólans, herra Vilhjálm Þ. Gíslason, eru nú 27 nemendur í tveimur efstu bekkjum Verzlunarskólans. Þetta þýðir það, að ef miðað væri þar við fjögurra vetra lærdómsdeild, eins og í menntaskólanum í Rvík og eins og skólalöggjöfin nýja ætlast til, þá væri þarna um 54–60 nemendur að ræða við menntaskólanám. Sýnir þetta, að þarna er því um miklu meira en smáónákvæmni að ræða í umræddri skýrslu.

Þá er þess enn að geta, að ekkert minnist fræðslumálastjóri á það í bréfi sínu eða í sambandi við skýrsluna, að við Laugarvatnsskólann starfar nú í vetur einn bekkur menntaskóla samkvæmt sérstöku leyfi ráðh. Er þar að vísu ekki um háa tölu nemenda að ræða, enda fyrsta tilraun, og ekki auglýst um starfrækslu þessarar deildar fyrr en rétt áður en skólar tóku til starfa s. 1. haust.

Samkvæmt símskeyti Bjarna Bjarnasonar skólastjóra á Laugarvatni til mín, dags. 19. des. s. l., eru 8 nemendur í Skálholtsdeild Laugarvatnsskólans, en svo nefnist hinn nýi vísir að menntaskóla Sunnlendinga, sem þegar er farinn að skjóta rótum og vaxa úr grasi að Laugarvatni. Væri þarna um fjóra árganga að ræða aðeins með 8 nemendur í hærri ársdeild, og þarna ekki gert ráð fyrir neinum vexti frá hinum fyrsta vísi, sem auðvitað væri þó rangt, þá væri þarna samt um 32 menntaskólanemendur að ræða. Hefur þetta því þýðingu í þessu máli, þegar verið er að mynda sér skoðanir um hlutfallsaðstöðu íbúa Rvíkur og nágrennis hennar til menntaskólanáms miðað við t. d. sams konar aðstöðu Vestfirðinga og Austfirðinga. Sé þeim nemendum, sem menntaskólanám stunda í Verzlunarskólanum, bætt við nemendur Menntaskólans í Rvík, verða það 500 nemendur samtals og verður þá hlutfallstala höfuðborgarinnar, miðað við 50 þús. íbúa, rétt 1% menntaskólanemenda, eða 10 af þúsundi, en ekki 0,72%, eins og í skýrslunni segir.

Skýrslan frá fræðslumálastjóra er samt að mínu áliti sterkt sönnunargagn í þessu máli. Hún sýnir að Rvík skilar hlutfallslega nálega fjórfalt fleiri unglingum til menntaskólanáms en Ísafjörður, og að Akureyri, hitt menntaskólasetrið, skilar meira en sexfalt fleiri unglingum til menntaskólanáms en Ísafjörður. Kaupstaðirnir Ólafsfjörður og Siglufjörður hafa hátt hlutfall og sömuleiðis sýslufélögin til beggja handa við Akureyri. Alveg sömu sögu er að segja um kaupstaðina í námunda við Rvík. Hafnarfjörð og Akranes. Þeir hafa hátt hlutfall og njóta þannig bersýnilega nálægðar sinnar við menntaskólann hér. Jafnskýrt er það, að Ísafjörður og sýslurnar á Vestfjörðum gjalda fjarlægðar sinnar og einangrunar í þessu efni mjög tilfinnanlega. Skýrslan sýnir, að hlutfallið milli íbúatölu Rvíkur og menntaskólanemenda þar er 0,72%. En með nemendum Verzlunarskólans verður hlutfallstala höfuðborgarinnar 1%, eins og fyrr segir. Hlutfallstala Akureyrar er hins vegar 1,81%. Meðaltala kaupstaðanna er 0,72% og meðaltala sýslufélaga 0.36%, en meðaltala landsins alls er 0,56%. Hins vegar er meðalhlutfallstala Ísafjarðar aðeins 0,28%, meðaltala sýslufélaganna á Vestfjörðum 0,16% og meðaltala Vestfjarða allra 0,19%. Á Vestfjörðum er Strandasýsla harðast úti með 0,05%. Á Austfjörðum er sömu sögu að segja. Múlasýslur báðar og Skaftafellssýslur eru með mjög lágar hlutfallstölur.

Af þessu er bert, að ef menntaskólar kæmu á Vestfjörðum og Austfjörðum, mundi aðstaða unga fólksins til að stunda menntaskólanám eins og hæfileikar standa til jafnast mjög verulega, og er það fullkomið sanngirnis- og réttlætismál.

