08.03.1948
Efri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í C-deild Alþingistíðinda. (2754)

62. mál, menntaskólar

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég þarf ekki að svara þessu mikið. Það, sem ég sagði áðan um þessa undarlegu meinloku, sem þessi till. virðist vera sprottin af, það sannaði hæstv. ráðh. með sinni ræðu. Hann sagði, að það þyrfti að gæta varúðar við till. frá slíkum manni eins og mér, hvaða mál sem það snerti, jafnvel þótt ekki sé um annað að ræða en lóðir undir hús, og sýnir þetta, að þetta er ekki heilbrigt. Hann heldur, að hér sé eitthvað voðalegt á ferðinni, sem sé hættulegt fyrir þjóðfélagið. Sennilega held ég, að þarflaust sé að ræða þessa hluti nánar, en ég vil víkja að hinu, að hann hefur komið í veg fyrir, að hægt hafi verið að byggja menntaskóla í Reykjavík, og þýðir ekki neitt fyrir hæstv. ráðh. að koma sér undan því. Það er staðreynd. sem honum þýðir ekki að bera á móti. Mér datt ekki í hug annað en að hann játaði þetta sem forseti fyrir bæjarstjórn í þessu máli. Og ef svo er, að hann hefur forustuna í þessu máli, þá er það honum að kenna, því að bæjarstjórnin á sökina á því, að húsið er svona. Í raun og veru játaði hæstv. ráðh. þetta í sinni ræðu. Hann skýrði frá því, að hann hafi að vísu ekki reynt að koma í veg fyrir það, að skólinn yrði byggður í Laugarnesi, eins og n. sem fjallaði um undirbúning málsins, lagði til. Hæstv. ráðh. skýrir frá því, að hann hafi ekki viljað hindra það að koma upp þessu mannvirki, og þá óskað eftir öðrum stað, en sá staður var þar sem golfskálinn er, en sá staður fékkst ekki. Það hefði ekki á nokkurn hátt þurft að standa fyrir þessu, þó að golfskálinn stæði þarna. Það sem á stóð, var samþykki bæjarráðs, og það fékkst ekki, hvernig sem eftir því var leitað. Það stóð ekki á því að komast að samkomulagi við þá, sem höfðu þetta land á leigu, heldur á samþykki bæjarráðs. Þannig var útkoman sú, að þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir var ekki hægt að fá nokkra lóð hér í Reykjavík vegna bæjarstj. Hún hindraði það, að lóð væri hægt að fá, en benti stöðugt á að byggja á sama stað, sem allir sjá, að ekki er annað en að fresta málinu til mjög langs tíma eða að hindra það, að byggt yrði hér skólahús í náinni framtíð. Þetta mál heyrir undir hæstv. menntmrh., en hæstv. ráðh. ætlar með þessu móti að láta löggjafarvaldið taka framfyrir hendurnar á hæstv. menntmrh. og stj., af því að hann treystir honum ekki til að ráða fram úr þessu máli. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar, að eins og ástandið er, þá sé nægilegt og aðkallandi að byggja eitt skólahús í Reykjavík fyrir 500 nemendur. En ef hafa á tvö skólahús í Reykjavík, þá þarf sannarlega að byggja tvö ný skólahús, vegna þess að gamla skólahúsið er ófært. Það er t. d. ekki boðlegt að hafa þar skóla, sérstaklega fyrir stærðfræðideild og náttúrufræðikennslu, sem nauðsynlegt er að hafa í menntaskóla, sem er sómasamlega úr garði gerður. Skólahúsið er í alla staði ófullkomið til að hafa þarna kennslu. Sannleikurinn er sá, að ég held, að það sé engin tilviljun, að óeðlilega mikið er um sjúkdóma í skólanum, t. d. berklaveiki.

Ég ætla ekki að fara að ræða þetta ýtarlega, en ef á að fara inn á það, þá er hægt að leiða rök að því, að það er aðkallandi að byggja nýtt menntaskólahús í Reykjavík og hætt að kenna í þessu húsi. Það er erfitt að koma því fyrir. Ég er sammála þeirri hugmynd, sem fram hefur komið um að hafa tvo skóla í Rvík með stærðfræði- og máladeild, en óheppilegt væri að byggja tvö hús, sem stæðu langt hvort frá öðru.

Ég þarf ekki að segja miklu meira um frv. þetta, hvaða skoðun sem menn kunna annars að hafa á þessu. Þetta er mál, sem menn verða að gera sér fulla grein fyrir, og hvaða skoðun sem menn kunna annars að hafa á þessu, ættu þm. þó að geta verið sammála um, að það er óviðeigandi að setja í l., hvar menntaskólahús eigi að standa: Það er alveg fráleitt. og það kemur ekki til mála að samþykkja slíka brtt.