08.03.1948
Efri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (2750)

62. mál, menntaskólar

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég sagði nú við 2. umr. þessa máls, að mér fyndist nú ekki taka því að vera að ræða mikið um þessa brtt. hæstv. ráðh., og gerði það heldur ekki. En einhvers staðar hefur hann samt sem áður séð, að ég mælti á móti henni, og það er rétt með farið. En mér fannst þetta svo fjarri öllu lagi, sem í brtt. stóð að mér fannst ekki rétt að ræða mikið um það.

Annars virðist mér þessi hæstv. ráðh. vera farinn að líkjast ískyggilega einum fyrrv. ráðh., núv. hv. þm. S-Þ. (JJ). Það er ákaflega algengt, að hann fær einhverjar flugur í höfuðið, þannig að við hvert tækifæri, mögulegt eða ómögulegt, ber hann fram eitthvert hégómamál, sem honum er sérstaklega umhugað um, sérstaklega ef hann hefur lent í hörðum deilum um það eða svipað mál við menn, sem honum er illa við. Þá hefur hann fengið einhverja meinloku á heilann, sem þarf að fá útrás. Það er nákvæmlega það sama, sem gerist hjá hæstv. dómsmrh. Við öll tækifæri, möguleg og ómöguleg, reynir hann að koma þessu menntaskólamáli að, þessari meinloku sinni, að menntaskólinn í Rvík þurfi að standa á einhverri ákveðinni lóð, og þá er alveg sama, hvort þetta á við eða ekki. Nú, þegar menn ganga með svona andlegar meinlokur, þá er náttúrlega ósköp leiðinlegt að standa í því að rökræða við þá, enda var það ekki meining mín. En náttúrlega nær ekki nokkurri átt, að setja eigi inn í l. um menntaskóla ákvæði um það, á hvaða lóð menntaskólinn í Rvík eigi að standa, enda var sýnilegt, að ein ástæðan og kannske aðalástæðan til þess, að hæstv. dómsmrh. hóf máls við þessa umr., var að fá tækifæri til þess að þjóna skapi sínu vegna þessa máls.

Nú er það svo, að hæstv. ráðh. sagði, að mér hefði á sínum tíma farizt mjög óhöndulega í þessu máli. Nú, en til þess að girða fyrir það, að ekkert óheppilegt verði aðhafzt í þessu efni, þá þarf ekki nú að fara að setja slíkt ákvæði inn í l., því að nú er komin ný ríkisstj. Og maður skyldi ætla, að þessi nýja stjórn, þar sem hæstv. dómsmrh. er einn aðalmaður og andlegur leiðtogi, sæi um, að ekki væri hætta á því, að svo óhöndulega færi að hún gæti ekki ráðið fram úr því, á hvaða lóð skuli reistur menntaskóli í Rvík. Og því furðulegra er, að hæstv. ráðh. skuli koma með slíka till.

Annars, úr því að ég stóð upp, þá er rétt að geta þess, að ástæðan til þess að ekki er enn hafin bygging á nýju menntaskólahúsi í Rvík, er eingöngu framkoma þessa hæstv. ráðh. Það er hans sök eingöngu. Undir hans forustu í bæjarstjórn var það tafið, að samþykki fengist fyrir að byggja menntaskólahús á þeim stað, sem sú n., sem hafði með höndum undirbúning að byggingu menntaskólahúss í Rvík. hafði einróma lagt til. En í þessari n. var rektor menntaskólans og skipulagsstjóri og Sigfús Sigurhjartarson. Þessi n. lagði einróma til, að skólinn yrði byggður á ákveðnum stað. En það var andstaða á móti því frá hæstv. dómsmrh., sem þá var borgarstjórinn í Rvík. Og þegar það loks fékkst samt sem áður samþ., komu nýjar hindranir í veginn. Það var sem sé ákveðið af samtökum útgerðarmanna, að byggð yrði mikil stöð fyrir fiskiðnaðinn og hafður var augastaður til þess á þeim stað, sem ætlaður hafði verið menntaskólanum, og var þess sérstaklega óskað, að menntaskólinn rýmdi fyrir þessum fyrirhuguðu framkvæmdum útgerðarmanna. Nú vildi ég með engu móti standa í vegi fyrir því, ef það væri svo sérstaklega nauðsynlegt, að einmitt þessi staður yrði valinn fyrir þetta fyrirtæki, og var óskað eftir því í samráði við n., sem hafði undirbúning málsins með höndum. Enda varð þarna alveg samkomulag um, að önnur lóð yrði afhent fyrir skólann, sem undirbúningsnefnd menntaskólahúsbyggingarinnar einnig taldi mjög hagkvæma, eftir því sem kostur var um lóðir í Rvík, og var sammála um að mæla með henni. En þessi lóð fékkst ekki, hvernig sem ítrekuð var beiðni um hana, fyrir skólann. Það var ekki nokkur kostur á að fá samþykki fyrir þessari lóð. Það er þannig eingöngu af þessum ástæðum, að það dróst, að hafin yrði bygging menntaskólahúss í Rvík. M. ö. o., bæjarstjórnin í Rvík, og þá fyrst og fremst undir forustu hæstv. núv. dómsmrh., hefur beinlínis komið í veg fyrir, að hafin yrði bygging nýs menntaskólahúss í Rvík. Það lá þarna á bak við, að núv. hæstv. dómsmrh., hafði bitið svona óskaplega fast í sig, að menntaskólinn yrði hafður á þessari sérstöku lóð, sem hann nú er á. Og þetta er hans kappsmál fyrst og fremst í þessu sambandi. En vegna þess, að það voru ýmsir fleiri, sem höfðu áhuga fyrir því, að menntaskólinn væri áfram á þessum sama stað, gerði ég ráðstafanir til þess, að þetta væri rannsakað til hlítar. Það hafði verið fyrst athugað um þennan stað bæði af húsameistara ríkisins og sérfræðingum, sem einróma lögðu á móti því að byggja á þessum stað vegna ýmissa örðugleika. En samt sem áður, til þess að ganga úr skugga um þetta, óskaði ég eftir því, að borgarstjórinn í Rvík, sem þá var núv. hæstv. dómsmrh., skipaði mann til þess að gera endanlegar athuganir um þetta í samvinnu við skipulagsstjóra ríkisins, Hörð Bjarnason. Hann gerði það og tilnefndi Einar Sveinsson. Þeir skiluðu svo áliti, og þeirra álít er, að ef menntaskólinn yrði byggður á þessum stað, þá kæmi vart annað til mála en að byggja hann annars staðar en á þeim stað, sem hann er nú. Ég geri ráð fyrir, að allir séu sammála um það, að ef sú leið yrði farin, hvað sem líði þeim kostnaði, sem það hefði í för með sér, þá hlyti það að tefja byggingu menntaskóla í Rvík um alllangan tíma. Hins vegar er bygging nýs menntaskóla í Rvík aðkallandi mál, sem þolir ekki neina bið.