Vil ég enn undirstrika þau ummæli hæstv. dómsmrh. (BBen), er hann lét falla í umr. um mál þetta í vetur, þegar það var lagt fyrir d. Hann sagði :

„Ytri aðstæður, svo sem efnahagur eða það, hvar menn eru búsettir á landinu, eiga ekki að ráða embættismannavali þjóðarinnar eða því, hverjir geti notið menntaskólanáms.“

Þetta er hverju orði sannara, en hingað til hefur þetta þó ráðið óeðlilega miklu um embættismannaval þjóðarinnar. Efnahagur og búseta hafa útilokað fjöldamarga bráðgáfaða unglinga á Vestfjörðum og Austfjörðum frá að stunda langskólanám. Eru mér slík dæmi mörg kunn frá 10 ára skólastjórn fjölmenns gagnfræðaskóla á Vestfjörðum.

Ég gat þess í upphafi máls míns, að ég mundi síðar víkja að svari mþn. í skólamálum. Nú vil ég efna það, en — get þó orðið fremur fáorður um það. Svari n. fylgdi afrit af sömu skýrslunni og um hefur verið rætt hér á undan, og einnig var fskj. með bréfi fræðslumálastjóra. Er skýrsla sú, eins og áður er að vikið, óhrekjandi sönnun þess, að aðstaða unga fólksins til menntaskólanáms sé næsta ójöfn, svo að fyllsta þörf sé úr að bæta.

Að öðru leyti taldi n. sig ekki geta mælt með nýjum menntaskóla á Ísafirði og Eiðum. Í fyrsta lagi af því, að tveir slíkir skólar yrðu dýrari en færri menntaskólar og stærri, og svo af því, að þeir teldu ekki líkur til, að menntaskólar á þessum stöðum fengju nægilega marga nemendur. Báðar þessar staðhæfingar eru vægast sagt næsta vafasamar. En þegar slíkur aðili sem mþn. í skólamálum setur fram slíkar fullyrðingar, tel ég samt rétt að ræða þær nánar.

Það má nú telja víst, að sú lausn verði á menntaskólanáminu hér, að gamla menntaskólahúsið verði notað sem framtíðarskólahús. Því fylgir kaup á mikilli lóðarspildu í miðbænum. Upplýst er, að sú lóðarskák, sem þar takmarkast af næstu götum, muni með þeim byggingum, sem á henni eru. kosta 5–6 millj. kr. Fyrir þá upphæð — ég mundi jafnvel vilja segja fyrir helming þeirrar upphæðar mætti byggja hæfilega stóra menntaskóla bæði á Eiðum og Ísafirði. En þá væri þó eftir bygging ýmissa viðbótarbygginga, og þær mundu kosta mikið fé, margar millj. í viðbót, ef byggja ætti upp framtíðarlandsskóla móti Akureyrarskólanum. En verði engir skólar byggðir vestanlands og austan, yrði auk þess byggður hér annar menntaskóli, eins og þegar hefur verið farið fram á. Stofnkostnaðurinn væri ekki meiri, þótt skólarnir yrðu fleiri og smærri.

Um rekstrarkostnaðinn er það að segja, að eftir að skóli hefur náð þeirri stærð, að bekkir séu fullskipaðir, dregur ekki úr rekstrarkostnaði með vaxandi stærð, heldur þvert á móti. Eftir því sem skólar verða stærri umfram meðalstærð, fer fleira og meira í súginn, enda skiljanlegt, að stjórn verði lausari og nái til færri smáatriða. En margt smátt gerir þó eitt stórt, eins og spakmælið segir. Þessi varð og niðurstaða menntaskólakennara í vetur, er þeir skrifuðu um einn eða tvo menntaskóla í Rvík. Stórt bákn mundi verða dýrara, mundi verða dýrara í rekstri, sögðu þeir, en tveir skólar af hóflegri stærð. Þessu hefur ekki verið mótmælt og verður heldur ekki hnekkt með rökum. Fullyrðing mþn. um. að fleiri og smærri skólar yrðu dýrari, styðst því ekki við góð og gild rök, hvort sem litið er á stofnkostnað eða rekstrarkostnað. — Skal ég svo ekki eyða fleiri orðum að því atriði.

En þá er það nemendafjöldinn. Ég hef áður látið í ljós, að reynsla bendi til, að í gagnfræðaskóla með ca. 300 nemendur komi um það bil 15 nemendur á ári með góðum hæfileikum til menntaskólanáms. Þótt talan sé ekki há, gætu kannske einhverjir samt álitið, að hún væri ýkt, og skal ég því sanna mál mitt um þetta atriði og nota til þess skýrslu fræðslumálastjóra.

