20.12.1947
Efri deild: 43. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég harma það, að hv. fjhn. hefur ekki séð sér fært að taka upp þær brtt., sem teknar voru aftur til 3. umr. af mér á þskj. 229. Ég skal þó ekkert um það deila, en ég mun þó hins vegar óska þess, að þær verði bornar undir atkv. í sambandi við 14. gr. frv.

Ég vil benda á, að ég veit ekki, hvort hv. n. hefur gert sér það nægilega ljóst, að samkvæmt orðalagi brtt. n., að maður stundi atvinnu fjarri heimili sínu, þá getur þarna verið um allstóran hóp manna að ræða, sem getur þannig notið þessara hlunninda og þannig dregið undan skatti. Það mun ekki hafa verið meiningin í fyrstu að hafa þetta svo og ekki gert ráð fyrir því, þegar um þetta var talað við mig persónulega, heldur aðeins að þetta þyrfti ekki að reiknast til tekna hjá þeim sjómönnum, sem vinna fjarri heimilum sínum.

Ég sé mér ekki fært að greiða atkv. með þessari breytingu, nema því sé lýst yfir, að þetta verði ekki notað nema viðkomandi sjómönnum. (PL: Það er hér um bil annar hver maður í landinu, sem þessara hlunninda getur notið.)

Þá vil ég leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. frá mér ásamt hv. 7. landsk. þm. og hv. þm. N-Þ. við 27. gr. frv. Greinin orðist svo: „Meðan ríkisábyrgð vegna bátaútvegsins samkv. 17.–20. gr. er í gildi, mega vextir af rekstrarlánum útgerðarinnar og þeirra fyrirtækja, sem vinna úr sjávarafurðum til útflutnings, ekki vera hærri en 4%, enda fari lánin ekki yfir 85% af ábyrgðarverðinu.“ Ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa brtt. Ég vil ekki lengja þessar umr. frekar, en óska þess, að um báðar þessar brtt. mínar verði haft nafnakall við atkvgr.