02.03.1948
Efri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (2734)

62. mál, menntaskólar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. (HV) var hér með nokkrar ádeilur um það, hvernig afgreiðsla þessa máls hefði gengið. Og þó að ég viti það nú, að hann er því máli svo kunnugur sjálfur, að hann beindi ekki þeim ádeilum til mín, þá mundi það þó geta skilizt svo af þeim, sem ekki væru málinu mjög kunnugir, þar sem ég er form. þeirrar n., sem um þetta mál hefur fjallað, og einnig forseti þessarar hv. d. Ég ætlaði nú, þegar ég ákvað að taka til máls, aðeins að tala um þessa hlið málsins og hvernig málinu hefði þokað áfram og hvaða ástæður lægju til þess, að gefnu tilefni frá hv. 3. landsk. En ég býst við, að ég verði þó að bæta við nokkrum orðum út af ræðu hv. þm. Barð.

Það er alveg rétt, eins og hv. 3. landsk. þm. tók fram, að það leið mjög langur tími frá því, að þessu máli var vísað til menntmn., og þangað til hún skilaði áliti. Hann gerði nú sjálfur grein fyrir því. Þetta var að nokkru leyti því að kenna, að menntmn. bað um umsögn ýmissa aðila, og það stóð á þeim umsögnum, en þó var það ekki hvað sízt því að kenna, hvernig fundir voru sóttir í menntmn., og skýrði hv. 3. landsk. þm. frá því að nokkru. Ég boðaði hvað eftir annað fundi í menntmn. Var það sí og æ, að á þessum fundum mættum við aðeins þrír nm., — þeir af okkur, sem skrifum undir nál. á þskj. 365. En okkur þótti viðurhlutamikið að afgreiða málið án þess svo mikið sem að heyra álit hinna nm., sem þó ekki mættu. Og einu sinni kom það fyrir, þegar ég hafði boðað fund í n. með nægum fyrirvara, að við mættum aðeins tveir nm. á fundi, form. og ritari n., sem er hv. 3. landsk. þm. — Hér í d. kannast ég heldur ekki við að hafa tafið málið. Þegar það var tekið af dagskrá hið fyrra sinn, var alveg komið að fundarlokum og maður var búinn að kveðja sér hljóðs. Það var því sýnilegt, að málinu yrði ekki lokið á þeim fundi, þó að ég hefði atkvgr. um annað mál, sem ekki tók langan tíma, eftir að þetta mál var tekið af dagskrá. Og þannig stóð á, þegar málið var tekið af dagskrá hið síðara sinn, að þá var það eftir beiðni hæstv. fjmrh. fyrir hönd hæstv. utanrrh., sem þá var á leiðinni til landsins, en hann á hér brtt., svo sem kunnugt er, og þótti mér sanngjarnt að verða við þeim tilmælum. — En nú skal málið ekki verða tekið af dagskrá. Því að þótt fundartími til kl. 4 endist e. t. v. ekki til að ljúka því, þá gefst tími til þess í kvöld. — Þarf ég svo ekki að ræða meira um þetta, að því leyti sem ræða hv. 3. landsk. þm. gaf tilefni til.

En þá kem ég að ræðu hv. þm. Barð. Það hefur nú áður borið á góma á máli okkar, að hann hefur fundið að því. að meiri hl. n., sem ég hef átt sæti í. hafi skilað áliti og áliti frá n., en þess hafi ekki verið getið, að það væri meiri hl. n. En ég bara fullyrði það — ég er nú eldri þm. en hv. þm. Barð. — ég bara fullyrði, að þetta er siður og hefur alltaf verið siður, þegar þeir menn, sem á fundum sitja, koma sér saman um einhverja afgreiðslu. Þá kalla þeir sig nefnd, en taka alls ekki fram, að það sé meiri hl. n., því að það er ekki víst, að n. sé neitt klofin í málinu. Þegar við afgreiddum þetta mál í menntmn., vorum við þrír sammála um að mæla með frv. með þeim breyt., sem eru á þskj. 365. og skrifuðum þann veg undir nál. Hv. 2. þm. Árn. (EE) var á fundinum og tók það eitt fram um sína afstöðu, að hann hefði óbundið atkv. um málið, og það var því ómögulegt að telja hann minni hl. n. Þegar hann hafði óbundið atkv. um málið, gat hann alveg eins greitt atkv. með okkar till., en um það vissum við ekkert, hvar hann mundi koma niður. En ég skal játa, að þar sem hann ekki klýfur n., hefði verið réttara, að hann hefði skrifað undir nál. og þá með fyrirvara. Ég veit nú ekki, satt að segja, hvers vegna hann hefur ekki gert það. Á því hef ég enga skýringu fengið. En ég býst við, að það hefði nú mátt bíða nokkuð lengi eftir áliti fimmta nefndarmannsins. Því að ég man nú yfirleitt ekki eftir honum á fundum í menntmn., a. m. k. ekki, þegar þetta mál hefur verið til umr.

Þá var hv. þm. Barð. að tala um það, að þau svör, sem n. hefði fengið frá ýmsum aðilum, hefðu ekki verið birt. En það er nú alltaf álitamál, hvað á að prenta. Það kostar töluvert fyrir ríkissjóð að prenta hvert bréf, sem prentað er. En ég hygg, að hv. 3. landsk. þm. hafi nú gefið hv. þd. allglögga hugmynd um þessi svör, þannig að bæði hv. þm. Barð. og aðrir geti verið ánægðir með það.