Flestum kennurum mun koma saman um það, að æskilegasta nemendatala — til góðs árangurs af kennslu — sé um 20–25 nemendur í bekk.

Ef reiknað er með hlutfallstölu landsins alls, ætti Ísafjörður og nágrannasýslur hans að hafa ca. 70 menntaskólanemendur. Væri Dalasýsla tekin með og miðað þar við meðaltal sýslufélaganna, ætti hún að koma út með 9 nemendur, og verður þá þarna um að ræða rétt um 80 menntaskólanemendur. eða 20 í bekksögn. Réttara væri þó að taka Ísafjörð sér, annaðhvort með hlutfallstölu Akureyrar eða Rvíkur, og væri þá réttara að gera þar samanburðinn við þann kaupstaðinn, sem sambærilegri er um flesta hluti, sem sé Akureyri. Þá kæmi dæmið þannig út: Ísafjörður með 60 nemendur, en með meðaltölu sýslnanna yrðu það 33 nemendur. Þannig reiknað yrðu þá Vestfirðirnir samtals með 93 nemendur, það er í bekksögn 23–24 nemendur. Væri Dalasýsla meðtalin með 9 nemendur, eins og í fyrra dæminu, væri þannig um 102 nemendur að ræða, eða 25–26 nemendur í bekk.

Nú hefur með þessum tölum ekki verið tekið tillit til þeirrar breytingar, sem verður með framkvæmd skólalöggjafarinnar nýju á næstu árum. En sú breyting, að unglingaskólar koma upp í öllum kauptúnum, og reyndar í flestum sveitarfélögum líka, mun auka mjög tölu þeirra, sem miðskólaprófi ljúka. En það þýðir, að allar þær tölur sem hér hefur verið miðað við, verða mun hærri að fáum árum liðnum. Það er því út í bláinn sagt hjá mþn. og varpað fram að óathuguðu máli, er hún telur að grundvöll skorti fyrir menntaskóla á Vestfjörðum vegna of lítillar aðsóknar.

Um Austfirði er það að segja, að fólksfjöldi er að vísu nokkru minni í fjórðungnum, en á það má benda, að vafalaust mundi menntaskóli á Eiðum með heimavistum fá nemendur víðs vegar af landinu, og ekki aðeins úr sveitum, heldur einnig úr kaupstöðum landsins.

Með þessum orðum þykist ég hafa leitt rök að því, að hvorug mótbára mþn. sé vel rökstudd, og skal ég ekki eyða fleiri orðum að því. En hinu er ég mest hissa á, að n. skuli ekki jafnframt því sem hún sá ástæðu til að flíka þeirri vafasömu skoðun sinni, að dýrara verði að hafa fleiri menntaskóla og smærri, víkja einu orði að því, hvað sé uppeldisfræðilega réttari leið og farsællegri, að hafa menntaskóla fleiri og smærri eða færri og stærri. Það er þó meginatriði málsins og furðulegi, að n. skuli hafa gleymt þeirri hlið þess eða leitt hana hjá sér. En um það atriði er sama, hvaða uppeldisfræðingar væru spurðir og hvar sem væri í heiminum, að hin stóru skólabákn hafa hvarvetna gefizt illa sem uppeldisstofnanir og eiga nú formælendur fáa meðal skólamanna.

Einn nm. í hv. menntmn. varpaði fram þeirri spurningu, hvort ekki gæti hugsazt, að af staðsetningu menntaskóla í öllum landsfjórðungum leiddi viðsjárverða örvun til menntaskólanáms. Þetta viðhorf er sjálfsagt að athuga. Nú öðlast allir þeir unglingar rétt til menntaskólanáms, sem ljúka miðskólaprófi. Enginn hefur lagt til að breyta þeim lagaákvæðum hið minnsta. Staðsetning menntaskólanna í öllum landsfjórðungum fjölgar því ekki miðskólaprófsfólki um einn einasta. Aðeins er hugsanlegt, að af því leiði það, að fátækir nemendur, sem þessa prófraun hafa staðizt austanlands eða vestan, þurfi ekki að gjalda fátæktar sinnar eða þess, hvar þeir eru búsettir, og geti notað rétt sinn til framhaldsnáms, ef menntaskólarnir eru í öllum landsfjórðungunum, en yrðu annars að neita sér um það.

