08.03.1948
Efri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í C-deild Alþingistíðinda. (2745)

62. mál, menntaskólar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég tók aftur við 2. umr., vegna þess að ég gat ekki verið viðstaddur umr. nema að litlu leyti, brtt., sem ég flutti strax við 1. umr. málsins. Síðan var frv. breytt við 2. umr., og hef ég reynt að laga brtt. svo í hendi, þannig að hún falli inn í frv. eins og það er nú og meiri hl. d. vildi á það fallast við 2. umr. Vera kann þó, að meiri hl. hv. d. líki ekki til hlítar aðalbreyt. Og eins og varabrtt. er, sýnist mér hún vera alveg fullnægjandi fyrir þá hv. þm., sem eru mér sammála um, að ákveða beri stað menntaskólanum í Rvík samhliða því, sem kveðið er á um, hve margir menntaskólarnir skuli vera í landinu. Ég held þess vegna, að brtt. mínar, sérstaklega varatill., geti ekki á nokkurn hátt orðið til þess að spilla fyrir þessu máli, heldur mundu miklu frekar ýta undir framgang þess, svo að þeir, sem vilji á annað borð vera því hlynntir, að menntaskólanum verði fenginn ákveðinn staður hér í Rvík, ættu að leggja lið sitt til þess, að brtt. mín verði samþ. Við 1. umr. gerði ég rækilega grein fyrir ástæðunum, sem eru til þess, að ég flutti þá brtt., og sé ég ekki ástæðu til þess að ítreka það.

Ég sá þess getið í blöðum, að hv. 4. landsk. þm. hefði mæli á móti brtt. minni og kemur mér það að vísu ekki á óvart, eins og hann hefur komið óhöndulega við sögu byggingarmála menntaskólans hér í Rvík. Því að það er óhætt að segja, að enginn maður ber frekar ábyrgð á því en hann, að þeir miklu veltutímar, sem undanfarið hafa gengið, hafa svo liðið, að ekkert hefur verið gert til þess að bæta úr húsnæðisskorti þessa menntaskóla. Og er mjög átakanlegt, hversu illa til hefur tekizt í því efni um menntaskólann hér í Rvík, gagnstætt því, sem átt hefur sér stað um menntaskólann á Akureyri, en það hve vel gekk um þann síðar nefnda skóla, var ekki fyrir forustu þáv. menntmrh., heldur skólameistara þess skóla, en stórfé hefur verið varið til þess á síðustu árum að bæta húsakost menntaskólans á Akureyri. Ef svipuð vinnubrögð hefðu verið viðhöfð hér syðra og farið eins að og eitthvað ákveðið hefði fyrir mönnum vakað og eitthvert viðráðanlegt takmark sett, hefðu áreiðanlega getað átt sér stað stórkostlegar umbætur í sambandi við húsakost menntaskólans hér syðra, ekki síður en hið nyrðra hafa orðið í þessum málum — En sérstaklega hlýtur það að verða þungur áfellisdómur, sem kveðinn verður yfir fyrrv. hæstv. menntmrh.. hv. 4. landsk þm., fyrir það, að í hans menntmrh.-tíð var látið líða hjá hið einstakasta tækifæri, sem nokkurn tíma hefur komið til þess að stækka lóð menntaskólans hér í Rvík, en það var þegar húsbruninn varð við Amtmannsstíg haustið 1946. Ef þá hefðu verið af framsýni látnar hendur standa fram úr ermum, hefði áreiðanlega verið hægt að gera ráðstafanir, sem stórlega hefðu bætt húsnæðismál menntaskólans. Því miður var það vegna þess, að þáv. form. menntamálastjórnarinnar í landinu hafði ekki skilning á þessu máli, að þetta einstaka tækifæri var látið ganga sér úr greipum. Þó tel ég síður en svo ástæðu til að örvænta um, að smám saman megi fá ærnar lóðir í námunda við núverandi menntaskólahús hér í Rvík, sem að sæmilegu gagni kæmu fyrir þennan skóla. Og það er vitað, að meginhluti gamalla nemenda skólana og flestir þeir, sem hugsa um skólann og hús hans sem holla uppeldisstöð og dýrmætan menningararf þjóðarinnar, leggja á það mjög ríka áherzlu, að skólinn verði hafður áfram á þeim sama stað og hann hefur verið og þar verði reistar fyrir hann nauðsynlegar byggingar. Og þær hagkvæmniástæður, sem til greina koma, hníga mjög eindregið í sömu átt og grg. þeirra Einars Magnússonar og félaga hans, sem um þetta rita, glögglega sýndu, svo að ekki verður lengur um deilt.

Ég held þess vegna, að það væri ákaflega mikilsvert, ef menn vildu af alvöru stuðla að því, að bætt verði úr húsnæðisvandamálum menntaskólans hér í Rvík, til þess að hægt verði að bæta aðstöðu við skólann fyrir nemendur til náms, og að nú verði í þessu augnamiði tekin ákvörðun um það, hvar skólinn eigi að standa. Ég er hræddur um, að þangað til sú ákvörðun verður tekin og meðan menn eru að hoppa holt af holti, eins og gert var af fullkomnu ráðleysi í tíð fyrrv. menntmrh. í sambandi við það, hvar þessi skóli eigi að standa, þá verði ákaflega lítið framkvæmt í þessu og þá haldi menntaskólinn í Rvík áfram að dragast aftur úr. — Það er skiljanlegt, að þessi hv. þm., 4. landsk., vegna skoðana sinna á menningararfi þjóðarinnar, sé því andstæður, að þjóðfundarhúsið gamla haldi áfram að vera aðalskóli íslenzkra menntamanna. En sem betur fer held ég nú, að sú stefna njóti mjög minnkandi fylgis meðal hv. þm., að nota beri ekki þá miklu menningararfleifð og þau hollu uppeldisáhrif, sem eru einmitt fólgin í því að láta þennan skóla halda áfram á þessum sama stað.

Ef brtt. mín skyldi ekki ná samþykki hér í sambandi við þetta mál, er ég sannfærður um, að það muni vera af því, að menn vilja ekki láta blanda efni hennar inn í frv. um tölu menntaskólanna. Og þá verður að taka það mál, að ákvarða þetta um menntaskólann í Rvík, upp á öðrum vettvangi. En það mundi greiða fyrir þessu frv., ef hv. þm. vildu leysa þetta mál fyrir okkur Reykvíkinga í sömu andrá og ákvörðunin um skólafjöldann væri tekin.