02.03.1948
Efri deild: 72. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í C-deild Alþingistíðinda. (2737)

62. mál, menntaskólar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil út af ræðu hv. 1. þm. Eyf. taka það fram, að orð mín átti ekki að skilja sem ásökun á n. Ég benti aðeins á það, að við umr. kom skýrt í ljós, að einn nm. hafði sérstöðu í málinu og var alveg á móti nál., og vil ég leiðrétta það, ef hæstv. forseti hefur skilið mig á þann veg, að ég væri að óvirða n. En því verður ekki neitað, að það kom í ljós við umr., að þetta nál. er ekki merkilegt plagg í málinu og þannig úr garði gert, að þm. hefðu hlotið að fá ranga hugmynd um málið, ef þeir hefðu aðeins lesið nál., en ekki hlustað á klukkustundarræðu eins nm., sem var þó ekki frsm., en upplýsti þó fjölmörg atriði sem nál. kemur ekkert inn á.

Hæstv. forseti þarf ekki að vera að tala um hrossakaup í þessu sambandi, og ég lýsi yfir því, að hann getur a. m. k. ekki gert hrossakaup við mig. Hann sagði, að afstaða sín til málsins væri mörkuð af því, að hann væri á móti menntaskólabákni í Rvík. En það hefði þá átt að koma skýrt fram í gögnum, að hann væri því mótfallinn. Því að þótt hann hafi samþ. brtt. menntmn. á þskj. 365, þá sé ég ekki, að það sé nein yfirlýsing móti því, að ekki verði reistir fleiri menntaskólar í Rvík. Brtt. hnígur fyrst og fremst að því, að það eigi að koma þrír nýir skólar í landinu og að þeir rísi annars staðar áður en fjölgað er slíkum stofnunum í Rvík.

Þá fullyrðir hann, að kostnaður verði ekki meiri, þótt skólum verði fjölgað. Því til sönnunar liggja hér engin gögn fyrir, og reynslan sýnir hið gagnstæða. Því fleiri skólar, því meiri kostnaður. Skólinn á Eiðum hlýtur t. d. að kosta miklu meira fé með heimavist en heimavistarlaus skóli eins og á Ísafirði. En á Eiðum varð vitanlega ekki komizt hjá slíkum kostnaði og jafnvel ekki hjá því að reisa kennarabústaði eða nýbýli fyrir kennara.

Annars hef ég haft till. í þessu máli, sem hv. menntmn. hefur ekki viljað sinna.

Hv. þm. (BSt) sagði, að það hefði verið dregið í efa, að fleiri menntaskóla þyrfti á Íslandi, og beindi því til mín. En hér er um misskilning að ræða. Ég sagði aðeins, að ég væri ekki bær að dæma um það, og ég efast um, að nokkur sé raunverulega fær um að segja nákvæmlega eða dæma um það. Hitt er ég hv. þm. sammála um, að miðað við menntunarkröfur nútímans og menntun almennings, þá sé stúdentspróf hlutfallslega ekki meira en gagnfræðapróf fyrir 40 til 50 árum, en hvorugur okkar er bær um að dæma um það, hvort fjölga þarf menntaskólunum.

Hv. þm. sagði, að fólk flyttist til Rvíkur til að geta komið börnum sínum þar til mennta, en mér er þá spurn: Yrði það ekki alveg sama útkoman með Ísafjörð, ef menntaskóli yrði reistur þar? Ef það er hætta á, að fólk flytjist til Rvíkur til að koma börnum sínum þar í menntaskóla, yrði um sömu hættu að ræða á Ísafirði, ef þar væri reistur menntaskóli að menn flyttust í kaupstaðinn, nema því aðeins að hv. þm. ætlist til þess, að jafnframt verði reistar heimavistir á Ísafirði, og ef hann ætlast til þess, þá eru fallin burt rökin fyrir því, að nauðsynlegt sé að hafa menntaskóla í hverjum landsfjórðungi. En séu ekki byggðar heimavistir, sé ég ekki annað en það sé nákvæmlega sama hættan á því, að fólk flytji að skólanum með börn sín.

Ég bað hv. flm. og menntmn. að athuga, hvort ekki gæti orðið samkomulag um, í stað þess að ákveða tölu menntaskólanna í lögum, að efla svo héraðsskólana, að þeir ættu þess kost að auka við sig bekkjum. 3. og 4. bekk menntaskóla, og svo áframhaldandi. Þess sér hvergi stað í þessu frv., en ég hygg, að það verði samt þróun þessara mála, að þeir héraðsskólarnir, sem mest eru sóttir, eins og t. d. Laugarvatn, þróist smátt og smátt upp í að verða menntaskólar. Þar er nú framhaldsdeild í vetur, sem samsvarar 3. bekk. og taka nemendur úr henni próf upp í fjórða bekk menntaskólans í vor. Á þennan hátt, sem ég álít réttan, geta unglingarnir dvalizt tveimur til þremur árum lengur við nám heima í héraði, og svo smáþróast og lengist skólahaldið, unz kominn er fullgildur menntaskóli. Það er vitanlegt, að það veltur mest á mönnunum, sem stjórna þessum skólum. sbr. Möðruvallaskóla og Jón Hjaltalín og Stefán Stefánsson skólameistara og Sigurð skólameistara, alveg án tillits til þess, hvar skólarnir eru staðsettir. Og það er eins með skólann á Núpi í Dýrafirði. Það hefði enginn miðlungsmaður komið upp þeim skóla til að byrja með, um það er varla ágreiningur. Ég tel þá stefnu, sem ég hef lýst, vera happasælli en að leggja allt kapp á að ákveða, að menntaskólar skuli vera 5 í landinu.

Ég treysti mér ekki til að vera með þessu frv. eins og það er, og mun ég því greiða atkvæði móti því.