Ég skal taka það fram, að ég tel, að strangar námskröfur eigi að gera til þeirra unglinga, sem leggja út á braut langskólanáms. Og fyrir því er vissulega séð í nýju skólalöggjöfinni. Miðskólaprófið er að allra dómi, sem það hafa kynnt sér, langþyngsta prófraun á öllum námsferlinum, að undanteknu háskólaprófi. Og ég tel, að þannig eigi það líka að vera. Það próf standast engir aðrir en þeir, sem gæddir eru mjög góðum námsgáfum eða varið hefur verið miklu fé til að kaupa vit í, með mikilli ítroðslu og aukakennslu. En það er hvergi algengara en einmitt hér í Rvík, og mælir það reyndar sízt með því að staðsetja stærsta menntaskóla landsins hér.

Eins og nú standa sakir, hefur rektor menntaskólans hér verið skipað að taka við öllum þeim, sem lokið hafa miðskólaprófi og um skólavist sækja. Af þessu leiðir það, að það eru miðskólaprófin, sem ráða tölu menntaskólanema á hverjum tíma. Ef menntaskólarnir eru aðeins á Akureyri og í Rvík. eru nemendur bara keyptir þangað og þeir skólar þandir út eftir þörfum landsins alls. Með því móti gætu aðeins nokkrir fátækir unglingar í afskekktum héruðum eða landshlutum útilokazt frá langskólanámi, en þó kæmi það jafnan á skýrslum, að engum hefði verið synjað um skólavist, eins og rektor hefur nú upplýst vegna spurningar, sem til hans var beint um það atriði.

Einnig hefur það verið rætt, hvort örðugleikar á að fá næga kennara til menntaskólanna gætu ekki staðið í vegi fyrir framkvæmd málsins, þó að frv. þetta væri samþykkt. Það er rétt, að ef hinir nýju menntaskólar væru með mjög fáa nemendur, svo að bekksagnir fengjust ekki fullskipaðar, þyrfti fleiri kennara með fleiri skólum. En ef bekksagnir eru fullskipaðar, þarf ekki fleiri kennara til að kenna því fólki, sem miðskólaprófi lýkur, þó að kennslan fari fram í fleiri skólum og smærri. Það þyrfti t. d. nákvæmlega jafnmarga kennara til að kenna 2000 nemendum í einum skóla með þeim nemendafjölda og í 10 skólum, sem hver um sig hefði 200 nemendur. Þetta skilja allir, og þarf ekki að eyða fleiri orðum að því.

Nú skal ég fara að stytta mál mitt. Þó vil ég að lokum minna á það, að bæjarstjórn Ísafjarðar hefur sent Alþ. svo hljóðandi áskorun, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn Ísafjarðar samþykkir að skora á hið háa Alþingi að samþykkja frv. það til l. um menntaskóla, er þeir Hannibal Valdimarsson og Páll Zóphóníasson flytja. Jafnframt samþykkir bæjarstjórnin. að ákveðið verði að reisa menntaskóla á Ísafirði. og er hún þess reiðubúin að leggja skólanum til ókeypis lóð á hentugum stað.“

Ályktun þessi var gerð með samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa úr öllum stjórnmálaflokkum, sem þar eiga sæti.

Svo mikla áherzlu lagði bæjarstjórnin á, að málinu væri fylgt fast eftir, að hún fól tveimur bæjarfulltrúum — einum fyrir hönd meiri hlutans og öðrum frá minni hlutanum — að semja ýtarlegan rökstuðning með áskoruninni. Hefur hv. menntmn. kynnt sér áskorun þessa ásamt grg.

Það sýnir einnig áhuga Ísfirðinga fyrir þessu máli, að ég hef fengið fjölda bréfa, þar á meðal frá ákveðnum pólitískum andstæðingum mínum, þar sem ég er hvattur til að fylgja málinu fast fram og fullvissaður um almennan áhuga í héraði fyrir framgangi þess.

Ég get því fullvissað hv. alþm. um það, að hvort sem brugðið verður fæti fyrir mál þetta nú eða ekki, þá er það víst, að gegn því verður ekki staðið til lengdar. Það er fullsannað, að nemendafjöldi er þegar fyrir hendi — og mun stóraukast, þegar unglingaskólarnir eru alls staðar teknir til starfa samkvæmt nýju skólalöggjöfinni. Það er sannað, að bezt sé séð fyrir jafnréttisaðstöðu íslenzkrar æsku til menntunar með menntaskóla í hverjum landsfjórðungi. Og það er einnig sannanlegt, að uppeldishlið málsins er betur borgið með fleiri skólum og smærri en færri og stærri. Þegar á öll þessi meginatriði er litið, get ég ekki efazt um úrslit málsins í þessari hv. d. og læt því lokið máli mínu í þetta sinn.