Þá var hv. þm. Barð. að tala um, að þetta væri mjög ómerkilegt nál., sem við hefðum gefið út. Það kann vel að vera, að nál. hefði átt að vera ýtarlegra og betur undirbyggð skoðun okkar á málinu í nál., enda þótt það séu nú mörg nál., sem koma fram hér á Alþ., sem jafnvel hv. þm. Barð. skrifar undir. ómerkilegri en þetta. Því að það tíðkast nú mjög, að í nál. stendur aðeins þetta: Nefndin er sammála um að mæla með málinu, — eða eitthvað slíkt. Hér er þó ofurlítið vikið að málinu í okkar nál.

Ég ætlaði nú ekki að tala um efnishlið málsins. En ég get ekki stillt mig um að minnast á það, að mér virðast umr. um þetta mál nú minna ákaflega mikið á umr. um það fyrir mörgum árum, hvort það ætti að vera menntaskóli á Akureyri. Þá var af sumum talið alveg óþarft að koma upp menntaskóla á Akureyri og talið, að menntaskóli í Rvík dygði, þetta mundi verða til þess að fjölga stúdentum í landinu, og stúdentar væru óþarfir, nema mjög takmörkuð tala þeirra o. s. frv. Og meira að segja þm. Akureyrarkaupstaðar var þá mjög framarlega í flokki þeirra, sem litu svo á, að það væri mjög óviðeigandi að hafa menntaskóla annars staðar en í höfuðstaðnum. En hver vildi nú óska þess, að Menntaskólinn á Akureyri hefði ekki verið stofnaður? Ég hygg enginn, tæplega hv. þm. Barð. heldur.

Það má deila um það, hvort stúdentafjöldi í landinu sé of mikill, hæfilegur eða of lítill. Ég held fyrir mitt leyti, að það geri nú engum manni neitt til, þó að hann — verði stúdent, hvaða stöðu sem hann ætlar að leggja fyrir sig síðar í lífinu. Og óska vildi ég þess, að ég væri stúdent. Ég hefði sennilega orðið það, ef heilsuleysi hefði ekki komið til greina, þegar ég var unglingur. Hitt er annað mál, að ég býst við, að það sé töluvert takmarkað, hvað æskilegt sé, að margir æskumenn gangi í háskóla til þess að búa sig þar undir embættispróf. Og álít ég, að það væri mjög til athugunar, hvort ekki ætti að vera lás, — ekki óopnanlegur lás, en einhver lás fyrir dyrum háskólans fremur en fyrir dyrum menntaskólanna. En svo er það alveg óvíst, hvort stúdentar yrðu fleiri, — sennilega þó eitthvað fleiri, — ef þetta frv. væri samþ. og ákvæði þess framkvæmd um fjölgun þessara skóla. En eins og hv. 3. landsk. veik að, þá er líka mikill vafi á því, að þær framkvæmdir yrðu dýrari en það, sem kom svo greinilega fram í ræðu hv. 4. landsk. og vitað er, að er stefna Reykvíkinga í þessum málum og margra annarra, þ. e. að koma upp stóru menntaskólabákni hér í Rvík.

Svo fór hv. þm. Barð. að tala um Framsfl. og fjármálin og mig sérstaklega í sambandi við það. Það er rétt, að við framsóknarmenn höfum deilt á fyrrv. ríkisstj. fyrir ógætni í fjármálum og fyrir það m. a. að ákveða fjárframlög til ýmissa hluta, sem nú væri ekki hægt að efna vegna féleysis. En eftir till. okkar nm. í menntmn., þá víkur hér allt öðruvísi við. Það stendur skýrt í l., að ríkið á að útvega t. d. Stofnlánasjóði ákveðna fjárupphæð, og ríkið á að útvega Ræktunarsjóði ákveðna fjárupphæð. En samkvæmt till. menntmn. í þessu máli er hér ekkert annað lagt til en að það sé takmarkið að koma upp þessum menntaskólum, og að 1. um það komi til framkvæmda jafnóðum og fé er veitt til þess á fjárl.

Hv. þm. Barð. var að tala eitthvað um hrossakaup í þessu sambandi og um það, að mér skildist. að flm. frv. mundu nú hafa einhver hrossakaup um það að fá fé í þessa menntaskóla, jafnvel þó að ríkissjóður væri ekki fær um það. Ég veit nú um það álit, sem þessi hv. þm. hefur á Framsfl. Og þó að það beri minna nú á reiðiköstum hans við Framsfl. en áður var, þá er grunnt á því. En við hvern ætti Framsfl. að hafa hrossakaup í þessu máli? Við hvern á hann yfirleitt í því efni að hafa hrossakaup, eins og þingið nú er skipað? Það skyldi þó aldrei vera hv. þm. Barð. og Sjálfstfl., sem hann ætti að hafa hrossakaup við? Og ég held, að þá væri ekki annað fyrir þennan hv. flokk en að neita hrossakaupunum, ef hann telur ekki fjárhag ríkisins þess megnugan að koma þessu í kring. Ég lagði áherzlu á það, að þessi brtt. kæmi inn í frv. Og með því álít ég, að það sé engin sanngirni í því að bera okkur nm. á brýn glæframennsku í fjármálunum. Því að Alþ. á að vera sú stofnun, að það leggi ekki fram fé til svona framkvæmda nema það sjái sér það fært fjárhagsins vegna. En þó að ekki væri lagt fram fé svo mikið í næstu framtíð, þá eru þessi l., ef frv. yrði samþ., ekki þýðingarlaus fyrir því. Þetta er þá takmark, sem þarna er sett fram og ríkið ætlar að ná. Og auk þess hafa lögin þá þýðingu, að þetta á að sitja fyrir því að sjálfsögðu, að farið verði að byggja tvo menntaskóla í Rvík. Það er líka stefnuyfirlýsing, að því er þetta snertir, (PZ: Það eru nú tveir menntaskólar hér). Það eru ekki tveir menntaskólar í Rvík, heldur tveir skólar, sem útskrifa stúdenta.